Hvað er kolefnisfótspor?

thumb_footprint-sandÞað mikið talað um losun koldíoxíðs vegna athafna manna. En hvað er verið að tala um og  hvað er kolefnisfótspor (e. carbon footprints)?

Þegar talað er um kolefnisfótspor í sambandi við loftslagsbreytingar, þá er fótspor myndlíking fyrir þau áhrif sem eitthvað hefur. Í þessu tilfelli má segja að kolefni sé notað sem einhverskonar samnefnari fyrir þær gróðurhúsalofttegundir sem valda hnattrænni hlýnun.

Þar af leiðandi má kannski orða það þannig að kolefnisfótspor sé einhverskonar samnefnari á áætluðum heildaráhrifum losunar gróðurhúsalofttegunda sem eitthvað veldur. Þetta eitthvað getur svo verið hvað sem er, t.d. athafnir, hlutir, lífsstíll, fyrirtæki, lönd eða jafnvel allur heimurinn.

Hvað er CO2e?

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eða svokölluð hnattræn hlýnun af mannavöldum er talin eiga sér stað vegna aukins styrks gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Aðal gróðurhúsalofttegundin er koldíoxíð (CO2). CO2 verður m.a. til við brennslu jarðefnaeldsneytis. Það eru einnig aðrar gróðurhúsalofttegundir sem við þurfum að huga að en eru þó losaðar í mun minna magni. Metan (CH4) er dæmi lofttegund sem m.a. kemur frá landbúnaði og er 25 sinnum áhrifameiri gróðurhúsalofttegund en CO2 á hvert kílógram. Einnig má nefna gróðurhúsalofttegundir, eins og t.d. nituroxíð (N2O), sem er u.þ.b. 300 sinnum öflugri en CO2 og ýmsar lofttegundir frá kælitækjum sem geta verið nokkur þúsund sinnum öflugri en CO2.

Á Bretlandi eru heildaráhrif á loftslagið eftir gróðurhúsalofttegundum nokkurnvegin á þessa leið: koldíoxíð (86%), metan (7%), nituroxíð (6%) og lofttegundir frá kælitækjum (1%). Hver hlutur eða athöfn getur valdið margskonar áhrifum vegna þess að fleiri gróðurhúsalofttegundir koma við sögu í mismunandi magni í hverju tilfelli. Þannig myndi kolefnisfótsporið ef allt er tiltekið vera nánast óskiljanlegt hrafnaspark þar sem margar gróðurúsalofttegundir í mismunandi magni koma fyrir. Til að koma í veg fyrir það, er kolefnisfótsporinu lýst sem koldíoxíð jafngildi (e. equivalent) eða CO2e. Þetta þýðir að heildaráhrif allra gróðurhúsalofttegunda sem hlutur eða athöfn sem hefur í för með sér er lýst með tilliti til þeirra áhrifa sem yrðu miðað við það magn sem þyrfti að vera af koldíoxíði til að hafa sömu áhrif. CO2e er því það magn sem lýsir því, miðað við ákveðið magn og blöndu af gróðurhúsalofttegundum, hversu mikið magn af CO2 hefði sömu áhrif til hlýnunar andrúmsloftsins, þegar reiknað er á ákveðnu tímabili (almennt eru notuð 100 ár).

Bein losun og óbein losun

Það er nokkur ruglingur varðandi kolefnisfótspór, þegar kemur að því að skoða muninn á beinni og óbeinni losun. Hið raunverulega kolefnisfótspor á hlut eins og plast leikfangi, svo dæmi sé tekið, er ekki bara bein losun sem verður til við framleiðslu og flutning leikfangsins til verslunar. Það þarf einnig að skoða margskonar óbeinna losun, eins og t.d. þá losun sem verður til við vinnslu olíu sem notuð er við framleiðslu plastsins. Þetta eru aðeins dæmi um þær athafnir í ferlunum sem hafa áhrif á losunina. Ef við spáum í það, þá getur verið að mjög erfitt að rekja alla ferlana sem eru á bak við þá losun sem kemur frá einum hlut eða athöfn. T.d. eitthvað svo hversdagslegt sem notkun skrifstofufólks í plastverksmiðjunni á pappírsklemmum úr stáli. Til að fara enn nánar út í þessa sálma má svo skoða námaverkamanninn sem vinnur í námunni sem járnið í stálið kemur frá…og svo framvegis nánast út í hið óendanlega. Verkefnið við útreikninga á kolefnisfótspori leikfangs úr plasti, getur í raun innihaldið fjöldan allan af ferlum sem taka mætti inn í dæmið. Nákvæmur útreikningu er nánast ómögulegur og sum áhrifin eru líka mjög smá miðað við heildaráhrifin.

Til að nefna annað dæmi, þá er raunverulegt kolefnisfótspor við það að keyra bíl ekki einungis sú losun sem verður til við bruna eldsneytisins, heldur einnig sú losun sem varð til við vinnslu olíunnar í bensín, flutningur þess til landsins og á bensínsstöðvarnar, ásamt þeirri losun sem verður til við framleiðslu bílsins og viðhalds, svo eitthvað sé nefnt.

Hinn nauðsynlegi en ómögulegi útreikningur

Kolefnisfótsporið eins og það er skilgreint hér að ofan er varðandi þær mælingar sem taka þarf tillit til við athugun á losun gróðurhúsalofttegunda vegna loftslagsbreytinga. Það er nánast ómögulegt að leysa þetta úrlausnarefni nákvæmlega. Við eigum engan möguleika á að skilja nákvæmlega hver áhrif banana eru samanborið við allt mögulegt annað sem við getum keypt, nema við getum tekið inn í dæmið allan ferilinn, þ.e. ræktun, flutning, geymslu og aðra ferla sem máli skipta. Hvernig er best að nálgast dæmi sem er nánast ómögulegt sökum mikils flækjustigs?

Ein aðferð sem stundum sést, er að gefast hreinlega upp og mæla á einfaldari hátt, jafnvel þó að stór hluti þess sem verið er að reyna reikna út detti út úr myndinni. Í raun er þó reynt að nálgast viðfangsefnið með því að skoða heildarmyndina og reyna að gera eins raunhæfa áætlun og hægt er varðandi þá losun sem fylgir þeim hlut eða athöfn sem skoða á. Þetta er hægt þrátt fyrir hið háa flækjustig sem oft þarf að hafa í huga í hverju tilfelli. Kunnátta varðandi þá óvissu sem fylgir útreikningunum þarf að vera ljós ásamt því hvernig nálgast beri óvissuna á heiðarlegan og áreiðanlegan hátt.

Heimildir:

Tengt efni á loftslag.is:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband