Færsluflokkur: Mótrök

Hokkístafurinn

Af því að ég minntist á hokkístafinn í síðustu færslu, þá langar mig að minnast aðeins á hann í einni færslu. 

Hockey_stick_chart_ipcc_large 
Hokkístafurinn gerður 1999 og birtist í skýrslu IPCC 2001 (eftir Micheal Mann).

Hokkístafurinn er línurit kallað sem sýnir útreiknað hitastig aftur í tímann, gert af Micheal Mann sem er sérfræðingur í fornloftlagsfræðum (paleoclimatology).

Svona fornhitastig er gert með samanburði á ýmsum ferlum sem voru í gangi til forna og hvernig þessi ferli eru nú. Trjáhringagögn, setlög, vöxtur kórala og borkjarnar úr jöklum er meðal þess sem notað er við að meta fornhitastig.

Það fékk verðskuldaða athygli á sínum tíma, vegna þess að það sýndi svo skýrt og greinilega að hitinn nú væri mun meiri en hann hefur verið síðastliðin þúsund ár. Þetta línurit þótti því undirstrika það sem vísindamenn töldu sig vita, að ástandið nú væri óvenjulegt - hlýnunin væri langt umfram það sem eðlilegt gæti talist.

Þetta línurit fékk líka verðskuldaða gagnrýni, enda sýndu menn fram á það að galli væri á tölfræðinni og að gögnin sem notuð væru við gerð þessa línurits, væru ófullnægjandi (t.d. of mikið af trjáhringagögnum) Þetti gerði það að verkum að línuritið varð minna sveiflukennt en það ætti eflaust að vera (þ.e. minni hitabreytingar).

Meðal annars fékk hann gagnrýni frá vísindanefnd í USA (US National Academy of Science).   Eða eins og einhver orðaði það: Röng aðferð + rétt niðurstaða = léleg vísindi. Sem sagt, menn deildu ekki á niðurstöðurnar þannig séð, aðferðafræðin þótti þó ekki til fyrirmyndar - Mann hófst því handa við að lagfæra aðferðafræðina.

Í september í fyrra kom síðan út grein þar sem Mann (og fleiri) endurskoðuðu línuritið og notuðu til þess tvær nýjar tölfræðiaðferðir (aðrar en í upphafi) og bættu með viðbótar gögnum.  Þessi grein styðst því minna við árhringjarannsóknir en fyrri rannsóknir hans.

Micheal Mann og félagar endurgerðu semsagt línuritið og bættu um betur og lengdu það, svo nú sýnir það áætlað hitastig síðustu 1800 árin.

fig3
Hokkístafurinn hinn nýji (Mann og fleiri 2008)

Niðurstaðan er enn sú sama að það er heitara nú en síðastliðin þúsund ár að minnsta kosti.

Sem stendur er því hokkístafurinn aftur kominn á þann byrjunarreit að hann er besta nálgunin sem við höfum varðandi hitastig síðustu þúsund árin.

Menn eru þó byrjaðir að leita að villum í aðferðafræði höfunda og byrjaðir að gagnrýna hokkístafinn hinn nýja, en þeirri gagnrýni hefur verið svarað.


Annar kaldasti apríl á þessari öld!

Fyrirsögnin er þýðing á færslu á bloggi sem er nokkuð vinsælt í Ameríku. Áhugaverð framsetning. Þarna var hann að benda á að apríl var annar kaldasti aprílmánuður á þessari öld og ákveður að geta þess ekki að árin sem hann miðaði við voru nokkur af hlýjustu árunum frá því mælingar hófust, allavega heitustu síðan Jesú var að rölta um Galileuvatn og sumir segja að þessi ár séu þau heitustu í milljónir ára. 

Hérna eru nýjustu mánaðartölur áranna frá 1979, RSS gervihnattagögn.  Ég bjó til línurit með nýjustu tölunum, bætti við trendlínu og 5 ára meðaltal að gamni (hái punkturinn er El Nino hitafrávik frá 1998).

RSS090509
Mynd sem sýnir mánaðarlegt hitafrávik út frá RSS mælingum frá 1979 til dagsins í dag (hægt er að sjá myndina stærri með því að smella á myndina tvisvar).

Svona lítur línuritið út ef eingöngu eru tölur frá apríl:

RSS090509-apríl 
RSS-hitastigsfrávik í apríl frá árinu 1979.

Hér skulum við svo sjá þróun hita frá upphafi hitastigsmælinga:

Instrumental_Temperature_Record
Hitafrávik frá 1880 til 2008 (af wikipedia.org).

Ef við skoðum þá þetta litla tímabil í samhengi við síðustu 1800 ár, ýmis konar samanburðargögn notuð við að gera þessa ferla sjávarset, trjáhringir og fleira, rauði ferillinn eru beinar mælingar.

fig3
Endurskoðaður hokkístafur (eftir Micheal Mann og fleiri 2008).

Eins og sést á þessari mynd þá má eiginlega segja að þótt apríl í ár hafi verið annar kaldasti apríl á þessari öld, þá má segja að hann sé nokkuð heitur - eða hvað?


Mótrök

Hér á síðunni til vinstri má nú sjá fasta síðu þar sem sjá má yfirlit yfir þau mótrök gegn hlýnun jarðar af mannavöldum sem ég hef reynt að hrekja. Smellið á tengilinn til vinstri eða bara HÉR

Er yfirborð Grænlandsjökuls að hækka?

Ein af mótrökunum sem ég hef heyrt undanfarið, gegn kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum er sú fullyrðing að yfirborð Grænlandsjökuls sé að hækka (eða að hann sé að stækka).

Ég er búinn að minnast lauslega á Grænlandsjökul í nýlegum færslum hér á loftslagsblogginu, en hér kemur nákvæmara svar.

Í fyrsta lagi er þetta rökleysa.

Þótt svo væri að yfirborð Grænlandsjökuls væri að hækka, þá værum við að tala um staðbundið fyrirbæri - jökul sem rís hærra yfir sjávarmáli en almenn bráðnun nær, þrátt fyrir þá hlýnun jarðar sem nú er staðreynd. 

Í öðru lagi þá mætti nota þetta sem rök með hlýnun.

Ef yfirborð hans væri að hækka (sem hann virðist hafa gert á tímabili, þ.e. efst á jöklinum), þá væri allt eins hægt að benda á að úrkomumynstrið væri að breytast (meiri snjóalög að vetri), sem gæti allt eins verið vegna hlýnunar jarðar.  Til eru hæðargögn frá árinu 1992-2003 sem sýna þetta, að ofan við 1500 m þá hækkaði yfirborð Grænlandsjökuls um rúman hálfan metra - vísindamennirnir sem framkvæmdu þessa rannsókn, sýndu einnig fram á að jökullinn væri að þynnast út við jaðra Grænlands neðan við 1500 m hæð. Meiri ákoma að vetri tengdu þeir breytingum í úrkomu (sem sagt meiri snjókomu að vetri).

Í þriðja lagi þá er of lítið vitað um Grænlandsjökul. 

Til þess að hægt sé að tengja afkomutölur Grænlandsjökuls við loftslagsbreytingar, þá þyrfti að skoða gögn 20-30 ár aftur í tímann.  Áður benti ég á hæðargögn frá 1992-2003, en við hafa bæst gögn frá gervihnöttum sem mæla nákvæmlega massabreytingar í Grænlandsjökli frá árinu 2003-2008 - eða í fimm ár. Það er þó eingöngu hægt að nota gögnin sem vísbendingu um breytingu, en ekki hægt að túlka þau sem gögn sem sanna eða afsanna hlýnun jarðar.

Í fjórða lagi er þetta alls ekki rétt fullyrðing, miðað við nýjustu gögn.

Þetta er eflaust mikilvægast, því ef menn vilja nota þau mótrök að yfirborð Grænlandsjökuls sé að hækka, þá þurfa gögnin að sýna það, en nýjustu gögnin sýna það bara alls ekki.

160992main_mass_trend_greenland_md
Hér er þróunin í massabreytingum frá 2003-2005 myndrænt (frétt á vefsíðu NASA 2006)

Hér fyrir neðan er svo mynd sem sýnir massabreytingar á Grænlandsjökli út frá þessum gervihnattagögnum frá árinu 2003-2008. Við viljum líta á neðri myndina fyrst því hún tengist fullyrðingunni beint, en hún sýnir massabreytingu ofan við 2000 m hæð.

greenland_mass_loss
Hér eru myndir sem sýna massabreytingar í Grænlandsjökli, fyrst neðan við 2000 m og síðan ofan við 2000 m (ég hef ekki aðgang að greininni, en mér skilst að þessar myndir séu héðan - mynd stolin af skepticalscience.com).

Eins og sést á neðri myndinni þá eru nánast engar massabreytingar ofan við 2000 m hæð. Kíkið svo á efri myndina hún tengist næsta punkti - þ.e. massabreytingar neðan við 2000 m hæð.

Í fimmta lagi þá þarf að skoða Grænlandsjökul í heild til að fullyrða eitthvað um hann.

Eins og myndin hér fyrir ofan sýndi þá hefur Grænlandsjökull rýrnað töluvert neðan við 2000 m en staðið í stað ofan við 2000 m markið. Myndin hér fyrir neðan sýnir svo samtölu massabreytinga í Grænlandsjökli.

greenland_mass_loss_total
Hér er mynd sem sýna samtals massabreytingar í Grænlandsjökli síðastliðin fimm ár (ég hef ekki aðgang að greininni, en mér skilst að þessar myndir séu héðan - mynd stolin af skepticalscience.com).

Þetta gera um 179 gígatonn á ári sem Grænlandsjökull er að rýrna, síðastliðin fimm ár.  Það samsvarar sjávarborðshækkun um 0,5 mm á ári.

Þannig er nú það - Yfirborð Grænlandsjökuls er ekki að hækka ofan við 2000 m, heldur stendur í stað að meðaltali - en í heild er hann að rýrna töluvert.

---

Meira um Grænlandsjökul:

Skriðjöklar Grænlandsjökuls eru að auka hraða sinn - sem þýðir meiri bráðnun og meiri hækkun sjávar. 

GPS mælingar sýna að Grænland er að rísa um fjóra sentimetra á ári - það er vegna minnkandi fargs jökla (ísóstatískar hreyfingar) - jöklar bráðna, minni þyngd, land rís - hann er því sannarlega að minnka og hraði bráðnunarinnar eykst (fyrir 2004 reis Grænland um 0,5-1,0 sentimerta á ári - nú um 4 sentimetra á ári).

---

Auk þess hef ég meira að segja heyrt menn segja að Grænlandsjökull hafi stækkað í vetur - það er versta rökleysan, því eins og allir vita þá snjóar á veturna og jöklarnir safna á sig snjóalögum - auðvitað eykst massi jökulsins við það, en það er ekki hægt að fullyrða neitt um massabreytingar fyrr en eftir leysingar sumarsins.

--- 

Að lokum bendi ég á ágæta mynd sem sýnir þróun í þykkt jökla í heild í heiminum undanfarna áratugi, þ.e. áætlað meðaltal - hér ná upplýsingarnar það langt aftur að hægt er að tala um að þær túlki loftslagsbreytingu:

glacier_thickness
Hnattræn breyting á þykkt jökla frá 1961-2005 (mynd frá NSIDC).


Svar

Þetta er eiginlega svar við bloggfærslu sem Kristinn Pétursson kom með fyrir nokkru og ég ætlaði að svara hjá honum, en hann virðist vera með ansi sveiflukennda opnun á athugasemdakerfinu sínu, þannig að þegar ég ætlaði að fara að tjá mig hjá honum þá voru tímamörkin skyndilega liðin. Líklega tilviljun en mögulega er ég of duglegur að skipta mér af umræðu um loftslagsmál og mögulega er ég farinn að pirra suma. En hvað um það, meðan órökstuddar fullyrðingar um loftslag svífa um bloggið, þá er ég með haglabyssuna á lofti Devil

Forsagan er sú að hann notar myndir til rökstuðnings þess að það hafi verið hlýrra á norðurslóðum fyrir 2500 árum en nú er, ég var búinn að biðja hann um að benda mér á hvaða gögn liggja á bakvið þessum myndum, fræðilegur áhugi að mestu, en einnig efasemdir um að hægt sé að nota myndir sem þessar sem rök fyrir hlýnun án þess að vita hvaða gögn eru á bakvið þær (hann hafði engin svör). Myndirnar eru þessar og eflaust góðar og gildar - en það skiptir ekki máli ef maður veit ekki hvernig þær eru gerðar:

c_documents_and_settings_atthing_serverk_my_documents_my_pictures_galciers_in_iceland_2500_years_ago

c_documents_and_settings_atthing_serverk_my_documents_my_pictures_glaciers_in_iceland_1000_years_ago

En altént, þá vil ég klára að svara því sem hann segir síðast í athugasemdunum, en þar segir hann (og sjá má hér):

  1. Sápubox, hér hefur ekkert verið "rifist" að mínu mati. Skoðanaágreiningur er ekki "rifrildi".  Svo er til betra orð ... það er "mismunandi skilningur" á málefnum. Þú og Páll hafði fullt leyfi samkvæmt stjórnarskránni - og mitt leyfi líka - til að viðra ykkar skoðanir hér. Ég er þakklátur fyrir athugasemdir. þen þessi er ekki rétt...." Þetta rifrildi þitt við Pál er síðan bara fyndið, sérstaklega þar sem þú neitar að viðurkenna að þú hafir rangt fyrir í þeirri fullyrðingu þinni að vísindamenn hafi talið jörðina verið flata fyrir 300 árum."
  2. "fyndið rifrildi"... he,he......     Ég hélt því fram - og geri einn að spænski rannsóknarrétturinn hafi pyntað Calileo (og fleiri) til að viðurkenna að jörðin væri flöt - var það ekki þannig......
  3. Svo var ég að nota þessar myndir til rökstuðnings um að það hefði verið hlýrra - ég fann þessar myndir á síðu Ágústar H Bjarnasonar.... og myndirnar tala sínu máli...  Svo er ég ekki fáanlegur til að "rökræða" gerð myndanna???   Hvað ertu að fara??  Ef þú veist eitthvað sérstakt um þessar myndir -  annað en þær sýna - þá er þér velkomið að skrifa um það.......  
  4. Ég held þessu fram: Allt of margar fullyrðingar - um þessa "hlýnun jarðar"... og "gervi"-vísindamenn fara langt fram úr sjálfum sér - í alls konar fullyrðingum og hafna því að sólin sé helsti orsakavaldur að hreyttu hitafari jarðar...    vitna ég þá í bloggsíðu Ágústar H Bjarnasonar - þar sem besta fagmennska er notuð sem ég hef séð...
  5. Svo hafa auðvitað eldgos haft mikil áhrif....
  6. Að lokum aftur: Skoðanaágreiningur er ekki rifrildi - þetta eru hrein skoðanaskipti. Ef laust hefur enginn "rétt" fyrir sér í endanlegri merkingu.... þetta er þróun - og við erum að reyna að skilja orsakir og alfeiðingar - og munum halda því áfram...

Svo ég svari þessu:

1, 2 og 6: mér þótti þetta fyndið, sérstaklega þar sem búið var að útskýra fyrir þér nokkrum sinnum að þú hefðir rangt fyrir þér varðandi hina flötu jörð.

3: Mér þykir mikilvægt að vita hvað liggur á bakvið þessar myndir - þær einar og sér segja ekkert, en einhver gögn liggja á bakvið gerð þeirra (það geta verið góð gögn - en geta líka verið úrellt gögn). Líklegast hafa rannsóknir á setkjörnum eða frjókornamælingar leitt í ljós eitthvað hitastig á Íslandi eða í nágrenni Íslands (líklega frjógögn miðað við að Þorleifur Einarsson kom að gerð myndanna) - útfrá hitanum sem þau gögn segja til um hafa menn talið líklegt að jöklar hafi legið eins og myndirnar sýna. Ef svo er þá er skrítið að nota þessar myndir til rökstuðnings um að það hafi verið hlýrra þá (þótt það hafi eflaust verið svo). Rökréttast væri að nota gögnin sem liggja á bakvið myndunum sem grundvöll rökfærslu. Mér vitanlega er allavega ekki fræðilegur möguleiki að þessar myndir séu gerðar eftir gögnum um legu jökla, því jökulgarðar frá þessum stöðum hefðu jöklar litlu ísaldarinnar afmáð fyrir löngu. Ef svo er, þá væri kjörið að nota myndirnar sem rök.

4: Málið er að fullyrðingarnar koma frá þér og þínum, þú fullyrðir að vísindamenn hafi rangt fyrir sér og hefur fyrir þér Ágúst Bjarnason (sem segist vera hlutlaus í sínum málflutningi) - en mest allt eru þetta órökstuddar fullyrðingar af þinni hálfu. Bentu á eina færslu hjá Ágústi sem sýnir fram á að það sé sólin sem sé helsti orsakavaldur hlýnunarinnar undanfarna áratugi og útskýrðu af hverju. Þú getur einnig skoðað hvað ég hef skrifað um þetta hér og hér og reynt að hrekja þau orð.

5: Varðandi eldfjöll þá hef ég fjallað um þau hér.

---- 

Svo að athugasemd númer 35, en þar er rökstuðningur Kristins merkilegur:

bullkenningunni um þessa "hnattrænu hlýnun".... af manna völdum....  það hefur sekki sést svona mikill snjór á NA landi í mörg ár....  og Grænlandsjökull er farinn að hækka aftur......  "hnattræn kólnun"....

Hann vísar sem sagt í veðurfar einn vetur á takmörkuðu svæði í litlu landi sem mótrök gegn hnattrænni hlýnun. Einnig segir hann að Grænlandsjökull sé að hækka aftur en minnist ekkert á það hvernig hann fær það út.

Hér eru myndir sem sýna massabreytingar í Grænlandsjökli, fyrst neðan við 2000 m og síðan ofan við 2000 m:

greenland_mass_loss

Samtals gerir þetta þá:

greenland_mass_loss_total

Gervihnattagögnin ljúga varla.

Ég ætla ekki að gera það að venju minni að svara athugasemdum bloggfærslna hér, en mér fannst ég knúinn til þess að þessu sinni.


Samhljóða álit vísindamanna

Ég fékk athugasemd við síðustu færslu, frá honum Magusi, sem ég var búinn að lofa að svara, þegar ég hefði tíma.

Hann vitnar einnig í texta á heimasíðu - Hér - en segir ennfremur:

"Concensusinn" sem skýrsla SÞ um hnatthlýnunina átti að sýna fram á er algjörlega fallinn. Fram hafa komið vísindamenn sem tóku þátt í skapa þá skýrslu en hafa skipt um skoðun. Á alþjóðlegum ráðstefnum hafa komið fram næstum 700 vísindamenn sem mótmæla Al Gore og skýrslu SÞ., þ.á.m. vísindamenn sem tóku þátt í skýrslu SÞ. Þessir næstum 700 vísindamenn sem mótmæla kenningu SÞ eru 12 sinnum fleiri en þeir sem veittu samþykki sitt.....

En þetta fréttist bara ekki ef menn treysta á Moggann eða CNN. Þetta hefði átt að vekja mikla athygli, alveg eins og atvik sem hafa komið fram þar sem menn hafa verið að falsa gögn, t.d. með því að birta gamlar myndir og gögn ár eftir ár....til að "sanna" hnatthlýnunina.

Ég gerði smá gúggl - og komst að ýmsu varðandi þessar fullyrðingar og notast við nokkrar upplýsingar, sem gagnlegt er að skoða.

Climate Progress - þessi fer mjög ítarlega í málið, svo ítarlega að ég hef ekki haft tíma né nennu til að lesa.

650 climate scientists - þessi flokkar niður vísindamennina (sem voru 650 þegar hann skrifaði þetta) og fékk eftirfarandi út:
16 % með góðan vísindalegan bakgrunn í loftslagsfræðum.
27% með mögulega vísindalegan bakgrunn sem hægt er að tengja loftslagsfræðum.
51% með vísindalegan bakgrunn sem er ekki hægt að tengja loftslagsfræðum.
7% með engan vísindalegan bakgrunn.

Fullyrðing 1: Consensus (almennt samhljóða álit) er fallið.
Svar: Ekkert bendir til að almennt samhljóða álitið sé fallið, einstaka vísindamenn eru ósammála um að það sé að hlýna af mannavöldum - en þeir hafa ekki getað bent á aðrar skýringar fyrir hlýnun jarðar - rök þeirra hafa verið hrakin. Því er hið almenna samhljóða álít nokkuð traust.

Fullyrðing 2: Fram hafa komið vísindamenn sem tóku þátt í skýrslunni en hafa skipt um skoðun.
Svar: Það eru þrír vísindamenn (af 618) sem eru á listanum yfir þá vísindamenn sem hafa skipt um skoðun. Tveir þeirra Erich Roeckner og Oliver Frauenfeld og eru þeir aðallega ósáttir við þau líkön sem notuð eru, ekki hef ég heyrt að þeir hafi skipt um skoðun. Aftur á móti hefur einn skipt um skoðun, hann heitir John Christy.

Fullyrðing 3: Á alþjóðlegum ráðstefnum hafa komið fram næstum 700 vísindamenn sem mótmæla Al Gore og skýrslu SÞ., þ.á.m. vísindamenn sem tóku þátt í skýrslu SÞ. Þessir næstum 700 vísindamenn sem mótmæla kenningu SÞ eru 12 sinnum fleiri en þeir sem veittu samþykki sitt.....
Svar: Jahá, þeir eru komnir í 700 - sjá fyrir ofan hlutfall þeirra (650) sem voru þegar það svar kom. Efast um að hlutfallið hafi breyst. Þeir sem komu að gerð fyrsta verkhóp (WG1) voru held ég 618 (tala sem ég fékk einhvers staðar á netinu). Miðað við hversu lítill hluti vísindamanna úr loftslagsgeiranum komu að þessum mótmælum, þá eru undarleg fullyrðing að þeir séu 12 sinnum fleiri.

Fullyrðing 4: En þetta fréttist bara ekki ef menn treysta á Moggann eða CNN. Þetta hefði átt að vekja mikla athygli, alveg eins og atvik sem hafa komið fram þar sem menn hafa verið að falsa gögn, t.d. með því að birta gamlar myndir og gögn ár eftir ár....til að "sanna" hnatthlýnunina.
Svar: Þetta vakti töluverða athygli, en líkleg ástæða þess að þetta kom ekki hingað til Íslands var líklega það að þau rök sem koma fram í þessari skýrslu voru svo léleg að þau voru hrakin og það þurfti enga 650 til að hrekja þessi rök, nokkra bloggara. Hitt er ljóst að fjölmiðlar á Íslandi eru frekar lélegir miðað við marga fjölmiðla í útlöndum, en við sem kunnum ensku getum þá gert okkar besta við að kynna það sem við rekumst á.

Meira lestrarefni um þessa skýrslu: Greenfyre's og Pseudoscience


Climate Denial Crock - hlýnun frá 1998!

Alltaf áhugavert að skoða nýjasta Climate Denial Crockið.


Suðurskautið

Ég hef ætlað að fjalla um hafísútbreiðslu á Suðurskautinu í nokkurn tíma, en ekki haft tíma til þess. 

Það sem vakið hefur furðu vísindamanna og áhugamanna um loftslagsbreytingar er sú staðreynd að hafís á Suðurskautinu hefur aukið útbreiðslu sína jafnt og þétt frá því mælingar hófust (um 1979). Þetta er á sama tíma og hafís á Norðurskautinu hefur jafnt og þétt verið að minnka og þynnast. Þetta má sjá t.d. í nýlegu línuriti sem sýnir samanburð hafísútbreiðslu fyrir marsmánuð síðastliðin 30 ár.

sh-seaice-200903-pg
Hafísútbreiðsla á Suðurskautinu í marsmánuði frá 1979-2009 (NCDC National Climate Data Center). 

Þessi staðreynd hefur verið notuð sem rök efasamdamanna gegn hlýnun jarðar af mannavöldum.  

Áður en lengra er haldið er rétt að gera greinarmun á hafís og íshellum. Hafís er lagnaðarís sem myndast á veturna og það fer mikið eftir hitastigi sumarsins á eftir hvaða útbreiðslu hann heldur áður en vetur hefst á ný - hann hefur sem sagt verið að aukast undanfarna áratugi á Suðurskautinu, á sama tíma og jörðin í heild er að hlýna.  

Líkön ná ekki að líkja eftir þessum aðstæðum og sumar spár ganga út á að hann ætti að vera búinn að minnka um 1/3 í lok þessarar aldar- því er óljóst hvernig stendur á því að hann er að auka útbreiðslu sína nú á tímum hnattrænnar hlýnunar.

Hvaða aðstæður gera það að verkum að hafísinn er að aukast á Suðurskautinu?

Nýleg kenning leitar skýringa í þynnandi ósonslagi. Vísindamenn sem hafa stúderað ósonlagið hafa sýnt fram á að gatið í ósonlaginu yfir Suðurskautinu hafi breytt veðrakerfinu í kringum Suðurskautslandið. Þessar breytingar valda því að hlýtt loft hefur blásið yfir Suðurskautsskagann (Antarctic Peninsula) sem er á Vestur-Suðurskautinu og kælt loftið yfir Austur-Suðurskautinu.

Ef Suðurpóllinn væri á miðju Suðurskautinu þá myndu vindar blása í fallegum hring í kringum skautið. En miðja meginlandsins er í raun staðsett lítillega frá pólnum. Af því leiðir að vindarnir blása óreglulega í hálfgerðum hvirfilstraumum af landi (sjá myndatexta).

Höfundar hafa keyrt tölvulíkön af lofthjúpnum með og án gatsins á ósonlaginu og fundu út að þynning ósonlagsins hefur aukið vindstyrk og dregið hlýtt loft frá Chile í Suður Ameríku - sem valdið hefur mikilli hlýnun á Suðurskautsskaganum og á móti orsakað sterkan kaldan blástur yfir Rosshafi.

dn16988-1_731
Vindur blæs réttsælis í kringum Suðurskautið, blæs af Viktoríulandi (Victoria Land) sem myndar kalt streymi lofts yfir Rosshafi (Ross Sea), þar sem hafís er að aukast. Að sama skapi blæs hlýr vindur frá Suður-Ameríku og hitar upp Suðurskautsskagann (Antarctic Peninsula), en þar eru stórar íshellur að leysast upp. (Mynd tekin af www.newscientist.com).

Gervihnatttagögn sýna að ísinn hefur minkað vestur af Suðurskautsskaganum en vaxið á Rosshafi . Samtals hefur ísinn verið að aukast síðastliðin 30 ár og tengja vísindamenn því þynningu ósonlagsins út frá fyrrnefndri líkanagerð. Þeir útiloka þó ekki að náttúrulegar ástæður ráði för.

Önnur kenning varðandi aukna hafísútbreiðslu á Suðurskautinu:

Ein kenning gengur út á það að hafís sé að aukast vegna minnkunar á uppstreymi hita í lögum sjávar vegna bráðnunar hafíss. Lauslega er kenningin svona:

Lofthiti eykst - hafís minnkar - selta minnkar - hlýrri og seltuminni sjór minnkar eðlisþyngd uppsjávarins - meiri lagskipting í lögum sjávar - hitastreymi minnkar úr neðri lögum sjávar - bráðnun hafíss minnkar af völdum sjávarhita - hafís eykst. 

Ástæður þess að hafís minnkar er samkvæmt þessari kenninu vegna þess að lofthiti eykst þá eykst bráðnun, upphaflega stuðlar sjávarhiti einnig að þessari bráðnun en vegna eðlisbreytinga þá slokknar á bráðnuninni af völdum sjávarhita og hafís eykst.

----------------------

Ég veit ekki hvor kenningin er betri eða hvort önnur betri eigi eftir að koma fram (ég er ekki búinn að stúdera þetta í þaula og því get ég verið að missa af einhverri góðri kenningu).

Eitt er víst að hafísinn í kringum Suðurskautið hegðar sér undarlega, en það er samt að hlýna á Suðurskautinu. Það er því útilokað að efasemdamenn geti notað þetta sem rök gegn hnattrænni hlýnun, nema til að slá ryki í augu almennings.


Climate Denial Crock - CO2 fylgir hita en ekki öfugt.


Er að kólna?

Það heyrast alltaf annað slagið þau rök að það sé ekki lengur að hlýna, heldur sé að kólna og til að styðja það benda menn á að nú sé kaldara en árið 1998.

Skoðum "klassískt" línurit:

uah_lt_since_1979_810359
Graf frá Dr. Roy Spencer gerði, ég gerði lítillega grín að því - sjá Endajaxlakenninguna.

Þar sést meðal annars toppur sem tengist El Nino hlýnun (hlýi partur suðurhafssveiflunnar í Kyrrahafi). Einnig er hluti af niðursveiflunni 2007-2008 talið tengjast La Nina (kaldi partur suðurhafssveiflunnar í Kyrrahafi).

það er mögulega rangt af mér að nota þetta línurit, en samskonar línurit eru oft notuð til að sýna fram á að það sé að kólna og oft sagt að það hafi hafi ekki hlýnað síðan 1998, heldur sé búin að vera ákveðin kólnun frá þessu ári.

Það er margt rangt við slíka framsetningu. Í fyrsta lagi er það alls ekki vísindalegt að nota hámark sem þetta sem viðmiðun, í öðru lagi þá segja 10 ár lítið til um loftslagsbreytingar (of stuttur tími) og þar af leiðandi er verið að álykta margt út frá allt of litlum gögnum og ónýtum viðmiðunum.

Búin hafa verið til línurit sem taka mið af þessum tímabundnu fyrirbærum og þá líta línuritin nokkuð öðruvísi út:

enso_corr

Hér eru sýndir hitastigsferlar frá tveimur mismunandi rannsóknum og þykku línurnar sýna leiðréttingu fyrir suðurhafssveiflunni (frá realclimate.org).

Þegar þessir ferlar eru skoðaðir þá er ekki hægt að sjá að það hafi kólnað síðastliðin tíu ár.

Auk þess hefur verið bent á að það sé nánast alltaf hægt að finna nokkur ár í röð í svona sveiflukenndu ferli sem sýnir afturhvarf frá ráðandi ferli. Lítum á ráðandi feril sem sýnir greinilega hlýnun frá árinu 1970-2008:

1970-2008
Ferill sem sýnir hlýnun frá 1970-2008 (mynd frá chriscolose.wordpress.com)

Hér er svo önnur mynd sem sýnir feril úr sömu gögnum frá árinu 1977-1986:

1977-1986
Ekki er hægt að sjá fylgni í þessum gögnum frá 1977-1986 (mynd frá chriscolose.wordpress.com).

Eins og sést þá er hægt að klippa út úr gögnum sem sýna nokkuð greinilega hlýnun, brot úr gögnunum sem sýnir enga hlýnun. Það þykir víst heppilegt að miða við árið 1998, fyrir þá sem vilja halda því fram að engin hlýnun sé nú.

Hvað ef hlýnunin í framtíðinni verður eins og næsta graf sýnir? Verða þá háværar raddir árið 2030 um að það sé ekki að hlýna heldur að kólna?

non-monotonic
Hugsanlegar sveiflur í hlýnun jarðar í framtíðinni, mér skilst að þetta sé bara spurning með grafíska framsetningu, ekki sé eiginleg spá þarna á bakvið (Mynd tekin af heimasíðunni scienceblogs.com/islandofdoubt)

Það þarf að kólna töluvert og í 2-3 áratugi áður en hægt sé að halda því fram að það sé að kólna. Þeir sem halda öðru fram eru annað hvort með óskhyggju á háu stigi eða þá að þeir eru vísvitandi að reyna að afvegaleiða þá sem ekki eru vísindalega þenkjandi.

Gleðilega páska Wink


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband