Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Taktur loftslagsbreytinga síðastliðin 20 þúsund ár, á norður- og suðurhveli jarðar

Ein af rökum "efasemdamanna" um þátt manna í hinni hnattrænu hlýnun er að loftslagsbreytingar hafi alltaf orðið - og að hitasveiflur eins og nú eru, séu tíðar þegar skoðuð eru gögn um fornloftslag.

Ný rannsókn sem loftslagsfræðingur í háskólanum í Lundi - Svante Björck - birti fyrir skömmu, bendir til þess að miklar hitasveiflur gerist yfirleitt ekki á sama tíma á norður- og suðurhveli jarðar. Þettta á við um síðastliðin 20 þúsund ár, en það er eins langt aftur og nægilega nákvæm loftslagsgögn beggja hvela jarðar ná aftur. Þessi greining Svante nær því um 14 þúsund árum lengur aftur í tíman en fyrri sambærilegar greiningar.

Margskonar gögn eru notuð sem vísar að fornloftslagi - t.d. kjarnar úr botnseti úthafa og stöðuvatna, úr jöklum og fleira. Í þeim gögnum má lesa hvernig breytingar verða í hitastigi, úrkomu og samsetningu lofthjúpsins.


Ýmsar hitaraðir sem sýna hitastig jarðar á nútíma (holocene - af wikipedia.org).

Höfundur telur að sú hitaaukning sem nú er að gerast, sé harla óvenjuleg í jarðfræðilegu tilliti. Með því að grandskoða greinar og gögn um fornloftslag reyndi hann að finna atburði sem hefðu svipuð áhrif samtímis á norður- og suðurhveli jarðar - síðastliðin 20 þúsund ár. Ekkert slíkt kom í ljós í gögnunum. Þess í stað fann hann tilfelli þar sem hitastig rís á öðru hvelinu en lækkar eða stendur í stað á hinu.

Samkvæmt greiningu höfundar, þá gerast vissulega breytingar samtímis á báðum hvelum - líkt og breytingin yfir í hlýskeið ísaldar. Þær breytingar eru þá af völdum svokallaðra Milankovich sveifla (breytingar í möndulhalla, fjarlægð frá sólu og möndulsnúningssveiflu - sjá fyrri loftslagsbreytingar). Stuttar sveiflur sem eru sambærilegar á báðum hvelum eru síðan tengd sérstökum atburðum - t.d. loftsteinaárekstrum eða eldvirkni sem þá nær að dreifa ösku um allan hnöttin sem dæmi.

En annað kemur í ljós þegar skoðaðar eru stærri skammtímasveiflur eins og t.d. svokallaða Litla-ísöldin - sem stóð yfirf rá um 1600-1900 - en það var óvenjukalt tímabil í Evrópu. Mikill uppskerubrestur varð og efnahagskerfi Evrópu bar afhroð. Hér á landi stækkuðu jöklar og hafísár urðu tíðari. Þann kulda er hins vegar ekki að finna á suðurhveli jarðar á sama tíma.

Nú, aftur á móti, eru að verða hnattrænar breytingar, samkvæmt höfundi. Styrkur gróðurhúsalofttegunda er að aukast gríðarlega og á sama tíma er hnattrænn hiti að aukast - bæði á norður- og suðurhveli jarðar. Sambærileg tímabil hitabreytinga af óútskýrðum völdum finnast ekki síðastliðin 20 þúsund ár. Því verður að líta svo á að núverandi loftslagsbreytingar séu óvenjulegar og vegna breytinga í kolefnishringrás jarðar, sem er af mannavöldum.

Það má því segja - að sambærilegar loftslagsbreytingar og eru að verða nú, eru óþekktar síðastliðin 20 þúsund ár.

Heimildir og ítarefni

Unnið upp úr efni af heimasíðu Lund háskólans, sjá New study shows no simultaneous warming of northern and southern hemispheres as a result of climate change for 20.000 years

Greinin birtist í tímaritinu Climate Research, Svante Björck 2011: Current global warming appears anomalous in relation to the climate of the last 20 000 years

Tengt efni af loftslag.is


Hitastig í desember og árið í heild á heimsvísu

Hitastig desember mánaðar 2011 og svo endanleg niðurstaða ársins samkvæmt NCDC hefur nú verið kunngjörð. Árið endaði sem það 11. hlýjasta samkvæmt tölum NCDC, sem er hlýjasta La Nina ár frá því farið var að halda utan um þess háttar gögn (samkvæmt gögnum NASA GISS, þá er árið það 9. hlýjasta). Í upphaf árs 2011 fórum við yfir horfur hitastigs árið 2011, Náttúrulegur breytileiki og horfur fyrir árið 2011 – það virðist vera sem þær vangaveltur hafi í stórum dráttum gengið eftir. Desember árið 2011 var 10. heitasti desember frá upphafi mælinga og árið endaði sem 11. heitasta samkvæmt gagnasafni NCDC.

...

Það má lesa nánar um þetta og skoða gröf, töflur og myndir á loftslag.is, Hitastig í desember og árið í heild á heimsvísu

Tengt efni á loftslag.is

 

 


2011 La Nina árið heita

Eins og kemur fram í fréttinni (sem tengt er við) þá náði síðasta ár ekki heitustu árunum. Ástæða þess virðist eins og kemur fram í fréttinni (óljóst) vera vegna þess að ENSO sveiflan í Kyrrahafinu er í La Nina takti. Eigi að síður er um að ræða metár, því þrátt fyrir öfluga La Nina (sú öflugasta í 60 ár) þá er óvenju heitt og heitara en flest ár síðustu aldar.

La Nina, sem er partur af náttúrulegri sveiflu í Kyrrahafinu (ENSO -El Nino), einkennist af því að stórt svæði Kyrrahafsins hefur óvenjulega kaldan yfirborðshita sjávar nálægt miðbaug. Sú sveifla hefur áhrif á loftslag hnattrænt með því að hafa áhrif á loft-og sjávarstrauma. Áhrifa La Nina hefur t.d. aukið á þurrkana í Texas og haft áhrif á hina óvenjumiklu úrkomu sem verið hefur í austur Ástralíu og suður Asíu á þessu ári.

Frávik í hitastigi jarðar og samband þess við La Nina ár (blá) samanborið við önnur ár (rauð). Mynd WMO.

Samkvæmt WMO þá er hnattrænt hitastig La Nina ára venjulega um 0,10-0,15°C lægra en árin á undan og eftir.  2011 fylgir þessu mynstri en er jafnframt heitasta La Nina ár síðan mælingar hófust. Myndin hér að ofan sýnir það greinilega. Svo virðist sem leitni hinnar hnattrænu hlýnunar af mannavöldum sé orðin það sterk að óvenjusterk La Nina nær ekki að lækka hitastig jarðar hnattrænt af ráði.
 
 Tengt efni á loftslag.is
 

mbl.is 2011 var 11. heitasta árið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háfjallaplöntur hverfa

GLORIA_Nevadensia_purpurea_e360_galleryNý rannsókn bendir til þess að loftslagsbreytingar  valdi meiri breytingum á háfjallaflóru en áður hefur verið talið og að sumar blómategundir geti horfið endanlega innan nokkurra áratuga.

Eftir söfnun sýna frá 60 fjallatoppum í 13 Evrópulöndum – árin 2001 og 2008 – þá komst teymi evrópskra vísindamanna að því að kulsæknar plöntur  eru að hörfa á kostnað þeirra planta sem þrífast betur við hlýnandi loftslag. Fyrri rannsóknir höfðu bent til svipaðra niðurstaðna staðbundið, en hér hefur þessu verið lýst í fyrsta skipti yfir heila heimsálfu.

Hraði þessara breytinga hefur komið á óvart, en plöntur sem reyna að flytja sig um set með landnámi ofar í hlíðum fjallatinda lenda óhjákvæmilega að endamörkum við áframhaldandi hlýnun.

Heimildir og ítarefni

Greinina má finna í Nature Climate Change, Gottfried o.fl. 2012 (ágrip): Continent-wide response of mountain vegetation to climate change

Þessi rannsókn var unnin í tengslum við GLORIA verkefnið: Global Observation Research Initiative in Alpine Environments

Tengt efninu er grein í Náttúrufræðingnum 2008, eftir Hörð Kristinsson (hér ágrip): Fjallkrækill – Fyrsta fórnarlamb hlýnandi loftslags á Íslandi

Tengt efni á loftslag.is


Ted | Myndskeið af hreyfingu jökla

Téður James Balog hefur verið duglegur að taka myndir af jöklum í gegnum tíðina og má sjá  fróðleg myndbönd í færslu á loftslag.is, þar sem verkefni á hans vegum er til umræðu. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að hann hafi sýnt fram á að jökull hafi horfið á tiltölulega stuttum tíma, þar sem lang flestir jöklar hopa nú um stundir.

Í myndbandi frá TED, sýnir ljósmyndarinn James Balog okkur myndskeið frá Extreme Ice Survey verkefninu, sem er net tímastilltra myndavéla sem taka upp hreyfingu jökla. Flestir jöklar eru að hopa og hop þeirra er talið vera skýrt merki um yfirstandandi loftslagsbreytingar. Í myndbandinu útskýrir Balog hvernig verkefnið fer fram. Hann sýnir hvernig breytingar á jöklunum verða sýnilegar þegar notast er við myndir þær sem fást með notkun myndavélanna í verkefninu. Það er áhugavert að sjá þann mismun sem er á jökuljaðrinum á milli ára, sem væri erfiðara sjá ef ekki væri notast við myndavélarnar í verkefninu. Nánar er hægt að lesa um James Balog og fá tengla á verkefnið, hér.

[...]

Myndbandið má sjá á loftslag.is, Ted | Myndskeið af hreyfingu jökla

Tengt efni á Loftslag.is:


mbl.is Jökull hvarf á fjórum árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grænlandsjökull dökknar og bráðnar hraðar

Hvítt yfirborð Grænlandsjökuls endurkastar rúmlega helming þess sólarljóss sem fellur á hann. Þessi eiginleiki hjálpar jöklinum við að viðhalda sér:  minni gleypni sólarljóss þýðir minni hlýnun og bráðnun.  Undanfarinn áratug hafa gervihnattamælingar sýnt breytingu í endurskini jökulsins. Dökknandi yfirborð hans gleypir meiri orku frá sólarljósinu og hraðar bráðnunina.

Myndin hér fyrir ofan sýnir hlutfallslega breytingu á endurkasti sólarljóss frá yfirborði Grænlandsjökuls sumarið 2011, samanborið við meðaltal þess milli áranna 2000 og 2006 - samkvæmt gögnum frá gervihnöttum NASA. Nánast öll jökulbreiðan er blálituð sem bendir til þess að jökullinn hafi endurkastað allt að 20% minna síðastliðið sumar en fyrri hluta síðasta áratugs.

[.]

Sjá færsluna í heild á loftslag.is: Grænlandsjökull dökknar og bráðnar hraðar

Tengt efni á loftslag.is

 


Er von á nýju kuldaskeiði ísaldar

Hér er endurbirt færsla af loftslags.is frá því í fyrravetur og fjallar um sambærilegt efni og fréttin á mbl.is sem tengt er við. Í fréttinni er vísað í nýja grein sem ritstjórar loftslag.is eru ekki búnir að lesa en verður mögulega fjallað um á næstu dögum.

Það virðast rúmast vel innan marka rökfræðilistarinnar hjá þeim sem efast um hlýnun jarðar af mannavöldum að halda tvennu fram: Annars vegar að vísindamenn hafi spáð ísöld á áttunda áratugnum og því hafi þeir rangt fyrir sér nú og hins vegar að halda því fram að það muni ekki hlýna - heldur kólna og að jafnvel sé yfirvofandi önnur Litla Ísöld eða jafnvel nýtt kuldaskeið Ísaldar.

Þessi viðvörun er merkileg í ljósi þess að þeir sem vara við afleiðingum hlýnunar jarðar af mannavöldum, eru oft á tíðum kallaðir "Alarmistar" - í samhengi við það að margir efasemdamenn vara við yfirvofandi kólnun og meðfylgjandi erfiðu tíðarfari. En við skulum líta aðeins á hvað er til í því að kuldatímabil eða kuldaskeið sé í vændum.

Litla Ísöldin og núverandi hlýnun

Það er ekki langt síðan jörðin gekk í gegnum kuldatímabil sem kallað er Litla Ísöldin (sveiflur eru miklar frá mismunandi stöðum á jörðinni, en almennt er talið að hún hafi staðið frá sautjándu öld og fram til miðja nítjándu öld - sumir vilja meina að hún hafi byrjað mun fyrr jafnvel á þrettándu-fjórtándu öld). Við skulum láta það liggja á milli hluta hvort þá hafi verið töluverð hnattræn kólnun eða lítilsháttar og að einhverju leiti staðbundin kólnun - um það eru menn ekki sammála.

Það er þó ljóst að hitastig hafði farið hægt lækkandi allavega síðustu 2000 ár, sérstaklega á svæðinu umhverfis Norðurskautið (Kaufman o.fl 2009).

Myndin sýnir langvarandi kólnun á Norðurskautinu, sem endaði snögglega við upphaf iðnbyltingarinnar og með mikilli hlýnun síðastliðin 50 ár. Bláa línan sýnir mat á hitastig út frá proxýgögnum úr vatnaseti, ískjörnum og trjáhringum. Græna beina línan sýnir að leitnin var í átt til kólnunar. Rauða línan sýnir bein mæligögn á hitastigi. Mynd úr Science, breytt af UCAR.
Myndin sýnir langvarandi kólnun á Norðurskautinu, sem endaði snögglega við upphaf iðnbyltingarinnar og með mikilli hlýnun síðastliðin 50 ár. Bláa línan sýnir mat á hitastigi út frá proxýgögnum úr vatnaseti, ískjörnum og trjáhringum. Græna beina línan sýnir að leitnin var í átt til kólnunar. Rauða línan sýnir bein mæligögn á hitastigi. Mynd úr Science, breytt af UCAR.

Samkvæmt Kaufman o.fl (2008) þá útskýra breytingar í sporbaug jarðar að mestu leiti þessa hægfara niðursveiflu í hitastigi (sjá umfjallanir Einars Sveinbjörnssonar um hjámiðjusveifluna og um grein Kaufmans o.fl).

Hlýnun jarðar af mannavöldum hefur strokað út þá kólnun sem orðið hefur undanfarin nokkur þúsund ár, sem orðið hafa vegna breytinga í sporbaug jarðar (Mynd: National Science Foundation)
Hjámiðjusveiflan veldur því að jörðin er nú um 1 milljón kílómetra lengra frá sólu en fyrir 2000 árum (Mynd: National Science Foundation)

Þessi breyting á sporbaug jarðar er einn anginn í svokallaðri Milankovitch sveiflu. Hluti af niðursveiflunni sem varð rétt fyrir iðnbyltinguna má þó hugsanlega einnig rekja til virkni sólar, mikillar eldvirkni og eflaust líka í tímabundnum breytingum í hafstraumum sérstaklega þá í Evrópu (sjá t.d. Orsakir fyrri loftslagsbreytinga til nánari útskýringa á hlut þessara þátta).

Eins og komið er inn á hér rétt fyrir ofan, þá hefur virkni sólar örugglega átt sinn þátt í hluta af kólnuninni á Litlu Ísöld. Að sama skapi má skýra hluta af hlýnuninni frá miðri nítjándu öld og fram að miðri tuttugustu öld með breytingum í sólvirkni - en inn í það spilar einnig vaxandi magn CO2 í andrúmsloftinu, sem loks yfirkeyrir áhrif sveifla í sólinni upp úr miðri síðustu öld - tengslin rofna.

Sólvirkni (Total Solar Irradiance - TSI) síðustu alda. Gögn frá 1611 til 1978 eru frá Solanki. Gögn frá 1978 til okkar dags frá PMOD (af skepticalscience.com).
Sólvirkni (Total Solar Irradiance - TSI) síðustu alda. Gögn frá 1611 til 1978 eru frá Solanki. Gögn frá 1978 til okkar dags frá PMOD (af skepticalscience.com).

Það er mögulegt, miðað við núverandi niðursveiflu í sólvirkni að Sólin muni fara í sambærilega niðursveiflu og varð á sautjándu öld (Maunder Minimum) - um það er þó vonlaust að spá, sólin er óútreiknanleg hvað varðar sólvirkni, eins og komið hefur í ljós undanfarin ár - en fáir spáðu því að virkni hennar yrði sú minnsta í fyrra í yfir 100 ár.

Ef við gerum ráð fyrir að sambærileg sveifla verði á þessari öld og varð á þeirri sautjándu - hvaða áhrif hefði það á loftslagið?

Fyrst skilgreining:

Geislunarálag er skilgreint sem breyting á styrk varmageislunar á flatareiningu (t.d. W/m2) efst í veðrahvolfi... Geislunarálagið er jákvætt ef heildarbreyting í varmageislun í átt að yfirborði eykst, neikvæð annars (Umhverfisráðuneytið 2008).

Munurinn á geislunarálagi (e. radiative forcing) frá sólinni milli Maunder Minimum og síðustu áratugi er talinn vera á milli 0,17 W/m2 og 0,23 W/m2 (Wang o.fl 2005 og Krivova o.fl 2007). Þessi sveifla í geislunarálagi er ekki mikil - ef miðað er við geislunarálag koldíoxíðs (CO2) - en frá iðnbyltingunni hefur geislunarálag koldíoxíðs verið um 1,66 W/m2 (Umhverfisráðuneytið 2008). Það má því ljóst vera að hlýnun jarðar af völdum gróðurhúsalofttegunda (en magn þess eykst í andrúmsloftinu hröðum skrefum), mun halda áfram að yfirskyggja áhrif sólar. Jafnvel niðursveifla, sambærileg við Maunder Minimum, getur engan veginn náð að kæla Jörðina við þær aðstæður sem nú ríkja.

Hlýskeið og kuldaskeið Ísaldar

En loftslag Jarðarinnar hefur orðið fyrir mun meiri sveiflum en urðu á Litlu Ísöldinni. Fyrir um 50 milljónum ára var hitastig jarðar gjörólíkt því sem nú er í dag (sjá t.d. fréttina Pálmatré á norðurslóðum), en þá var hitastig í hæstu hæðum á svokallaðri Nýlífsöld (sem hófst fyrir um 65 milljónum ára). Smám saman minnkaði CO2 í andrúmsloftinu (líklega af völdum breytinga í jafnvægi bindingar og losunar CO2 af völdum lífvera og vegna minnkandi eldvirkni og breytinga í flekahreyfingum) og hitastig lækkaði í kjölfar þess - fyrir um 40 milljón árum tók að myndast jökull á Suðurskautinu sem ásamt minnkandi magni CO2 jók á kólnunina (magnandi svörun). Djúpsjávarhitastig hefur verið áætlað fyrir Nýlífsöldina (Hansen o.fl. 2008) og sýnir þróunina nokkuð vel:

Sveiflur í djúpsjó jarðar. Mynd a sýnir sveiflur í magni súrefnis18 samsætunni og hvenær jöklar á Suður- og Norðurhveli jarðar byrja að myndast. Mynd b sýnir túlkun á hitastigi djúpsjávar miðað við magn súrefnissamsæta í setlögum (Hansen o.fl. 2008)
Sveiflur í djúpsjó jarðar. Mynd a sýnir sveiflur í magni súrefnis18 samsætunni og hvenær jöklar á Suður- og Norðurhveli jarðar byrja að myndast. Mynd b sýnir túlkun á hitastigi djúpsjávar miðað við magn súrefnissamsæta í setlögum (Hansen o.fl. 2008)

[Ath: Þessi mynd sýnir meira hvernig hitastig var á pólunum, þaðan sem djúpsjórinn er upprunninn, heldur en hnattrænt hitastig]

Allt er þetta afskaplega áhugavert og verður mögulega fjallað um það síðar hér á loftslag.is og þá einnig hitastig fyrr á Nýlífsöldinni - en margt áhugavert var á seiði, sérstaklega fyrstu 10-15 milljón árin í byrjun Nýlífsaldar, sem einnig á erindi við pælingar um loftslag framtíðar. En til að gera langa sögu stutta, þá erum við að fjalla núna um síðasta hluta þessarar myndar hér fyrir ofan - en fyrir um 2,6 milljónum ára byrjaði Ísöldin (tímabilið Pleistósen). Við erum nú stödd á hlýskeiði ísaldar og ef allt væri eðlilegt þá myndi koma kuldaskeið eftir einhvern ákveðinn tíma - en hversu langt er í næsta kuldaskeið?

Bestu gögnin sem til eru um hitastig á Ísöld ná nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann og eru fengin með borunum í þykkar ísbreiður á Suðurskautinu og Grænlandi. Sem dæmi er myndin hér fyrir neðan, en hún sýnir hitastig úr ískjarna við Vostok á Suðurskautinu. Þessi mynd sýnir miklar sveiflur í hitastigi - löng kuldaskeið og styttri hlýskeið.

Hitasveiflur í Vostok. Grænu strikin sýna hlýskeið (af skepticalscience.com).
Hitasveiflur í Vostok. Grænu strikin sýna hlýskeið (af skepticalscience.com).

Hvað útskýrir þessar sveiflur? Eins og kom fram hér fyrir ofan, þá hafði CO2 minnkað mikið í andrúmsloftinu - auk þess sem magnandi svörun af völdum endurkasts jökla og hafíss hafði þar töluverð áhrif - en það útskýrir ekki frumástæðu þessara sveifla í hitastigi á Ísöld. Ástæður sveiflanna er að finna í svokallaðri Milankovitch sveiflu - en sú sveifla er samanlögð áhrif á breytingum á möndulhalla, möndulmiðju (möndulsnúningur) og hjámiðju (breytingar í sporbaug jarðar) (sjá útskýringu á Orsakir fyrri loftslagsbreytinga).

Þessar breytingar valda því að ágeislun sólar (e. insolation - sjá næstu mynd) minnkar á Norðurhveli jarðar yfir sumartímann - Jöklar (+snjór og ís) bráðna því minna yfir sumartímann og smám saman vaxa þeir. Við það eykst endurkast sólgeisla frá jörðinni, þannig að magnandi svörun veldur því að smám saman kólnar og meira endurkast verður. Önnur magnandi svörun hjálpar til, þ.e. hafið kólnar og tekur til sín meira af CO2 sem kælir enn frekar - kuldaskeið byrjar. Hið sama gildir með öfugum formerkjum þegar hlýskeið byrja - en það gerist mun hraðar, því að jöklar stækka hægar heldur en þeir minnka.

Hlýskeið eru ekki öll jafn löng - enda er Milankovitch sveiflan (sem að setur smám saman af stað hlý- og kuldaskeið ísaldar) flöktandi. Svipuð Milankovich sveifla var á hlýskeiðinu fyrir 420 þúsund árum og í dag. Þá varaði hlýskeiðið í um 28 þúsund ár - sem bendir til þess að núverandi hlýskeið myndi vara jafn lengi, þ.e. án áhrifa frá mönnum (Augustin o.fl. 2004). Aðrar athuganir á geislunarálagi vegna sveifla Milankovitch benda til þess að jafnvel án losunar manna á CO2, þá hefði hlýskeiðið enst í 50 þúsund ár (Berger og Loutre 2002).

Efsta myndin sýnir langtímabreytingar í sporbaug jarðar, miðjumyndin sýnir ágeislun sólar (insolation) í júní á 65. breiddargráðu og neðsta myndin líkan sem sýnir massabreytingu jökla (eykst niður á við), frá því fyrir 200 þúsund árum og 130 þúsund ár fram í tíman (til vinstri). Þrjár sviðsmyndir eru notaðar fyrir framtíðina: Sama magn og var á síðasta hlýskeyði (Svört lína), aukning af mannavöldum upp í 750 ppm (rauð strikalína) og stöðugt magn upp á 210 ppm (rauð punktalína).
Efsta myndin sýnir langtímabreytingar í sporbaug jarðar (hjámiðju), miðjumyndin sýnir ágeislun sólar (insolation) í júní á 65. breiddargráðu og neðsta myndin líkan sem sýnir massabreytingu jökla (eykst niður á við), frá því fyrir 200 þúsund árum og 130 þúsund ár fram í tíman (til vinstri). Þrjár sviðsmyndir eru notaðar fyrir framtíðina: Sama magn og var á síðasta hlýskeyði (Svört lína), aukning af mannavöldum upp í 750 ppm (rauð strikalína) og stöðugt magn upp á 210 ppm (rauð punktalína) - Berger og loutre 2002.

Auðvitað skiptir spurningin, hversu lengi hlýskeið jarðar endist EF mennirnir hafa engin áhrif, litlu máli. Við höfum áhrif. Þá kemur athyglisverð spurning: Hvaða áhrif hefur losun manna á framtíð núverandi hlýskeiðs?

Kannað hefur verið hversu mikil áhrif aukin losun á CO2 myndi hafa á tímasetningu næsta kuldaskeiðs - þ.e. hversu mikil minnkun í ágeislun sólar (e. insolation - sjá miðjumyndina í síðustu mynd) þyrfti að verða til að hrinda af stað jökulskeiði miðað við losun CO2 (Archer 2005). Í ljós kom að því meira sem væri af CO2 í andrúmsloftinu, því minni þyrfti ágeislun sólar vera til að hleypa af stað kuldaskeiði:

Myndin sýnir áhrif aukningar CO2 á framtíðarhitastig jarðarinnar. Græn lína sýnir náttúruleg gildi, blá sýnir afleiðingar losunar á um 300 gígatonnum C, appelsínugul sýnir losun á 1000 gígatonnum C og rauð sýnir 5000 gígatonn C (Archer 2005).
Myndin sýnir áhrif aukningar CO2 á framtíðarhitastig jarðarinnar. Græn lína sýnir náttúruleg gildi, blá sýnir afleiðingar losunar á um 300 gígatonnum C, appelsínugul sýnir losun á 1000 gígatonnum C og rauð sýnir 5000 gígatonn C (Archer 2005).

[Ath: Til samræmis við greinina (Archer 2005) þá nota ég tölur um magn C en ekki CO2 eins og oftast er gert. En 1 gígatonn C jafngildir sirka 3,6 gígatonnum CO2.]

Frá upphafi iðnbyltingarinnar hefur losun samtals verið yfir 340 gígatonn C (áætluð tala - sem jafngildir yfir 1200 gígatonnum af CO2), sem er rúmlega það sem sýnt er á myndinni hér fyrir ofan með blárri línu. Ef losun hefði verið stoppuð á þeim tímapunkti sem farið var yfir 300 gígatonna markið þá hefðu áhrifin ekki orðið mikil og kuldaskeið Ísaldar væntanlega hafist eftir sirka 50 þúsund ár. Við losun á 1000 gígatonnum þá hefði kuldaskeið hafist eftir 130 þúsund ár og við losun á 5000 gígatonnum þá er áætlað að kuldaskeið myndi hefjast eftir hálfa milljón ár.

Eins og staðan er núna þá eru því allar líkur á að það hlýskeið sem hófst fyrir rúmlega 10 þúsund árum (11.700 árum) verði lengsta hlýskeiðið í sögu Ísaldar - vegna veiks geislunarálags af völdum Milankovitch sveifla og langs líftíma CO2 sem hefur sterkt geislunarálag, sem mun aðeins aukast á næstu árum og áratugum.

Niðurstaða

Það er því ljóst að allir spádómar um að yfirvofandi sé kuldatímabil, sambærilegt við Litlu Ísöldina, eru ótímabærir. Magn gróðurhúsalofttegunda er orðið slíkt í andrúmsloftinu að það mun yfirskyggja sambærilega niðursveiflu í sólvirkni eins og varð á 17. öld (Maunder Minimum) um langa framtíð (vegna langlífi gróðurhúsaáhrifalofttegundarinnar CO2).

Þá er einnig ljóst að við þurfum að bíða enn lengur eftir að nýtt kuldaskeið Ísaldar hefjist á næstunni. Þótt engin hefði orðið losun á CO2 út í andrúmsloftið - þá hefði næsta kuldaskeið byrjað í fyrsta lagi eftir um 15 þúsund ár ef miðað er við sambærilegt hlýskeið og er núna- eða samkvæmt bestu útreikningum á væntanlegri ágeislun sólar, eftir um 50 þúsund ár. Þá er ljóst að ef losun heldur áfram sem horfir, þá gæti hlýskeiðið orðið mun lengra en það.

Þeir sem enn eru í einhverjum vafa um að kuldaskeið sé í vændum, ættu að skoða hvort einhver sönnunargögn bendi til þess að kuldaskeið sé í vændum. Jöklar um allan heim eru að hopa hratt, sífreri á norðurslóðum fer minnkandi, hafís norðurskautsins er að minnka og allt þetta er að gerast á vaxandi hraða. Samkvæmt bestu vitneskju vísindamanna, þá eru þetta ekki beint aðstæður sem benda til þess að kuldaskeið sé væntanlegt.

Heimildir og ítarefni

Augustin o.fl 2004: Eight glacial cycles from an Antarctic ice core
Archer 2005: A movable trigger: Fossil fuel CO2 and the onset of the next glaciation
Berger og Loutre 2002: An Exceptionally Long Interglacial Ahead?
Hansen o.fl. 2008: Target Atmospheric CO2: Where Should Humanity Aim?
Kaufman o.fl. 2009: Recent Warming Reverses Long-Term Arctic Cooling
Krivova o.fl. 2007: Reconstruction of solar total irradiance since 1700 from the surface magnetic flux
Wang o.fl 2005: Modelling the Sun's magnetic field and irradiance since 1713

Umhverfisráðuneytið 2008: Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi

Sjá einnig heimasíðuna Skeptical Science: We’re heading into an ice age

Tengdar efni af loftslag.is:


mbl.is Segja að næstu ísöld muni seinka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mýtan um yfirvofandi kuldatímabil

Á nýju ári förum við á loftslag.is hægt af stað, en rétt er að hita upp með stórgóðu myndbandi frá Greenman (Peter Sinclair). Þar veltir hann fyrir sér algengri mýtu um yfirvofandi kuldatímabil, gefum honum orðið:

Einn af gullmolum þeirra sem afneita hnattrænni hlýnun, er mýtan um hina yfirvofandi Ísöld

Eins og venjulega, þá tekst afneitunarsinnum með sinni hávaðavél að snúa út úr því sem raunverulegur vísindamaður segir um rannsókn sína — að í rannsókninni sé engin spá um ísöld – hvort heldur hún yrði lítil eða stór.

 

---

Myndbandið má sjá á loftslag.is, Mýtan um yfirvofandi kuldatímabil

Tengt efni á loftslag.is

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband