Færsluflokkur: Blogg

Mýtur Moncktons

Þeir sem fylgst hafa eitthvað með umræðum um loftslagsbreytingar kannast eflaust við Monckton “Lávarð“, en við höfum minnst á hann hérna áður. Ósjaldan vísa “efasemdamenn” um hnattræna hlýnun í myndbönd eða greinar þar sem Monckton kemur við sögu – en útúrsnúningar og bjaganir á vísindarannsóknum virðast vera hans sérgrein. Allavega hefur hann engar loftslagsrannsóknir sem styðja gífuryrði sín. Þrátt fyrir það er hann fenginn til að halda fyrirlestra og til ráðgjafar um loftslagsmál víða um heim. Það er ráðgáta hvers vegna.

Nú hafa snillingarnir á Skeptical Science tekið saman gagnagrunn þar sem farið er yfir algengustu rök Moncktons og þau brotin niður til mergjar og leiðrétt. Smellið á myndinni hér fyrir neðan til að skoða mýtur Moncktons og rök gegn þeim:

Að auki er rétt að minnast  á að nú nýverið var á BBC heimildamynd um “efasemdamenn” um hnattræna hlýnun, þar sem skyggnst var á bak við tjöldin. Svo skemmtilega vill til að Monckton kemur eitthvað við sögu í þessari heimildamynd og reyndi hann að fá heimildamyndina bannaða – en svo virðist sem efasemdamenn um hnattræna hlýnun séu frekar hrifnir af ritskoðun, eins og fjölmörg dæmi sanna. Heimildamyndin heitir samkvæmt áreiðanlegum heimildum Meet the Climate Skeptics, en erfitt hefur reynst að komast að eintaki sem hægt er að horfa á hér á Íslandi*. Hér fyrir neðan má þó allavega nálgast sýnishorn úr heimildarmyndinni, smelltu á myndina til að skoða sýnishornið:

*Ef einhver kemst að tengli þar sem hægt er að horfa á téð myndband, þá endilega látið vita – annað hvort í athugasemdum eða á loftslag@loftslag.is

Tengt efni á loftslag.is


Á tilboði: Sérvalin kirsuber

Myndband frá góðkunningja okkar Greenman3610 (Peter Sinclair) þar sem hann skoðar hvernig Dr. Harrison Schmitt, sem er hægrisinnaður aðgerðarsinni, hefur afbakað gögn um hafísútbreiðsluna. Dr. Schmitt sem er fyrrverandi Apollo geimfari (með Apollo 12 og var hann einnig næst síðasti maðurinn sem gekk á tunglinu, hingað til), hefur reynst sterkt vopn og ötull málsfari í heimi þeirra sem afneita loftslagsvísindum.

En skoðum nú nýlega fullyrðingu Dr. Schmitt um hafísinn og hvernig honum tókst að sérvelja gögnin (e. cherry picking – cherry = kirsuber) til að þyrla ryki í augu áheyrenda sinna.

[...]

Myndbandið má sjá á loftslag.is, Á tilboði: Sérvalin kirsuber.

Tengt efni á loftslag.is – Greenman3610 myndbönd:

 


Efasemdir eða afneitun

Endurbirting færslu frá síðastliðnu vori.

Tölublað New Scientist, frá 15. maí, er sérstaklega helgað umræðu um tímaskeið afneitunar (e. Age of Denial). Í blaðinu er rætt um ýmiskonar afneitun á vísindum, þar með talið afneitun á loftslagsvísindum. Það virðast vera svipaðar aðferðir notaðar við afneitun vísinda í sambandi við tengsl krabbameins tóbaksnotkunnar og afneitun á loftslagsvísindum.

Mig langar að benda á grein úr þessu tölublaði, sem nefnist, Lifað í afneitun: Þegar efasemdarmaður er ekki efasemdarmaður (e. Living in denial: When a sceptic isn’t a sceptic). Í þessari grein er munurinn á efasemdarmönnum og afneitunarsinnum skoðaður. Greinin er skrifuð af Michael Shermer þar stendur meðal annars, í lauslegri þýðingu:

Hver er munurinn á efasemdarmanni og afneitunarsinna? Þegar ég kalla sjálfan mig efasemdarmann, þá á ég við að ég noti vísindalega nálgun til að leggja mat á rökin. T.d. mun efasemdamaður um loftslagsmál, skoða hverja staðhæfingu fyrir sig og varfærnislega skoða rökin og er tilbúinn að fylgja staðreyndunum þangað sem þær leiða hann.

Sá sem afneitar loftslagsvísindunum, er með fyrirfram ákveðnar skoðanir og fer í gegnum gögnin með notkun “hlutdrægrar staðfestingar” – sem er hneigðin til að leita að og finna gögn sem staðfesta fyrirfram ákveðnar skoðanir og vísa öðru á bug.

Í greininni er rætt um efasemdar í sambandi við vísindalegar aðferðir, þar sem nota þarf gagnrýna hugsun til að skoða gögn og mælingar. Það má segja að til að vera vísindamaður, þá þurfi að koma til nokkuð mikið af hugsun byggða á efasemdum og gagnrýnni hugsun.

[...]

Nánar um þetta á loftslag.is, Efasemdir eða afneitun 

Tengt efni af loftslag.is:

 


Mótsagnarkennt eðli röksemda "efasemdarmanna" um hnattræna hlýnun

Eldri færsla af loftslag.is sem á kannski ágætlega við í dag.
 
Það er eftirtektarvert að fylgjast með því hvernig rökfærslur þeirra sem kenna sjálfa sig við “efasemdir”, varðandi hlýnun jarðar af mannavöldum, breyta endalaust andmælunum og rökfærslum sínum.Ein afleiðing þess, er að þeir komast oft í mótsögn við sjálfa sig. Einn daginn er röksemdarfærslan sú, að núverandi hlýnun sé vegna sólarinnar, næst að hlýnun sé vegna “náttúrulegra sveiflna”, þar næst að plánetan sé að kólna og daginn eftir koma svo kannski rök um að það sé svo mikil óvissa í hitastigsmælingum að við vitum hvort sem er ekki, hvert hnattrænt hitastig er. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því mikla magni af mýtum sem hægt er að finna t.d. á loftslag.is.
 
Það ætti að vera nokkuð augljóst að rökfærslur “efasemdarmanna” eins og þær koma fram hér að ofan eru í mótsögn hvorar við aðrar, en samt eru þau oft sett fram af sömu aðilum. Sem dæmi má nefna alþekktan “efasemdarmann” að nafni Fred Singer sem færði fyrir því rök árið 2003 að plánetan væri ekki að hlýna, en það kom þó ekki í veg fyrir að hann færði rök fyrir því, í bók sem hann gaf út árið 2007, að plánetan væri að hlýna vegna náttúrulegrar sveiflu sem tekur 1.500 ár. Það er ekki hægt að hafa þetta á báða vegu!
 

Það virðist vera merki um styrk kenningarinnar, um hækkun hitastigs af völdum losunar manna á CO2, að “efasemdarmennirnir” geta ekki komið sér saman (ekki einu sinni innra með sjálfum sér persónulega) hver andmælin eiga að vera. Ef það væri raunverulegur veikleiki í kenningunni, þá ættu “efasemdarmenn” að geta bent á þann veikleika og komið með mótsagnarlaus rök. Þeir virðast frekar ætla að notast við núverandi aðferðafræði sína, sem er að fleygja öllu mögulegu fram sem rökum, í óljósri von um að eitthvað af þeim haldi vatni. Það myndi auðvelda verulega allar umræður við “efasemdarmenn” ef þeir myndu ákveða hver andmæli sín varðandi kenninguna væru, í stað núverandi ástands þar sem rökfærsla dagsins virðist ráða för, alveg óháð því hver rök gærdagsins voru og hugsanlegra mótsagna í rökfærslunum. 

[...] 

Að lokum má svo skoða orðið sem ég hef sett innan gæsalappa í færslunni, en hvers vegna ætli það sé nú? Það má vel færa rök fyrir því að efasemdarmenn nái ekki nógu vel að skilgreina þá sem hafa þá nálgun við vísindin sem eru útskýrð hér að ofan, þar sem nýjar röksemdir og mótsagnir virðast ráð ferðinni eftir því hvernig vindar blása þann daginn. Afneitunarsinnar er hugsanlega betri skilgreining á sumum þeirra sem þetta stunda, enda nota þeir vel þekktar aðferðir við nálgun sína. Nokkrar helstu aðferðir afneitunar eru:

  1. Samsæriskenningar
  2. Sérvalin gögn (e. cherry-picking)
  3. Fals sérfræðingar
  4. Ómögulegar eftirvæntingar (einnig þekkt sem færanleg markmið)
  5. Almennar rökleysur
Sumir vilja einnig bæta við 6. liðnum, sem er endurtekning á rökum sem þegar er búið að hrekja og eftir þessar pælingar hér að ofan, þá líka 7. liðnum sem eru mótsagnirnar...

 

Alla færsluna má lesa á loftslag.is, Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdarmanna” um hnattræna hlýnun 

Tengt efni á loftslag.is:

 


Ískjarnar, miðaldahlýnun, litla ísöldin og Dýravísur eftir Jón Leifs

Í nýju myndbandi frá Greenman3610 (Peter Sinclair) er kjarni efnisins varðandi ískjarna og hvernig þeir eru notaðir til að skoða þróun hitastigs m.a. með tilliti til miðaldahlýnuninnar og  ”litlu ísaldarinnar”. Nokkuð fróðlegt myndband.

En í byrjun myndbandsins eru Dýravísur eftir Jón Leifs notaðar í örstutta stund og svo kemur lagið aftur fyrir í lokin. Lagið hefur komið af stað umræðu við myndbandið á YouTube síðunni, svo mikla að Peter birti Dýravísur í heild sinni á heimsíðunni sinni. En hægt er að sjá myndbandið á loftslag.is, Dýravísur fá svo að fylgja með á eftir:

Ískjarnar, miðaldahlýnun, litla ísöldin og Dýravísur eftir Jón Leifs

Tengt efni á loftslag.is – Greenman3610 myndbönd:

 


Hnattræn losun CO2 fyrir árið 2009

Í the Guardian er hægt að skoða nýtt kort sem sýnir hlutfallslega losun CO2 eftir löndum, en þar er einna mest aukning hjá Kína og Indlandi milli áranna 2008 og 2009. Á sama tíma þá minnkar losun í Bandaríkjunum, Kanada, Rússlandi og Evrópu.

Milli áranna 2008 og 2009 þá jókst losun frá Kína um 13,3% og losaði um 7,7 milljarða tonna – en næst þar á eftir eru Bandaríkin með um 5,4 milljarða tonna á ári.

[...]

Nánar á loftslag.is, þar sem hægt er að sjá kortið, Hnattræn losun CO2 fyrir árið 2009

Tengt efni á loftslag.is

 


Loftslagsbreytingar til forna – lærdómur til framtíðar

Þegar saga loftslagsbreytinga Jarðar er skoðuð þá virðist allt benda til þess að hitastig Jarðar í náinni framtíð eigi eftir að verða mun meiri en búist er við, vegna áframhaldandi losun CO2 út í andrúmsloftið. Jeffrey Kiehl hjá NCAR lýsir í þessu myndbandi hver staðan gæti orðið ef ekki verður dregið úr losun á CO2 – en í lok þessarar aldar þá gæti styrkur þess verið orðinn svipaður og fyrir 30-100 milljónum ára – en þá var hitastig mun hærra en í dag.

Hitastig Jarðarinnar mun halda áfram að hækka næstu aldir og þúsaldir vegna hækkandi styrks CO2 í andrúmsloftinu.  Samkvæmt Kiehl þá er jafnvægissvörun loftslags til lengri tíma litið um tvöfallt hærri en skammtímabreytingar gefa til kynna. Það sé vegna þess að loftslagslíkön eigi í erfiðleikum með að herma breytingar eins og bráðnun jökulbreiða – sem gerast á öldum eða þúsöldum og magna upp upprunalegu hlýnunina af völdum CO2.

[...] 

Myndbandið má sjá á loftslag.is, Loftslagsbreytingar til forna – lærdómur til framtíðar

Tengt efni á loftslag.is

 


500

Tímamótafærsla - 500. færslan á loftslag.is frá formlegri opnun vefsíðunnar, þann 19. september 2009. Þetta er orðið alls kyns fróðleikur og efni um loftslagsvísindi og tengd mál, allt frá mýtum til gegnheilla gagna og mælinga vísindamanna.

[...] 

Sjá nánar á loftslag.is, þar sem allir gestapistlarnir 21, sem birtst hafa á loftslag.is í gegnum tíðina eru m.a. listaðir upp, 500.

Athugasemdir eru velkomnar á loftslag.is. 


Styrkur CO2 var hærri til forna

Röksemdir efasemdamanna…

Sönnun þess að CO2 hafi lítil áhrif við loftslagsbreytingar má finna á fyrri tímabilum jarðsögunnar, t.d. á Ordovisíum/Silúr og Júra/Krít. Á þeim tíma var styrkur CO2 allt að tíu sinnum meiri en hann er nú – en samt urðu ísaldir.

Það sem vísindin segja…

Þegar styrkur CO2 var þetta hár á fyrri tímabilum jarðsögunnar, þá var styrkur sólar einnig minni. Sameiginleg áhrif sólar og CO2 sýna góða samsvörun við loftslagsbreytingar.

Í gegnum sögu jarðar hafa komið tímabil þar sem styrkur CO2 var mun hærri en styrkur þess er í dag. Það vekur því furðu að á sumum þessara tímabila uxu jöklar með töluverða útbreiðslu. Er það í mótsögn við títtnefnd áhrif CO2 til hlýnunar? Nei, af einfaldri ástæðu. CO2 er ekki eini þátturinn sem hefur áhrif á loftslagsbreytingar. Til að skilja fyrri loftslagsbreytingar verðum að að taka með í dæmið aðra þætti sem hafa áhrif á loftslag. Ein rannsókn sem miðaði að því að skoða þetta, tók saman þekkingu manna á þeim gögnum sem til eru um styrk CO2 í andrúmsloftinu síðastliðin 540 milljón ár (Royer 2006). Það tímabil er kallað Phanerozoic – eða öld hins sýnilega lífs.


Mynd 1: Styrkur CO2 í andrúmsloftinu síðustu 540 milljón ár (
Phanerozoic). Brotalínan sýnir spár GEOCARB líkansins – með grárri skyggingu fyrir óvissumörk.Heil lína sýnir einfaldaða mynd samkvæmt proxí gögnum (Royer 2006).

Styrkur CO2 í andrúmsloftinu hefur verið gríðarlega hár á fyrri hluta Phanerozoic, að öllum líkindum hefur hann farið yfir 5000 ppm. Hinsvegar var útgeislun sólar einnig stöðugt minni því lengra aftur sem við förum...

[...]

Nánar á loftslag.is, þar sem einnig er listi yfir ítarefni ásamt fleiri gröfum og myndum, Styrkur CO2 var hærri til forna


Spurt og svarað um sjávarstöðubreytingar

Sjávarstöðubreytingar eru með verri afleiðingum loftslagsbreytinga og þó að óvissan sé nokkur um hvaða afleiðingar verða af þeim – hvar og hversu miklar, þá þykir nokkuð ljóst að þær munu hafa slæm áhrif víða. Talið er að þær muni hafa hvað verstar afleiðingar á þéttbýlustu svæðum heims og þar sem nú þegar eru vandamál af völdum landsigs vegna landnotkunar og þar sem grunnvatn er víða að eyðileggjast vegna saltsblöndunar frá sjó. Einnig verða ýmis strandsvæði í aukinni hættu af völdum sjávarstöðubreytinga vegna sterkari fellibylja framtíðar.

Hvernig eru sjávarstöðubreytingar mældar?

GRACE gervihnötturinn

Sjávarstöðubreytingar eru mældar á ýmsan hátt, sem síðan er samræmt til að gefa sem besta mynd. Til eru hundruðir sírita sem mæla flóð og fjöru og tengdir eru GPS mælum sem mæla lóðréttar hreyfingar landsins (landris og landsig). Einnig eru radarmælingar frá fjölmörgum gervihnöttum sem gefa upplýsingar um breytingar á sjávarstöðu yfir allan hnöttinn. Mælitæki sem mæla hitastig og loftþrýsting, ásamt upplýsingum um seltu sjávar eru einnig gífurlega mikilvæg til að kvarða gögnin, auk nýjustu og nákvæmustu gagnanna sem nú koma frá þyngdarmælingum gervihnattarins GRACE – en hann gefur nákvæmar upplýsingar um breytingu á massa, lands og sjávar.

Yfirlitsgrein eftir Merrifield o.fl. 2009 um GLOSS (Global Sea Level Observing System) gefur nokkuð góða mynd um það hversu margar og fjölbreyttar stofnanir og einstaklingar vinna að því að kortleggja sjávarstöðubreytingar. Þessar rannsóknir eru óháðar hvorri annarri og staðfesta hverja aðra.

Rís sjávarstaða jafnt og þétt yfir allan heim?

Þegar maður heyrir tölur um sjávarstöðubreytingar, þá er yfirleitt verið að tala um hnattrænt meðaltal...

[...] 

Enn nánar á loftslag.is, þar sem m.a. er reynt að fara yfir sjávarstöðu til forna, helstu ástæður núverandi sjávarstöðubreytinga, hugsanlegri framtíð og fleiru, ásamt ýmsum myndum og gröfum; Spurt og svarað um sjávarstöðubreytingar  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband