29.7.2009 | 21:27
Hækkun sjávarstöðu
Í júní birti ég færslu um sjávarstöðubreytingar þar sem farið var í helstu spár vísindamanna um hækkun sjávarstöðu fram til ársins 2100.
IPCC gerir ráð fyrir 18 - 76 sm hækkun sjávarstöðu til 2100 (ef allt er tekið inn í dæmið), en nýlegar spár hafa verið ákafari:
Nýlegar rannsóknir um mögulega hækkun sjávarstöðu eru nokkuð hærri en áætlanir IPCC gerir ráð fyrir, t.d. gerir ein rannsókn ráð fyrir möguleikanum á 0,5-1,4 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100. Önnur rannsókn gerir ráð fyrir 0,8-2,0 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100.
Ég tók það skrefi lengra og birti óábyrga spá mína út frá nýlegum rannsóknum um að jafnvægisstig sjávarstöðuhækkana miðað við núverandi hitastig yrði 25 m (en að sú hækkun sjávarborðs yrði þó ekki fyrr en eftir 1000 ár - sjá frétt) og tengdi það nýlegum rannsóknum um að bráðnun jökla geti orðið mun hraðari (jafnvægisstigi yrði náð eftir nokkur hundruð ár - sjá frétt).
Þar sem þetta er bara blogg þá voru þetta að sjálfsögðu bara pælingar og niðurstaða mín var sú, miðað við þær forsendur að jafnvægisstiginu (25 m) yrði náð á 500 árum jafnt og þétt, að hækkun sjávarstöðu yrði um 5 m í lok aldarinnar. Ég birti eftirfarandi mynd af vesturhluta Reykjavíkur að gamni, sem sýnir sjávarborð miðað við sjávarstöðuhækkanir upp á 5 og 25 m:
Sjávarstöðuhækkanir í Reykjavík á næstu öldum, fjólublátt sýnir 5 m hækkun og ljósblátt 25 m hækkun sjávarstöðu (smella til að stækka).
Það birtast enn fréttir sem geta stutt þær fullyrðingar að sjávarstöðuhækkanir geti orðið hraðari en IPCC spáir, sjá t.d. Sea level rise: It's worse than we thought. Bráðnun íshellna og jökla Grænlands og Suðurskautsins hefur verið að aukast undanfarna áratugi (sjá Íshellur Suðurskautsins og Er yfirborð Grænlandsjökuls að hækka? - einnig nýlegar fréttir t.d. Hér og Hér).
Ath: Íshellur er þykkur ís skautanna sem liggur við land og á sjó og hefur myndast á mörghundruð árum og í sjálfu sér veldur það ekki hækkun sjávarstöðu þó íshellurnar bráðni, þær aftur á móti eru hálfgerðir tappar sem halda aftur af skriði jökuls út í sjó og því valda þær óbeint hækkun sjávarstöðu.
Ilulissat jökullinn sem hefur hörfað um 15 km síðasta áratug.
Einnig skal á það bent að hitastig sjávar heldur áfram að hækka, en sjávarhiti hefur mikil áhrif á bráðnun íshellna. Síðastliðinn júní var sjávarhiti sá mesti fyrir júní frá því mælingar hófust samkvæmt þessari frétt.
En... þótt þessi inngangur sé að mestu helgaður því að færa rök fyrir því að hækkun sjávar geti orðið mun hraðari en spár IPCC segja til um, þá hefur nýleg grein vísað því á bug.
Í greininni nota vísindamennirnir kóralsteingervinga og hitastigsgögn úr ískjörnum og fengu út sjávarstöðubreytingar síðustu 22 þúsund ára (nú væri gott að hafa aðgang að greininni til að skoða aðferðafræðina og gröfin).
Með því að bera saman hvernig sjávarstöðubreytingar urðu miðað við hitabreytingar við lok síðasta jökulskeiðs (fyrir um 10 þús árum), þá fundu þeir út að IPCC hefði verið nokkuð nærri lagi í sínum útreikningum. Samkvæmt þeirra niðurstöðum þá þýðir 1,1-6,4°C hækkun í hitastigi um 7-82 sm hækkun sjávarstöðu árið 2100, sem er mun minna en spár undanfarin misseri hafa bent til og líkt tölum IPCC sem hljóðar upp á 18-76 sm. Vísindamennirnir sögðu ennfremur í viðtali við AFP:
"Fifty centimetres of rise would be very, very dangerous for Bangladesh, it would be very dangerous for all low-lying areas. And not only that, the 50 centimetres is the global mean. Locally, it could be as high as a metre perhaps even higher, because water is pushed into different places by the effect of gravity."
Lauslega þýtt: "Fimmtíu sentimetra hækkun sjávarstöðu yrði mjög hættuleg fyrir Bangladesh, það yrði mjög hættulegt fyrir öll svæði sem liggja nálægt sjávarborði. Einnig er þetta 50 sentimetra meðaltal fyrir hnöttinn allan. Staðbundið gæti sjávarstöðuhækkun orðið allt að metri, jafnvel meiri, vegna mismunandi áhrifa þyngdaraflsins." Að auki sögðu þeir að hættuleg flóð yrðu algengari, að ef sjávarstaða hækkar um 50 sm þá muni flóð sem hafa orðið einu sinni á öld, verða einu sinni á áratug. Að auki kom fram að þegar til lengri tíma er litið þá mun sjávarstöðuhækkun vegna hlýnunar á þessari öld, halda áfram í margar aldir.
* Fyrirvari: Það er ekki hægt að treysta fréttatilkynningum um málið fyrr en búið er að lesa greinarnar og því skuluð þið taka umfjöllunum um fréttatilkynningar sem ég er að fjalla um með fyrirvara.
Flokkur: Afleiðingar | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.