Færsluflokkur: Rannsóknir
22.6.2009 | 22:55
Sjávarstöðubreytingar
Hækkun sjávarstöðu er ein af verri afleiðingum hækkandi hitastigs og því eitt af því sem menn eru að reyna að átta sig á. Við hækkun sjávarstöðu geta þéttbýl landsvæði farið undir sjó, sjávarflóð geta aukist og haft verri afleiðingar, með tilheyrandi mengun grunnvatnsstöðu og strandrofi. En hvað mun sjávarstaða hækka mikið það sem af er þessari öld?
Í skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi er eftirfarandi texti:
Líkleg hækkun sjávaryfirborðs til loka aldarinnar er háð því hversu mikið hlýnar, en varmaþennsla veldur um 70% af hækkuninni. Stór óvissuþáttur í sjávaryfirborðshækkun felst í hugsanlegum breytingum á ísflæði í stóru íshvelunum á Grænlandi og Suðurskautslandinu. Þessi óvissuþáttur er ekki tekinn inn í útreikninga IPCC, en gæti aukið við sjávaryfirborðshækkunina. Hér að neðan verður því miðað efri mörk hækkunarinnar sem kemur fram hjá IPCC. Þetta er ófullkomin aðferð við að vega saman óþekkta óvissu vegna hugsanlegrar aukningar ísflæðis og þekktrar óvissu vegna annarra þátta, og mikilvægt er að hafa í huga að ekki er hægt að útiloka mun meiri sjávaryfirborðshækkun
Með því að taka hæstu gildi IPCC skýrslunnar fást allt að 0,6 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100 (frá árinu 1990) miðað við 4°C hækkun hitastigs. Í skýrslunni sem ég vitna í hér fyrir ofan kemur einnig fram að frá 1904-2003 hafi sjávarborð hækkað um 1,74 mm á ári (eða um 17 sm á öld), en einnig kemur fram að frá 1997-2007 hafi sjávarborð hækkað um 3,4 mm á ári og því ljóst að hækkun yfirborðs sjávar hefur sótt í sig veðrið, þá vegna aukinnar hlýnunar sjávar og aukinnar bráðnunar jökla.
Það skal tekið fram að allar sjávarstöðubreytingar sem ég tala um hér, eru hnattrænar breytingar fengnar út með mælingum á sjávarföllum á síðustu öld og síðar með gervihnattamælingum. Þá er búið að leiðrétta fyrir landrisi og landsigi, en það flækir málið víða, t.d. hér á Íslandi. Sem dæmi þá er land að rísa á Suðausturlandi vegna minna jökulfargs og er það frá 10-15 mm á ári. Á móti kemur að landsig er víða annars staðar, t.d. er það um 3,4 mm á ári í Reykjavík og allt að 8 mm á ári yst á Reykjanesi. Hugsið það bara þannig að þegar talað er um hækkun sjávarstöðu í kringum aldamótin 2100, þá má bæta 0,34 m við sjávarstöðuhækkunina í Reykjavík og 0,8 m við hækkunina á Reykjanesi, en draga 1,0-1,5 m frá hækkuninni á Suðausturlandi.
Í Kaupmannahafnarskýrslunni kemur einnig fram að hækkun sjávarstöðu hafi sótt í sig veðrið undanfarin ár, eins og sést á þessari mynd:
Sjávarstöðubreytingar frá 1970, smella þarf á myndina tvisvar til að sjá hana í réttri stærð, en skýringar eru á ensku.
Nýlegar rannsóknir um mögulega hækkun sjávarstöðu eru nokkuð hærri en áætlanir IPCC gerir ráð fyrir, t.d. gerir ein rannsókn ráð fyrir möguleikanum á 0,5-1,4 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100. Önnur rannsókn gerir ráð fyrir 0,8-2,0 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100.
Eitt eiga allar tilgátur um hækkun sjávarstöðu sameiginlegt og það er að jafnvægi muni ekki nást fyrr en eftir nokkur hundruð til þúsund ár og að sjávarstaða muni hækka töluvert á þeim tíma. Í dag las ég frétt um rannsóknarhóp sem segir að þessi jafnvægisstaða muni verða í kringum 25 m. Munið að það er ekki talið líklegt að það gerist á næstu áratugum, frekar horft til næstu þúsund ára eða svo. Með samsætumælingum í götungum í setlögum Rauða hafsins og samanburði við ískjarna í Suðurskautinu telja vísindamennirnir sem sagt að miðað við núvarandi CO2 magn í andrúmsloftinu þá sé jafnvægisstaða sjávarborðs um 25 m hærra en það er í dag (+/- 5 m). Það er reyndar í nokkru samræmi við hærri sjávarstöður sem eru um 3ja milljón ára gamlar og eru í 15-25 m hæð yfir núverandi sjávarmáli - en á þeim tíma var magn CO2 svipað og það er í dag.
Við getum svo sem huggað okkur við það að menn telja að þetta gerist ekki fyrr en eftir þúsund ár eða svo, nema hvað að ég las í dag frétt um nýja rannsókn sem bendir til þess að jökulbreiður geti hörfað hraðar en menn töldu áður og þar með hraða því að jafnvægi sjávarstöðuhækkana náist - það geti jafnvel gerst á örfáum hundruðum ára.
------
Það skal á það bent að jafnvel þótt þessar tvær fréttir séu ótengdar, þá tengdi ég þær svona saman og því er þetta mín túlkun á þeim. Segjum að það gerist á næstu 500 árum að jafnvægi upp á 25 m náist og að sjávarstöðuhækkunin verði jöfn og þétt fram að því. Þá yrði sjávarstaðan árið 2100, um 5 m hærri en hún er í dag og 25 m hærri árið 2500.
Mér datt því í hug að leika mér smá, sérstaklega eftir að ég rakst á skemmtilega viðbót í Google Earth. Þeir sem eru með Google Earth geta prófað eftirfarandi:
Opnið eftirfarandi viðbót í Google Earth: Rising Sea Level animation
Hér eru svo leiðbeiningar um hvernig stilla skuli Google Earth: Sjá ->hér<-
Niðurstaðan út úr þessum æfingum eru eftirtaldar tvær myndir sem sýna 5 m sjávarstöðuhækkun og 25 m:
Hækkun sjávarstöðu um 5 m í Reykjavík (ljós skuggi) samkvæmt Google Earth (smella til að stækka).
Hækkun sjávarstöðu um 25 m í Reykjavík (ljós skuggi) samkvæmt Google Earth (smella til að stækka).
Ég var þó ekki alveg sáttur við Google Earth, því mig grunar að landlíkan þeirra sé eitthvað vitlaust hér við land (auk þess sem skerpan er ekki nógu góð á myndinni, þegar ég er í Google Earth heima - kann ekki að laga það). Mig grunar að þessi viðbót virki samt nokkuð vel á þéttbýlari stöðum heims, t.d. London, New York og svo framvegis, svo endilega prófið.
Ég ákvað að búa mér til mitt eigið kort af vestanverðri Reykjavík og fylgdi hæðarlínum að mestu:
Sjávarstöðuhækkanir í Reykjavík á næstu öldum, fjólublátt sýnir 5 m hækkun og ljósblátt 25 m hækkun sjávarstöðu (smella til að stækka).
En þetta er að sjálfsögðu óljóst - eitt er þó víst að ef ég ætla að kaupa mér land í framtíðinni, sem ég vil að verði einhvers virði fyrir afkomendur mína, þá mun ég skoða hversu hátt yfir sjó landið er, svo viss er ég um að sjávarborð muni rísa töluvert á næstu hundrað árum.
21.6.2009 | 01:27
Enn ein skýrslan
Nú er komin út enn ein skýrslan sem maður þarf að prenta út og lesa í sumarfríinu. Hér er um að ræða skýrslu sem ætluð er að brúa bilið frá IPCC skýrslunum 2007 og uppfæra þá þekkingu sem bæst hefur við síðan þá. Hún er unnin upp úr ráðstefnu sem haldin var í mars í Kaupmannahöfn og virðist full af nýjum upplýsingum sem hjálpa mun þjóðum heims að ákveða hvað skuli gera, hvað varðar viðbrögð við loftslagsbreytingum. Eftir að hafa rennt mjög lauslega í gegnum skýrsluna þá sýnist mér að það helsta í skýrslunni sé þetta:
Skýrslan sýnir fram á að staðan er verri í dag, en áætlanir IPCC gera ráð fyrir og að hættan hafi aukist á dramatískum áhrifum loftslagsbreytinga. Þá fer hún yfir viðbrögð til að takmarka áhrifin. Þá segir í skýrslunni að aðgerðarleysi sé óafsakanlegt í ljósi þeirra þekkingar sem við búum yfir. Eflaust er mun meira í henni, en skoða má skýrsluna ->Hér<-
Á sama tíma birtir umhverfisstofnun þær fréttir að losun íslendinga á gróðurhúsalofttegundum hafi aukist um 6% milli árana 2006 og 2007.
2.6.2009 | 20:26
Drangajökull stækkar
Ég heyrði í dag umfjöllum og viðtal við Odd Sigurðsson á Rás 2 um Drangajökul og það að hann er að stækka en ekki að minnka eins og flestir aðrir jöklar. Heyra má umfjöllunina hér (þegar liðnar eru 36:15 mínútur).
Drangajökull hefur haldið í horfinu eða stækkað frá því hann var mældur fyrst árið 2005 (athugið hvað er stutt síðan hann var mældur almennilega fyrst). Þar sem hitinn hefur verið að aukast, þá er líklegasta skýringin að úrkoman sé að aukast. Það má sjá smá umfjöllun um Drangajökul á vísindavefnum.
Drangajökull. Jökulskerin Hrolleifsborg, Reyðarbunga og Hljóðabunga sjást vel - lágskýjað á bakvið jökulinn. Reyðarbunga sást fyrst upp úr 1930 og tala sjómenn um að hún hafi orðið sýnilegri undanfarna áratugi (mynd tekin í júlí 2004).
28.5.2009 | 17:36
Að hlusta á hlýnun jarðar!
Rakst á áhugaverða frétt á heimasíðu National Geographic um nýja rannsókn.
Hún fjallar um það hvernig jarðskjálftafræðingar hafa í gegnum tíðina síað út bylgjusuð sem jarðskjálftamælar nema þegar úthafsalda kemur af fullum krafti að landi - vegna truflana sem suðið veldur við mælingu jarðskjálfta.
Nú ætla menn að snúa þessu við og sía út jarðskjálftana til að sjá breytingu í þeirri orku sem úthafsaldan veldur þegar hún kemur að landi. Vísindamennirnir eru nú að vinna úr þessum bylgjugögnum, sem ná aftur til fjórða áratug síðustu aldar og hafa verið mældar á sambærilegan hátt allan þann tíma (vissulega stafrænt síðustu áratugi - en samt sambærilegar mælingar) og því ættu það að vera nokkuð áreiðanleg gögn.
Þar sem menn deila um það hvort stormar séu að aukast eða ekki við hlýnun jarðar, þá gæti þessi rannsókn skorið úr um það.
23.5.2009 | 15:09
Hlýnun jarðar - gróðurhúsaáhrif og CO2. Sagan.
Það eru ýmis villandi mótrök í gangi varðandi CO2 (koldíoxíð) og áhrif þess á loftslag. Í ljósi þess þá ætla ég að fara yfir sögu kenningarinnar í stuttu máli, síðan fræðin á bak við kenninguna um hlýnun jarðar af mannavöldum og að lokum ætla ég að fara yfir helstu mótrökin sem haldin eru á lofti gegn kenningunni. Líklega verða þetta þrjár aðskildar færslur.
Fyrst vil ég minna á bloggfærslu þar sem ég skrifaði einfalda lýsingu á gróðurhúsaáhrifunum og er hún ágæt ef fólk vill fá mjög einfalda mynd af ástæðunum á bakvið hlýnun jarðar.
Upphafið.
Saga hugmynda og kenninga um loftslagsbreytingar er nokkuð löng (textinn hér er að mestu þýddur af heimasíðu um uppgötvun hlýnunar jarðar - Discovery of Global Warming og myndir teknar héðan og þaðan). Þegar vísindamenn uppgötvuðu ísaldir fortíðar varð mönnum ljóst að miklar loftslagsbreytingar hefðu átt sér stað í fyrndinni. Menn tengdu það breytingum í hita sólar, eldgos, fellingahreyfingar fjalla sem breyttu vindáttum og sjávarstraumum. Einnig komu fram hugmyndir um að breytingar hefðu átt sér stað í andrúmsloftinu.
Árið 1896 fékk sænskur vísindamaður að nafni Svante Arhenius þá hugmynd að með brennslu jarðefnaeldsneytis, sem myndi auka CO2 í andrúmsloftinu, myndum við auka meðalhita jarðar - það þótti þó ekki líklegt, þar sem eðlis- og efnafræðin á bakvið kenninguna var ekki nægilega þekkt.
Mynd af Svante Arrhenius, stærri myndin tekin á Svalbarða, hann fékk Nóbelinn í efnafræði þótt kenningar hans um hlýnun af völdum CO2 hafi ekki fengið hljómgrunn í fyrstu (mynd tekin af heimasíðunni The Discovery of Global Warming)
Á fjórða áratug síðustu aldar, tóku menn eftir því að Bandaríkin og svæði umhverfis Norður-Atlantshafið hafði hlýnað töluvert síðastliðna hálfa öld. Vísindamenn töldu að þetta væri bara tímabundið skeið náttúrulegra breytinga af óvissum ástæðum. Reyndar hélt maður að nafni G.S Callandar á lofti kenningu um einhvers konar gróðurhúsaáhrif. En hver sem ástæðan var fyrir hlýnuninni, þá fögnuðu menn henni.
Á sjötta áratugnum fóru nokkrir vísindamenn að kanna gróðurhúsakenningu Callandars með betri tækni og útreikningum. Þessar rannsóknir sýndu fram á að CO2 gæti vissulega safnast upp í lofthjúpnum og myndi valda hlýnun. Mælingar sýndu loks fram á það árið 1961 að magn CO2 væri í raun að vaxa í lofthjúpnum.
Framfarir
Á næstu áratugum fleygði vísindunum fram, fram komu einföld stærðfræðilíkön sem reiknuðu út loftslagsbreytingar, rannsóknir á fornloftslagi út frá frjókornum og steingervingum skelja tóku kipp og smám saman áttuðu menn sig á því að alvarlegar loftslagsbreytingar væru mögulegar og höfðu gerst. Árið 1967 sýndu útreikningar að meðalhiti jarðar gæti hækkað um nokkrar gráðu innan 100 ára af völdum útblásturs CO2. Ekki þótti ástæða til að hafa áhyggjur af þessu en sýnt hafði verið fram á að það þyrfti að rannsaka þetta betur.
Umhverfisvitund vaknaði á áttunda áratugnum og uggur jókst varðandi athafnir manna og áhrif þeirra á umhverfið. Ásamt gróðurhúsakenningunni komu fram réttmætar áhyggjur vegna sóts og rykagna í andrúmsloftinu af völdum manna og afleiðingar þeirra til kólnunar - mælingar sýndu kólnun frá því á fimmta áratugnum á norðuhveli jarðar og voru fjölmiðlar sérstaklega ruglingslegir í umfjöllun sinni og blésu upp fréttir af næstu ísöld á einni blaðsíðu og þeirri næstu fréttir af geigvænlegum flóðum vegna bráðnunar jökulskjaldanna.
Það má eiginlega segja að þrátt fyrir allt, þá var það eina sem vísindamenn voru almennt sammála um á þessum tíma, að mikill skortur væri á þekkingu á loftslagskerfum jarðar. Söfnun loftslagsgagna jókst hröðum skrefum, allt frá mælingum hafrannsóknaskipa og yfir í gervihnattamælingar.
Flókið púsluspil
Vísindamönnum varð smám saman ljóst að um flókið púsluspil væri að ræða og að margt hefði áhrif á loftslag. Eldvirkni og breytingar í sólinni voru ennþá talin vera frumkrafturinn á bak við loftslagsbreytingar og að þeir kraftar yfirgnæfðu áhrif manna. Jafnvel lítil breyting á sporbraut jarðar hefði áhrif. Það kom í ljós að stjarnfræðilegar hringrásir (fjarlægð frá sólu, breytingar í möndulhalla o.fl.) hefðu að hluta sett af stað jökulskeið ísalda. Ískjarnar úr jöklum Grænlands og Suðurskautsins sýndu einnig fram á mikil og geigvænleg stökk í hitastigi jarðar í fyrndinni.
Með keyrslu betri tölvulíkana fóru að koma fram vísbendingar um hvernig þessar snöggu hitabreytingar ættu sér stað, t.d. með breytingum í hafstraumum. Sérfræðingar spáðu þurrkum, stormum, hærri sjávarstöðu og öðrum hörmungum. Þekkingin var þó ekki næg og urðu vísindamenn að mata líkön sín með upplýsingum sem ekki voru nægileg til að hægt væri að treysta þeim, upplýsingar um skýjahulur og fleira. Einnig voru raddir háværar um þekkingarleysi þess hvernig loftslag, lofthjúpurinn og vistkerfi jarðar verkuðu saman.
Mælingar sýndu að fleiri lofttegundir voru að aukast í andrúmsloftinu, lofttegundir sem myndu hafa áhrif til hlýnunar og væru skaðleg ósonlaginu [Með sameiginlegu átaki jarðarbúa gátu menn komið í veg fyrir eyðingu ósonlagsins en það er önnur saga]. Viðkvæmni lofthjúpsins var þannig opinberuð. Í lok áttunda áratugsins var ljóst að hitastig var enn að hækka og alþjóðleg vísindaráð byrjuðu að hvetja til minnkunar útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Árið 1988 var heitasta árið frá því mælingar hófust fram að því (flest árin síðan hafa verið heitari). Vegna óvissu og vegna þess hve flókin loftslagskerfin eru deildu vísindamenn áfram um hvort ríki heims ættu að gera eitthvað í málinu. Samtök og einstaklingar sem voru á móti reglugerðum um losun CO2 byrjuðu að eyða miklum peningum í að sannfæra fólk um að vandamálið væri ekki til staðar.
Óvissan minnkar
Rannsóknir vísindamanna jukust hröðum skrefum og skipulögðu verkefni sem náðu um allan hnött. Ríki heims tóku saman höndum og settu á laggirnar vísindanefndir skipaðar vísindamönnum og embættismönnum til að komast að samkomulagi um hvað væri í raun að gerast.
Árið 2001 komst vísindanefndin (IPCC) að niðurstöðu um mjög varlega orðaða ályktun sem fáir sérfræðingar voru ósammála um. Nefndin gaf út þá yfirlýsinga að þó að loftslagskerfi jarðar væri það flókið að vísindamenn myndu aldrei þekkja það algjörlega til hlýtar, þá væri það miklum mun líklegra en ekki að jarðarbúar myndu verða fyrir barðinu á mikilli hnattrænni hlýnun. Á þessum tímapunkti var kenningin um hlýnun jarðar því fullmótuð í raun. Vísindamenn voru búnir að púsla saman nægilega mikið af púslinu til að hafa mikla hugmynd um það hvernig loftslag gæti breyst á 21. öldinni og að það sem hefði hvað mest áhrif væri hvernig losun CO2 myndi þróast.
Frá 2001 hafa tölvulíkön þróast og magn fjölbreytilegra gagna aukist gríðarlega, sem styrkt hefur þá niðurstöðu að útblástur manna sé líklegt til að valda alvarlegum loftslagsbreytingum. IPCC staðfesti það í skýrslum frá árinu 2007, en enn eru töluverð skekkjumörk á áætluðum loftslagsbreytingum, meðal annars vegna óvissu um hversu mikið verður hægt að draga úr útblæstri CO2.
Í lok næstu aldar er því áætlað að hnattrænn hiti jarðar verði búinn að aukast um 1,4 - 6°C. Þrátt fyrir að enn sem komið er sé hitinn ekki farinn að nálgast þessi hitagildi, þá eru áhrif hlýnunar þegar farin að hafa áhrif á jarðarbúa. Dauðsföll af völdum hitabylgja í Evrópu, hækkandi sjávarstaða, meiri þurrkar og flóð, útbreiðsla hitabeltissjúkdóma og hnignun viðkvæmra dýrategunda.
Þekking manna eykst á orsökum hlýnunarinnar, enn koma þó mótbárur frá litlum hóp vísindamanna um að CO2 sé orsökin, en loks er þó útlit fyrir að ríki heims ætli að taka saman höndum og reyna að draga úr losun CO2 - það mun reynast gríðarlega erfitt verkefni, enda er stefnan sett á það markmið að reyna að forðast að hitinn fari yfir 2°C, miðað við árið 1990.
Næst fer ég í gegnum helstu atriði kenningunnar um hlýnun jarðar af völdum útblásturs CO2.
Rannsóknir | Breytt 27.5.2009 kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.5.2009 | 22:03
Skýrslur um ástandið á Norðurslóðum.
Vistkerfi sjávar á norðurslóðum
Ég rakst á nýlega skýrslu frá The Marine Climate Change Impacts Partnership (MCCIP) sem undirstrikar hversu miklar, hraðar og samtengdar breytingar í sjónum eru af völdum hlýnunar (skýrsluna má finna hér - þar er tengill yfir í skýrsluna á pdf formi - mæli með henni).
Hún er eiginlega útdráttur úr safni ritrýndra greina þar sem tekið var saman sú þekking sem til er á fimm sviðum tengdum vistkerfum sjávar á Norður-Atlantshafi (sérstaklega í nágrenni Bretlands): Umfjöllunarefnin eru súrnun sjávar (CO2 and ocean acidification), hafís norðurskautsins (Arctic sea ice), sjófuglar (A view from above), nýjar tegundir sjávar (Non-native species) og íbúar strandsvæða (Coastal economies and people). Á síðum þeim sem tengillinn vísar í er hægt að nálgast ritrýndu greinarnar á pdf formi.
Vistkerfi norðurslóða
Þá vil ég minna á ágæta norska skýrslu sem ég gæti hafa verið búinn að minnast á áður (hún er á ensku - eins og skýrslan hér fyrir ofan), um áhrif hlýnunar jarðar á vistkerfi norðurslóða. Hér er frétt um hana.
4.5.2009 | 23:22
Straumar í Norður-Atlantshafi.
Ég varð bara að minnast á frétt sem ég var að lesa, aðallega af því að það fylgir góð skýringarmynd fréttinni.
Hún fjallar um nýjar rannsóknir á hitafari sjávar í Norður-Atlantshafi og hvernig nota megi þær til betri spáa um loftslagsbreytingar. Ég hef svo sem lítið um þetta að segja, þar sem ég hef litla þekkingu á málinu, en vísindamennirnir segja eftirfarandi (lauslega þýtt):
Hefðbundna skýringin er sú að breytileikinn í vatnsmassafærslum milli Norðurhafs og Norður-Atlantshafs stjórnist af breytingum í djúpsjó úr norðri. Við sjáum frávik sem hægt er að rekja til framlengingu Golfstraumsins yfir í Noregshaf.
Breyting frá heitum (rautt) og yfir í kaldan sjó (blá) í Norðurhafi. Svarta örin sýnir framlengingu á golfstraumnum yfir í Norefshaf og gráu örvarnar kalda djúpsjávarflæðið til baka.
Rannsóknin er sögð bæta þekkingu á Hita-Seltuhringrásinni í Atlantshafi frá heita Golfstrauminum í yfirborði og yfir í kalda djúpsjávarstrauma (sjá t.d. vísindavefinn). Rannsóknin er því sögð setja ný viðmið við að meta hvaða hafsvæði og mælingar eru best til að skilja loftslagsbreytingar að fornu og nýju og þar með hvaða grunn skuli nota við framtíðar vöktun og líkanagerð í tengslum við loftslagspár varðandi Norður-Atlantshaf og Norðursjávarsvæðin.
Hvort eitthvað sé til í þessu veit ég ekki, en myndin er flott - greinin sjálf birtist í Nature Geoscience, 2009: Eldevik et al. Observed sources and variability of Nordic seas overflow.
4.5.2009 | 21:23
Hafísútbreiðsla
Ég rakst á forvitnilega frétt um teymi vísindamanna sem ætla að reyna að vinna úr og lagfæra gervihnattagögn frá sjöunda áratugnum til að sjá útbreiðslu hafíss á þeim tíma. Hingað til hafa eingöngu verið til gögn aftur til ársins 1979. Eða eins og vísindamennirnir segja:
Expected Outcome and Impact
This project will provide an unprecedented improvement and assessment of a unique set of historical imagery. It will recover valuable data that is in danger of being lost. The recovered data will potentially extend our record of sea ice minimum extent, a key climate indicator, more than a decade longer than currently exists.
Þetta er flókið og erfitt verk og óljóst hvort þeim tekst þetta, en það verður áhugavert að fylgjast með því.
Dæmi um hvernig gögn er um að ræða, fyrir og eftir leiðréttingu (mynd frá http://cires.colorado.edu)
17.4.2009 | 22:57
Vöktun lífríkis
Áhugavert verkefni, fróðlegt að sjá hvernig fiðrildin nema land hér vegna loftslagsbreytinga og frábært að þetta verkefni skuli vera búið að vera í gangi frá 1995 - því samanburður í langan tíma er besti mælikvarðinn við að meta breytingar.
En öll langtímavöktun lífríkisins er ákaflega nauðsynleg á tímum hlýnandi jarðar, til að gera grein fyrir hvernig loftslag hefur áhrif á lífríkið. Ég minntist á um daginn á rannsóknina GLORIA en þar eru menn að fylgjast með áhrifum tegundafjölbreytni flórunnar á fjallatindum norðanlands, en líklegt er að plöntur færi sig ofar og hverfi loks eftir því sem það hlýnar.
En vísindamenn Íslands vakta meira en fiðrildi og gróður, nefna má dæmi vöktun bjargfugla en þeir geta gefið góðar vísbendingar um þróun lífríkisins ef hlýnar. Þá má nefna að góður vinur minn og fuglafræðingur Tómas Grétar Gunnarsson hefur litmerkt jaðrakana síðan árið 1999, endilega hafið samband við hann ef þið sjáið litmerkta jaðrakana, sjá þetta pdf skjal (ég veit ekki betur en að þetta verkefni sé enn í gangi, vona það allavega)
Einn af jaðrökunum sem Tómas hefur merkt.
Ein af ástæðunum fyrir að ég er að minnast á fugla er að það eru vísbendingar um farflug fugla byrji fyrr nú en fyrir nokkrum áratugum, sjá t.d. frétt frá því í fyrra hér. En það sem verra er, er að það eru vísbendingar um að fuglar þurfi smám saman að fljúga lengra og lengra eftir því sem það hlýnar. Í fyrsta lagi þurfi þeir að fljúga norðar og sérstaklega getur þetta orðið erfitt fyrir þá fugla sem fljúga yfir Sahara. Þá er mjög mikilvægt að varðveittir séu þeir staðir þar sem fuglarnir stoppa á leiðinni, svo þeir geti hvílt sig og safnað orku.
Fiðrildavertíðin er hafin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.4.2009 | 00:07
Hlýnun miðalda í Evrópu.
Ég hef áður minnst á hlýnunina sem varð í Evrópu á blómaskeiði miðalda - það er ein af þeim rökum sem notuð eru gegn hlýnun jarðar af mannavöldum (útblástur CO2 var ekki á miðöldum og því er hlýnunin nú af náttúrulegum völdum). Rannsóknir sýna aftur á móti að hlýnunin sem varð hér í Evrópu var ekki hnattræn eins og hlýnunin sem við erum að verða vitni af í dag (og er af mannavöldum). Óljóst hefur verið hingað til af hvaða völdum hlýnunin í Evrópu varð.
Nú er komin fram kenning sem útskýrir þessa staðbundnu hlýnun (sjá frétt á NewScientist: Natural mechanism for medieval warming discovered). Rannsóknin byggir á árhringjum trjáa í Marokkó og dropasteinum í helli í Skotlandi undir mýri og ætlunin var að finna út hversu blautt eða þurrt var á þessum slóðum síðastliðin þúsund ár.
Dæmigerðir dropasteinar (mynd Wikipedia).
Veðrið á Skotlandi verður fyrir miklum áhrifum af lægðakerfi (sem kennt er við Ísland - Icelandic Low) og veðrið á Marokkó af hæðakerfi (Azores High). Á miðöldum var úrkoma mikil á Skotlandi og mjög þurrt á Marókkó og því var hægt að endurskapa þrýstingsmun á þessum slóðum á miðöldum.
Þessi þrýstingsmunur bendir til að á miðöldum hafi verið mjög sterk jákvæð Norður-Atlantshafssveifla (North Atlantic Oscillation - NAO).
Norður-Atlantshafssveiflan er loftslagsfyrirbrigði, sem lýsir sveiflum í loftþrýstingi yfir Norður-Atlantshafi. Hún sýnir loftþrýstingsmun á milli Íslands og Asoreyja en sá munur segir til um stefnu og styrk vestanáttar yfir Norður-Atlantshafinu og er einn af aðalorsakaþáttum breytilegs veðurfars í Evrópu. Norður-Atlantshafssveiflan er öflugasta loftslagsfyrirbrigðið á norðurhveli jarðar, þar sem hún er til staðar alla mánuði ársins. Hún er þó öflugust yfir vetrarmánuðina, frá desember fram í mars. (tekið af http://is.wikipedia.org).
Því sterkari sem sveiflan er, því meira af heitu lofti sem leikur um Evrópu. Þessi sterka sveifla varði í um 350 ár, frá 1050-1400.
Ástæðan fyrir þessum sterku hlýju vindum má rekja til þess að í Kyrrahafi var El Nino kerfið í neikvæðu La Nina ferli, sem þýðir að þar var kaldara en venjulega.
El Nino og Atlantshafssveiflan eru tengd með svokallaðri seltuhringrás:
Seltuhringrásin á upphaf sitt við Grænland, en þar sekkur kaldur sjór og dregur með sér heitan yfirborðsjó. Hringrásin nær um allan hnött (mynd af http://www.srh.noaa.gov/)
Kenningin gerir ráð fyrir að svokölluð jákvæð afturhverf áhrif (positive feedback) milli La Nina og Norður-Atlantshafssveiflunnar gætu hafa styrkt hvort annað og haft áhrif á stöðugleika miðaldarhlýnunarinnar í Evrópu. Vísindamennirnir telja að breyting í annað hvort útgeislun sólar eða eldvirkni hafi hleypt þessu af stað og slökkt á því.
Talin er hætta á að hin manngerða hlýnun sem nú á sér stað geti sett El Nino í langtíma La Nina ferli, þrátt fyrir að líkön bendi til að það verði akkúrat öfugt. Ef það myndi gerast gætu svæði, sem nú þegar þjást af þurrkum vegna hlýnunar jarðar, orðið harðar úti af völdum þurrka og nefnd sem dæmi norðvestur Ameríka.