Samsæri vísindamanna

Maður heyrir stundum þau rök gegn kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum að þetta sé eitt allsherjar samsæri.

Það er ekki auðvelt að rökræða við þá sem halda því fram, en maður getur þó bent á glufur í þeim málflutningi. 

Það er í fyrsta lagi frekar langsótt að þúsundir vísindamanna séu í einu allsherjar samsæri, hvort heldur það væri meðvitað eða ekki. Efasemdamenn benda oft á að vísindamenn þurfi á þessum heimsendaspádómum að halda til að fá styrki til rannsókna. Það gleymist í þeirra rökum að benda á það að það hefur tekið vísindamenn meira en öld að komast að þeirri niðurstöðu að gróðurhúsaáhrifin eru raunveruleg og að menn geti með losun gróðurhúsalofttegunda haft áhrif á loftslag. Ekkert samsæri þar í gangi, kenningar hafa flogið fram og til baka á milli vísindamanna undanfarna öld og síðastliðna tvo áratugi hefur sú kenning orðið ríkjandi - vegna þess að gögnin styðja þessa kenningu (sjá t.d. CO2 og áhrif á loftslagsbreytingar. Nokkur mótrök.) en gögnin styðja ekki aðrar kenningar (sjá t.d. Er það virkilega ekki sólin?, Útblástur eldfjalla).

Það er vissulega rétt að það er erfiðara fyrir þá sem aðhyllast aðrar kenningar að koma þeim í gegnum það ferli að fá sínar niðurstöður birtar og ritrýndar, en það efast enginn vísindamaður um það að ef slík kenning kemur, studd af vísindalegum gögnum, þá myndu menn hlusta á það. Reyndar er það þannig að ég efast ekki um að menn myndu fagna ef sýnt yrði fram á að við þyrftum ekki að óttast losun gróðurhúsalofttegunda - ég hugsa meira að segja að sá hinn sami vísindamaður fengi Nóbelinn og yrði hylltur sem hetja. Því miður hefur enginn slíkur komið fram, enn sem komið er.

Menn halda enn í vonina að kenning Svensmark eigi eftir að reynast lausnin, en enn sem komið er hefur kenning hans ekki hlotið mikinn hljómgrunn. Það getur þó allt gerst, skoðið t.d. grein á bloggsíðu Ágústs Bjarnasonar (Nýjar fréttir af Svensmark tilrauninni hjá CERN í Sviss...). Ég er þó ekki bjartsýnn á að hans kenning hreki kenninguna um hlýnun jarðar af mannavöldum.

Varðandi peningahliðina, þá hafa vísindamenn bent á að það væri tryggara fyrir þá, til að fá meiri styrki, að segja að það sé óvissa um hlýnun jarðar af mannavöldum, frekar en að segja að nú sé niðurstaða komin í málið og að nú þurfi að bregðast við á pólitíska sviðinu.

Reyndar er það svo að undanfarinn áratug hefur kenningin um hlýnun jarðar af mannavöldum þurft að berjast við öfl sem svo sannarlega hafa töluverðan pening á milli handanna. Öfl sem hafa bæði styrkt "vísindamenn" til að halda á lofti öðrum kenningum og þá helst efanum um að hlýnun jarðar af mannavöldum sé raunveruleg - auk þess sem þeir hafa ritskoðað eigin vísindamenn.

Það að hin "illu öfl" Wink hafi styrkt vísindamenn segir ekkert um það hvort efasemdamenn hafi rangt fyrir sér eða ekki, það segir heldur ekkert til um sannleiksgildi kenningunnar um hlýnun jarðar af mannavöldum þótt meirihluti vísindamanna aðhyllist þá kenningu. Það sem skiptir máli eru gögnin og gögnin segja að jörðin sé að hlýna og að hlýnunina sé að mestu leiti hægt að rekja til losun á gróðurhúsalofttegundum (þá mest CO2) og að frekari hlýnun sé í kortunum sem muni hafa slæmar afleiðingar á samfélag manna, sérstaklega í vanþróuðu ríkjunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég var að kaupa litla bók sem heitir Seven years to save the planet en þori ekki að lesa hana! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.6.2009 kl. 00:48

2 Smámynd: Loftslag.is

Ég skal gera þér þann greiða að lesa bókina fyrir þig í sumarfríinu, en þá verður þú að lána mér hana

Loftslag.is, 22.6.2009 kl. 10:40

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Er þetta ekki örugglega ný bók? Vonandi kom hún ekki út fyrir sjö árum. Annars ágætur pistill.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.6.2009 kl. 10:46

4 identicon

Ég held að Sigurður Þór sé búinn að lesa bókina og hún viti ekki á gott. Þetta sést best á því að hann er hættur að blogga. : )

Guðni Elísson (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 12:17

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þar sem tíminn er svona naumur er ég bara að skemmta mér og sletta úr klaufunum og gera allt annað skemmtilegt en að blogga. Ég held að við höfum nefnilega bara þrjú ár!

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.6.2009 kl. 17:28

6 Smámynd: Loftslag.is

Já gott ef ég hef ekki heyrt árið 2012 nefnt í tengslum við heimsendi

Loftslag.is, 22.6.2009 kl. 21:41

7 Smámynd: Loftslag.is

Ef menn vilja verða svartsýnir, þá get ég bent á bók sem er einstaklega svarsýn samkvæmt þessari gagnrýni: http://bravenewclimate.com/2009/06/23/lovelocks-dire-vision/

Loftslag.is, 23.6.2009 kl. 00:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband