Færsluflokkur: Mótrök

Að efast um BEST

Nú nýverið sendi rannsóknateymi – the Berkeley Earth Surface Temperature (BEST) – frá sér bráðabirgðaniðurstöðu rannsókna á hnattrænum hita jarðar. BEST verkefnið byrjaði á síðasta ári og þar var ætlunin að kanna hvort gögn um yfirborðshita sýni raunverulega hlýnun eða hvort eitthvað sé til í því sem “efasemdamenn” hafa haldið fram, að í þessum gögnum komi fram kerfisbundin bjögun, í mælingum og leiðréttingum sem myndi falska hlýnun. Verkefnið gekk út á að greina mun stærra gagnasafn yfir hitastig en aðrir höfðu gert og athuga t.d. hvort skekkja væri vegna þéttbýlismyndunar við þær veðurstöðvar sem notaðar eru.

Hitaröð BEST teymisins (Berkeley) ber nokkuð saman við fyrri hitaraðir sem gerðar hafa verið. Það er helst að HadCRU tímaröðin greini á við hinar.

Vonir og væntingar

Í forsvari fyrir teyminu er Richard Muller en hann hefur stundum verið hávær í loftslagsumræðunni. Segja má að þar hafi verið komið eins konar óskabarn “efasemdamanna” þar sem hann skaut sérstaklega föstum skotum í átt til vísindamanna sem hafa unnið að því að setja saman hitaraðir með hnattrænan hita. Eftir að í ljós kom að olíumilljarðamæringarnir Charles og David Koch styrktu teymið að hluta og að þekktir “efasemdamenn” (t.d. Judith Curry) voru að vinna í nánu samstarfi við Muller og félaga, þá má segja að vonir sumra “efasemdamanna” hafi vaknað, um að hér kæmi “hagstæð” niðurstaða fyrir þá.  Sem dæmi sagði forsvarsmaður “efasemda” heimasíðunnar Watts Up With That eftirfarandi í mars 2011:

And, I’m prepared to accept whatever result they produce, even if it proves my premise wrong. I’m taking this bold step because the method has promise. So let’s not pay attention to the little yippers who want to tear it down before they even see the results.

Hann var semsagt tilbúinn að bíta á jaxlinn og sætta sig við þá niðurstöðu sem kæmi út úr BEST verkefninu. Annað hljóð kom í strokkinn þegar ljóst var hver bráðabirgðaniðurstaðan varð, sjá orð Watts frá því í október 2011.

This is sad, because I had very high hopes for this project as the methodology is looked very promising to get a better handle on station discontinuity issues with their “scalpel” method. Now it looks just like another rush to judgement, peer review be damned.

Vonir “efasemdamannsins” voru brostnar.

Margt hefur verið skrifað um þessar niðurstöður í erlendum veftímaritum, bloggum og víða – og hefur það að hluta til bergmálast yfir í umræðuna hér á landi. Nýlegar ásakanir Judith Curry um að teymi Mullers, sem hún var hluti af  hafi stundað hálfgerðar falsanir – hefur verið fjallað um á heimasíðu Ágústar Bjarnasonar (Einn höfunda BEST skýrsunnar í loftslagsmálum ásakar aðalhöfundinn um að villa um fyrir fólki…). Þar segir Ágúst meðal annars í athugasemdum:

Öllu sæmilega sómakæru fólki hlýtur að blöskra hvernig Richard A. Muller kynnti niðurstöðurnar fyrir skömmu og hvernig fjölmiðlar gleyptu það gagnrýnislaust. Hvað gekk prófessor Muller eiginlega til? Þetta er auðvitað verst hans sjáfs vegna.

Einum meðhöfunda hans, Dr Judith Curry, var greinilega einnig misboðið, enda er hún mjög sómakær vísindamaður.

Curry sagði meðal annars að teymið – sem hún var partur af – hefði reynt að fela niðursveiflu í hitastigi (e. hide the decline).

This is “hide the decline” stuff. Our data show the pause, just as the other sets of data do. Muller is hiding the decline.

Áður hafði Richard Muller sagt í viðtali við BBC að ekki væri hægt að sjá í gögnunum að hin hnattræna hlýnun hefði hægt á sér – eins og “efasemdarmenn” vilja stundum meina:

We see no evidence of it [global warming] having slowed down

Spurningin er því – hvort hefur rétt fyrir sér, Muller eða Curry?

[...]

Nánar má lesa um þetta mál á loftslag.is, Að efast um BEST 

Tengt efni á loftslag.is


Er aukning CO2 í andrúmsloftinu náttúruleg?

Mýta: Aukningin í CO2 í andrúmsloftinu er náttúruleg.

Þessi mýta virðist fyrst og fremst miða að því að segja að maðurinn hafi ekkert með aukningu CO2 í andrúmsloftinu að gera - aukningin sé náttúruleg og þar með sé  hlýnunin nú af völdum náttúrulegra ferla.

Af mannavöldum 

Vitað er að gróðurhúsalofttegundirnar hafa aukist mikið frá upphafi iðnbyltingunnar (miðað við 1750). Styrkur CO2 er nú 37% meiri en fyrir iðnbyltingu og styrkur CO2 og metans er nú meiri en hann hefur verið í a.m.k. 650 þúsund ár (jafnvel milljónir ára). Aukninguna má að mestu rekja til bruna jarðefnaeldsneytis, en hún er einnig að hluta vegna breytinga í landnotkun (eyðing skóga t.d.). CO2 magn hefur verið mælt skipulega frá því á sjötta áratug síðustu aldar (en fyrri tíma gögn fást með óbeinum mælingum - t.d. mælingar á magni CO2 í loftbólum ískjarna):

Breyting í magni CO2 í lofthjúpnum frá lokum sjötta áratugs.

Breyting í magni CO2 í lofthjúpnum frá lokum sjötta áratugs.

 

Mynd sem sýnir CO2 magn andrúmsloftsins út frá ískjörnum og mæld 
gildi frá Hawai.

Efri myndin sýnir CO2 magn andrúmsloftsins út frá ískjörnum og mæld gildi frá Hawai. Neðri myndin sýnir brennslu jarðefnaeldsneytis fyrir sama tímabil.

Það fer ekki milli mála ef skoðuð eru línuritin hér fyrir ofan að losun CO2 vegna bruna jarðefnaeldsneytis hefur töluverða samsvörun við magn CO2 í andrúmsloftinu.

En það er ekki sjónrænt sem vísindamenn vita að aukningin er tilkomin af völdum losunar manna á CO2. Það hefur verið staðfest með svokölluðum samsætumælingum – þ.e.  mælingum á hlutfalli milli samsæta (e. isotopes) kolefnis (C), en í náttúrunni finnst það í stöðugri mynd sem samsæturnar 12C (98,9%) og 13C (1,1%) en einnig finnst samsætan 14C í snefilmagni og er hún geislavirk. Helmingunartími 14C er um það bil 5750 ár og hefur þessi samsæta meðal annars verið notuð til aldursgreiningar á lífrænum efnum (í jarðfræði og fornleifafræði).

Hlutfall þessara kolefnissamsæta í andrúmsloftinu hefur breyst á þann veg að ekki fer á milli mála hvaðan CO2 í andrúmsloftinu kemur – þ.e. frá bruna jarðefnaeldsneytis að mestu leiti, en einnig frá eyðingu skóga og jarðvegs.  Jarðefnaeldsneyti er laust við 14C sökum aldurs (en jarðefnaeldsneyti er tugir ef ekki hundruða milljón ára gamlar jarðmyndanir) og því hefur hlutfall þess minnkað í andrúmsloftinu í kjölfar bruna jarðefnaeldsneytis.

Eldvirkni

Eldfjallið Anak Krakatau í Indónesíu, en eldfjöll gefa frá sér 
ýmis gös, meðal annars CO2.

Eldfjallið Anak Krakatau í Indónesíu, en eldfjöll gefa frá sér ýmis gös, meðal annars CO2.

Fyrir fáeinum árum reiknuðu vísindamenn magn útblásturs CO2 frá eldfjöllum (bæði á landi og á botni sjávar) og útreiknað magn þess sem eldfjöll gefa frá sér, er samtals um 130-250 milljón tonn af CO2 á ári - sem er slatti. Menn losa um 29 milljarða tonna á ári í allt (tölur frá árinu 2006).

Eldfjöll gefa því frá sér tæplega 1 % af því sem menn gefa frá sér af CO2. Þau hafa því sáralítil áhrif miðað við mennina.

Sjórinn

Þrátt fyrir þá staðreynd að kalt vatn geymir CO2 betur en heitt vatn og að sjórinn er að hitna eins og öll jörðin, þá er ljóst að aukningin í CO2 er ekki að koma frá sjónum. Málið er að við aukningu CO2 í andrúmsloftinu hefur sjórinn dempað þau áhrif og sogið í sig meira af CO2. Það hefur meðal annars leitt til þess að sjórinn hefur súrnað meira undanfarin sirka 200 ár en nokkurn tíman síðan fyrir 55 milljón árum. Það er því ljóst að CO2 hefur verið að aukast í sjónum en ekki minnka og því er aukningin í andrúmsloftinu ekki sjónum að kenna.

Niðurstaða

Það er því ljóst að aukning CO2 í andrúmsloftinu er af völdum manna, en ekki náttúrulegra þátta.

Heimildir og frekari upplýsingar

Þessi færsla er afrit af færslunni: Mýta - Aukningin í CO2 í andrúmsloftinu er náttúruleg af Loftslag.is

Aðrar færslur af Loftslag.is sem eru áhugaverðar í þessu samhengi:

Hér má fræðast um útreikninga á losun CO2 vegna eldvirkni, svo er heimasíðan Nordvulk  góð byrjunarstöð til að fræðast um eldvirkni.

Peter Sinclair hefur gert gott myndband um CO2 í andrúmsloftinu: Climate Denial Crock of the Week – Sense from Deniers on CO2? Don’t hold your breath….


Mýtur

Þetta er hluti undirsíðu af Loftslag.is.

Ýmsar mýtur eru í gangi varðandi ástæður loftslagsbreytinga og hvort loftslagsbreytingar eru yfir höfuð raunverulegar. Auðvitað er hollt að efast, en það getur verið leiðigjarnt til lengdar að hrekja sömu mýturnar, mýtur sem litlar sem engar vísindalegar staðreyndir eru fyrir. Því ákváðum við að taka saman lífseigustu mýturnar og skrifa um þær.

prometeus

Fyrst nokkrar sívinsælar mýtur í umræðunni hér á Íslandi

Mýtur sem notaðar eru hér á Íslandi eru að vísu svipaðar og í öðrum löndum, en þessar heyrast mikið.

Hlýnunin nú er af völdum Sólarinnar
Það er að kólna en ekki hlýna
Aðrar gróðurhúsalofttegundir, t.d. vatnsgufa eru mun áhrifameiri til hlýnunar
Vísindamenn eru ekki sammála um að hlýnunin sé af mannavöldum
Vísindamenn spáðu ísöld á áttunda áratugnum – því hafa þeir rangt fyrir sér nú
Aukningin í CO2 í andrúmsloftinu er náttúruleg (eldvirkni eða sjórinn)
Mýtan um trúarbrögð í loftslagsvísindum
Það var hlýrra á miðöldum
Hokkíkylfan er röng

japanese_climate_skeptics


Mýta - síða af Loftslag.is

Mýta:  Hlýnunin nú er af völdum sólarinnar

Þessi mýta virðist fyrst og fremst miða að því að segja að maðurinn hafi ekkert með loftslagsbreytingar að gera, að hlýnunin nú sé af völdum náttúrulegra ferla og þess vegna sé það sólin sem hafi langmestu áhrifin.

Útgeislun sólar

Sólin er varmagjafi jarðar og gríðarlega öflug, en án gróðurhúsaáhrifanna þá myndi ríkja fimbulkuldi á jörðinni. Sveiflur í sólinni hafa þó haft gríðarleg áhrif á sveiflukennt hitastig jarðarinnar.   Rannsóknir hafa sýnt að góð fylgni var á milli útgeislunar sólarinnar í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu.....

Til að lesa alla greinina, klikkið á Loftslag.is - einnig er boðið upp á spjallborð, sjá tengil á hliðarstikunni á Loftslag.is.

Loftslag.is opnar formlega þann 19. september, en hægt er að kíkja á ýmsar síður nú þegar.

Eru vísindamenn ekki sammála um að hlýnunin sé af mannavöldum?

Hér er ein síða sem búin var til fyrir loftslag.is - hún fjallar um eina af klassísku mýtunum sem notaðar eru í loftslagsumræðunni.

Mýta: Vísindamenn eru ekki sammála um að hlýnunin sé af mannavöldum.

Þessi mýta virðist miða að því að fyrst vísindamenn séu ekki sammála um ástæður hlýnunarinnar þá sé ekki ástæða til að gera neitt í málunum. Ein sterkasta grunnstoðin í kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum er skýrsla IPCC, en þar tóku vísindamenn aðildarlanda sameinuðu þjóðanna sig saman og gerðu einskonar úttekt á stöðunni. Því er skýrsla IPCC  oft skotmark þessarar mýtu og hún dregin í efa á þeim forsendum að “fjölmargir”vísindamenn sem tóku þátt í gerð hennar séu afhuga henni núna.

Það skal tekið fram að það er ekki sérlega  vísindalegt að vera sammála - vísindamenn eru sífellt að reyna að hrekja ríkjandi kenningar - aftur á móti er það samhljóða álit vísindamanna nú að ekkert hefur enn komið fram sem hrekur kenninguna.

Nýleg skoðanakönnun

Síðastliðinn janúar var gerð skoðanakönnun meðal vísindamanna (Doran 2009) og niðurstaðan borin saman við gallúp könnun frá 2008. Höfundar könnunarinnar spurðu 3114 jarðvísindamenn eftirfarandi spurningu:

Do you think human activity is a significant contributing factor in changing mean global temperatures?

Lauslega þýtt: “Telur þú að mannlegar athafnir sé stórvægilegur þáttur í að breyta hnattrænum meðalhita jarðar?” Höfundar flokkuðu síðan vísindamennina niður eftir því hvort þeir voru virkir í að birta greinar, hvort þeir voru sérfræðingar í loftslagsfræðum og slíkt. Niðurstaða könnunarinnar má sjá hér:

 

Mynd sem sýnir niðurstöðu könnunarinnar.  Gögn með viðhörfum almennings er úr gallúp skýrslu frá 2008.

Mynd sem sýnir niðurstöðu könnunarinnar. Gögn með viðhörfum almennings er úr gallúp skýrslu frá 2008.

 

Í könnuninnni kom fram að eftir því sem virkni rannsókna var meira og því meiri sem þeir unnu beinlínis við rannsóknir á loftslagi og loftslagsbreytingum, því líklegri voru þeir til að telja að hlýnunin væri af mannavöldum, einungis 58% almennings var á sömu skoðun. Lokaorð þeirra er:

It seems that the debate on the authenticity of global warming and the role played by human activity is largely nonexistent among those who understand the nuances and scientific basis of long-term climate processes. The challenge, rather, appears to be how to effectively communicate this fact to policy makers and to a public that continues to mistakenly perceive debate among scientists.

Lauslega þýtt: “Það virðist sem rökræðan um ástæður hnattrænnar hlýnunar og hlutverk mannlegra athafna í henni sé lítil sem engin á meðal þeirra sem eru framarlega í að skilja vísindalegan grunn í langtíma loftslagsferlum. Helsta áskorunin viðist vera hvernig hægt er að koma þeim staðreyndum til yfirvalda og til almennings sem virðist enn halda að það séu enn rökræður um málið meðal vísindamanna.”

Niðurstaða

Ekkert bendir til að vísindamenn séu almennt ósammála um að það sé að hlýna af mannavöldum - þeir fáu sem ósammála eru hafa ekki getað bent á aðrar skýringar fyrir hlýnun jarðar – rök þeirra hafa verið hrakin. Því er hið almenna samhljóða álít nokkuð traust. 

Heimildir og frekari upplýsingar:

Hér eru skýrsla sem sýnir úttekt á niðurstöðum vísindamanna á íslensku:  Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi

Niðurstaða könnunarinnar má sjá hér: Examining the Scientific Consensus on Climate Change (Doran 2009). Gallúp könnunina má sjá hér: 2008 Gallúp.

---

Á loftslag.is má sjá fleirir Mýtur.


Samsæri vísindamanna

Maður heyrir stundum þau rök gegn kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum að þetta sé eitt allsherjar samsæri.

Það er ekki auðvelt að rökræða við þá sem halda því fram, en maður getur þó bent á glufur í þeim málflutningi. 

Það er í fyrsta lagi frekar langsótt að þúsundir vísindamanna séu í einu allsherjar samsæri, hvort heldur það væri meðvitað eða ekki. Efasemdamenn benda oft á að vísindamenn þurfi á þessum heimsendaspádómum að halda til að fá styrki til rannsókna. Það gleymist í þeirra rökum að benda á það að það hefur tekið vísindamenn meira en öld að komast að þeirri niðurstöðu að gróðurhúsaáhrifin eru raunveruleg og að menn geti með losun gróðurhúsalofttegunda haft áhrif á loftslag. Ekkert samsæri þar í gangi, kenningar hafa flogið fram og til baka á milli vísindamanna undanfarna öld og síðastliðna tvo áratugi hefur sú kenning orðið ríkjandi - vegna þess að gögnin styðja þessa kenningu (sjá t.d. CO2 og áhrif á loftslagsbreytingar. Nokkur mótrök.) en gögnin styðja ekki aðrar kenningar (sjá t.d. Er það virkilega ekki sólin?, Útblástur eldfjalla).

Það er vissulega rétt að það er erfiðara fyrir þá sem aðhyllast aðrar kenningar að koma þeim í gegnum það ferli að fá sínar niðurstöður birtar og ritrýndar, en það efast enginn vísindamaður um það að ef slík kenning kemur, studd af vísindalegum gögnum, þá myndu menn hlusta á það. Reyndar er það þannig að ég efast ekki um að menn myndu fagna ef sýnt yrði fram á að við þyrftum ekki að óttast losun gróðurhúsalofttegunda - ég hugsa meira að segja að sá hinn sami vísindamaður fengi Nóbelinn og yrði hylltur sem hetja. Því miður hefur enginn slíkur komið fram, enn sem komið er.

Menn halda enn í vonina að kenning Svensmark eigi eftir að reynast lausnin, en enn sem komið er hefur kenning hans ekki hlotið mikinn hljómgrunn. Það getur þó allt gerst, skoðið t.d. grein á bloggsíðu Ágústs Bjarnasonar (Nýjar fréttir af Svensmark tilrauninni hjá CERN í Sviss...). Ég er þó ekki bjartsýnn á að hans kenning hreki kenninguna um hlýnun jarðar af mannavöldum.

Varðandi peningahliðina, þá hafa vísindamenn bent á að það væri tryggara fyrir þá, til að fá meiri styrki, að segja að það sé óvissa um hlýnun jarðar af mannavöldum, frekar en að segja að nú sé niðurstaða komin í málið og að nú þurfi að bregðast við á pólitíska sviðinu.

Reyndar er það svo að undanfarinn áratug hefur kenningin um hlýnun jarðar af mannavöldum þurft að berjast við öfl sem svo sannarlega hafa töluverðan pening á milli handanna. Öfl sem hafa bæði styrkt "vísindamenn" til að halda á lofti öðrum kenningum og þá helst efanum um að hlýnun jarðar af mannavöldum sé raunveruleg - auk þess sem þeir hafa ritskoðað eigin vísindamenn.

Það að hin "illu öfl" Wink hafi styrkt vísindamenn segir ekkert um það hvort efasemdamenn hafi rangt fyrir sér eða ekki, það segir heldur ekkert til um sannleiksgildi kenningunnar um hlýnun jarðar af mannavöldum þótt meirihluti vísindamanna aðhyllist þá kenningu. Það sem skiptir máli eru gögnin og gögnin segja að jörðin sé að hlýna og að hlýnunina sé að mestu leiti hægt að rekja til losun á gróðurhúsalofttegundum (þá mest CO2) og að frekari hlýnun sé í kortunum sem muni hafa slæmar afleiðingar á samfélag manna, sérstaklega í vanþróuðu ríkjunum.


Climate Denial Crock - Er aukið CO2 jákvætt fyrir gróður?

Í þessu myndbandi er meðal annars farið yfir möguleg áhrif aukins CO2 á gróður.


CO2 og áhrif á loftslagsbreytingar. Nokkur mótrök.

Ég skrifaði langa og nokkuð ítarlega færslu fyrir stuttu sem heitir Hlýnun jarðar - gróðurhúsaáhrif og CO2. Kenningin. Hún hefði getað orðið mun ítarlegri ef ég hefði haft tíma (og ef ég hefði viljað að enginn myndi lesa hana sökum lengdar :) Ég var persónulega að vona að einhverjar spurningar myndu vakna, sem ég gæti notað í þessari færslu, en engar komu - svo ég ákvað að handpikka mótrök héðan og þaðan til að setja í þessa færslu - þ.e. mótrök gegn áhrifum CO2 á loftslagsbreytingar. Skoðum nokkrar fullyrðingar og mótrök við þeim (ég hefði getað haft þetta lengra og ítarlegra, ég splitta þessu einhvern tíman upp og skrifa meira um hvert atriði).

1: Eðlisfræðin á bakvið gróðurhúsaáhrifin er vafasöm.

Orka sólar kemur inn í lofthjúp jarðar sem ljós, jörðin hitnar og geislar frá sér bylgjum sem gróðurhúsalofttegundirnar gleypa í formi hita, sem gróðurhúsalofttegundirnar geisla aftur frá sér og hita upp neðri lög lofthjúpsins og jörðina. 

Gróðurhúsaáhrifin hafa verið þekkt í yfir öld og eðlisfræðin á bak við þau eru mjög vel þekkt - þetta er ekki kenning, heldur staðfest lögmál. Án gróðurhúsaáhrifanna væri meðalhiti jarðar um 33°C lægri en hann er.

4292

2: Það er einfaldlega ekki hægt að sanna að CO2 sé ástæða núverandi hlýnunar.

Það er einfaldlega ekki hægt að sanna vísindi, sannanir eru hluti af stærðfræðinni. Í vísindum eru gögn metin og besta kenningin sem útskýrir gögnin verður ríkjandi á þeim tíma. Þar sem það er hægt þá gera vísindamenn spár og búa til prófanir sem staðfesta, breyta eða eru í mótsögn við kenningu þeirra og þurfa að breyta kenninguna þegar ný gögn koma í hús.

Kenningin um hlýnun jarðar af mannavöldum vegna útblásturs CO2 stendur traustum fótum. Þetta er kenning sem leit dagsins ljós fyrst fyrir rúmri öld síðan af svíanum Svante Arrhenius og er byggð á eðlislfræðilögmáli, sem fjöldinn allur af gögnum styðja, bæði beinar mælingar og óbeinar auk þess bestu loftslagslíkön útbúin til að reikna út hitastig aftur í tíman staðfesta það miðað við þær breytur sem við vitum um á síðustu öld (hitastig, breytingar á CO2, eldgos og útgeislun sólar svo eitthvað sé nefnt). Öll þau gögn benda til þess að hiti jarðar sé að hlýna vegna aukningar CO2 í andrúmsloftinu og því er þetta besta kenningin sem við höfum í dag.

arrhenius1 
Mynd af Svante Arrhenius, stærri myndin tekin á Svalbarða, hann fékk Nóbelinn í efnafræði þótt kenningar hans um hlýnun af völdum CO2 hafi ekki fengið hljómgrunn í fyrstu (mynd tekin af heimasíðunni The Discovery of Global Warming)

3: Aðrar gróðurhúsalofttegundir eru mun áhrifameiri og í mun meira magni í lofthjúpnum heldur en CO2, t.d. vatn (vatnsgufa).

Rétt er það að CO2 er í mun minna magni en vatnsgufa - þetta litla magn CO2 hefur þó leitt til þess að meðalhitastig á jörðinni er 33°C hærri en án þess og því þarf ekki mikla lógík til þess að sjá að sú aukning sem hefur orðið frá upphafi iðnbyltingunnar (37% aukning) leiðir til hærra hitastigs á jörðinni (athugið að 37% aukning í magni CO2 þýðir ekki 37% aukning í hita, enda minnka hitastigsáhrif CO2 með vaxandi magni - þannig skil ég það allavega).

Magn vatnsgufu í lofthjúpnum er í raun í beinu sambandi við hita andrúmsloftsins. Ef þú gætir einhvern vegin aukið magn vatns í lofthjúpnum, án þess að breyta hitastigi þá færi væntanlega að rigna, einnig ef það væri fjarlægt á einhvern hátt úr lofthjúpnum þá myndi hann fljótt ná aftur sama rakastigi vegna uppgufunar. Loftslagsfræðingar tala því vissulega um að vatnsgufa sé mjög mikilvæg gróðurhúsalofttegund og það er tekið með í loftslagslíkönum, en það er svörun/afturverkun (e. feedback) en ekki kraftur sem stýrir hita.

wcmaindiagram2qg9

Því hefur vatnsgufa áhrif til mögnunar á hitastigi jarðar sem er í beinu sambandi við magn CO2 í andrúmsloftinu, en ekki áhrif eitt og sér.

Um Vatnsgufu segir heimasíða Veðurstofunnar:

Vatnsgufa (H2O) í lofthjúpnum er einnig öflug gróðurhúsalofttegund. Hún er þó venjulega ekki talin til hefðbundinna gróðurhúsalofttegunda því magn hennar er mjög breytilegt frá einu svæði til annars, ólíkt fyrrgreindum lofftegundum en magn þeirra er mjög álíka alls staðar í lofthjúpnum.

Á flestum stöðum á Jörðinni breytist magn vatnsgufu í lofti líka mjög hratt með tíma. Hringrás vatns í lofthjúpnum er mjög hröð, líftími vatnsgufu er mældur í dögum meðan framantaldar lofftegundir hafa líftíma sem er mældur í árum, áratugum, árhundruðum eða jafnvel árþúsundum.

Um ský segir:

Þegar vatnsgufa þéttist getur hún myndað ský og þó að ský séu ekki gróðurhúsalofttegund þá geta þau haft sambærileg áhrif. Eftir heiðskíra nótt er að jafnaði mun kaldara í morgunsárið en eftir skýjaða nótt. Munurinn liggur í því að skýin gleypa í sig varmageislun frá Jörðinni og endurgeisla svo hluta hennar til baka að yfirborði jarðar, rétt eins og gróðurhúsalofttegundirnar.

Ský hafa einnig mikil áhrif á orkujafnvægi Jarðar með því að spegla sólargeislun til baka út í geiminn. Skýin eiga því stóran hluta í endurspeglunarstuðlinum, sem er 0,3 eða 30% fyrir Jörðina. Fyrir Jörðina í heild vega speglunaráhrif þyngra en „gróðurhúsaáhrif” tengd skýjum, þ.e. skýin lækka yfirborðshita Jarðar.

Reiknaðar hafa verið áhrif mismunandi breyta til hlýnunar og kólnunar og þar sjást áhrif CO2 greinilega, en einnig áhrif til kólnunar vegna skýja. Vatnsgufa er ekki með því þar er á ferðinni svörun (feedback) vegna aukins hita af völdum CO2.

geislunarbusk
Geislunarálag (í W/m2) frá upphafi iðnbyltingar og helstu orsakaþættir. Rauðar súlur sýna áhrif til hlýnunar jarðar en bláar til kólnunar (mynd úr skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi).

Aðrar gróðurhúsalofttegundir eins og t.d. tvínituroxíð (N2O) og metan (CH4) eru mun öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2, en þær eru líka í mun minna magni. Því miður þá er möguleiki á að það geti breyst, því kenningar eru uppi um að við bráðnun sífrera á norðurhveli þá geti mikið magn metans losnað út í andrúmsloftið og að það muni hafa skelfilegar afleiðingar í átt til enn meiri hlýnunar jarðar.

4: Gróðurhúsaáhrif af mannavöldum er aðeins 2% á meðan 98% eru náttúruleg.

Þótt ótrúlegt megi virðast, þá virðist þessi fullyrðing vera nokkuð rétt, en þó einstaklega villandi. Gleymið því ekki að hin náttúrulegu gróðurhúsaáhrif hita jörðina um sirka 33°C, frá -18°C og upp í +15°C og hlýnunin sem CO2 veldur er því sirka 2% miðað við þau áhrif sem voru þá þegar til staðar fyrir iðnbyltinguna. Það er því ekkert rangt við þessa fullyrðingu, hún er meira yfir í að vera villandi og til að draga úr alvarleika aukningunarinnar af völdum manna. Að auki magnast upp hitabreytingin vegna vatnsgufu eins og ég nefndi hér ofar.

5: Það eru aðrar ástæður fyrir aukningu CO2 í lofthjúpnum og þar með aðrar ástæður fyrir hlýnun jarðar.

Aukningin er af mannavöldum og það skiptir öllu máli:

Vitað er að gróðurhúsalofttegundirnar hafa aukist mikið frá upphafi iðnbyltingunnar (miðað við 1750). Styrkur CO2 er nú 37% meiri en fyrir iðnbyltingu og styrkur CO2 og metans er nú meiri en hann hefur verið í a.m.k. 650 þúsund ár (ég hef einnig heyrt 20 milljón ár). Ástæða aukningarinnar er að mestu leiti vegna bruna jarðefnaeldsneytis, en að hluta vegna breytinga í landnotkun (eyðing skóga t.d.). CO2 magn hefur verið mælt skipulega frá því á sjötta áratug síðustu aldar (en fyrri tíma gögn fást með óbeinum mælingum - t.d. mælingar á magni CO2 í loftbólum ískjarna).

Mauna_Loa_Carbon_Dioxide
Breyting í magni CO2 í lofthjúpnum frá lokum sjötta áratugs og til dagsins í dag.

-

volcanoes_co2
Mynd sem sýnir CO2 magn úr ískjörnum (Law dome, Antarktíku) og svo samanburð við mæld gildi frá Hawai. Örvarnar sýna hvenæar nokkur stór eldgos urðu.  

Carbon_Dioxide_400kyr_Rev
Hér sést hvað stærðargráðan miðað við síðstu hlýskeið ísaldar. 

Eins og ég minntist á hér fyrir ofan, þá er aukning CO2 í andrúmsloftinu að mestu vegna bruna jarðefnaeldsneytis - það hefur verið staðfest með svokölluðum samsætumælingum (mælingum á hlutfalli milli samsætanna C12, C13 og C14). Hlutfall samsæta (ísótópa/isotopes) kolefnis í andrúmsloftinu hefur breyst á þann veg að ekki fer á milli mála hvaðan CO2 í andrúmsloftinu kemur - þ.e. frá bruna jarðefnaeldsneytis að mestu leiti, en einnig frá eyðingu skóga og jarðvegs. -jarðefnaeldsneyti er C14 laust (C14 er geislavirkt og helmingast á nokkrum þúsund árum, á meðan jarðefnaeldsneyti er tugir ef ekki hundruða milljón ára gamlar jarðmyndanir) og því hefur hlutfall þess minnkað í andrúmsloftinu.

Þá fer það ekki milli mála ef skoðuð eru línurit sem sýna útblástur vegna bruna jarðefnaeldsneytis að þarna hlýtur að vera samsvörun (berið það saman við línuritið hér fyrir ofan):

Global_Carbon_Emission_by_Type_to_Y2004
Útblástur CO2 vegna bruna jarðefnaeldsneytis frá 1800 og fram til ársins 2004 

Þá er ljóst að magn CO2 eykst ekki af náttúrulegum orsökum, eins og t.d. við útblástur eldfjalla.

44226451dipthreeapf27b9sd8 
Eldfjallið Anak Krakatau í Indónesíu, en eldfjöll gefa frá sér ýmis gös, meðal annars CO2. 

Fyrir fáeinum árum reiknuðu vísindamenn magn útblásturs CO2 frá eldfjöllum (bæði á landi og á botni sjávar) og útreiknað magn þess sem eldfjöll gefa frá sér samtals eru 130-250 milljón tonn af CO2 á ári - sem er slatti. Menn gefa frá sér um 29 milljarða tonna á ári í allt (tölur frá árinu 2006). Eldfjöll gefa því frá sér tæplega 1 % af því sem menn gefa frá sér af CO2. Þau hafa því sáralítil áhrif miðað við mennina, allavega undanfarna áratugi.

Þá er ljóst að aukning CO2 er ekki að koma frá sjónum, þrátt fyrir þá staðreynd að kalt vatn geymi CO2 betur en heitt vatn (og sjórinn er að hitna eins og öll jörðin). Málið er að við aukningu CO2 í andrúmsloftinu hefur sjórinn tekið að sér að dempa þau áhrif og sogið í sig meira af CO2. Það hefur leitt til þess að hafið hefur súrnað meira undanfarin sirka 200 ár en nokkurn tíman síðan fyrir 55 milljón árum - sá atburður leiddi til mikillar hnignunar og útdauða sjávarlífvera. Meira lesefni má finna með því að skoða tenglana sem eru í þessari færslu.

ocean_pH_change
Breyting á pH gildi sjávar frá 18. öld til lok 20. aldar (heimild earthtrends.wri.org).

Það er því ljóst að aukning CO2 í andrúmsloftinu er af völdum manna.

6: Það er lítil fylgni milli aukningar í CO2 og hitastigs - CO2 hefur verið mun meira í lofthjúpnum í fyrndinni án áhrifa manna og þá hefur jafnvel verið kaldara en nú er. 

Phanerozoic_Carbon_Dioxide
Hér eru nokkrar mismunandi rannsóknir á magni CO2 aftur til loka Kambríum (af wikipedia).

Phanerozoic_Climate_Change
Hér er áætlun á hitastigi jarðar aftur til loka Kambríum (af wikipedia).

Það er rétt að fylgnin virðist hafa verið minni í fyrndinni (Kambríum og Ordavisium sérstaklega), gögnin eru þó mjög léleg enda mörg hundruð milljón ára gögn óbeinna mælinga úr jarðlögum. 

En þá voru líka allt aðrar aðstæður en nú (lega og stærð landmassa) sem höfðu áhrif á hitastig - það er alþekkt að það er kaldara á jörðinni þegar stórir landmassar eru á pólunum, heitara þegar pólarnir eru landlausir - þeir sem þekkja eitthvað til jarðsögu vita hvað ég er að tala um.

En þrátt fyrir allt þá vita menn að  fylgnin er allnokkur núna og fylgnin hefur verið mikil síðastliðin 650 þúsund ár samkvæmt ískjörnum:

Svarta línan sýnir proxí fyrir hitastig þar sem kjarnarnir voru teknir og rauða línan er CO2.

Ástæða þess að CO2 var svona mikið hærra í fyrndinni er líklega gríðarlega mikil eldvirkni og það að aðrar lífverur voru á ferli á þeim tíma (sem sagt meiri eldvirkni og minni ljóstillífun). Nú er það aftur á móti losun manna á CO2 sem er höfuðorsökin aukningarinnar frá því fyrir iðnbyltingu. 

8: Ískjarnar sýna að CO2 eykst eftir að hitastig er byrjað að rísa. 

Það skal á það bent að það er vitað að CO2 er ekki fullkomlega í takt við hitastig í ískjörnum síðastliðna jökul- og hlýskeiða (munar eitthvað í kringum 800 ár sem CO2 eykst eftir að hitinn byrjar að aukast). Skýringunnar í þessari tregðu frá því hlýnar og þar til merkjanleg aukning verður á CO2 að leita í heimsöfunum. Það er ekki fyrr en þau taka að hlýna að CO2 losnar úr læðingi.

Þá var CO2 ekki frumorsök hlýnunar, heldur magnaði CO2 upp hlýnun sem var þá þegar komin af stað (vegna svokallaðra Milankovich sveifla).

Nú er CO2 aftur á móti að aukast og hitastig að aukast á sama tíma og aðrir náttúrulegir ferlar eru í niðursveiflu. 

9: Aukið CO2 er bara jákvætt, það eykur vöxt plantna og hjálpar til við ljóstillífun.

Plöntur eru mismunandi - sumar eru með innbyggt kerfi sem eykur magn CO2 í plöntuvef þeirra og þetta hefur ekki áhrif á þær plöntur, aðrar plöntur þurfa t.d. vatn til að ná í CO2 og þar sem vatn er af skornum skammti þá getur þetta haft jákvæð áhrif. Á móti kemur að hærri hiti eykur uppgufun og við það minnkar vatn. Það bendir margt til þess að þessi jákvæðu áhrif vari yfirleitt í örfá ár, eftir það fara aðrir þættir að hafa meiri áhrif (skortur á vatni og köfnunarefni).

Rannsóknir benda til þess að þetta hafi slæm áhrif á hitabeltisskóga (rannsóknir í Panama og Malasíu sem gerðar hafa verið í tvo áratugi samfellt hafa sýnt að vöxtur hefur minnkað um 50%). Þá er ekki vitlaust að benda á grein um gömlu trén í Yosomite, en samkvæmt þessari frétt þá eru þau að drepast, líklega vegna hlýnunar jarðar (því þau hafa lifað af talsverðar sveiflur undanfarnar aldir).

Vöxtur plantna getur þá aukist á norðlægum slóðum  - t.d. hér á landi þá meira vegna hlýnunar en aukins C02 (sjá t.d. Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi - gefin út af Umhverfisráðuneytinu árið 2008, pdf-skjal 11 MB).

Hvað varðar uppskeru við matvælaframleiðslu, þá er hún töluvert flókin. Mikið af þeirri uppskeru sem ræktuð er þarfnast sérstakrar tegundar jarðvegs, loftslags, rakastigs, veðurs og fleira. Ef loftslag breytist það mikið að uppskera brestur, þá þarf að færa búin - en það er ekki víst að það sé alltaf hægt.


Geimgeislar

Ég ákvað að skoða hvað er til um geimgeisla og áhrif þeirra á loftslag í kjölfar athugasemdar við færslu mína um sólina. Þar hafði ég tekið saman það sem menn vita um áhrif sólarinnar á hlýnun jarðar undanfarna áratugi. Í stuttu máli þá var niðurstaðan sú að fyrr á öldum sveiflaðist hitastig með sólinni, ef sólin jók virkni sína þá jókst hitinn á jörðinni og öfugt (eins og við var að búast). Um það bil á sjöunda áratugnum hættu hitastigsbreytingar og breytingar í sólinni að sveiflast í takt og eitthvað annað tók við. Vísindamenn telja það vera vegna útblástur CO2 og að hlýnunin sé því af mannavöldum.

---

En það eru til kenningar um að sólin hafi önnur áhrif á hitastig en áður hefur verið talið, það eru kenningar Svensmarks um geimgeisla og hefur Ágúst Bjarnason verið ötull talsmaður þessarar kenningar hér á landi, samanber nýlega færslu hans - sjá hér.

Það sem er nokkuð ljóst er að við aukna sólblettavirkni þá eykst segulsvið sólarinnar, sem virkar sem skjöldur fyrir jörðina gagnvart geimgeislum (lítið af sólblettum - mikið af geimgeislum lenda á jörðinni). Kenning Svensmarks gengur út á að við aukna geimgeislun þá aukist skýjamyndun sem kæli jörðina (og öfugt, minni geimgeislun minnki skýjamyndun og hiti jörðina).

svensmark-clouds
Hér er mynd sem sýnir tengsl geimgeisla og skýjamyndana samkvæmt Svensmark (mynd stolin af bloggsíðu Ágústar).

Þessi kenning vekur upp þrjár spurningar (a.m.k).

  1. Valda auknir geimgeislar aukinni skýjamyndun?
  2. Ef svo er, hvernig breytir mismunandi skýjahula hitastigi jarðar?
  3. Að lokum, skýrir það hlýnunina sem orðið hefur undanfarna áratugi?

1: Ekki hafa fundist sannfærandi gögn sem sýna fram á að geimgeislar hafi áhrif á skýjahulu. Sérfræðingar í eðlisfræði skýja segja líkurnar litlar á því að jónun andrúmslofts vegna geimgeisla geti myndað nógu stórar örður (aerosols) til að mynda ský. Og þó það geti gerst þá þykir það enn ólíklegra að það myndi hafa töluverð áhrif á skýjamagn í andrúmsloftinu. Svensmark birti línurit sem sýna fylgni milli geimgeisla og gervihnattamælinga á skýjahulu - Þessi fylgni hefur verið hrakin (sjá Laut 2003). Til að fá þessa fylgni þurfti að "verka" gögnin til að halda fylgninni, auk þess sem fylgninni lauk árið 1991 (eða 1994) (sjá mynd)

cosmic_clouds
Fylgni milli geimgeisla (rauð lína) og skýjahulu (blá lína) (Laut 2003).

Í kjölfarið á því að kenning hans um tengsl skýjahulu og geimgeisla var hrakin, leitaði Svensmark annarra leiða til að veita kenningu sinni brautargengi. Hann bjó til nýtt línurit sem sýndi tengsl milli lágskýja og geimgeisla - enn á ný þurfti hann að leiðrétta gervihnattagögnin til að fylgnin væri rétt og fékk hann enn á ný ákúrur frá sérfræðingum í loftslagseðlisfræði.

Auk þess hefur verið bent á að ef geimgeislar hefðu áhrif á skýjahulu, þá yrðu áhrif þess innan nokkurra daga. Eftir 1991 þá eru sex mánuðir á milli þess sem áhrifin koma fram.

Enn að auki, þá hefur verið bent á að geimgeislar sýni meiri breytileika á hærri breiddargráðu og því ætti breytileiki í skýjahulu að vera meira á heimskautasvæðunum. Sá breytileiki hefur ekki sést.

2:  Þá er það spurningin, hverju breytir skýjahula loftslagi jarðar? Svensmark segir að í heild þýði lítið af skýjum - heitari jörð, að minni hiti týnist vegna endurgeislunar skýja á daginn og að það vegi meira en hitatap á nóttinni.

Vísindamenn eru ekki sammála um að minni skýjahula hiti upp jörðina. Í raun eru skýin enn eitt helsta þrætuepli vísindamanna um loftslagsbreytingar. Deilt er um hvort mælingar á skýjahulum með gervihnöttum sýni rétta mynd af breytingum skýjahulu og hvort breytingar sem sjást hafi áhrif á hitastig. Sumir halda því fram að skýin geti hægt á hlýnuninni, aðrir að þau geti magnað þau upp. Allt í allt, þá er óvissan mikil.

3: En skýra breytingar í skýjum hlýnunina undanfarna áratugi? Þessi spurning er ef til vill mikilvægust, því jafnvel þótt hægt verði einhvern veginn að tengja saman geimgeisla og skýjahulu og áhrif á hitastig, þá getur það ekki útskýrt hlýnunina síðustu áratugi. Beinar mælingar á geimgeislum síðastliðin 50 ár sýna ekki niðursveiflu í geimgeislum, sem ætti að vera í öfugu hlutfalli við hlýnunina síðastliðna áratugi (sjá mynd):

cr_ssn
Sveiflur í geimgeislum síðastliðin 50 ár (mynd tekin af heimasíðu ngdc.noaa.)

image_preview
Sambærilegt plott sem sýnir hversu lítil fylgni er á milli hitabreytinga og geimgeisla. 

---

Þessi magnaða kenning Svensmarks um tengsl milli geimgeisla og skýja eru þó ekki algjörlega út í hött - því nokkrir vísindamenn taka þessa kenningu alvarlega, sumir hafa jafnvel fundið með öðrum aðferðum smávegileg tengsl milli skýja og geimgeisla, þó eru þeir mun fleiri sem finna enga samsvörun þar á milli.

Niðurstaðan er sem sagt þessi: Ólíklegt er að geimgeislar hafi áhrif á skýjahulu, en ef svo ólíklega vildi til að þeir hefðu áhrif á skýjahulu, þá deila menn um það hvaða áhrif það hefði á hitastig og þrátt fyrir að það hefði einhver áhrif á hitastig, þá útskýra geimgeislar ekki hlýnunina síðastlliðna áratugi.


Er það virkilega ekki sólin?

Þær raddir heyrast ansi oft að það sé sólin sem sé meginorsökin í þeirri hlýnun sem hefur verið á jörðinni undanfarna áratugi. Það er ekkert óeðlilegt við að halda því fram, sólin er jú hrikalega öflug og öflugust allra náttúrulegra ferla sem eru að verki hér á jörðu. En að hún sé að valda hlýnuninni sem nú er í gangi, þá sýna gögnin annað.

Sólin er hitagjafinn fyrir jörðina, það held að megi segja að sé almenn vitneskja og fyrr á öldum tengdist hitaferill jarðar og útgeislun sólarinnar órjúfandi böndum (að mestu leiti). Þessi bönd hafa þó rofnað og eitthvað annað ferli hefur tekið við (vísindamenn eru almennt séð ammála um að útblástur manna á CO2 sem sé aðalorsökin nú).

tsi_vs_temp
Á myndinni má sá TSI (Total Solar Irradiance - sem gæti þýtt heildar útgeislun sólar) og hnattrænt hitastig (tekið af skepticalscience.com - mynd unnin upp úr grein Usoskin 2005).  

Takið eftir því hversu vel hitastigsferlinn fylgir útgeisluninni, hér fyrir ofan, eða þar til fyrir nokkrum áratugum síðan, en þá er talið að útblástur CO2 hafi orðið nægur til að taka yfir sem ráðandi þáttur í þróun hitastigs jarðarinnar. Myndin segir okkur líka að ef að hitastigið myndi fylgja útgeislun sólar, þá væri nokkuð kaldara á jörðinni en staðreyndin er í dag. 

Eitt af því merkilegasta við þessa mynd, er að hún hefur verið notuð til að sýna fram á að hlýnunin sé af völdum sólarinnar - sjáið t.d. næstu mynd sem tekin er úr "heimildamyndinni" the Global Warming Swindle.

swindle_sun_temp_small
Svindl mynd úr Global Warming Swindle, takið eftir að þeir ákváðu að sýna TSI ferilinn ekki lengra en þar sem áhrif sólar fara dvínandi.

Lokapunktur rannsóknarinnar sjálfrar (Usoskin 2005) kom ekki fram í myndinni, en þar segir:

Texti

Ég hef aðeins minnst á TSI áður og þá sérstaklega deilur um túlkun gervihnattagagna frá árinu 1978 til nútímans á TSI (sjá ACRIM eða PMOD - deilur um útgeislun sólar). Ég hef aðeins verið að fylgjast með þeirri deilu undanfarið. Deilurnar snúast fyrst og fremst um túlkun á eyðu í gervihnattagögnum sem upp kom í byrjun tíunda áratug síðustu aldar. Þar er fyrst og fremst um að ræða síðasta partinn í fyrsta línuritinu í þessari færslu (rauðu línuna). Gögnin sem um ræðir eru svona:

org_comp2_d41_62_0904
Aðal deilurnar snúast um það, hvort a eða b sé réttara við að tengja saman ACRIM I og ACRIM II. 

Menn deila þó um það hvort munur á milli þessara línurita sé nógu mikill til að það skipti máli í sambandi við hlýnun jarðar. Þeir sem standa að ACRIM samsetningunni segja að þessi litla uppsveifla í útgeislun TSI nægi til að útskýra hlýnun jarðar undanfarna áratugi. PMOD línuritið bendir aftur á móti til þess að útgeislun sólar hafi minnkað lítillega undanfarna áratugi og útskýri því ekki hlýnunina sem orðið hefur undanfarna áratugi.

Nýlega kom út grein (Lockwood & Frolich, 2008) sem höfundar telja að styrkji PMOD samsetninguna  og svo kom önnur grein (Scafetta & Willson, 2009) sem höfundar telja að styrkji ACRIM samsetninguna. Umræður um þessar greinar má sjá á RealClimate.com, en þar vakti sérstaka athygli mína eftirfarandi greining:

LF08 conclude that the PMOD is more realistic, since the change in the TSI levels during the solar minima, suggested by ACRIM, is inconsistent with the known relationship between TSI and galactic cosmic rays (GCR). It is well-known that the GCR flux is generally low when the level of solar activity is high, because the solar magnetic fields are more extensive and these shield the solar system against GCR (charged particles). However the two effects don't always go in lockstep, so this is suggestive rather than conclusive.

Það er semsagt til þekkt samband á milli TSI og CCR (geimgeisla) sem segir að þegar TSI er í lágmarki, þá aukast geimgeislar. ACRIM samsetningin virðist ekki taka tillit til þessara tengsla, en eins og segir, þá er ekki útilokað að þessi tengsl hafi ekki átt sér stað akkúrat í gatinu sem verið var að fylla upp í, það þykir þó ólíklegt og gerir ACRIM samsetninguna ólíklega.

Það bendir því allt til þess að PMOD samsetningin sé réttari og að útgeislun sólar hafi verið á niðurleið á sama tíma og hitinn var á uppleið (þ.e. að ástæður hlýnunarinnar verði að leita annars staðar frá). En þótt svo vildi til að ACRIM væri réttara, þá stendur eftir efinn um það hvort þessi litla aukning skipti einhverju máli hvað varðar hitastig á jörðinni.

---

Aðrar mælingar og rannsóknir styðja þá fullyrðingu að sólin sé í aukahlutverki hvað varðar hlýnunina undanfarna áratugi:

solargraph-thumb
Fjöldi sólbletta - sem hafa jafnast út frá 1950 og eru nú í lágmarki (án þess að hafa haft teljandi áhrif á hitastig).

Irradianceclimate
Útgeislunarútreikningar Max Planck stofnunarinnar sem sína að útgeislun hefur verið stöðug frá 1950.

Solar_Cycle_Variations 
Sólgosavirkni og bylgjumælingar (Radio Flux) sýna enga aukningu síðustu 30 árin.

Niðurstöður eftirfarandi rannsókna eru á sama veg, sveiflur í sólinni útskýra ekki hlýnunina síðustu áratugi: Solanki 2008Lockwood 2007Foukal 2006, Haigh 2003Stott 2003, Solanki 2003, Waple 1999, Frolich 1998 og eflaust mun fleiri.

Nú var fyrir stuttu að berast fréttatilkynning um niðurstöðu nýrra rannsókna (birtar í Geophysical Research Letters) sem gerðar voru til að kanna réttmæti kenningar um það að aukin virkni í sólinni ]myndi leiða til aukinna geimgeisla sem myndu minnka skýjamyndun og um leið hleypa meira af geislum sólar inn í lofthjúpinn - og leiða til hýnunar á jörðinni.

Það skal tekið fram að ekkert bendir til þess að sólin hafi aukið virkni sína, eins og textinn hér ofar á blaðsíðunni sýnir fram á, en þótt það myndi vera að gerast (þ.e. að sólin væri að færast í aukanna), þá sýndi rannsóknin fram á að sú breyting myndi vera 100 sinnum of lítil til að hafa áhrif á loftslag.

Það má því fullyrða með nokkurri vissu að sólin sé ekki að valda hlýnuninni sem orðið hefur undanfarna áratugi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband