Færsluflokkur: Blogg
4.11.2009 | 20:32
Mýtur
Þetta er hluti undirsíðu af Loftslag.is.
Ýmsar mýtur eru í gangi varðandi ástæður loftslagsbreytinga og hvort loftslagsbreytingar eru yfir höfuð raunverulegar. Auðvitað er hollt að efast, en það getur verið leiðigjarnt til lengdar að hrekja sömu mýturnar, mýtur sem litlar sem engar vísindalegar staðreyndir eru fyrir. Því ákváðum við að taka saman lífseigustu mýturnar og skrifa um þær.
Fyrst nokkrar sívinsælar mýtur í umræðunni hér á Íslandi
Mýtur sem notaðar eru hér á Íslandi eru að vísu svipaðar og í öðrum löndum, en þessar heyrast mikið.
Hlýnunin nú er af völdum Sólarinnar
Það er að kólna en ekki hlýna
Aðrar gróðurhúsalofttegundir, t.d. vatnsgufa eru mun áhrifameiri til hlýnunar
Vísindamenn eru ekki sammála um að hlýnunin sé af mannavöldum
Vísindamenn spáðu ísöld á áttunda áratugnum því hafa þeir rangt fyrir sér nú
Aukningin í CO2 í andrúmsloftinu er náttúruleg (eldvirkni eða sjórinn)
Mýtan um trúarbrögð í loftslagsvísindum
Það var hlýrra á miðöldum
Hokkíkylfan er röng
Blogg | Breytt 5.11.2009 kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
4.11.2009 | 09:13
Mest lesið

En hvað hefur verið vinsælast á þessum fyrstu vikum, kíkjum nánar á það:
- Er jörðin að hlýna? - Blogg þar sem reynt er að svara þessari spurningu - þessi færsla hefur jafnframt fengið flestar athugasemdir.
- Vegur niðursveifla í virkni sólar upp á móti hlýnun jarðar af mannavöldum - Frétt, þar sem sagt er frá nýlegri grein sem birtist í Geophysical Research Letters sem m.a. segir, að frá árinu 2002-2008 hafi minni útgeislun í sólinni haft áhrif til kólnunar á móti hlýnun jarðar af mannavöldum.
- Meðalsjávarhiti í ágúst sá hæsti fyrir mánuðinn síðan mælingar hófust - Frétt, þar sem farið er yfir helstu hitatölur ágústmánaðar út frá gögnum NOAA.
- Mikil bráðnun Grænlandsjökuls fyrir 6000-9000 árum síðan - Frétt um nýlega grein í Nature þar sem bráðnun Grænlandsjökuls á tímabilinu er skoðuð.
- Færri Bandaríkjamenn telja traustar sannanir fyrir hnattrænni hlýnun - Nýleg könnun í Bandaríkjunum sýnir fram á að færri en áður telja traustar sannanir fyrir hnattrænni hlýnun.
- Þynning jökla á Grænlandi og Suðurskautinu - Umfangsmikil rannsókn á jöklum Suðurskautsins og Grænlands sýnir að jökulþynning er hafin.
- Um gróðurhúsaáhrif og afleiðingar þeirra - Fyrsti gestapistillinn, eftir Halldór Björnsson sérfræðing á Veðurstofunni.
- Fuglar og loftslagsbreytingar - Gestapistill eftir Tómas Grétar Gunnarsson.
- Bandarísk auglýsing vekur furðu - Myndband.
- Opnist allar gáttir - Blogg Höskuldar sem birtist þann 19. september við opnun síðunnar.
[Vinsamlega skoðið síðuna, Loftslag.is]
Blogg | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2009 | 22:44
Er jörðin að kólna? - Í tilefni fréttar á Stöð 2 og Visir.is
Föstudaginn 20. október birtist frétt á Stöð 2 og á Visir.is, undir yfirskriftinni "Jörðin er að kólna". Okkur hér á ritstjórninni þótti þetta frekar undarleg frétt, þannig að við báðum um frekari upplýsingar frá fréttamanninum sem gerði fréttina. Við erum honum þakklátir fyrir, að hann var okkur innan handar og gaf okkur tengil á fréttina sem hann hafði unnið sína frétt eftir. En áður en við víkjum að því, þá viljum við koma betur inn á innihald fréttarinnar á Vísi og Stöð 2.
Fyrst og fremst þá virðist vera sem umræða um kólnun Jarðar sé byggð á mælingum sem ná yfir of stuttan tíma til að hægt sé að tala um kólnun. Það eru og verða alltaf sveiflur í hitastigi og þar af leiðandi er ekki marktækt að kíkja á hitastig frá t.d. 2005 og segja að leitni hitastigs sé að lækkandi. Við fjölluðum um þetta á Loftslag.is fyrir ekki svo löngu síðan, í frétt um að tölfræðilegar upplýsingar túlkaðar af tölfræðingum benda til að jörðin sé að hlýna. Vísindamenn hafa bent á að tímabundnar sveiflur í veðurfari til nokkurra ára séu ekki mælikvarði á sveiflur í loftslagi. Sjá t.d. mýtuna "Það er að kólna en ekki hlýna".
Í fréttinni er talað um að "Vísindamenn sem trúa því ekki að jörðin sé að hlýna af mannavöldum benda á þessar tölur máli sínu til stuðnings." Ekki er bent á tölur í fréttinni, þannig að erfitt er að sjá hvaða tímabil er verið að tala um. Fyrir utan fáa vísindamenn sem eru sumir hverjir sérfræðingar í öðru en loftslagsfræðum, þá er, samkvæmt könnun sem gerð var meðal vísindamanna, stór hluti af sérfræðingum í loftslagsmálum sammála um að mannlegar athafnir sé stór þáttur í að breyta hnattrænum meðalhita jarðar.
[Sjá enn nánari umfjöllun um þessa frétt á Loftslag.is]
Blogg | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
31.10.2009 | 00:00
Áhrif loftslagsbreytinga í Afríku
Samkvæmt skýrslu Prófessors Sir Gordon Conway, frá Imperial Háskólanum í London, þá er, þrátt fyrir að margt nýtt hafi komið fram varðandi loftslagsbreytingar á síðustu árum, margt sem við ekki vitum um loftslagsbreytingar í Afríku. Loftslagið í Afríku virðist stjórnast af þremur mikilvægum þáttum: trópískum varmaflutning (e. tropical convection), breytingum í monsúnkerfinu og El Nino í Kyrrahafinu. Fyrstu tveir þættirnir eru staðbundnir þættir sem hafa áhrif á regn og hitastig á svæðinu. Sá síðasti er fjarlægari, en hefur mikil áhrif á úrkomu hvers árs og hitastigsmunstur í Afríku. Þrátt fyrir mikilvægi hvers þáttar, þá skiljum við ekki enn hvernig samspil þeirra er og hvernig þeir hafa áhrif í samspili með loftslagsbreytingum. Eitt ætti að vera ljóst að hraðar breytingar í hnattrænu hitastigi getur haft mikil áhrif á útkomuna, varðandi t.d. hærri sjávarstöðu, hærra hitastig og öðrum m.a. veðurfarslegum þáttum sem geta haft áhrif þar á. En útkoman er ólík eftir svæðum og er það m.a. skoðað nánar í skýrslunni.
[Nánari umfjöllun á Loftslag.is]
![]() |
ESB til aðstoðar þróunarlöndum gegn loftslagsbreytingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Blogg | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.10.2009 | 09:22
Mögulegar niðurstöður af loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn.
Hvaða mögulegu niðurstöður eru af ráðstefnunni í Kaupmannahöfn í desember?
Eftirfarandi sex niðurstöður eru taldar líklegar, samkvæmt vangaveltum Björn Stigson (frá World Business Council for Sustainable Development).
- "Raunverulegur samningur": Bandaríkjamenn og Kínverjar munu veita drifkraftinn fyrir nýtt, metnaðargjarnt og alhliða samkomulag.
- Viðskipti eins og venjulega: Allmörg lönd munu vilja fylgja núverandi stefnu sinni.
- Takmarkaður samningur: Þar sem t.d. G8 löndin taka eigin stefnu fyrir utan ramma UNFCCC.
- Framlenging af núverandi samning, þ.e. Kyoto samkomulaginu.
- Ráðstefnan í Kaupmannahöfn "framlengist" fram á árið 2010.
- "Sýndarmennska": Miklar yfirlýsingar um vilja, en engin raunverulegur samningur.
[Meira á um COP15 ráðstefnuna á heimasíðu Loftslag.is]
![]() |
ESB-leiðtogar ná ekki saman um loftslagsmálin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Blogg | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2009 | 12:10
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn
Á Loftslag.is leitumst við, við að svara ýmsu um ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmál í Kaupmannahöfn. Þar komum við inn á ýmislegt m.a. um fjölda þátttakenda, staðsetningu ásamt vangaveltum um mögulegar útkomur ráðstefnunnar.
Til dæmis má þar lesa eftirfarandi um loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna:
Hvað er á dagsskránni?
Samkomulag þjóðanna um loftslagsmál, á tímabilinu frá 2012 og áfram; sérstaklega á að reyna að ná samkomulagi sem sameinar virðingu fyrir umhverfinu (minnkuð losun gróðurhúsalofttegunda, af völdum manna, sem hafa neikvæð áhrif á loftslagið), lífsgæði og langtíma öryggi í orkumálum á bestan mögulegan hátt. Raunhæfar tillögur um hvernig best sé að standa að því verða lagðar fram af alþjóða samfélaginu.
Hver eru lykil umræðuefnin?
- Hvaða viðmiðunarár á að miða við sem útgangspunkt fyrir losunartakmörk, hversu lengi á næsta tímabil að vera, þ.e. frá 2012 til hvaða árs?
- Hvaða tillögur á að koma með fyrir losunartakmörkin sjálf, bæði fyrir næsta tímabil og þar á eftir.
- Ásamt fleiru...
[Hægt er að lesa alla færsluna og taka þátt í umræðum með því að smella á þennan tengil]
![]() |
Ólíklegt að bindandi samkomulag náist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Blogg | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2009 | 22:32
Ákvarðanafælni - nokkrar mögulegar ástæður
Það eru nokkur atriði sem vert er að skoða varðandi loftslagsmál og hversu erfitt er að gera sér þau í hugarlund. Það er ekki innbyggt í okkur mannfólkið að bregðast við vanda sem erfitt er að sjá fyrir sér. Mig langar að velta fyrir mér nokkrum ástæðum sem geta legið að baki þessu. Þetta er m.a. í tilefni fréttar sem birt var hér á síðunum fyrir stuttu síðan, "Færri Bandaríkjamenn telja traustar sannanir fyrir hnattrænni hlýnun". Jafnvel þó að vísindin bendi rökfast í átt til þess að hnattræn hlýnun eigi sér stað og að það sé vegna losunar koldíoxíðs í andrúmsloftið af völdum manna, þá eru sumir í vafa. Þetta getur átt sér margar skýringar og ekki ætla ég að skoða þær allar. Einfalda svarið er að fólk hafi margt á sinni könnu og geti eða vilji ekki setja sig inn í þessi mál. Hér eru þó nokkrar vangaveltur sem mig langar að nefna til sögunnar.
Í fyrsta lagi virðist mannfólkið ekki vera forritað til að taka ógnanir sem gerast í framtíðinni eins alvarlega og þær sem eru yfirstandandi. Þó svo hafísinn bráðni, jöklarnir hopi og þurrkar rasi, þá er það bara eitthvað sem á sér stað annarsstaðar og er ekki hluti af okkar daglega lífi. Þetta er ekki neitt sem að við finnum eða sjáum hér og nú. Það getur því ekki jafnast á við þau daglegu vandamál okkar eins og að borga reikningana eða eiga fyrir mat.
Næst má nefna, að það getur kostað peninga að gera "réttu" hlutina, og eins getur verið erfitt að hætta því sem er orðið að vana. Það getur verið erfitt og dýrt að hætta að nota jeppann og kaupa umhverfisvænan bílinn í staðinn. Einnig getur verið erfitt að endurhugsa vana eins og að nota eingöngu bílinn þegar farið er í bæjarferð, heldur en t.d. að skella sér í strætó eða hjóla stöku sinnum einnig.
Í þriðja lagi má nefna það, að hægt er að færa rök fyrir því að sum okkar eru komin langt frá náttúrunni, mörg búum við í bæjum og notum mikinn hluta lífsins innandyra. Þannig má færa rök fyrir því að við séum hugsanlega búin að missa einhver tengsl við náttúruna. Mörgum finnst einnig að við getum ekki haft mikil áhrif á náttúruna. Síðustu áratugi hefur fólksfjölgun verið gífurleg og öll kerfi samfélagsins hafa stækkað. Á sama tíma finnum við fyrir smæð okkar og eigum hugsanlega erfitt að ímynda okkur að við getum gert eitthvað í víðtæku máli eins og t.d. loftslagsvandanum.
Tími er líka nokkuð sem okkur finnst við aldrei hafa nóg af, allir vinna úti og einnig vinna báðir foreldrar oft langan vinnudag. Það má kannski segja að lífsstíllinn sé þannig að erfitt er að hugsa um vandamál sem ekki eru innan rammans ef svo má að orði komast. Þ.e.a.s. þau mál sem falla utan fjölskyldunar eða lífsstíls okkar, eru ekki eins aðkallandi. Hraðinn í þjóðfélaginu gerir það m.a. að verkum að auðvelt er að fresta annars aðkallandi málum sem ættu að fá meiri athygli.
Að lokum langar mig að nefna ýmislegt í umræðunni, þar sem stjórnmál, þrýstihópar og fleiri aðilar drepa umræðu um loftslagmál á dreif og reyna að gera minna (eða í sumum tilfellum meira) úr vandanum en tilefni er til. Þannig finnst sumum hugsanlega erfitt að henda reiður á hvað eru staðreyndir og hvað ekki.
Hér eru nefndar nokkrar vangaveltur sem geta valdið ákvarðanafælni í stærri málum eins og t.d. loftslagsmálum.
[Þessi færsla er einnig birt á Loftslag.is]
Blogg | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2009 | 18:03
Frétta- og pistlayfirlit
Hér er stutt yfirlit yfir færslur af Loftslag.is. Einnig er yfirlit yfir fréttir sem við rákumst á við fréttaöflun, en gerðum ekki sérstakar færslur um. Þetta eru stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint.
Yfirlit fréttir og pistlar af Loftslag.is:
Frá því síðasta yfirlit leit dagsins ljós þá hafa ýmsar færslur ratað á síður Loftslag.is. Við höfum skrifað ýmsar fréttir frá því síðasta yfirliti, verður farið yfir nokkrar hér. Við skrifuðum umfjöllun um það að nýliðin september var næst hlýjasti september frá því 1880. Nýleg rannsókn þar sem mælingar sýna fram á munstur milli vöxt trjáa og geimgeisla varð á vegi okkar. Skoðanakönnun sem gerð er af Pew Research Center for the People & the Press gefur til kynna að færri Bandaríkjamenn telji traustar sannanir fyrir hnattrænni hlýnun, en í síðustu könnun, þessi frétt varð m.a. fréttaefni þar sem vitnað var í Loftslag.is á Visir.is. Hafa pálmar vaxið á norðurslóðum er spurning sem vísindamenn við háskóla í Hollandi velta fyrir sér og varð meðal annars fréttaefni á bæði Mbl.is og Visir.is. Nú síðast birtum við svo frétt um að tölfræðingar telja leitni hitastigs vera upp á við á síðustu árum og áratugum.
Fimmtudaginn 22. október birtist fróðlegur gestapistill um fugla og loftslagsbreytingar eftir Tómas Grétar Gunnarsson og kunnum við honum þakkir fyrir. Einnig eru nokkrar bloggfærslur sem vert er að nefna. Þankatilraun um það hvort að loftslagsvandinn sé tabú kom fram, en litlar umræður fóru fram um það, en enn er opið fyrir athugasemdir ef vilji er til þess að ræða það efni nánar. Við fengum fróðlega fyrirspurn frá Guðlaugi Ævari, sem við reynum að svara í "Geta hafnarbylgjur frá Austur Grænlandi valdið tjóni á Íslandi?". Það hafa verið einhverjar vangaveltur að undanförnu um hokkíkylfuna svokölluðu, af því tilefni spurðum við spurningarinnar, "Er búið að strauja hokkíkylfuna?" í einni færslu. Að lokum má benda á stutta færslu um hversu mikið af CO2 er losað í andrúmsloftið af völdum manna.
Ýmislegt annað hefur ratað á síðurnar, m.a. myndbönd, léttmeti og heit málefni, sem sjá má hér. Helst má nefna af þessum lista færslu undir heit málefni, þar sem tekin er fyrir pistill sem birtis á vef BBC þar sem pistlahöfundurinn lýsir eftir hlýnun jarðar.
Stuttar fréttir
Hrísgrjónabændur heims eru í vanda, en mörg af þeim löndum sem framleiða hrísgrjón hafa orðið fyrir miklum búsifjum vegna óvenjulegs veðurfars. Skemmst er frá að minnast á óvenjulega mikla úrkomu á Filippseyjum, seinkun á monsúninum á Indlandi og mjög útbreidda þurrka á Ástralíu. Október-desember hefti Rice Today einblínir á loftslagsbreytingar og möguleg áhrif þess á hrísgrjónarækt. Í því kemur fram að það sé erfitt að sanna að loftslagsbreytingar séu valdar að núverandi veðri. Þrátt fyrir það, þá hefur stofnun í hrísgrjónarannsóknum (International Rice Research Institute - IRR) kortlagt þau svæði á Filippseyjum sem líklegust eru til að verða fyrir neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga. Nánar má lesa um málið á Science Daily, en einnig er hægt að nálgast tímaritið á heimasíðu IRRI (ókeypis en nauðsynlegt að skrá sig).
Jarðskjálftafræðingar hafa í gegnum tíðina síað út bylgjusuð sem jarðskjálftamælar nema þegar úthafsalda kemur af fullum krafti að landi - vegna truflana sem suðið veldur við mælingu jarðskjálfta. Nú ætla menn að snúa þessu við og sía út jarðskjálftana til að sjá breytingu í þeirri orku sem úthafsaldan veldur þegar hún kemur að landi. Talið er að þetta verði gott innlegg í umræðuna um það hvort fellibylir á Atlantshafi hafi aukist með hlýnun jarðar. Þar sem menn deila um það hvort fellibylir séu að aukast eða ekki þá gæti þessi rannsókn skorið úr um það. Sjá nánari umfjöllun á Discovery.
Bílasýningin í Tokyo er hafin. Að þessu sinni er mun meira úrval umhverfisvænna bíla en áður hefur verið. Þar eru til sýnis allskyns hugmyndabílar, tengitvinnbílar, rafmagnsbílar svo fátt eitt sé nefnt. Það eru því margir sem berjast um sviðsljósið nú sem endranær. Rafmagnsbílar virðast m.a. ætla að stela sviðsljósinu í ár vegna tækniframfara í endurhlaðanlegum rafhlöðum, sem getur gert fjöldaframleiðslu enn fýsilegri en áður. Við viljum benda á betri og nánari um fjöllun um þessa sýningu á heimasíðunni visindin.is.
Það er ekki úr vegi að benda fólki á íslenskt dæmi um afleiðingar hlýnandi loftslags - svokallaða Skógarmítlu sem færir sig norðar á bóginn. En þar sem þessi umræða hefur farið fram víða á íslenskum fjölmiðlum, þá látum við okkur nægja að benda á ítarlegar umfjallanir um þetta. Heimasíða Náttúrufræðistofnunar Íslands er lógískasti staðurinn til að byrja - hér er frétt og svo nánari umfjöllun á þeirri síðu. Einnig má lesa fréttir um málið meðal annars á ruv.is og mbl.is
Heimsmeistarakeppnin í fótbolta fer fram í Suður-Afríku 2010. Flestir stærri íþróttaviðburðir, eins og t.d. Ólimpíuleikarnir og HM í fótbolta reyna að jafna kolefnisfótsporin, helst þannig að það verði hlutlaust. HM í Suður-Afríku er engin undantekning þar á. Keppning í Suður-Afríku þarf að takast á við 10 sinnum stærri kolefnislosun heldur en keppnin 2006 í Þýskalandi. Mikilvægt er í þessu sambandi að taka fram að Þjóðverjar þurftu ekki að huga að því að kolefnisjafna frá flugi eins og gert verður í Suður-Afríku. Kolefnislosun frá flugi í þessum mánuði á meðan keppnin fer fram, verður 67% af heildarlosun landsins á tímabilinu, þar sem búist er við um 500.000 áhorfendum og þátttakendum á keppnina. Sjá nánar, Reuters og COP15.
Blogg | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2009 | 22:22
Minni losun - jákvætt skref
Það verður gott að geta notað eina tegund af hleðslutæki fyrir alla síma ef þetta verður að veruleika. Þó vekur talan 13,6 milljónir tonna minni losun koldíoxíðs á ársgrundvelli upp spurningar. Fyrst og fremst vantar vita, hversu mikið minni hlutfallsleg losun er á bakvið þessa tölu. Af hvaða völdum verður þessi minni losun fyrst og fremst - er það vegna þess að nýju tækin nota minni orku en þau sem fyrir eru eða er þetta vegna þess að þá fer minni orka í að gera öll tækin sem hent er í dag? Hugsanlega er þetta samband þessa og fleiri hluta? Þetta verður þó að teljast jákvætt skref í rétta átt.
Losun koldíoxíðs af manna völdum er u.þ.b. 28 miljarðar tonna á ári.
[Sjá nánar um losun koldíoxíðs af mannavöldum, á heimasíðunni Loftslag.is]
![]() |
Alhliða hleðslutæki fær grænt ljós |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Blogg | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.10.2009 | 20:58
Færri Bandaríkjamenn telja traustar sannanir fyrir hnattrænni hlýnun
Ný könnun á vegum Pew Research Center for the People & the Press, gefur til kynna að nú telji 57% Bandaríkjamanna að traustar sannanir séu fyrir hnattrænni hlýnun, á móti 71% í apríl 2008.
Þrátt fyrir sífellt fleiri vísindaleg rök, þá eru færri Bandaríkjamenn sem telja að traustar sannanir séu fyrir hnattrænni hlýnun undanfarna áratugi.
Séu þessar tölur skoðaðar eftir stjórnmálaskoðunum, þá er einnig hægt að greina nánar hvernig breytingarnar hafa orðið allt frá 2006. Hægt er að greina að almenningur telur sig ekki hafa fullnægjandi skýringar og sannanir fyrir því að hnattræn hlýnun eigi sér stað. Einnig er hægt að sjá þar að mesta breytingin hefur orðið undanfarið ár.
[Nánar er fjallað um þetta á Loftslag.is]
Blogg | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)