Eru loftslagsvísindin trúarbrögð?

Ein af mýtunum af mýtusíðunni endurbirt hér sem bloggfærsla.

Það hefur stundum borið á því að fólk afneitar vísindum og kalli þau trúarbrögð. Þetta á t.d. við þegar fólk er á þeirri skoðun að vísindamenn viti ekki sínu viti. Þetta á stundum við þegar talað er um loftslagsbreytingar, þá kemur stundum klausan “þetta eru bara trúarbrögð”. Þarna virðist vera sem fólk sem að öðru leiti er skynsamt, ákveði að vísindin geti á einhvern hátt verið beintengd trúarbrögðum, eða það að taka mark á vísindamönnum hafi eitthvað með trúarbrögð að gera. Lítum nánar á örfáar skilgreiningar á þessum hugtökum.

prometeusTrúarbrögð: “trú á tiltekinn guð (tiltekna guði eða goðmögn), guðsdýrkun samkvæmt ákveðnu hugmyndakerfi” (tekið úr veforðabók, íslensk orðabók, snara.is); önnur skilgreining “er trú á yfirnáttúrulegar verur, guði eða dýrlinga ásamt siðfræði, venjum og jafnvel stofnunum tengdum trúnni.” (tekið af Wikipedia, íslenska útgáfan, sjá hér).

Vísindi: “athuganir, rannsóknir gerðar á kerfisbundinn, óhlutdrægan, raunsæjan hátt til að afla þekkingar” (tekið úr veforðabók, íslensk orðabók, snara.is)

Vísindaleg aðferð: “aðferðafræði ber að leggja mikla áherslu á að athuganir séu hlutlægar og að aðrir vísindamenn geti sannreynt niðurstöðurnar, og að rannsóknir skuli miðast við að sannreyna afleiðingar sem hægt er að leiða út af kenningum.” (sjá wikipedia)

Kenning: “er sett fram af þeim sem framkvæmdi tilraunina og fer hún eftir niðurstöðunum úr henni. Hverjar sem niðurstöðurnar verða, þá er hægt að setja fram kenningu um það sem prófað var. Þegar kenning er mynduð þarf að fylgja lýsing á öllu ferlinu ásamt þeim rannsóknargögnum sem leiddu til niðurstöðunnar svo að aðrir geti staðfest eða afsannað kenningu. Í heimi vísindanna er ekkert sem telst algerlega sannað og byggist allt á því sem að menn vita best á hverjum tíma.” (sjá wikipedia)

Samkvæmt þessu þá eru vísindalegar aðferðir og kenningar ósamrýmanlegar við trúarbrögð. Trúarbrögð eru guðsdýrkun eða trú á yfirnáttúrulegar verur samkvæmt ákveðnu hugmyndakerfi, vísindi aftur á móti eru athuganir, rannsóknir framkvæmdar á óhlutdrægan hátt, til að afla þekkingar. Kenningar sem fram eru settar samkvæmt vísindalegum aðferðum með, athugunum, tilgátum og tilraunum hljóta að vera það sem við byggjum vitneskju okkar á, um t.d. loftslagsbreytingar og í fleiri greinum, m.a. náttúruvísindum. T.d. eru afstæðiskenningin ogþróunnarkenning Darwins, kenningar sem við notum við útskýringu á ákveðnum fyrirbærum. Eins og fram kemur hér að ofan, þá er í heimi vísindanna ekkert sem telst algerlega sannað, heldur byggjast vísindin á því sem menn vita best á hverjum tíma. Það sama á við um kenningar um loftslagsbreytingar.

Kenningin um að aukning gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu valdi hækkandi hitastigi er sú besta sem við höfum í augnablikinu til að útskýra þá hitastigshækkun sem orðið hefur í heiminum síðustu áratugi. Í raun hafa vísindamenn komið fram með að það séu mjög miklar líkur (yfir 90% líkur) á því að aukning gróðurhúsalofttegunda hafi valdið þeirri hækkun hitastigs sem orðið hefur síðustu áratugi. Þetta verða að teljast tiltölulega afgerandi ályktanir hjá vísindamönnum og okkur ber að taka þær alvarlega. Þetta snýst ekki um trúarbrögð heldur vísindalegar rannsóknir og niðurstöður.

Í þessu sambandi eru margar lausnir viðraðar og persónulega hef ég trú á því að okkur takist að finna lausnir sem hægt verður að nota til lausnar þessa vandamáls. Ég hef trú á því að við manneskjurnar séum nógu vitibornar til að sjá alvöru málsins og taka skref í átt til þess að finna lausnir. Látum ekki tilgátur afneitunarsinna um að vísindi séu einhverskonar trúarbrögð, flækjast fyrir þeim nauðsynlegu ákvörðunum sem taka þarf.

The world is a dangerous place, not because of those who do evil, but because of those who look on and do nothing.” Albert Einstein

Tengt efni á loftslag.is:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það sem menn eiga við þegar mönnum dettur trúarbrögð í hug varðandi þá sem virðast helteknir af gróðurhúsabeyg, ekki það að kannski sé ekki ástæða fyrir honum, held ég að sé fyrst og fremst heimsfrelsunartaktarnir og  stundum glóandi fanatík hjá sumum sem minnir soldið á hreintrúarfólk. En þessi fanatík er reyndar líka á hinn bóginn.

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.7.2010 kl. 21:32

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Já, getur verið að einhverjir líti svo á Sigurður. Ég tel þó að nokkrir af þeim sem ég hef rekist á í mínum umræðum um þessi mál, meini það fullum hálsi að vísindin séu trúarbrögð, það má segja að þaðan spretti þessar hugleiðingar. Reyndar er þetta ein af færslunum sem ég gerði um þessi mál á eigin bloggi áður en loftslag.is byrjaði. Hygg að hún eigi enn ágætlega víð.

Sveinn Atli Gunnarsson, 21.7.2010 kl. 21:50

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Afsakið að textinn kom tvisvar. Hann er réttari svona:

-

 Það er æði margt í þessum málum sem minnir á trúarbrögð. Nokkur dæmi af handahófi í morgunsárið:

1) Það er sífellt vitnað í "scientific concensus", stundum þýtt sem samdóma álit vísindamanna. Þess vegna megi ekki ræða þessi mál frekar. Það var víst árið 1900 sem Lord Kelvin sagði:  "There is nothing new to be discovered in physics now. All that remains is more and more precise measurement". Líklega hefur enginn haft svona rangt fyrir sér, en þetta eru viðhorf margra þeirra sem telja sig tilheyra hinum "samdóma vísindamönnum". Sumir eru lengi að læra.

2) Mannfólkinu er kennt um allar loftslagsbreytingar (nú er talað um loftslagsbreytingar, en ekki hnatthlýnun eins og áður), svo og alls konar frávik í náttúrunni, jafnvel staðbundna kólnun ef svo ber undir.

3) Leitað er með logandi ljósi að alls konar fyrirbærum sem tengja má við losun manna á CO2, svo sem breytingu á sjávarborði, breytingu á sýrustigi sjávar (sem menn af einhverjum ástæðum kjósa að nefna súrnun, þó svo að sjórinn sé basiskur). Svo ekki sé misst á ísinn í norðuurhöfum.  Þetta á sérstaklega við þegar lofthjúpurinn er hættur að gegna heimsendaspámönnum og hefur ekki hitnað marktækt í áratug.

4) Ekki eru margir áratugir síðan sumir hnatthlýnunarsinnar spáðu verulegri kólnun og yfirvofandi ísöld. Þegar svo fór að hlýna eftir nokkra kólnun snarsnérust spámennirnir og fóru að spá óstöðvandi hlýnun. Það hlýnaði um skeið, svo hætti að hlýna, og fari svo að það kólni aftur, hvað þá? Munu menn hafa hamskipti einu sinni enn?

5) Seld eru aflátsbréf sem friða eiga samvisku manna. Allir vita hvaða bréf þetta eru, en hvert skyldu peningarnir streyma? Var einhver að tala um spillingu í því samhengi?

6) Í trúarbrögðum vitna menn til einhvers yfirnáttúrulegs sem fáir eða enginn skilur. Í umræddum fræðum eru það flókin tölvulíkön á ofurtölvum sem eiga að geta spáð áratugi og aldir fram í tímann. Eins konar véfréttir.

7) Hæfustu vísindamennirnir, sem neita að fylgja hinum heilaga sannleika, eru settir á svartan lista hjá PNAS. Þegar þessi listi er skoðaður, þá kemur í ljós að það er í raun mikill heiður að hafa verið tilnefndur á hann, þó svo tilgangurinn hafi verið eins konar bannfæring.

8) Peningavald skiptir miklu máli í mörgum trúarbrögðum. Engin trúarbrögð komast þó með tærnar það sem loftslagsfræðin hafa hælana.

9) Í sumum trúarbrögðum stunda reglubræður leynifundi. Tölvupóstar sem flotið hafa upp hafa afjúpað ýmislegt gruggugt í undirdjúpum þesssara fræða.

10) Í trúargrögðum eru yfirleitt einhverjir æðstuprestar. Hvaða stöðu hefur td. Al Gore?

11) Í mörgum trúarbrögðum eru eins konar varðmenn sem gæta þess að menn hugsi og skrifi rétt. Í loftslagsvísindum er hliðstætt mjög áberandi, m.a.  í neitheimum. Menn mega ekki skrifa neitt sem er í andstöðu við hinn heilaga samdóma sannleika vísindanna.

-

Eru loftslagsvísindin trúarbrögð, eða öllu heldur, bera þau merki trúarbragða?    Því verður hver og einn að svara fyrir sig.

Sem betur fer eru alltaf trúvillingar sem ekki geta hætt að hugsa sjálfstætt:
"The improver of natural knowledge absolutely refuses to acknowledge authority, as such. For him, scepticism is the highest of duties; blind faith the one unpardonable sin", er haft eftir Thomas Henry Huxley.  Ég er þessu fullkomlega sammála.

Ágúst H Bjarnason, 22.7.2010 kl. 06:53

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Já Ágúst, þú hefur sagt þetta álit þitt áður, fínt að fá það svona útlistað. Sjáum til hvort ég nenni að svara þessu (við höfum sennilega svarað flestu af þessu oftar en einu sinni), en það væri náttúrulega fanatík af verstu gerð að fara útlista mörg af svörunum fyrir þig aftur :)

En lokaspurningunni ætla ég að svara: Það hentar ákveðnum hópi að láta líta út fyrir að loftslagsvísindin beri merki trúarbragða...til að gefa þeim neikvæða mynd, þ.a.l. er oft vitnað í samsæriskenningar eins og þær sem komu upp í þessu svokallaða Climategate-máli, sem þú vitnar enn til (óbeint hér að ofan).

Spurning til þín Ágúst: Jaðrar það ekki við trúarbrögt að afneita því að jörðin sé að hlýna (eða jafnvel að hún sé að kólna), þrátt fyrir gögn þar um, "boða" kuldaköst sem ekki eru líkleg fyrir að vera yfirvofandi eða segja að magn hafíss á Norðurskautinu sé ekki að minnka þrátt fyrir skýr gögn um hið gagnstæða? - Svo eitthvað sé nefnt...

Sveinn Atli Gunnarsson, 22.7.2010 kl. 08:19

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Svatli

Þú mátt ekki taka þessa stríðni mína allt of bókstaflega.  Ég stóðst bara ekki mátið, því það er ekki á hverjum degi sem fjallað er um þetta sjónarhorn. Auðvitað tíndi ég til ýmislegt sem mér kom í hug í morgun, rétt sísona til að vera á öndverðum meiði.  .

Svo er í góðu lagi að henda út fyrri athugasemdinni þar sem ég klúðraði málum nývaknaður og sendi tvisvar...

Sem sagt, ég skrifaði þetta meira í gamni og af stríðni en alvöru .

Ágúst H Bjarnason, 22.7.2010 kl. 08:31

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ok, gott að vita það Ágúst, eyði fyrri athugasemdinni:)

Sveinn Atli Gunnarsson, 22.7.2010 kl. 08:40

7 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ágúst:

1) Að nota bestu mögulegu þekkingu vísindamanna nú til að reyna að koma í veg fyrir verri afleiðingar loftslagsbreytinga er almenn skynsemi - ekki trúarbrögð.

2) Þetta kallast að nota þekkingu vísindamanna á eðlisfræði lofthjúpsins og útskýra veðurfyrirbæri út frá þeim - ekki trúarbrögð.

3) "Heimsendaspámenn" - "ekki hitnað marktækt í áratug". Það mætti halda að þú hafir verið að lesa eitthvert trúarrit afneitunarsinna og trúir hverju orði sem þar stendur.

4) Þótt yfirvofandi ísöld hafi verið í fjölmiðlum á áttunda áratugnum, þá var stór hluti vísindamanna þá þegar farnir að íhuga hlýnun af mannavöldum. Það eru aftur undarlegir spámenn sem þú vitnar oft í sem að eru að vara við kólnun - þvert á það sem gögn vísindamanna segja. Trúarbrögð?

5) Að vera ósáttur við kerfið sem notað er til að reyna að draga úr loftslagsbreytingum af mannavöldum, er engin ástæða til að hunsa það sem vísindamenn segja um afleiðingar losunar manna á CO2. Það er allra að taka þátt í að finna lausn.

6) Að nota bestu tólin til að hjálpa sér við vísindaleg störf er fullkomlega eðlilegt og á ekkert skylt við trúarbrögð. Þegar tugir mismunandi tölvulíkana sýna samskonar niðurstöðu - og studd eru t.d. eldri spám sem hafa gengið eftir og ná að líkja eftir loftslagi aftur í tíman (sjá t.d. Geta vísindamenn spáð fyrir um loftslag?) - þá er virkilega óskynsamlegt að taka ekki mark á þeim.

7) Hvaða lista PNAS ertu að tala um? Ertu virkilega að gefa það í skyn að Proceedings of the National Academy of Science noti einhvern svartan lista? Heimildir takk.

8) Peningavald? Nefndu dæmi.

9) Nefndu eitthvað gruggugt í þessum tölvupóstum.

10) Al Gore? Þeir einu sem eru uppteknir af Al Gore eru þeir sem líta á hann sem djöfulinn - hver var að tala um trúarbrögð?

11) Mér finnst ritskoðun meira áberandi hjá þeim sem að skrifa gegn kenningunni um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Viltu að ég nefni dæmi?

Höskuldur Búi Jónsson, 22.7.2010 kl. 08:58

8 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Þessi undarlegi húmor Ágústar fór fram hjá mér - og því var þetta alvarlegt svar

Höskuldur Búi Jónsson, 22.7.2010 kl. 08:59

9 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Skemmtilegt djók hjá Ágústi, mér fannst fyndnast að hafa þetta í númeruðum liðum :)

Annars grunar mig að það liggi meira að baki hjá Ágústi en meinlítið grín í morgunsárið ;)

Sveinn Atli Gunnarsson, 22.7.2010 kl. 12:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband