Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Hafís | Maí 2010

Við stefnum að því að þessi færsla verði sú fyrsta af nýjum föstum þætti á loftslag.is.  Á fyrstu dögum hvers mánaðar kemur yfirlit á NSIDC varðandi hafísinn á norðurslóðum og munum við birta helstu gröf og myndir sem skipta máli ásamt örlitlum texta.

Hafísútbreiðslan á norðuskautinu minnkaði verulega í maí eftir að hafa verið mikil í apríl. Hitastigið var yfir meðallagi sem hefur væntanlega haft áhrif á útkomuna. Undir lok mánaðarins var útbreiðslan orðin nærri því sem var í maí 2006, sem er það lægsta sem mælst hefur fyrir lok maí mánaðar. Greiningar sérfræðinga frá Háskólanum í Washington reikna með að ísrúmmálið hafi haldið áfram að minnka miðað við síðastliðin ár. Það er hins vegar of snemmt að segja til um það hvort að útbreiðsla hafíssins verði minni í september, en árið 2007, þegar það var minnst frá því mælingar hófust. Það fer mikið eftir aðstæðum í sumar, þ.e. veðurfari og vindi á næstu mánuðum.

Hafísútbreiðsla um mánaðarmótin maí-júní 2010. Miðgildið er merkt með bleikri línu. Hafísútbreiðslan er 500.000 ferkílómetrum undir meðaltalinu 1979-2000.

Þróun hafíss 2010, viðmiðun við meðaltal 1979-2000 og einnig 2006 og 2007.

Samanburður á útbreiðslu hafís í maímánuði, eftir árum. Eins og sjá má er línuleg minnkun í þróun útbreiðslu hafíssins.

Hitafrávik fyrir maí 2010. Hitastigið var víðast 2°-5°C yfir meðaltalinu í mánuðinum.

Frávik í rúmmáli hafíss síðan 1979. Í maímánuði var rúmmálið minnst fyrir mánuðinn síðan mælingar hófust.

Heimildir:

Tengt efni á loftslag.is:


Ísbirnir

Úrdráttur úr tveimur færslum um ísbirni af loftslag.is.

Thumb_isbjorn-Ursus_maritimus_us_fish

Niðurstaða rannsókna, sem farið hafa fram við Beauforthaf við norðurströnd Alaska, hafa gefið beinar mælingar sem sýna fram á tengsl milli hnignandi hafíss og afkomu ísbjarna.

Í grein sem birtist í Ecological Applications þá könnuðu höfundar ýmis atriði sem tengjast afkomu ísbjarna við Beaufort haf, en hafís á þeim slóðum hefur hnignað töluvert á tímabilinu sem rannsóknin nær yfir, þ.e. frá 1982-2006.

Það sem gerði rannsóknina erfiða er sú staðreynd að þó að það sé fylgni milli breytinga í ísbjarnastofninum og hafíss, þá er það engin ávísun á að þar með hafi fundist orsök og afleiðing. Lykillinn að lausninni reyndist vera tengsl næringar og líkamstærðar. Vel þekkt tengsl eru til milli fæðuúrvals annars vegar og þyngdar sem og stærðar beinagrindar hins vegar, hjá björnum. Hvað varðar ísbirni, þá er hafísinn mikilvægur þáttur í fæðuöflun [...]

[...] Það er frekar ólíklegt að hægt sé að finna líffræðinga sem rannsaka ísbirni, sem myndu halda því fram að þeim hafi fjölgað síðustu áratugi – það er ekki heldur auðvelt að segja til um að þeim hafi fækkað – til þess eru rannsóknir á ísbjörnum of stutt á veg komnar.

Á sjöunda áratug síðustu aldar, var giskað á að ísbirnir væru á milli 5-20 þúsund og er seinni talan sú tala sem oftast er talað um núna. [...]

Samkvæmt mati IUCN sérfræðingahóps um ísbirni, þá eru 19 þekktir undirstofnar ísbjarna, fjöldi í einum þeirra er að aukast, þrír eru stöðugir og átta eru að hnigna (ekki eru til nægilega góð gögn til að meta hina undirstofnana). [...]


Eðlur á undanhaldi

NThumb_Sceloporus_sp4_Oaxý rannsókn bendir til að árið 2080, þá muni um 20% allra eðlutegunda verða útdauðar.

Þótt notaðar séu bjartsýnustu sviðsmyndir hvað varðar minnkandi losun á CO2 í framtíðinni, þá bendir greining alþjóðlegs teymis vísindamanna til þess að allt að 6% eðlutegunda muni deyja út fyrir árið 2050.

Nú þegar hafa loftslagsbreytingar orðið til þess að stofnstærð hinnar svokölluðu Sceloporus eðlu hefur minnkað um 12% frá árinu 1975.

Ef losun CO2 heldur áfram óheft, þá er því spáð að fyrir árið 2080 þá muni 39% af heildarfjölda eðla í heiminum hafa horfið - sem samsvarar að um 20% allra eðlutegunda deyji út. Grein um rannsóknina birtist í Science fyrir skömmu (sjá Sinervo o.fl. 2010).

Sinervo, einn aðalhöfunda ætlaði sér ekki að rannsaka útdauða eðlutegunda - upphaflega ætlaði hann að kanna hlutverk litabrigða í þróun eðla. Á nokkrum stöðum, í Evrópu og í Mexíkó - þar sem hann bjóst við að finna eðlur, þá hafði þeim fækkað það mikið að erfitt reyndist að finna þær. Hann safnaði því saman hóp vísindamanna til að rannsaka þetta frekar - hnattrænt. Niðurstaðan er sú að vandamálið er útbreitt.

Svæði voru könnuð á verndarsvæðum, til að útiloka áhrif á búsvæði af völdum breyttrar landnotkunar manna.

Eins og allar lífverur, þá verða eðlur að forðast það að ofhitna og halda líkamshita sínum innan vissra marka til að lifa af. Vandamálið virðist vera, samkvæmt rannsókninni, hærri hiti á vorin - frekar en hæsti hiti yfir hádaginn eða yfir sumartímann. Hærri hiti á vorin þýðir að dýrin eyða minni tíma yfir fengitíman til fæðuöflunar og meiri tíma í skugga. Á þessum tíma þurfa kvendýrin hámarksfæðu til að viðhalda orkuþörfinni og tímanum sem varið er í skugganum nýtist illa og vannærð kvendýrin eiga í erfiðleikum með að geta af sér afkvæmi.

Vistfræðilegar afleiðingar hugsanlegs útdauða eðlanna er óþekktur, en ef rétt reynist þá gætu þær orðið nokkrar - en aðalfæða eðla eru ýmis skordýr, auk þess sem þær sjálfar eru megin fæða ýmissa dýrategunda.

Heimildir og ítarefni

Grein Sinervo o.fl. 2010 sem birtist í Science (ágrip): Erosion of Lizard Diversity by Climate Change and Altered Thermal Niches

Þessi færsla er byggð á frétt í Nature News: Lizards succumb to global warming

Aðra góða umfjöllun má finna á heimasíðu NewScientist: Lost lizards validate grim extinction predictions

Tengdar færslur á loftslag.is


Hagfræði og loftslagsbreytingar

Inngangur

Það er nokkuð almenn einning meðal vísindamanna sem vinna að loftslagstengdum rannsóknum, um að athafnir mannsins og þá sérstaklega bruni jarðefnaeldsneytis hafi áhrif að loftslagið á hnattræna vísu. Eftir áratuga rannsóknir og umræður, m.a. hjá nefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) og mikið átak við að miðla þekkingunni áfram til almennings, þá er það almennt álit þeirra sem vinna að þessu á vísindalegum grunni að aðgerða sé þörf og að draga þurfi úr losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið.

Minna er hinsvegar vitað um hvort þetta er einnig tilfellið meðal hagfræðinga (og viðskiptamenntaðra) sem rannsaka loftslagsmál, þ.e. um hugsanleg áhrif gróðurhúsalofttegunda og afleiðingar hækkandi hitastigs á hagkerfið. Umfangsmikil fjölmiðlaumfjöllun um kostnaðinn við aðgerðir við að taka á loftslagsvandanum, getur auðveldlega leitt til þess að utanaðkomandi hafi það á tilfinningunni að hagfræðingar séu á móti reglugerðum varðandi loftslagsmál eða að ekki sé um mikla ógn að ræða fyrir hagkerfið, þó svo losun gróðurhúsalofttegunda haldi áfram nú sem áður. Í þessari skýrslu sem um er rætt í þessari færslu skoða þeir J. Scott Holladay, Jonathan Horne og Jason A. Schwarts hvernig þessi mál standa. Með því að fylgjast með því hvað sérfræðingar á sviðinu eru að gera, reyna þeir að komast að niðurstöðu varðandi málið. Útkoman er sláandi. Hagfræðingar eru almennt sammála um að loftslagsbreytingar séu ógn við hagkerfi heimsins. Það sem meira er, þá eru flestir á því að það sé hagur í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að sá hagur geti réttlætt kostnaðinn við það. Flestir styðja einhverskonar markaðskerfi þar sem hægt væri að draga úr losun, með t.d. Cap and Trade eða einhverskonar sköttum. Það eru líka svið þar sem hagfræðingar eru ekki sammála um hvernig á að standa að verki, m.a. um það hvernig á að standa að því að skoða ábyrgð núverandi kynslóðar gagnvart kynslóðum framtíðarinnar. Þar skiptust svörin jafnt á milli aðferða. En heilt yfir þá er myndin skýr; það ríkir almennt samkomulag meðal hagfræðinga sem vinna að rannsóknum tengdum loftslagsmálum, að losun gróðurhúsalofttegunda sé raunveruleg ógn við hagkerfið og að ef rétt er að verki staðið við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þá muni það skila fjárhagslegum ávinning fyrir hagkerfið í heild. Þó umræðan sé sífellt í gangi, þá getur þessi skýrsla hjálpað til við að beina augum á þær spurningar sem nauðsynlegt er að spyrja varðandi þessa hlið málsins.

[...]

Nánar má lesa um þetta á loftslag.is; Hagfræði og loftslagsbreytingar

Tengt efni á loftslag.is:


Lax og silungur við loftslagsbreytingar

salmon_troutLax og silungur hafa á undanförnum áratugum fækkað – og á sumum svæðum töluvert.

Mengun, rýrnun búsvæða og ofveiði hafa hingað til verið taldir helstu sökudólgarnir, en nýjar vísbendingar benda til þess að loftslagsbreytingar geti verið helsti þátturinn og að þær ógni báðum tegundunum.

Vísindamennirnir rönnsökuðu stofn ungra laxa og silungs í ánni Wye í Wales, sem er ein af bestu stangveiðiám Bretlandseyja. Þeir fundu út að á milli áranna 1985 og 2004, þá fækkaði lax um 50% og silung um 67% – þrátt fyrir að áin sjálf yrði hreinni á þeim tíma.

Harðast urðu fiskarnir úti eftir heit og þur sumur, líkt og árin 1990, 2000 og 2003. Niðurstaðan bendir til þess að heitara vatn og lægri vatnsstaða hafi hvað mest áhrif á báðar tegundirnar. Þar sem kalt vatn er kjörsvæði laxa og silungs, þá gæti áframhaldandi hlýnun skapað enn meiri vanda fyrir þessar tegundir.

Vísindamennirnir notuðu gögn um stofnstærðir fiskanna, sem breska Umhverfisstofununin (British Environment Agency) hafði safnað á yfir 50 stöðum í ánni Wye. Hitastig vatnsins jókst á þessu tímabili um 0,5-0,7°C yfir sumartíman og 0,7-1,0°C yfir vetrartíman – en hitinn um vetrartíman ásamt minna rennsli í ánni hafði mest áhrif. Vitað er að vatnshiti hefur áhrif á vöxt og hversu viðkvæmur fiskurinn er gagnvart sjúkdómum – en minna rennsli í ám hindrar að hann komist á kaldari búsvæði.

Samanburður á laxi og silung eykur gildi þessarar rannsóknar, þar sem silungur – ólíkt laxinum – dvelst ekki í sjó. Því eru það eingöngu aðstæður í ánni sem hafa áhrif á hann.

Heimildir og ítarefni

Greinin sjálf birtist í Global Change Biology og er eftir Clews o.fl. 2010:  Juvenile salmonid populations in a temperate river system track synoptic trends in climate

Unnið upp úr frétt af Science Daily: Climate Threatens Trout and Salmon

Tengdar færslur á loftslag.is


Loftslagsbreytingar - vísindin

Hvað eru loftslagsbreytingar og hver er hinn vísindalegi grunnur á bakvið þær kenningar sem nú eru uppi um hlýnandi jörð?

Eitt af kortunum sem sýnir áætlaða aukningu á hitastigi jarðar.

Eitt af kortunum sem sýnir áætlaða aukningu á hitastigi jarðar (globalwarmingart.com)

Á þessum síðum verða skoðaðar kenningar um loftslagsbreytingar, þá sérstaklega þær sem eru í gangi núna – oft nefndar hlýnun jarðar af mannavöldum (e. Anthropogenic global warming – AGW).  Leitast verður við að svara því hvaða afleiðingar geta orðið vegna hækkandi hitastigs í heiminum og hvaða lausnir er verið að skoða til mótvægis hlýnun jarðar og aðlögun að henni. Á spurt og svarað verða sett fram ýmis hugtök og staðreyndir á aðgengilegan hátt. Í helstu sönnunargögnum eru sönnunargögnin skoðuð. Síðast en ekki síst verður kíkt á nokkrar mýtur sem oft heyrast þegar rætt er um loftslagsmál. Þetta eru mýtur eins og “hitastigið fer ekki hækkandi”, “þetta bara er sólin” og margt fleira í þeim dúr.

Kenningin
Afleiðingar
Lausnir
Spurningar og svör
Helstu sönnunargögn
Mýtur


Hitt og þetta

Sitthvað af loftslag.is. Fréttir, bloggfærslur, gestapistlar og myndbönd er meðal þess efnis sem birst hefur nýlega:

Fellibylir á Atlantshafi 2010

Frétt – Spá NOAA varðandi fellibyljatímabilið 2010 í Atlantshafinu
 

Hitabylgjur í Evópu

Frétt um nýja rannsókn um hitabylgjur í Evrópu á þessari öld
 

Að fela núverandi hlýnun

Bloggfærsla um fölsun og mistúlkun gagna, hjá Don Easterbrook – en hann hefur verið uppvís að því að fela núverandi hlýnun
 

Jafnvægissvörun Lindzen

Bloggfærsla þýdd af Skeptical Science um útreikninga Lindzen á jafnvægissvörun loftslags og niðurstöður hans hraktar
 

Áratugasveiflur hitastigs

Vangaveltur um áhrif áratugasveiflna í hafinu á hitastig Jarðar
 

Orkusetur | Ný reiknivél

Gestapistill eftir Sigurð Inga Friðleifsson um nýja reiknivél sem Orkusetur hefur tekið í notkun
 

NASA | Stórtölvutækni og loftslagslíkön

Myndband um stórtölvutækni NASA og loftslagslíkön

Fellibylir á Atlantshafi 2010

NNOAA_hurricane_season_2010OAA hefur gefið út spá fyrir fellibyljatímabilið í Atlantshafi. Tímabilið er skilgreint þannig að það byrjar 1. júní og er um 6 mánuðir að lengd. Það má gera ráð fyrir því að hámark tímabilsins sé í ágúst til október, þar sem stærstu og flestu fellibylirnir ná yfirleitt landi. Hjá NOAA er  tekið fram að þrátt fyrir þessa og aðrar spár þá þurfi ekki nema einn fellibyl á ákveðið svæði til að valda miklum búsifjum. Þ.a.l. brýna þeir fyrir íbúum á þeim svæðum sem eru þekkt fellibyljasvæði að mikilvægt er að undirbúa sig fyrir öll fellibyljatímabil og vera reiðubúin því að það geti komið fellibylir, hvernig sem spáin er.

Yfirlit yfir tímabilið

NOAA telur að það séu 85% líkur á því að fellibyljatímabilið 2010 verði yfir meðallagi. U.þ.b. 10% möguleiki er að tímabilið verði nærri meðallagi og um 5% möguleiki á að það verði undir meðallagi. Svæðið sem spáin nær til er Norður Atlantshaf, Karíbahafið og Mexíkóflói.

Þessar horfur endurspegla ástand í Atlantshafinu sem getur leitt til meiri fellibyljavirkni þar. Þessar væntingar eru byggðar á spám varðandi þrjá þætti loftslags á svæðinu, sem hafa stuðlað að aukinni tíðni fellibylja í sögulegu samhengi. Þessir þrír þættir eru: 1) hitabeltis fjöl-áratuga merkið (e. tropical multi-decadal signal), sem hefur verið áhrifavaldur á tímabilum með mörgum fellibyljum, 2) óvenjulega hátt hitastig sjávar í Atlantshafinu við hitabeltið og í Karíbahafinu og 3) annað hvort ENSO-hlutlaust eða La Nina áhrif í Kyrrahafinu, með meiri líkum á La Nina áhrifum.

Mynd af hugsanlegum aðstæðum í Atlantshafi í ágúst til október 2010

Ástand líkt því sem það er í ár hefur í sögulegu samhengi orðið þess valdandi að fellibyljatímabil í Atlantshafinu hafa verið mjög virk. Tímabilið í ár gæti því orðið eitt það virkasta miðað við virk tímabil frá 1995. Ef 2010 nær efri mörkum spár NOAA, þá gæti tímabilið orðið eitt það virkasta hingað til.

NOAA reiknar með því að það séu 70% líkur á eftirfarandi virkni geti orðið:

  • 14 til 23 stormar sem fá nafn (mestur vindhraði meiri en 62 km/klst), þar með talið:
  • 8 til 14 fellibylir (með mesta vindhraða 119 km/klst eða meiri), þar af:
  • 3 til 7 gætu orðið að stórum fellibyljum (sem lenda í flokkun 3, 4 eða 5; vindhraði minnst 178 km/klst)

Óvissa

  1. Spár varðandi El Nino og La Nina (einnig kallað ENSO) áhrifa er vísindaleg áskorun.
  2. Margir möguleikar eru á því hvernig stormar með nafni og fellibylir geta orðið til miðað við sömu forsendur. T.d. er ekki hægt að vita með vissu hvort að það komi margir veikir stormar sem standa í stuttan tíma hver eða hvort að þeir verði fáir og sterkari.
  3. Spálíkön hafa ákveðnar takmarkanir varðandi hámark tímabilsins í ágúst til október, sérstaklega spár gerðar þetta snemma.
  4. Veðurmynstur, sem eru ófyrirsjáanleg á árstíðaskalanum, geta stundum þróast og varað vikum eða mánuðum saman og haft áhrif á fellibyljavirknina.

Miðað við þessar spár þá má jafnvel búast við meiri virkni fellibylja í ár, meiri líkum á virkni yfir meðallagi og hugsanlega mjög virku tímabili. Að sama skapi þá spáir NOAA minni virkni fellibylja í austanverðu Kyrrahafínu, sjá hér.

Heimildir:

Tengt efni á loftslag.is:


Hlýnun og jöklar

Jörðin er að hlýna og það getur haft ýmsar afleiðingar. Á loftslag.is má sjá margskonar efni ásamt Helstu sönnunargögnum

Nokkrar greinar sem tengjast efninu af loftslag.is:

Jöklar:

Hitastig:


mbl.is Everest verður hættulegra og dýrara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að fela núverandi hlýnun

Eitt af því sem gerir loftslagsumræðuna hvað mest spennandi, allavega í augum þess sem þetta skrifar, eru mistúlkanir og falsanir efasemdamanna til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Sá sem þetta skrifar hefur sérstakan áhuga á fornloftslagi og við á loftslag.is höfum skrifað nokkuð um það (sjá hér).

Falsanir og mistúlkanir eru misjafnar varðandi fornloftslag og fjölbreytileikinn mikill. Algengast er þó eftirfarandi – sérstaklega hvað varðar hina svokölluðu “miðaldahlýnun”:

Fyrsta brellan er að fela hitastigskvarðann og/eða gildi hitastigsins. Önnur brellan er að velja eitt landsvæði í heiminum og sú þriðja er að klippa í burtu eða hunsa mælingar sem sýna undanfarna hlýnun. Úr færslunni Miðaldabrellur.

Þá er algengt að sýna núverandi hitastig lægra en það í raun og veru er – þ.e. bæta við línu sem á að sýna hvar hitastigið er nú og hnika henni niður í átt til lægri hita (eða miða hreinlega við hitastig fyrir öld eða svo). Einnig er klassískt að sýna úrellt gögn og birta þau eins og þau séu besta mat á fornloftslagi (sjá t.d. færslurnar Miðaldir og Loehle og Miðaldaverkefnið).

Hlutur Don Easterbrook

Fyrir nokkrum vikum var haldin ráðstefna efasemdamanna um hnattræna hlýnun og einn fyrirlesara virðist kunna flestar brellurnar í handbók efasemdamanna. Það er Don Easterbrook, fyrrum prófessor í jarðfræði og áður væntanlega þokkalega virtur í sínu fagi. Hann hefur verið sannfærður undanfarin ár að Jörðin eigi eftir að verða fyrir kólnun á næstu árum og áratugum. Þessi sannfæring hans á reyndar ekki við nein vísindaleg rök að styðjast (sjá mýtuna Lítil ísöld eða kuldaskeið er á næsta leiti).

Við skulum byrja á léttri mistúlkun, en hér er mynd sem sýnir hans pælingar um væntanlega kólnun sem hann telur vera yfirvofandi:

Eins og sjá má, þá virðist hann auka vægi hlýnunar fyrr á síðstu öld á kostnað hlýnunar sem er nú – samkvæmt honum þá er hitastig nú svipað og það var í kringum miðja síðustu öld. Við vitum að svo er ekki (sjá Helstu sönnunargögn og NASA | Heitasta 12 mánaða tímabilið), þannig að annað hvort er hann að nota staðbundin hitagögn – eða hann er að breyta þeim gögnum sem til eru. Auk þess má benda á að spár IPCC líta ekki eins út og hann sýnir (sjá Loftslag framtíðar).

En þetta eru litlu tölurnar. Þegar horft er á meðferð Easterbrook á gögnum um fornloftslag, þá bregður flestum í brún. Lítum hér á fallega og lýsandi mynd úr smiðju hans:

Þessa mynd þarf líklega ekki að útskýra mikið en hún á að sýna hitastig á nútíma (e. holocene). Kannski er þó rétt að byrja á því að segja frá því innsláttarvillu – en þar sem stendur Younger Dyas á að standa Younger Dryas. Takið nú eftir því hvar hann setur núverandi hitastig (e. Present day temperature). Samkvæmt þessari mynd þá ætti að vera ljóst að núverandi hitastig er bara alls ekki hátt. Hitinn mest allan nútímann hefur verið hærra en er í dag – samkvæmt þessari mynd.

Hitt er annað að hér hefur hann tekið mynd frá Global Warming Art og  breytt töluvert – þ.e. sett inn skáldaða línu sem segir hvenær núverandi hitastig er og litað upp á nýtt. Hér fyrir neðan má sjá orginalinn, en við á loftslag.is höfum stundum notað þá mynd til að sýna hitastig á nútíma:

Við að skoða þessa mynd þá fer ekki milli mála að hitastig nú er í hæstu hæðum hvað varðar hita á nútíma (sjá örina sem bendir á 2004).

Til samanburðar eru hér tvær útgáfur fyrir neðan sem sýna þessar tvær myndir bornar saman:

Með þessari fölsun hefur Easterbrook lækkað núverandi hnattrænt hitastig Jarðar um sirka 0,75°C. Það munar um minna.

Annað línurit frá honum hefur einnig vakið athygli, en tilgangur þess er sá sami – þ.e. að sýna fram á að nú sé kaldara en á meirihluta nútíma:

Fyrir utan undarlegar merkingar og ranga viðmiðun hvað varðar núverandi hitastig, þá er þetta nokkuð rétt mynd – eins og síðasta mynd. Hér gefur að líta hitastig upp á Grænlandsjökli út frá borkjarnarannsóknum (GISP). Því er hér um að ræða staðbundið hitastig. Líklega er best að byrja á að benda á undarlegar merkingar á “miðaldahlýnuninni” og Litlu Ísöldinni – en á báðum stöðum skeikar það um nokkur hundruð ár. Það sem skortir hér er hitastig síðastliðin 100 ár eða svo. Þegar upprunalegu gögnin eru skoðuð fram yfir síðustu aldamót og þau borin saman við ofangreinda mynd þá fæst þessi mynd:

Hér sést að núverandi hitastig samkvæmt Easterbrook (blá lína) er næstum 3°C lægra en hitastigið í raun er – nú upp á Grænlandsjökli (græn lína). Hér er því mesta rangtúlkunin sem að fundist hefur hingað til hjá Easterbrook. Hér er er um staðbundinn hita að ræða og því lítið hægt að túlka út frá þessu – en það er augljóst að hitastigið nú er orðið nánast jafn hátt og það var þegar það var mest á Grænlandsjökli á nútíma.

Nú er spurning hvað aðrir efasemdamenn segja – verður ekki að rannsaka þetta nánar?

Heimildir og ítarefni

Aðalheimild fyrir þessari færslu eru færslur af bloggsíðunni Hot Topic

Tengdar síður á loftslag.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband