Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Efasemdir um hnattræna hlýnun – Leiðarvísir

ForsíðaÁ síðasta ári kom út ítarlegur leiðarvísir hér á loftslag.is. Hann var unninn í samvinnu við við hina stórgóðu heimasíðu Skeptical Science. Það er leiðarvísirinn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir, sem er íslensk þýðing á  The Scientific Guide to Global Warming Skepticism sem John Cook og félagar á Skeptical Science tóku saman.

Við ritstjórar á loftslag.is unnum að þýðingunni með dyggri aðstoð góðra manna, en Halldór Björnsson og Emil H Valgeirsson lásu yfir textann og bættu málfar og orðaval.

Við birtum hér aftur fyrsta kafla hans og vísum í næstu kafla í kjölfarið (sjá tengla í lok færslunnar).

Hvað er efahyggja?

Nánar má lesa um efahyggju og fleira úr leiðarvísinum á loftslag.is, sjá Efasemdir um hnattræna hlýnun – Leiðarvísir

 

Næstu kaflar

Lesa má leiðarvísinn í heild hér:  Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir, en þeir sem vilja skjótast í einstaka kafla hans og nálgast myndirnar á stafrænu formi er bent á eftirfarandi:


Afneitunargeitin jarmar lágt

Sveinn Atli skrifaði góða færslu um afneitunargeitina í gær (sjá Afneitunargeitin [Denial-gate]).  Í tilefni þess að skortur er á umfjöllun fréttamiðla hér á landi um þetta mál og algjöra þögn “efasemdamanna” þá vil ég bæta við eftirfarandi:

Rök venjulegra “efasemdamanna” gegn hinni hnattrænu hlýnun af mannavöldum eru þessi og þeir fara niður listann eftir því hvernig staðan er í umræðunni hvert skipti og reyna við hvert tækifæri að færa sig ofar í listann:

1. Það er engin hlýnun.
2. Það er hlýnun en hún er náttúruleg
3. Hlýnunin er af mannavöldum, en hlýnunin er góð.
4. Hlýnunin hefur hætt.
5. Það er of dýrt að gera nokkuð í þessu.
6. það væri í lagi að reyni að gera eitthvað… (síðan er ekkert gert).

Til að finna röksemdir sem styðja við þennan lista, þá leita “efasemdamenn” nær undantekningalaust í smiðju þeirra sem hafa verið dyggilega studdir með gríðarlegum fjárhæðum af Heartland stofnuninni, eins og kemur fram í færslunni hans Sveins Atla.

Þeir sem fylgjast með umræðunni af einhverju viti ættu að  kannast við þær heimasíður og nöfn sem komu fram í færslu Sveins:

Meðal þess sem hefur komið fram eru gögn um fjármögnun margra “efasemdamanna”, m.a. hafa þeir Anthony Watts á WUWT, Craig Idso á CO2Science, Bob Carter og Fred Singer þáð umtalsverðar upphæðir, svo einhverjir fáir séu nefndir til sögunnar. Við höfum m.a. fjallað um þess “kappa” hér á síðum loftslags.is, sjá m.a. Miðaldaverkefnið (Craig Idso), Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun (Fred Singer o.fl.), Tengsl El Nino og langtíma hlýnunar hrakin (Bob Carter) og Staðnir að óvönduðum vinnubrögðum (Anthony Watts). Þeir félagar hafa hver um sig þegið umtalsverðar upphæðir, jafnframt því að vera framarlega í heimi loftslags afneitunarinnar.

Hægt væri að nefna fleiri sem hafa fengið styrki til að strá efasemdasykurhúð yfir vísindin (meðal annars má nefna skýrsluna NIPCC en hún hefur meira að segja ratað inn í heimildalista BS-ritgerðar frá HÍ sem er hneyksli út af fyrir sig).

Þessi efasemdasykurhúð er þunn og undir henni eru bitur og sönn vísindi – vísindi sem sýna fram á að yfirgnæfandi líkur séu á að hlýnunin sé af mannavöldum, að hlýnunin eigi eftir að ágerast með áframhaldandi losun gróðurhúsalofttegunda (sérstaklega CO2) og að afleiðingar þessara loftslagsbreytinga geti orðið alvarlegar fyrir fjölmörg vistkerfi jarðar og manninn þar með (sjá bæklinginn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir).

Það sem þessir “kappar” eru því að gera, er ekki að styrkja þekkingaröflun á loftslagi jarðar. Þeir fá borgað fyrir að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að sýna fram á að, það sem kemur fram í listanum, sé rangt  (sjá 1-6 hér ofar og þá sérstaklega 1-4). Til þessa verks fá þeir nánast ótakmörkuð fjárráð.

Tilgangurinn:  Að viðhalda skammtímagróða þeirra sem dæla peningum í Heartland stofnunina.

Heimildir og ítarefni

Til að sjá byrjunina, kíkið á heimildir við færslu Sveins, neðst á síðunni (sjá Afneitunargeitin [Denial-gate])

Ágætar umfjallanir hafa einnig komið t.d. hér:

Skeptical Science:  DenialGate Highlights Heartland’s Selective NIPCC Science

NewScientist:  Leaked files expose Heartland Institute’s secrets

Tengt efni á loftslag.is


Afneitunargeitin [Denial-gate]

Vincent De Roeck goatÞað virðist vera komið upp nýtt "-gate" mál. Þeir sem hafa fylgst með umræðunni um loftslagsmál hafa vafalaust tekið eftir málum eins og hinu svokallað "climate-gate" máli, þar sem "efasemdamenn" um hnattræna hlýnun af mannavöldum fullyrtu út og suður um svik og pretti vísindamanna án þess að stoðir reyndust vera fyrir því í raun og veru. Þessi svokölluðu "geita" mál urðu fleiri, þar sem "efasemdamenn" fullyrtu um alls kyns falsanir vísindamanna (m.a. varðandi bráðnun jökla Himalaya og rannsóknir varðandi Amazon). Ekki er hægt að segja að þessum fullyrðingum þeirra hafi fylgt gögn sem gátu stutt mál þeirra (en tilgangurinn helgar jú meðalið). Að mestu leiti voru þetta staflausar fullyrðingar  og einskis verðir útúrsnúningar hjá hinum sjálfskipuðu "efasemdamönnum". Umræðu um þessi svokölluðu "geita" mál mátti einnig finna á bloggi "efasemdamanna" hér á landi og fóru menn mikinn oft á tíðum. Þegar öllu er á botnin hvolft þá eru þessi "climate-gate" mál hvorki fugl né fiskur. Við höfum hér á loftslag.is fjallað aðeins um þau mál og þann algera skort á rökum sem þau byggðu á. Það má í þessu ljósi líka nefna endalausan straum frétta af vísindamönnum sem voru hreinsaðir af tilbúnum ásökunum "efasemdamannanna", sjá t.d. Vísindamenn hreinsaðir af ásökunum um óheiðarlega meðferð gagna og Michael Mann sýknaður af vísindalegum misgjörðum svo eitthvað sé nefnt...

Nú er komið upp nýtt mál sem væntanlega mun ekki heyrast mikið um á síðum "efasemdamanna" - nema þá kannski til að benda á "ofsóknir" á hendur þeim eða um meintar falsanir í þeirra garð (já, það má segja að þeir kasti steinum úr glerhúsi). En hvað sem öðru líður, þá hefur málið fengið hið lýsandi nafn Denial-gate, eða eins og ég vel að kalla það hérna "afneitunargeitin". Málið fjallar um það að það hafa lekið út skjöl frá Heartland Institute varðandi fjármögnun "efasemdamanna", þ.e. hverjir standa fjárhagslega að baki "efasemdamönnum" svo og önnur viðkvæm skjöl. Fyrst var fjallað um þetta mál á Desmogblog.com, Heartland Institute Exposed: Internal Documents Unmask Heart of Climate Denial Machine. Það má því segja að hjarta afneitunarinnar í BNA hafi verið afhjúpað og sé í herbúðum Heartland Institute (sem m.a. tók þátt í að afneita tengslum tóbaks og krabbameins á sínum tíma - vanir menn í afneitunar faginu). Þetta mál byggist meðal annars á, því er virðist, skjölum úr ársreikningi Heartland Institute, þar sem m.a. er að hluta til sagt frá því hverjir þáðu styrki svo og hverjir veittu þá.

Meðal þess sem hefur komið fram eru gögn um fjármögnun margra "efasemdamanna", m.a. hafa þeir Anthony Watts á WUWT, Craig Idso á CO2Science, Bob Carter og Fred Singer þáð umtalsverðar upphæðir, svo einhverjir fáir séu nefndir til sögunnar. Við höfum m.a. fjallað um þess "kappa" hér á síðum loftslags.is, sjá m.a. Miðaldaverkefnið (Craig Idso), Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun (Fred Singer o.fl.), Tengsl El Nino og langtíma hlýnunar hrakin (Bob Carter) og Staðnir að óvönduðum vinnubrögðum (Anthony Watts). Þeir félagar hafa hver um sig þegið umtalsverðar upphæðir, jafnframt því að vera framarlega í heimi loftslags afneitunarinnar. Anthony Watts hefur fengið sem nemur rúmum 11 milljónum króna (um 90.000 USD) til að setja fram sínar "rannsóknir" þar sem hann var m.a. staðin að óvönduðum vinnubrögðum, Graig Idso fær sem nemur rúmri 1,4 milljónum á mánuði (11.600 USD), sem væntanlega er fyrir hans þátt og Miðaldaverkefni hans, Singer fær líka mánaðargreiðslur sem virðast nema minnst 600 þúsundum á mánuði (5.000 USD) plús kostnað. Þetta eru aðeins örfá dæmi um fjármögnun "efasemdamanna" eins og þau líta út í skjölum Heartland...en nánar má lesa um þetta á Desmogblog.com.

Að sjálfsögðu hefur Heartland Institute tjáð sig um málið og segja að eitt af aðalgögnunum sem lekið var sé tilbúningur (ætli það sé þá staðfesting á að hin skjölin séu úr þeirra herbúðum...ekki gott fyrir þá hvað sem öðru líður), en það var svo sem ekki við öðru að búast, en að þeir myndu klóra eitthvað í bakkann varðandi þetta mál. Ætli það megi ekki leyfa þeim að njóta vafans varðandi það plagg þar til annað kemur í ljós, þó ekki hafi "efasemdamenn" almennt talið nokkurn vafa um að vísindamenn væru með falsanir og svik í hinu svokallað "climate-gate" máli... En jæja, svona er þetta stundum, what goes around comes around, ying og yang og allt það...

Nánar má lesa um þetta mál á eftirfarandi stöðum:

Tengt efni á loftslag.is:


Súrnun sjávar nú meiri en síðastliðin 21 þúsund ár

Losun manna á CO2 út í andrúmsloftið síðastliðna öld, hefur aukið súrnun sjávar langt umfram það sem telja má til náttúrulegs breytileika. Það getur minnkað getu ýmissa sjávarlífvera (t.d. kórala og skelja) til að mynda beinagrind, stoðgrind eða skeljar, samkvæmt nýrri rannsókn (Friedrich o.fl. 2012).

Efri myndin sýnir hermun á yfirborðsmettun aragoníts fyrir árin 1800, 2012 og 2100. Hvítir punktar sýna hvar stærstu kóralrifin eru í dag. Neðri myndin sýnir styrk CO2 í andrúmsloftinu í ppm og mögulega þróun þess milli áranna 1750 og 2100.

Með loftslagslíkönum sem herma loftslag og aðstæður sjávar frá því fyrir um 21.000 árum síðan og til loka þessarar aldar – þá hefur teymi vísindamanna reiknað út að núverandi mettunarmörk aragóníts hafi nú þegar lækkað fimmfallt meira en hin náttúrulegu mörk voru fyrir iðnbyltinguna, á nokkrum mikilvægum svæðum fyrir kóralrif.

Aragónít er kalsíumkarbónat sem sumar sjávarlífverur nota meðal annars til skeljamyndunar og er lykilvísir í rannsóknum á súrnun sjávar. Þegar súrnun sjávar eykst þá lækka mettunarmörk arabóníts.

Ef bruni manna á jarðefnaeldsneytum heldur áfram með sama krafti og verið hefur, þá má búast við því að mettunarmörkin lækki enn frekar, sem gæti valdið því að kalkmyndun sumra sjávarlífvera gæti minnkað um 40% það sem af er þessari öld.

Heimildir og ítarefni

Umfjöllun um greinina má finna hér: Unprecedented, man-made trends in ocean’s acidity

Greinin í Nature Climate Change, eftir Friedrich o.fl. 2012 (ágrip). Detecting regional anthropogenic trends in ocean acidification against natural variability

Tengt efni á loftslag.is


Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar

Ef skoðaðar eru nokkrar nýlegar rannsóknir þar sem notaðar eru ýmsar mismunandi aðferðir til að meta hversu stór hlutur hinnar hnattrænu hlýnunnar er af völdum náttúrulegra áhrifaþátta og hversu stór hluti er af mannavöldum, þá kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Hér verður farið yfir niðurstöður þessarra rannsókna til að sjá hvað vísindamenn og gögn þeirra hafa að segja okkur um hvað það er sem er að valda hinni hnattrænu hlýnun.

Allar þessar rannsóknir, sem beita mismunandi aðferðum og nálgunum, gefa góðar vísbendingar um að það séu menn sem eru að valda hinni hnattrænu hlýnun á síðustu öld og þá sérstaklega á síðustu 50 til 65 árum (mynd 1).

Mynd 1: Heildar hlutur manna og náttúrunnar í hinni hnattrænu hlýnun sem orðið hefur síðastliðin 50-65 ár, samkævmt Tett o.fl. 2000 (T00, dökkblátt), Meehl o.fl. 2004 (M04, rauður), Stone o.fl. 2007 (S07, grænn), Lean og Rind 2008 (LR08, fjólublár), Huber og Knutti 2011 (HK11, ljósblár), og Gillett o.fl. 2012 (G12, appelsínugulur). Smelltu á mynd til að stækka.

Athugið að tölur í þessu yfirliti er besta mat úr hverri grein. Til einföldunar er skekkjumörkum sleppt, en tenglar eru í hverja grein fyrir þá sem vilja kynna sér málið nánar, neðst á síðunni.

Hverjir eru helstu áhrifaþættir á hitastig jarðar?

Flestar þær greinar sem fjalla um áhrifaþætti á hitastig jarðar, fjalla um gróðurhúsalofttegundir, sólvirkni, eldvirkni, örðulosun af mannavöldum og El Nino sveifluna enda eru þetta þeir þættir sem ráða hve mestu um hitastig á hverjum tíma.

Eins og þekkt er, þá veldur losun manna á gróðurhúsalofttegundum (GHG) því að hiti jarðar eykst samfara auknum styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu - hin auknu gróðurhúsaáhrif.

Sólvirkni hitar eða kælir jörðina eftir því hvort inngeislun frá sólinni inn í lofthjúp jarðar eykst eða minnkar.

Eldvirkni getur valdið skammtímakólnun á jörðinni með því að þeyta súlfat örðum (e. sulfate aerosols) út í andrúmsloftið, en mikið magn þeirra í efri lögum lofthjúpsins dregur úr inngeislun sólarljóss og minnkar magn þess sem nær yfirborði jarðar.  Þannig örður eru ekki langlífar og skolast úr andrúmsloftinu á 1-2 árum. Því hefur eldvirkni yfirleitt bara skammtímaáhrif á hitastig, nema það komi tímabil þar sem eldvirkni er annað hvort óvenjuulega mikil eða lítil.

Örðulosun af mannavöldum -mest brennisteins díoxíð (SO2) - hefur einnig tilhneigingu til að kæla jörðina. Aðal munurinn á henni og eldvirkni er það menn eru stöðugt að losa mikið magn arða út í andrúmsloftið með því að brenna jarðefnaeldsneyti. Því er í raun um langtímaáhrif að ræða á hitastig - svo lengi sem menn halda áfram losuninni. Örður frá mönnum eru þó mismunandi og valda mismunandi áhrifum (draga úr sólarljósi, hjálpa til við skýjamyndun og valda gróðurhúsaáhrifum). Áhrif arða á loftslag er einn stærsti óvissuþátturinn í loftslagsfræðum.

El Nino sveiflan (ENSO) er náttúruleg sveifla í yfirborðshita sjávar í Kyrrahafinu, sem sveiflast á milli El Nino og La Nina fasa. El Nino fasinn færir hita frá sjónum og upp í andrúmsloftið. La Nina virkar síðan á hinn vegin. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á hvort ENSO hefur langtímaáhrif á hnattrænan hita. Þar sem um er að ræða sveiflu, þá er talið að langtímaáhrif séu lítil og að La Nina fasinn verki á móti El Nino.

Það eru aðrir áhrifaþættir, en gróðurhúsalofttegundir og SO2 eru stærstu mannlegu þættirnir. Sólvirkni, eldvirkni og ENSO eru stærstu náttúrulegu þættirnir sem virka á hnattrænan hita. Við skulum skoða hvað fræðimenn segja um hlutfallsleg áhrif hvers þáttar fyrir sig.

Tett o.fl. (2000)

Tett o.fl. (2000) notuðu aðferð þar sem mismunandi gögnum er hlaðin inn í loftslagslíkön og greint hvernig þau passa best við hin eiginlegu gögn (aðferðin heitir á ensku optimal detection methodology). Inn í líkanið fóru mælingar á gróðurhúsalofttegundum, örður vegna eldvirkni, sólvirkni, örður af mannavöldum og breytingar í ósóni (óson er einnig gróðurhúsalofttegund).

Líkan þetta var borið saman við hnattrænan yfirborðshita frá 1897-1997. Í heildina þá náði líkanið að líkja nokkuð vel eftir hinni hnattrænnu hlýnun yfir allt tímabilið; hins vegar vanmat líkanið hlýnunina frá 1897-1947 og ofmat hlýnunina frá 1947-1997. Fyrir vikið þá er heildarsumma hlýnunar af manna- og náttúrunnar völdum meira en 100 %, fyrir síðustu 50 ár rannsóknarinnar (sjá dökkblátt á mynd 1), þar sem hlýnunin var í raun minni en líkanið sagði til um. Fyrir bæði 50 og 100 ára tímabilin, þá mátu Tett og félagar það þannig að náttúrulegir þættir hefðu haft smávægileg kælandi áhrif og þar með að mannlegir þættir hlýnunarinnar hefðu haft meira en 100 % áhrif á hlýnunina fyrir þau tímabil.

Meehl o.fl. (2004)

Meehl o.fl. 2004 notuðu svipaða nálgun og Tett o.fl. Þeir keyrðu loftslagslíkön með mismunandi gildum á þeim þáttum sem hafa hvað mest áhrif á hnattrænana hita (gróðurhúsalofttegundir, sólvirkni, örður vegna eldvirkni, örður frá mönnum og ósón), sem var svo borið saman við hitagögn frá 1890-2000. Þeirra niðurstaða var að náttúrulegir þættir stjórnuðu að mestu hlýnuninni milli 1910-1940, en gætu ekki útskýrt þá hlýnun sem varð eftir miðja síðustu öld.

Samkvæmt mati Meehl o.fl. þá var um 80 % af hinni hnattrænu hlýnun milli 1890 og 2000 af völdum manna. Síðustu 50 ár ransóknarinnar (1950-2000) þá hefðu náttúrulegir þættir einir og sér valdið heildar kólnun og því er niðurstaðan svipuð og hjá Tett o.fl. að meira en 100 % hlýnunarinnar var af mannavöldum. Síðastliðin 25 ár var hlýnununin nær eingöngu af mannavöldum samkvæmt þeirra mati.

Stone o.fl. (2007)

Stone o.fl.sendu frá sér tvær greinar árið 2007. Fyrri greinin greindi frá niðurstöðu 62 keyrsla á loftslagslíkönum fyrir tímabilið 1940-2080. Þessar hermanir byggðu á mælingum gróðurhúsalofttegunda, örðum eldgosa, örðum frá mönnum og sólvirkni frá 1940-2005. Að auki notuðu þeir spár um framtíðarlosun til að skoða mögulega framtíðar hlýnun jarðar. Með líkanakeyrslu á orkujafnvægi fékkst mat á viðbrögðum loftslagsins við breytingu hvers þáttar. Á þessu rúmlega 60 ára tímabili, þá mátu Stone o.fl. að nálægt 100 % af hlýnuninni væri af mannavöldum og að náttúrulegir þættir hefðu í heildina kælandi áhrif.

Seinni rannsókn Stone o.fl. 2007 uppfærði niðurstöður sem komu úr fyrri rannsókninni með því að nota fleiri loftlsagslíkön og uppförð gögn - auk þess að skoða tímabilið 1901-2005. Fyrir allt það tímabil mátu Stone o.fl. að helmingur hlýnunarinnar væri náttúruleg og helmingur af mannavöldum. Gróðurhúsalofttegundir jukust nægilega mikið til að auka hitann um 100 % - en á móti kom að kælandi áhrif arða af mannavöldum minnkaði hlut manna um helming. Sólvirkni olli 37 % og eldvirkni 13 % af hlýnuninni fyrir þetta tímabil samkvæmt Stone o.fl.

Lean og Rind (2008)

Lean og Rind 2008 fetuðu aðrar slóðir, en þeir notuðu útfærslu á línulegri aðhvarfsgreiningu (e. multiple linear regression analysis) í sinni rannsókn. Lean og Rind notuðu mælingar á sólvirkni, eldvirkni og mannlegum þáttum, auk ENSO og notuðu tölfræðilega aðferð við að tengja það við hnattrænar hitamælingar. Með því að greina hvað er afgangs eftir að búið er að taka út mismunandi þætti, þá sést hvaða þættir eru áhrifamestir.

Sú greining var gerð yfir mismunandi tímabil og yfir tímabilið 1889-2006 þá mátu höfundar að menn hefðu valdið um 80 % af mældri hlýnun þess tímabils, á meðan náttúrulegir þættir ullu um 12 %. Eins og áður þá er samtalan ekki nákvæmlega 100 % meðal annars vegna þess að ekki eru skoðaðir allir mögulegir og ómögulegir þættir sem geta haft áhrif á hnattrænan hita. Frá 1955-2005 og 1979-2005, þá mátu höfundar sem svo að menn hefðu valdið nálægt 100 % af mælanlegri hlýnun.

Stott o.fl. (2010)

Stott o.fl. notuðu aðra nálgun en Lean og Rind. Þeir notuðu línulega aðhvarfsgreiningu til að staðfesta niðurstöður úr fimm mismunandi loftslaglíkönum. Reiknaðir voru hallastuðlar (e. regression coefficients) fyrir gróðurhúsalofttegundir, aðra mannlega þætti (örður t.d.) og náttúrulega þætti (sólvirkni og eldvirkni) og mátu þeir hversu mikla hlýnun hver þáttur hefði valdið á síðustu öld. Meðaltal þessarra fimm líkana sýndu að mannlegir þættir ollu samtals um 86 % af mælanlegri hlýnun og þar af gróðurhúsalofttegundir um 138 %. Lítil hlýnun fannst vegna náttúrulegra þátta.

Stott o.fl. staðfestu einnig niðurstöðuna með því að skoða hvað ýmsar rannsóknir hafa að segja um svæðisbundið loftslag. Þar kom í ljós að vart hefur verið við loftslagsbreytingar af mannavöldum í hitabreytingum staðbundið, úrkomubreytingum, rakastigi andrúmsloftsins, þurrkum, minnkandi hafís, hitabylgjum, sjávarhita og seltubreytingum, auk annarra svæðisbundna breytinga.

Huber og Knutti (2011)

Huber og Knutti 2011 notuðu áhugaverða nálgun í sinni rannókn, en þar notuðu þeir regluna um varðveislu orku fyrir heildar orkubúskap jarðar til að áætla hversu stóran þátt mismunandi þættir höfðu áhrif á hlýnunina milli árana 1850 og 1950 fram til ársins 2000. Huber og Knutti notuðu áætlaða aukningu í heildarhita jarðar frá árinu 1850 og reiknuðu út hversu mikið sú aukning var vegna áætlaðra breytinga í geislunarálagi. Þeirri aukningu skiptu þeir síðan milli þeirrar aukingar sem orðið hefur á hitainnihaldi sjávar og útgeislunar frá jörðu.  Meira en 85% af hnattrænum hita hefur farið í að hita úthöfin þannig að með því að taka þau gögn með þá varð rannsókn þeirra sérstaklega sterk.

Huber og Knutti mátu það þannig að frá 1850 hafi 75 % hitaaukningarinnar verið af mannavöldum og að frá 1950 hafi hlýnunin af mannavöldum verið um 100 %.

Foster og Rahmstorf (2011)

Foster  Rahmstorf (2011) notuðu svipaða tölfræðilega nálgun og Lean og Rind (2008). Aðalmunurinn er að Foster og Rahmstorf skoðuðu fimm mismunandi hitagaögn, þar á meðal gervihnattagögn og greindu gögn frá árunum 1979-2010 (eða eins langt aftur og gervihnattagögn ná). Þeir skoðuðu þá þrjá helstu náttúrulega þætti sem hafa hvað mest áhrif á hnattrænt hitastig - sólvirkni, eldvirkni og ENSO. Þeir þættir sem hafa hvað mest áhrif á hnattrænt hitastig eftir að þessir þættir hafa verið síjaðir í burtu - eru af mannavöldum.

Með því að skoða hitastig frá Hadlay miðstöðinni (British Hadley Centre) og er mikið notað í svona rannsóknum, þá fundu Foster og Rahmstorf það út að hinir þrír náttúrulegu þættir sem notaðir eru í rannsókninni valda heildar kólnunaráhrif á tímabilinu 1979-2010. Afgangurinn er að mestu leiti hlýnun af mannavöldum og því rúmlega 100 % af hlýnuninni fyrir þetta tímabil.

Einn lykilþátturinn í því að gera svona rannsókn sterka er að hér er ekki gerður greinarmunur á hinum mismunandi áhrifaþáttum frá sólu. Öll áhrif frá sólu (bein og óbein) sem sýna fylgni við virkni sólar (sólvirkni, geimgeislar, útfjólublátt ljós o.sv.frv.) koma fram í línulegri aðhvarfsgreiningunni. Bæði Lean og Rind annars vegar og Foster og Rahmstorf hins vegar drógu þá ályktun að virkni sólar hefði spilað litlla rullu í hinni hnattrænu hlýnun undanfarna áratugi.

Gillett o.fl. (2012)

Líkt og Stott o.fl. 2010, þá notuðu Gillett o.fl. línulega aðhvarfsgreiningu með loftslagslíkani - nánar tiltekið var notað líkan af annarri kynslóð frá Kanada (CanESM2). Notuð voru gögn fyrir losun gróðurhúsalofttegunda og losun arða. Einnig voru skoðaðar breytingar á landnotkun, sólvirkni, ósoni og örðumyndun vegna eldvirkni. Mismunandi þættir voru settir saman undir flokkana 'náttúrulegir', 'gróðurhúsalofttegundir' og 'annað'. Skoðaðir voru þessir þættir á þremur mismunandi tímabilum: 1851-2010, 1951-2000 og 1961-2010. Ef skoðuð eru meðaltöl seinni tímabilanna og reiknað með að þátturinn 'annað' sé örður af mannavöldum, þá kemur í ljós að hlýnun af mannavöldum er meiri en 100 % fyrir þau tímabil.

Hlýnun af mannavöldum

Fyrrnefndar rannsóknir eru ólíkar innbyrðis og nota mismunandi aðferðir og nálganir - samt eru þær mjög samhljóða. Niðurstaða allra rannsóknanna var sú að þegar skoðuð eru síðastliðin 100-150 ár, þá er hlýnunin af völdum manna að minnta kosti 50 % og flestar rannsóknirnar benda til þess að hlýnunin af mannavöldum fyrir þetta tímabil sé milli 75 og 90 % (mynd 2). Síðastliðin 25-65 ár, þá sýna fyrrnefndar rannsóknir enn fremur að hlýnunin af mannavöldum er að lágmarki 98 % og flestar benda til þess að menn hafi valdið töluvert yfir 100 % af þeirri hlýnun sem mælingar sýna - þar sem náttúrulegir þættir hafa haft kælandi áhrif á móti, undanfarna áratugi (myndir 3 og 4).

Að auki, þá kom í ljós í öllum rannsóknunum og öllum tímabilum að stærstu áhrifaþættir hnattræns hita eru þeir sem eru af mannavöldum: (1) Gróðurhúsalofttegundir, og (2) örðulosun af mannavöldum. Það lítur í raun ekki vel út, því ef við hreinsum útblástur og minnkum örðulosun, þá munu kælandi áhrif þess minnka og afhjúpa hina undirliggjandi hlýnun sem er vegna losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Athugið að rannsóknirnar skoðuðu ekki allar sömu áhrifaþættina - sem veldur því að það virðist vanta sumar súlur í súluritunum á myndum 2-4.

Mynd 2: Prósentuhluti áhrifaþátta á hnattræna hlýnun síðastliðin 100-150 ár, samkvæmt Tett o.fl. 2000 (T00, dökk blár), Meehl o.fl. 2004 (M04, rauður), Stone o.fl. 2007 (S07, grænn), Lean og Rind 2008 (LR08, fjólublár), Stott o.fl. 2010 (S10, grár), Huber og Knutti 2011 (HK11, ljósblár) og svo Gillett o.fl. 2012 (G12, appelsínugulur). Smelltu á mynd til að stækka.


Mynd 3: Prósentuhluti áhrifaþátta á hnattræna hlýnun síðastliðin 50-65 ár samkæmt Tett o.fl. 2000 (T00, dökk blár), Meehl o.fl. 2004 (M04, rauður), Stone o.fl. 2007 (S07, grænn), Lean og Rind 2008 (LR08, fjólublár), Huber og Knutti 2011 (HK11, ljósblár) og svo Gillett o.fl. 2012 (G12, appelsínugulur). Smelltu á mynd til að stækka.


Mynd 4: Prósentuhluti áhrifaþátta á hnattræna hlýnun síðastliðin 25-30 ár samkæmt Meehl o.fl. 2004 (M04, rauður), Lean og Rind 2008 (LR08, fjólublár) og Foster og Rahmstorf 2011 (FR11, grænn). Smelltu á mynd til að stækka.

Á milli áranna 1910 og 1940 var tímabil hlýnunnar, sem talið er að hafi að mestu verið vegna aukinnar sólvirkni og lítillar eldvirkni - auk lítilsháttar áhrifa frá mönnum. Frá miðri síðustu öld hefur sólvirknin hins vegar verið flöt og eldvirkni í meðaltali. ENSO hefur síðan engin heildaráhrif á hnattrænan hita til lengri tíma litið. Styrkur gróðurhúsalofttegunda vegna losunar manna á þeim út í andrúmsloftið hefur aukist með auknum þunga og er orðinn helsti áhrifaþátturinn í breytingum á hnattrænum hita, líkt og myndir 3 og 4 sýna.

Mismunandi aðferðir og nálganir sýna svipaða niðurstöðu: Menn eru helsti áhrifaþátturinn í breytingum á hnattrænum hita síðastliðna öld og sérstaklega síðastliðin 50 ár.

Heimildir og ítaerefni

Þetta er þýdd og uppfærð bloggfærsla af Skeptical Science, sem dana1981 skrifaði í byrjun árs 2012: A Comprehensive Review of the Causes of Global Warming

Aðrar heimildir sem vísað er í:

Tengt efni á loftslag.is


Athugasemd varðandi meintar falsanir NASA

Í tilefni fjölmiðla umfjöllunar, um meintar falsanir NASA á gögnum varðandi hitaferla á Íslandi, sem eiga jafnvel að geta sýnt fram á hlýnun jarðar (eins og ýjað er að í frétt á pressan.is), þá birtum við hér með athugasemd Halldórs Björnssonar sérfræðings á Veðurstofunni varðandi málið. Umfjöllun um þetta mál birtist fyrst hjá Ágústi H. Bjarnason á bloggi hans Ginnungagap þann 21. janúar s.l. (Hvers vegna er NASA að afmynda hitaferilinn fyrir Reykjavík...?) og höfum við á loftslag.is fengið leyfi Halldórs til að birta athugasemd sem hann gerði við bloggfærslu Ágústar og birtist í athugasemdum þar í dag. Langar okkur að þakka Halldóri fyrir að lofa okkur auðfúslega að birta athugasemdina í heild sinni.

---

Sæll Ágúst,

Það er áhugaverður samaðburðurinn sem þú gerir á hrágögnum GHCN (sem koma frá Haf- og veðurfræðistofnun Bandaríkjanna, NOAA, en ekki geimferðastofnuninni, NASA) og svo "lagfærðum" gögnum þeirra.

Hrágögnin í GHCN safninu koma frá dönsku veðurstofunni á fyrsta hluta 20. aldar og svo frá veðurskeytum frá Veðurstofu Íslands frá 3. áratug aldarinnar. Á þessum tíma var verulegt flakk á stöðinni og reyndar athugað utan við bæinn 2. áratug aldarinnar. Frá 1922 hafa athuganir Veðurstofunnar verið gerðar á Skólavörðustíg (1922 - 1930), á þaki Landsímahússins (1931 - 1945), við Sjómannaskólann (1946 - 1949), á Reykjavíkurflugvelli (1950 - 1973) og í mælireit við Bústaðaveg (frá 1973).  Þetta flakk hefur sín áhrif á mæliniðurstöður, en er ekki óalgengt fyrir veðurstöðvar. Annað dæmi um áhrif flakks á stöð er í Vestmannaeyjum, en  þar flutti stöðin úr bænum á Stórhöfða (sem er í 118 m h.y.s) árið 1921.

Stöðvaflakk sem þetta, og aðrar breytingar í umhverfi stöðvar hafa áhrif á mæliniðurstöður. Ein leið til að mæta þessu er að "lagfæra"
gögnin. Þá er skoðað hvort breytingar verði á stöð við flutning eða aðrar breytingar í umhverfi hennar. Til að slík skoðun sé möguleg er betra að hafa sögu stöðvarinnar á hreinu. Með  því að bera saman mæliröðina við mælingar frá nálægri stöð (sem ekki var færð á sama tíma), er hægt að sjá hvort stökk eða aðrar breytingar verða á mæliröðinni við flutninginn. Lagfæringin byggir svo á því að leiðrétta fyrir þessi stökk. Það liggur í hlutarins eðli að slíkar leiðréttingar geta verið umdeildar. Það má þó rökstyðja þær með því að annars sýni mæliraðirnar ekki veðurbreytingar, heldur stöðvasögu.

Vandinn er samt sá að oft er saga stöðvarinnar illa þekkt, og jafnvel þar sem hún er til (eins og á við stöðvar á Íslandi) þá er undir hælinn lagt hvort stöðvasagan fylgir með mæliröðunum í stórum gagnabönkum (sem kunna að byggja að mestu á samantekt veðurskeyta). Aðilar eins GHCN nota því sjálfvirkar aðferðir við að finna hugsanlegar hnikanir í mæliröðum, gjarnan með samanburði við nærliggjandi stöðvar. Þessar aðferðir breyta flestum stöðvum lítið, en sumum þó nokkuð. Það er augljóst að í tilfelli Reykjavíkur heppnaðist þessi lagfæring þeirra vægast sagt illa.

Nú má spurja hvort hnattræn hlýnun sé kannski bara misskilningur, sé bara afleiðing gagnalagfæringa. Ef farið væri með allar stöðvar eins og Reykjavík væru það eðlilegar áhyggjur. Augljóslega þarf að tryggja að sú hlýnun sem greinist (leitni hnattræns meðalhita) sé raunveruleg en ekki bara reikniskekkja.

Til að tryggt sé að leitni hnattræns meðaltals sé ekki bara að endurspegla þessar lagfæringar er í fyrsta lagi hægt að skoða hvernig leitnin breytist á hverri stöð milli frumgagna og lagfærðra gagna. Ég hef séð slíkan samanburð fyrir GHCN gögnin, og niðurstaðan er sú að oftast er engin munur í leitni, en þar sem verða leitnibreytingar er álíka algengt að leitnin aukist og að hún minnki. Breytingar á leitni mæliraða í GHCN bjaga því ekki leitni hnattræns meðaltals.

Önnur leið til að skoða hver áhrif þessara lagfæringa eru, er að nota aðra aðferð við að leita uppi stöðvabreytingar og lagfæra. Bæði GISS/NASA og CRU/UKMO nota þannig ólíkar aðferðir en GHCN, og þó GISS byggi á lagfærðum gögnum GHCN nota þeir einnig aðrar upplýsingar, og t.d. er þeirra útgáfa af hitabreytingum í Reykjavík mun skárri en leíðréttu GHCN gögnin. Eins má bera saman við endurgreiningar, s.s. ERA40 (sjá www.ecmwf.int) eða NCEP (http://www.esrl.noaa.gov/psd/cgi-bin/data/composites/plot20thc.pl). Loks má nefna aðferð sem notuð er af s.k. BEST-hópi (http://berkeleyearth.org/dataset/) en þeir bættu mörgum veðurstöðvum við GHCN gagnasafnið, og þróðuðu nýjar aðferðir við að greina ósamfellur og gera lagfæringar.

Niðurstaðan er sú að ólíkum aðferðum ber ágætlega saman, þó auðvita sé alltaf einhver munur á þeim.   Einfaldast er að líta svo á að þessi munur endurspegli þá óvissu sem er á meðaltali hnattæns hita. Sú óvissa er nægilega lítil til þess að ekki sé ástæða til að draga í efa að hnattræn hlýnun eigi sér stað.

Hvað varðar Reykjavík þá sýnir meðfylgjandi mynd ársmeðalhitann samkvæmt frumgögnum GHCN (GHCN UNADJ), GHCN gögnum eftir leiðréttingu (GHCN SCAR) og svo leiðrétta ársmeðalhitaröð sem notuð er af NASA (GISS ADJ). Einnig eru sýnd frumgögn frá Veðurstofu Íslands fyrir Reykjavík (IMO UNADJ) og frumgögn okkar eftir að búið er að leiðrétta þau m.t.t. stöðvasögu (IMO ADJ). Punktarnir sýna einstök ár, en til að auðvelda samanburð er útjafnaður ferill fyrir hverja mælirunu einnig sýndur (þetta er s.k. LOESS ferill með skyggðu staðalfráviki). Augljóst er að óleiðrétt gögn frá Veðurstofu  og GHCN eru mjög álíka, en eftir lagfæringar ber Veðurstofunni og GISS/NASA ágætlega saman (þó GISS/NASA ferillinn virðist "strekktari" lagfærði ferillinn frá Veðurstofunni).

Leiðréttingar GHCN eru hinsvegar af og frá, eins og þú bendir réttilega á. Hinsvegar er það að hengja bakara fyrir smið að halda því fram að þetta sé villa hjá NASA. Þeir erfa þessa villu frá NOAA og lagfæra hana að nokkru. Að lokum er rétt að taka fram að lagfæringar VÍ á mæliröðinni fyrir Reykjavík eru á engan hátt endanlegur sannleikur um þróun meðalhita þar. Hinsvegar er ljóst að staðsetning mælisins upp á þaki Landsímahússins var óheppileg, þar mældist kerfisbundið meiri hiti en á nálægum stöðvum. Vegna þessa er full ástæða til að til að leiðrétta mæliröðina, en vel er hugsanlegt að leiðréttingin (um 0.4°C) sé full mikil. Þessi leiðrétting kann að verða endurskoðuð síðar. Slíkt hefði þó óveruleg áhrif á langtímaleitni lofthita í Reykjavík (og engin á hnattrænt meðaltal).


Virðingarfyllst,
Halldór Björnsson
Veðurstofu Íslands

------

Við viljum halda athugasemdum á einum stað og vísum því á færsluna á loftslag.is fyrir þá sem vilja tjá sig um þetta: sjá Athugasemd varðandi meintar falsanir NASA


Hnatthitaspámeistarinn

Um svipað leiti í fyrra gerðumst við nokkrir svo kræfir að spá fyrir um hvert hitastig ársins 2011 yrði samkvæmt tölum frá NASA GISS.  Færslan hét Náttúrulegur breytileiki og horfur fyrir árið 2011, sjá einnig athugasemdir.

Undirritaður var í forsvari og þær pælingar voru svona:

Þegar skoðaðar eru horfur hvað varðar hitastig ársins 2011, þá kemur fljótt í ljós að ákveðið náttúrulegt bakslag er líklegt. Hitafrávikið árið 2010 var um 0,63°C samkvæmt GISS og munaði miklu um að El Nino hitti vel á árið (samanber hina 3-5 mánuða tregðu í að áhrif hitastigs komi fram hnattrænt). Að sama skapi mun La Nina hitta vel á þetta ár og er þar um að ræða sterka niðursveiflu  í hitastigi, en nú er eitt sterkasta La Nina í nokkra áratugi í gangi og mun það halda áfram allavega fram á vor. Náttúruleg niðursveifla upp á hátt í -0,15°C  (jafnvel meira) er því  allt eins líkleg í ár af völdum La Nina.

Sólvirkni er ólíkleg til að hafa mikil áhrif á hitastig, en núverandi niðursveifla sólar heldur áfram. Ef  einhver áhrif verða, þá verða þau í átt til lítils háttar hlýnunar (mögulega +0,01°C).

Óvíst er um eldvirkni, en líklega er best að reikna með því að áhrif eldgosa verði hverfandi á árinu, þá sérstaklega á hitaröð NASA GISS – en til þess að hafa teljandi áhrif, þá þyrfti á næstu vikum (eða mánuðum) að verða stórt sprengigos nálægt miðbaug Jarðar. Það verður að teljast ólíklegt en getur þó alveg gerst.

Áframhaldandi hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda er talin verða +0,02°C.

Ef lagt er saman hitastig ársins 2010 (0,63°C), hlýnun jarðar vegna gróðurhúsalofttegunda (um það bil +0,02°C), sólvirkni (mögulega +0,01°C) og La Nina (allt að -0,15°C) – þá fæst um 0,51°C, en það yrði þá níunda  heitasta árið samkvæmt hitaröð NASA GISS.

Hér fyrir neðan má sjá spádóma þeirra sem höfðu kjark til að setja tölur niður á blað og sammældust menn um að sigurvegarinn myndi hljóta titilinn Hnatthitaspámeistarinn árið 2011 – ekki lítill titill það.

Spádómarnir voru svona og miðað við hitafrávik samkvæmt NASA GISS:

Höskuldur Búi: 0,51°C +/- 0,02
Jón Erlingur: 0,46°C +/- 0,02
Sveinn Atli: 0,41°C +/- 0,02
Emil Hannes: 0,38°C +/- 0,02

En hver varð niðurstaðan og vilt þú taka þátt í skemmtilegum leik og spá fyrir um tölur þessa árs?

---

Sjá færslu á loftslag.is Árið 2011 skv NASA GISS og hnatthitaspámeistarinn en þar eru úrslit síðasta árs kynnt og hugað að spádómum fyrir þetta ár. Endilega taktu þátt - mun kólna, mun hlýna og hversu mikið þá?

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband