Færsluflokkur: Fréttir

Fyrirlestur

Ég má til með að benda á fyrirlestur sem haldinn verður á föstudaginn næsta Í VRII byggingunni í Háskóla Íslands. Dr Goldberg um loftslagsmál.

Vitað mál er að hann hefur ekki sömu skoðanir og meirihluti vísindamanna varðandi ástæður hlýnunar loftslags, en það væri þó gaman að kíkja á hann, sérstaklega þar sem hann tók þátt í Heartlands-ráðstefnunni (sem er annáluð fyrir að vera styrkt með olíupeningum og því hluti af afneitunarmaskínunni - denial machine prófið að gúggla það).

Svo ég haldi nú áfram að tala illa um karlinn, þá er hann menntaður í málmsuðu og hefur aldrei stundað rannsóknir á loftslagi, þar með hef ég uppljóstrað menntasnobb mitt og snobb fyrir þeim sem stunda alvöru rannsóknir Cool

fyrilestur

 

Eins og ég segi, þá mun ég reyna að komast og vona ég innilega til þess að íslenskir sérfræðingar í loftslagsmálum mæti nú og ræði við kappan, því ég er alltof hlédrægur og óöruggur með mig til að fara að rífa kjaft opinberlega.


Tvær góðar fréttir

Vil bara benda á tvær nýjar rannsóknir sem eru í jákvæðari kantinum.

Sú fyrri sýnir að kórallar eiga auðveldar með að aðlaga sig að breyttu hitastig en áður hefur verið talið. Snilldin við þetta er að þeir geta uppfært yfir í hitakærari þörunga sem hjálpa þá við að vinna fæðu úr sjónum. Sjá Corals upgrade algae to beat the heat. Ekki gleyma samt súrnun sjávar, né áhrif hlýnunar á aðrar tegundir sjávardýra.

Sú seinni sýnir fram á að hækkun sjávarborðs hefur mögulega verið ofmetin af völdum hugsanlegrar bráðnunar suðurskautsins. Sjá Flood risk from Antarctic ice 'overestimated'. Neikvæða í þessari frétt er að breyting á þyngdarafli jarðar gæti leitt til þess að magn sjávar á norðurhveli gæti aukist, svo áhrif hærri sjávarstöðu aukist á norðurhveli.


Dagur líffræðilegrar fjölbreytni

fjolbreytni

Meira um súrnun sjávar.

Ég vil benda á frétt í fréttablaðinu í dag (14 maí) um áhyggjur manna af súrnun sjávar. Skýrsluna sem þeir vísa í má finna með því að smella hér (pdf skjal, 4,5 MB).

Annars hef ég mynnst á súrnun sjávar áður hér á síðunni sjá færslurnar CO2 - vágestur úthafanna, Súrnun sjávar, Skýrslur um ástandið á Norðurslóðum. og Fleiri neikvæð áhrif á kórallinn.


Loftslagsbreytingar örari en áður var talið

Vil bara benda á frétt frá umhverfisráðuneytinu, svo þetta verði ekki textalaust, þá ætla ég hikstalaust og fölskvalaust að stela textanum, ég hef svo sem bent á sumt af þessu áður.

Loftslagsbreytingar á Norðurslóðum eru enn hraðari en talið hefur verið til þessa. Þetta er meðal þess sem kom fram á ráðstefnu sem haldin var í tengslum við ráðherrafund Norðurskautsráðsins í Tromsö í Noregi fyrir skömmu.

Ráðherrafundurinn í Tromsö var 7. ráðherrafundur Norðurskautsráðsins, en þeir eru haldnir á tveggja ára fresti. Átta ríki eiga sæti í Norðurskautsráðinu, auk fulltrúa samtaka frumbyggja.

Efnt var til ráðstefnunnar til að kynna og ræða nýjustu niðurstöður rannsókna um bráðnandi hafís og jökla á heimsvísu, með þátttöku ráðherra og vísindamanna, auk  Al Gores, friðarverðlaunahafa Nóbels. Þar kom fram að niðurstöður nýjustu rannsókna sýni að loftslagsbreytingar á Norðurslóðum séu enn hraðari en talið var í skýrslu Norðurskautsráðsins frá 2004 (ACIA). Sú skýrsla var fyrsta heildstæða úttekt á áhrifum loftslagsbreytinga á Norðurslóðum og vakti mikla athygli, þar sem hún sýndi að breytingar á nyrstu svæðum jarðar væru tvöfalt hraðari en að meðaltali á jörðinni. Útbreiðsla hafíss á Norður-Íshafi minnkar um 12% á áratug og var árið 2007 sú minnsta í sögunni og miklu minni en nokkrar spár höfðu gefið til kynna. Að auki hefur hafísinn þynnst. Í ACIA-skýrslunni sagði að Norður-Íshafið kunni að verða að mestu íslaust á sumrum sum ár um miðja þessa öld, en nýjar athuganir benda til að slíkt kunni að geta gerst jafnvel innan áratugar.

Bráðnun Grænlandsjökuls hefur aukist mikið, en einnig framrás skriðjökla. Svipuð þróun er einnig í gangi á hluta Suðurskautslandsins. Hopun jökla er einnig ör í Himalaja- og Andes-fjöllum, sem hefur áhrif á vatnsmiðlun yfir 40% mannkyns. Líkleg afleiðing bráðnunar jökla á heimsvísu er að hækkun sjávarborðs verði nálægt einum metra á næstu 100 árum, sem er mun meira en talið var líklegt í nýjustu úttekt Vísindanefndar S.þ. um loftslagsbreytingar (IPCC).

Aukning á losun gróðurhúsalofttegunda á síðustu árum virðist vera jafnvel meiri en spáð var í svartsýnustu spám IPCC. Jafnvel þótt tillögur ríkja sem hingað til hafa verið settar fram í samningaviðræðum um loftslagsmál kæmust til framkvæmda dygði það aðeins til þess að takmarka hlýnun við 4,5°C frá því sem var fyrir iðnbyltingu, en ekki innan við 2°C eins og mörg ríki, þ.á m. Ísland, vilja. Ótti manna við að hlýnun lofthjúpsins geti farið yfir ákveðinn vendipunkt, sem þýði enn aukna og óviðráðanlega hröðun loftslagsbreytinga, hefur aukist. Þar vega þungt vísbendingar um aukna losun metans frá þiðnandi sífrera á Norðurslóðum, en slík losun gæti orðið álíka mikil og öll losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. (http://www.umhverfisraduneyti.is)


Bandarísk rannsókn

Nú er bandarískt rannsóknateymi á vegum NASA að fara að mæla yfirborð jökla á Grænlandi og Íslandi. Ef ég skil þetta rétt, þá mun sérhönnuð flugvél fljúga í 12,500 metra hæð og radarmæla landslag jöklanna eða eins og segir:

Both radars use pulses of microwave energy to produce images of Earth's surface topography and the deformations in it. UAVSAR detects and measures the flow of glaciers and ice sheets, as well as subtle changes caused by earthquakes, volcanoes, landslides and other dynamic phenomena. GLISTIN will create high-resolution maps of ice surface topography, key to understanding the stresses that drive changes in glacial regions.

Sem sagt, gríðarlega spennandi verkefni og eiginlega skrítið að maður hefur ekki heyrt af þessu - kannski fylgist maður ekki nógu vel með.

Hvernig tengist þetta loftslagsbreytingum? Vísindamennirnir segja:

"We hope to better characterize how Arctic ice is changing and how climate change is affecting the Arctic, while gathering data that will be useful for designing future radar satellites," said UAVSAR Principal Investigator Scott Hensley of JPL.

Það verður fróðlegt að vita hvaða gögn koma út úr þessari rannsókn.


Fréttir vikunnar - afleiðingar hlýnunar jarðar.

Hérna eru nýlegar fréttir um mögulegar afleiðingar hlýnunar jarðar.

Fyrst er hér fréttatilkynning frá NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration) um nýlega rannsókn á hafíslíkönum sem bendir til þess að Norðurskautið geti orðið íslaust yfir sumartíman eftir 30 ár.

Sjá fréttatilkynninguna: Ice-Free Arctic Summers Likely Sooner Than Expected

 seaice

Meðal ísþykkt í metrum fyrir mars (vinstri) og september (hægri) samkvæmt sex líkönum (Mynd háskólinn í Washington/NOAA). 

Það er spurning hvað verður, einnig er áhugavert að fylgjast með fréttatilkynningu frá NSIDC um vetrarhámark hafíss sem var í síðasta mánuði en tilkynnt verður um það þann 6. apríl næstkomandi.

Þá voru að koma út skýrslur (hægt að ná í pdf skrár á þessari síðu) frá loftslagsnefnd á vegum Evrópusambandsins þar sem meðal annars er spáð að úrkomubreytingar í sunnanverðri Evrópu og þá sérstaklega á Spáni og Portúgal geti minnkað það mikið að það muni hafa geigvænleg áhrif á íbúa þar.

precipitation
Möguleg breyting í úrkomu fyrir Evrópu í kringum lok þessarar aldar í prósentum. Miklir þurrkar yfirvofandi á Íberíuskaga. Ég hegg eftir því að einhver jákvæð breyting gæti orðið í úrkomu á Norðausturlandi (mynd af http://ec.europa.eu/environment)

Svo var að birtast enn ein rannsóknin á afkomu kóralrifja við breytingu á hitastigi og pH gildi úthafana. En ég hef áður minnst á hina súrnun sjávar, einnig hér.

 

------

Við skulum enda á íslenskri forsíðufrétt, í morgunblaðinu, sem ég man reyndar ekki nákvæmlega hvernig var og ég hef ekki aðgang að hérna heima. Það var í raun forsíðumynd af Gróttu og rætt lítillega um landsig sem er að gera það að verkum að Grótta hefur smám saman orðið að eyju.

grotta2
Gróttuviti (mynd af heimasíðu Seltjarnarneskaupstaðar www.seltjarnarnes.is)

Ég vil bara bæta við þessa frétt að miðað við GPS mælingar þá er land í Reykjavík og nágrenni að síga um 2,1 mm á ári. Sjávarborðshækkun undanfarinn áratug hefur verið um 5,5 mm á ári og því hefur hækkun sjávar af völdum hlýnunar verið um 3,4 mm á ári.  Þ.e. Sjávarborðshækkun við Reykjavík (5,5 mm) = landsig (2,1 mm) + hækkun sjávar (3,4 mm). Tölur fengnar úr skýrsla um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Íslandi (pdf 10 mb)

En mig langar að fjalla um sjávarstöðubreytingar síðar og þá sérstaklega hvaða áhrif þær munu hafa hér á landi, en það flækir málið lítillega að hér eru jöklar sem munu bráðna - farg á landið minnkar og land rís, sérstaklega í nágrenni Vatnajökuls (nú er landris þar um 15 mm á ári). Það eru svokallaðar ísóstatískar hreyfingar. Líklegt er að á Suðausturlandi verði landris það mikið að hækkun sjávar af völdum hlýnunar muni ekki hafa mikil áhrif á þeim slóðum, nema hlýnunin og hækkun sjávar verði þeim mun meiri.


Skemmtilegt

Alltaf skemmtilegt þegar eitthvað íslenskt kemst á lista þessa dagana (og er ekki tengt kreppunni). 

Líklega verða Grímsvötn og eldvirkni undir Vatnajökli enn merkilegri þegar jöklar landsins rýrna enn meir en orðið er.

Til eru kenningar um það að vegna farg-losunar við bráðnun jökla geta orðið eldgos sambærileg við stóru dyngjugosin sem langflest urðu stuttu eftir að jökla leysti hér á landi í lok síðasta jökulskeiðs. Það eru gríðarleg flæðigos og ef þau myndast undir jökli þá verða til móbergsfjöll (t.d. Herðubreið) en ef ekki þá flæða hraunin nánast eins og vatn langar leiðir og mynda dyngjufjöll (t.d. Skjaldbreiður). Þetta eru eldgos sem geta staðið yfir í nokkur ár, spurning hvort þau geti þá haft áhrif til kólnunar á móti hlýnuninni.

Hér er mynd sem sýnir áætlaða bráðnun jökla

HB_Liklegt-Islandi_mynd6
Ath, fyrir Vatnajökul þá er bara sýndur sunnanverður Vatnajökull - V. Svo er H=Hofsjökull og L=Langjökull (af heimasíðu Veðurstofunnar).


mbl.is Grímsvötn á lista merkilegustu eldfjalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súrnun sjávar

Ég vil benda á góða grein um súrnun úthafanna í fréttablaðinu í dag, en þar er viðtal við Jón Ólafsson hafefnafræðing. Þeir sem hafa ekki aðgang að fréttablaðinu geta nálgast blaðið hér.

Hér er þó ekki verið að ræða hlýnun. Þetta er í raun önnur afleiðing útblásturs CO2 út í andrúmsloftið og enn einn hvati fyrir mannkynið að taka til í sýnum útblástursmálum.

ocean_pH_change
Breyting á pH gildi sjávar frá 18. öld til lok 20. aldar (heimild earthtrends.wri.org).

----------------------- 

Hérna eru nokkrar heimasíður þar sem fjallað er um súrnun sjávar:

Heimasíða EPOCA (sem minnst er á í fréttinni). Tengillinn vísar beint á blaðsíðu á íslensku - en hún er annars á ensku.

Wikipedia (á ensku).

Blogg um súrnun sjávar (á ensku)

Ocean Acidification Network (heimasíða á ensku um þetta vandamál)

Ég hef eitthvað minnst á það áður á þessari síðu, t.d. hér (þar eru t.d. tenglar á meira lesefni).

-----------------------

Ég vil benda á tvennt í greininni sem Jón segir:

"Við sjáum vissulega að sýrustig er að falla hér við land," segir Jón. "Í samanburði við önnur hafsvæði er það að falla hraðar hér en annars staðar. Það er út af því að hér við land, sérstaklega norðan við landið, tekur hafið í sig mikið af koldíoxíði." Ástæðurnar fyrir því að þetta gerist hraðar í sjónum í kring um Ísland eru að mestu kunnar, að sögn Jóns. Þær tengist meðal annars straumakerfi Norður-Atlantshafsins.

og

Jón segir hins vegar áhrifin af auknu magni koltvísýrings í höfunum vera tvíþætt: "Annars vegar lækkar sýrustig sjávar og hins vegar lækkar kalkmettun."

Minni kalkmettun í höfunum hefur bein áhrif á kalkmettandi lífverur, en það eru lífverur sem mynda stoðvef eða skeljar úr kalki. Þetta eru til dæmis kóralar og skeldýr ýmis konar.

"Kóralar eru til dæmis farnir að líða fyrir þetta strax, og þetta er ein ástæðan fyrir því að kóralrifum er að hnigna. Þessar kalkmyndandi plöntur og dýr eru reyndar mjög mikilvægur þáttur í vistkerfum hafsins og skemmdir á þeim eða hreinlega eyðilegging þeirra mun hafa mikil áhrif á vistkerfið í heild."

Því fór ég að velta því fyrir mér hvort hrun hörpudiskstofnsins hér við land, sé í tengslum við þessa súrnun? 

Ég hef reyndar ekkert fyrir mér í því, þyrfti að lesa þessa skýrslu sem unnin var fyrir háskólastetur Snæfellsnes og Náttúrustofu Vesturlands í Nóvember 2007 af Jónasi Páli Jónassyni. Datt þetta bara í hug, en líklegast er þó að áhrifin séu ekki orðin það alvarleg ennþá, enda væru vísindamenn búnir að benda á það ef svo væri.


belgingur.is

Nú liggur heimasíða Veðurstofunnar niðri. Vil benda á ágæta síðu sem ég skoða nokkuð oft og gott er að vita af, þó það sé sjaldgæft að heimasíða Veðurstofunnar liggi niðri. Það er heimasíðan Belgingur.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband