Kolefnisfótspor HM 2010

Í dag hefjast 8 liða úrslit á HM í fótbolta og væntanlega eru margir sem fylgjast spenntir með, sá sem þetta skrifar er engin undantekning þar á. Það er af því tilefni, ekki úr vegi að líta aðeins á kolefnisfótspor HM 2010.

Kolefnisfótspor HM 2010: 2,8 milljón tonn CO2e

Til að setja þessa tölu í samhengi, 2,8 milljón tonn svarar til u.þ.b. 6.000 geimskota eða um 20 ostborgara á hvern og einn af íbúum Bretlands.

Myndin hér undir (sem ber að taka með ákveðnum fyrirvara), er úr rannsókn (PDF) sem gerð var á síðasta ári af umhverfis- og ferðamálaráðuneyti Suður-Afríku ásamt sendiráði Noregs þar í landi. Athugunin náði til leikmannanna og ferða þeirra ásamt fylgdarliði, framkvæmdum í sambandi við keppnina, orkunotkun á leikvöngunum ásamt gistingum og ferðalögum áhangenda. Á myndinni má sjá hvernig skiptingin kemur út hlutfallslega:

Áætlað kolefnisfótspor fyrir HM 2010

Gert er ráð fyrir að um 1,2 milljónir áhorfenda muni sjá leikina á leikvöngunum og losun hvers er áætluð um 2,3 tonn, sem samsvarar u.þ.b. 4 mánaða orkunotkun (olía og rafmagn) á venjulegu heimili í Bretlandi. Sem betur fer fyrir kolefnisfótsporið, horfa flestir á leikina í beinni útsendingu sjónvarps og er giskað á að um 93 milljónir horfi á hvern leik að meðaltali. Miðað við 2 klukkutíma á hvern leik, með hléi, framlengingum, vítaspyrnukeppnum og hlutanum þar sem leikmenn skiptast á treyjum í lokin, þá er þetta uppsafnað um 12 milljarðar klukkustundir af afþreyingarefni.

Ef við gerum ráð fyrir því að þessar tölur séu nokkurn vegin réttar,  má áætla að kolefnisfótsporið við að sjá einn klukkutíma af HM sé um 230 g CO2e. Þetta samsvarar því að hver leikur sé eins og að kaupa sér 2 cappuccino eða að fá sér hálfan lítra af innfluttum bjór. Þarna er ekki reiknað með orkunotkun sjónvarpsins eða bjórþambiáhorfenda heima í stofu, svo dæmi sé tekið. Til samanburðar þá er kolefnisfótspor hvers leiks í ensku úrvalsdeildinni um 820 tonn, sem samsvarar um 45 g CO2e fyrir hverja áhorfsklukkustund.

Gagnrýni

Til að koma til móts við kolefnisfótsporið vegna HM 2010, þá hafa m.a. verið gróðursett 200.000 tré í Jóhannesarborg og tugir þúsunda að auki í Cape Town, Rustenberg, Tshwane/Pretoria og Durban.

FIFA ásamt yfirvöldum í Suður-Afríku hafa samt sem áður verið gagnrýnd fyrir vöntun á áætlun um hvernig eigi að mæta umhverfisáhrifunum vegna HM 2010. Suður-afrísk yfirvöld kölluðu eftir hugmyndum til að mæta kolefnislosun vegna keppninnar í nóvember síðastliðnum, en talið er að það hafi verið orðið of seint að setja allar þær hugmyndir í framkvæmd, þar sem gera þarf ráð fyrir um 2 ára undirbúningsvinnu fyrir marga þættina.

Hið svokallaða “Green Goal Programme” FIFA inniheldur lista metnaðarfullra markmiða fyrir umhverfisvænt HM og hafa yfirvöld í Suður-Afríku brugðist við mörgum þeirra. En FIFA hefur ekki áætlun um hvernig beri að ná þessum markmiðuð eða hvernig eigi að áætla hvort að þeim hafi verið náð. T.d. segir að stefna eigi að því að samgöngur á leikdegi, til og frá leikvöngum eigi að vera í minnsta lagi 50% á reiðhjólum, á göngu eða með öðrum aðferðum sem ekki losa koldíoxíð. Með því að ná þessu marki væri hægt að ná töluverðum áfanga við að draga úr kolefnisfótsporinu á staðnum. Það er þó óvíst hvort þetta markmið er annað en háleitar vonir settar á blað. Á sama hátt má nefna heimasíðu stjórnvalda í Suður-Afríku “Greening 2010,” sem hefur svipaða veikleika, en þar eru nefnd göfug áform, en þar virðist einnig vanta eftirfylgni við markmiðin.

Göfug og háleit markmið eru þó ágætis byrjun og vonandi verða betri áætlanir og eftirfylgni við næstu keppni sem haldin verður í Brasilíu 2014. Fyrir okkur sem fylgjumst spennt með keppninni í ár, þá má hafa það í huga að það virðist vera nokkuð í land varðandi losun gróðurhúsalofttegunda og önnur umhverfisáhrif vegna HM 2010. Við getum því stefnt að því að setja markið hærra í framtíðinni.

Heimildir:

Tengt efni á loftslag.is:


mbl.is Holland sló út Brasilíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband