Sjávarstöðubreytingar

Hækkun sjávarstöðu er ein af verri afleiðingum hækkandi hitastigs og því eitt af því sem menn eru að reyna að átta sig á. Við hækkun sjávarstöðu geta þéttbýl landsvæði farið undir sjó, sjávarflóð geta aukist og haft verri afleiðingar, með tilheyrandi mengun grunnvatnsstöðu og strandrofi. En hvað mun sjávarstaða hækka mikið það sem af er þessari öld?

Í skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi er eftirfarandi texti:

Líkleg hækkun sjávaryfirborðs til loka aldarinnar er háð því hversu mikið hlýnar, en varmaþennsla veldur um 70% af hækkuninni. Stór óvissuþáttur í sjávaryfirborðshækkun felst í hugsanlegum breytingum á ísflæði í stóru íshvelunum á Grænlandi og Suðurskautslandinu. Þessi óvissuþáttur er ekki tekinn inn í útreikninga IPCC, en gæti aukið við sjávaryfirborðshækkunina. Hér að neðan verður því miðað efri mörk hækkunarinnar sem kemur fram hjá IPCC. Þetta er ófullkomin aðferð við að vega saman óþekkta óvissu vegna hugsanlegrar aukningar ísflæðis og þekktrar óvissu vegna annarra þátta, og mikilvægt er að hafa í huga að ekki er hægt að útiloka mun meiri sjávaryfirborðshækkun

Með því að taka hæstu gildi IPCC skýrslunnar fást allt að 0,6 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100 (frá árinu 1990) miðað við 4°C hækkun hitastigs. Í skýrslunni sem ég vitna í hér fyrir ofan kemur einnig fram að frá 1904-2003 hafi sjávarborð hækkað um 1,74 mm á ári (eða um 17 sm á öld), en einnig kemur fram að frá 1997-2007 hafi sjávarborð hækkað um 3,4 mm á ári og því ljóst að hækkun yfirborðs sjávar hefur sótt í sig veðrið, þá vegna aukinnar hlýnunar sjávar og aukinnar bráðnunar jökla.

Það skal tekið fram að allar sjávarstöðubreytingar sem ég tala um hér, eru hnattrænar breytingar fengnar út með mælingum á sjávarföllum á síðustu öld og síðar með gervihnattamælingum. Þá er búið að leiðrétta fyrir landrisi og landsigi, en það flækir málið víða, t.d. hér á Íslandi. Sem dæmi þá er land að rísa á Suðausturlandi vegna minna jökulfargs og er það frá 10-15 mm á ári. Á móti kemur að landsig er víða annars staðar, t.d. er það um 3,4 mm á ári í Reykjavík og allt að 8 mm á ári yst á Reykjanesi. Hugsið það bara þannig að þegar talað er um hækkun sjávarstöðu í kringum aldamótin 2100, þá má bæta 0,34 m við sjávarstöðuhækkunina í Reykjavík og 0,8 m við hækkunina á Reykjanesi, en draga 1,0-1,5 m frá hækkuninni á Suðausturlandi.

Í Kaupmannahafnarskýrslunni kemur einnig fram að hækkun sjávarstöðu hafi sótt í sig veðrið undanfarin ár, eins og sést á þessari mynd:

sjavarstöðubreytingar
Sjávarstöðubreytingar frá 1970, smella þarf á myndina tvisvar til að sjá hana í réttri stærð, en skýringar eru á ensku.

Nýlegar rannsóknir um mögulega hækkun sjávarstöðu eru nokkuð hærri en áætlanir IPCC gerir ráð fyrir, t.d. gerir ein rannsókn ráð fyrir möguleikanum á 0,5-1,4 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100. Önnur rannsókn gerir ráð fyrir 0,8-2,0 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100.

Eitt eiga allar tilgátur um hækkun sjávarstöðu sameiginlegt og það er að jafnvægi muni ekki nást fyrr en eftir nokkur hundruð til þúsund ár og að sjávarstaða muni hækka töluvert á þeim tíma. Í dag las ég frétt um rannsóknarhóp sem segir að þessi jafnvægisstaða muni verða í kringum 25 m. Munið að það er ekki talið líklegt að það gerist á næstu áratugum, frekar horft til næstu þúsund ára eða svo. Með samsætumælingum í götungum í setlögum Rauða hafsins og samanburði við ískjarna í Suðurskautinu telja vísindamennirnir sem sagt að miðað við núvarandi CO2 magn í andrúmsloftinu þá sé jafnvægisstaða sjávarborðs um 25 m hærra en það er í dag (+/- 5 m). Það er reyndar í nokkru samræmi við hærri sjávarstöður sem eru um 3ja milljón ára gamlar og eru í 15-25 m hæð yfir núverandi sjávarmáli - en á þeim tíma var magn CO2 svipað og það er í dag.

Við getum svo sem huggað okkur við það að menn telja að þetta gerist ekki fyrr en eftir þúsund ár eða svo, nema hvað að ég las í dag frétt um nýja rannsókn sem bendir til þess að jökulbreiður geti hörfað hraðar en menn töldu áður og þar með hraða því að jafnvægi sjávarstöðuhækkana náist - það geti jafnvel gerst á örfáum hundruðum ára.

------

Það skal á það bent að jafnvel þótt þessar tvær fréttir séu ótengdar, þá tengdi ég þær svona saman og því er þetta mín túlkun á þeim. Segjum að það gerist á næstu 500 árum að jafnvægi upp á 25 m náist og að sjávarstöðuhækkunin verði jöfn og þétt fram að því. Þá yrði sjávarstaðan árið 2100, um 5 m hærri en hún er í dag og 25 m hærri árið 2500.

Mér datt því í hug að leika mér smá, sérstaklega eftir að ég rakst á skemmtilega viðbót í Google Earth. Þeir sem eru með Google Earth geta prófað eftirfarandi:

Opnið eftirfarandi viðbót í Google Earth: Rising Sea Level animation

Hér eru svo leiðbeiningar um hvernig stilla skuli Google Earth: Sjá ->hér<-

Niðurstaðan út úr þessum æfingum eru eftirtaldar tvær myndir sem sýna 5 m sjávarstöðuhækkun og 25 m:

Google Earth Reykjavík 5 m
Hækkun sjávarstöðu um 5 m í Reykjavík (ljós skuggi) samkvæmt Google Earth (smella til að stækka).

Google Earth Reykjavík 20 m
Hækkun sjávarstöðu um 25 m í Reykjavík (ljós skuggi) samkvæmt Google Earth (smella til að stækka).

Ég var þó ekki alveg sáttur við Google Earth, því mig grunar að landlíkan þeirra sé eitthvað vitlaust hér við land (auk þess sem skerpan er ekki nógu góð á myndinni, þegar ég er í Google Earth heima - kann ekki að laga það). Mig grunar að þessi viðbót virki samt nokkuð vel á þéttbýlari stöðum heims, t.d. London, New York og svo framvegis, svo endilega prófið.

Ég ákvað að búa mér til mitt eigið kort af vestanverðri Reykjavík og fylgdi hæðarlínum að mestu:

5-25 m Reykjavik copy
Sjávarstöðuhækkanir í Reykjavík á næstu öldum, fjólublátt sýnir 5 m hækkun og ljósblátt 25 m hækkun sjávarstöðu (smella til að stækka).

En þetta er að sjálfsögðu óljóst - eitt er þó víst að ef ég ætla að kaupa mér land í framtíðinni, sem ég vil að verði einhvers virði fyrir afkomendur mína, þá mun ég skoða hversu hátt yfir sjó landið er, svo viss er ég um að sjávarborð muni rísa töluvert á næstu hundrað árum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Tívolí í Kaupmannahöfn fer alveg á kaf við 6 metra hækkun (reyndar byrjar að flæða inn við 3 metra), samkvæmt Google Earth.

Sveinn Atli Gunnarsson, 22.6.2009 kl. 23:27

2 identicon

Þetta er flott færsla.

Guðni Elísson (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 23:44

3 Smámynd: Loftslag.is

Takk fyrir það. Ég verð alltaf jafn hissa á það hversu mismunandi mikil viðbrögð bloggfærslur mínar vekja. T.d. bjóst ég við heljar (s)tuði og umræðu út af þessari færslu og var ég nokkuð montinn með þessa færslu fyrirfram og þá sérstaklega myndina sem ég dundaði mér við hálfa kvöldstund (photoshop, engin fansí landupplýsingakerfi hjálpuðu mér).

Svo tengdi ég við eina frétt um náttúruhamfarir, skrifaði smá texta og vísaði í eitthvað (sjá Loftslag framtíðar) og þá fékk ég gríðarmikil viðbrögð.

Margt er nú skrítið við þetta...

Loftslag.is, 24.6.2009 kl. 15:44

4 Smámynd: Loftslag.is

Hvar er umræðan um smábátahöfnina í Vatnsmýrinni sem verður árið 2100 eða eyjarnar flottu, önnur með Hallgrímskirkjuturninn í miðjunni.

Loftslag.is, 24.6.2009 kl. 15:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband