Færsluflokkur: Fréttir
16.9.2009 | 22:02
Fyrirlestur Dr. Pachauri, formanns IPCC, laugardaginn 19. september
Dr. Rajendra K. Pachauri formaður Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) mun halda fyrirlestur í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands laugardaginn 19. september klukkan 11:30. Fyrirlesturinn ber heitið "Can Science determine the Politics of Climate Change". Í upphafi fundarins flytur forseti Íslands stutt ávarp en Kristín Ingólfsdóttir rektor stýrir samkomunni.
Dr. Pachauri tók við Nóbelsverðlaunum fyrir hönd IPCC árið 2007, þegar Al Gore fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna voru einnig veitt Nóbelsverðlaunin. Dr. Pachauri er jafnframt forstöðumaður vísinda- og tæknistofnunarinnar TERI í Delhi á Indlandi en hún fæst öðru fremur við rannsóknir á orkunýtingu og endurnýjanlegum orkugjöfum. Samningur hefur verið gerður milli Háskóla Íslands og TERI.
Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er öllum opinn.
Í leiðinni er rétt að minnast á það að á loftslag.is munum við halda utan um spennandi viðburði sem tengjast loftslagsbreytingum. Viðburðaskráin mun sjást á stikunni sem er hægra megin neðarlega, endilega kíkja, því það er margt spennandi í gangi á næstu vikum.
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.9.2009 | 09:38
Loftslag.is - Hvað er það?
Síðan Loftslag.is fer formlega í loftið laugardaginn 19. september klukkan 18. En hvað er þetta Loftslag.is eiginlega og hverju viljum við ná fram með þessari síðu?
Það má kannski segja að aðal markmiðið sé að koma ýmsum upplýsingum á framfæri, ýmsum upplýsingum eins og t.d. óvissa varðandi loftslagbreytingarnar og hvaða ár eru þau heitustu í heiminum frá því mælingar hófust ásamt t.d. ýtarlegri upplýsingum um t.d. um loftslagbreytingar fyrri tíma.
Þá mun ritstjórnin leitast við það að fá gestapistla, þar sem gestir skrifa um mál sem tengjast loftslagsvísindunum og eru þeim hugleikinn. Ritstjórn hefur nú þegar fengið vilyrði tveggja gestahöfunda sem við hlökkum til að kynna til sögunnar á Loftslag.is. Blogg ritstjórnar verður fastur liður, ásamt reglulegum fréttum úr heimi loftslagsvísindanna. Heitur reitur þar sem ýmis málefni, tenglar og myndbönd fá sitt pláss, verður einnig einn af föstu liðunum á Loftslag.is.
Vefurinn verður lifandi, þ.e. hægt verður að gera athugasemdir við m.a. blogg og fréttir, sem gerir það að verkum að lesendur geta tekið þátt í umræðunni strax frá upphafi.
Við viljum einnig minna á Facebook síðu Loftslag.is fyrir Facebook notendur.
Fréttir | Breytt 16.9.2009 kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.9.2009 | 08:36
Lausnir og aðlögun - Loftslag.is
Lausnir
Það hafa ýmsir möguleikar verið viðraðir sem mögulegar lausnir við loftslagsvandanum. Hægt er að skipta mótvægisaðgerðunum (lausnunum) í þrjá hluta. Í fyrsta lagi eru lausnir sem stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda, svo er það kolefnisbinding og í þriðja lagi eru það loftslagsverkfræðilegar (geoengineering) aðferðir sem snúa að því að kæla jörðina.
Minni losun
Í fyrsta lagi eru lausnir sem stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Eitt af grunnatriðum kenningarinnar um gróðurhúsaáhrifin gerir ráð fyrir því að gróðurhúsalofttegundir valdi hækkandi hitastigi. Þar af leiðandi eru t.d. lausnir þar sem gert er ráð fyrir minni losun gróðurhúsalofttegunda mikilvægar í mótvægisaðgerðunum vegna hlýnunar jarðar. Betri nýting orkunar er t.d. einn af þeim þáttum...
Til að lesa alla greinina, klikkið á Loftslag.is - einnig er boðið upp á spjallborð, sjá tengil á hliðarstikunni á Loftslag.is.
Loftslag.is opnar formlega þann 19. september, en hægt er að kíkja á ýmsar síður nú þegar.
Fréttir | Breytt s.d. kl. 08:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.9.2009 | 00:08
Nýr hokkístafur
Ég bara verð að fjalla smá um þessa frétt þótt Kjartan bloggvinur minn sé búinn að því.
Út er komin ný grein í Science sem mér sýnist að eigi eftir að setja allt á annan endan í loftslagsmálum. Nú þegar eru flestar fréttasíður á netinu og bloggsíður sem ég skoða byrjaðar að fjalla um greinina og nú þegar eru efasemdamenn um hlýnun jarðar búnir að dæma þessa grein sem ómerking. Ég hef ekki aðgang að Science og því verð ég að treysta því að umfjöllun um málið sé rétt. Einnig set ég töluvert af minni túlkun í þetta út frá þessari einu mynd.Málið snýst að mestu um nýtt graf sem sýnir þróun í hitastigi Norðurskautsins síðastliðin 2000 ár:
Myndin sýnir langvarandi kólnun á Norðurskautinu, sem endaði snögglega við upphaf iðnbyltingarinnar og með mikilli hlýnun síðastliðin 50 ár. Bláa línan sýnir mat á hitastig út frá proxýgögnum úr vatnaseti, ískjörnum og trjáhringum. Græna beina línan sýnir að leitnin var í átt til kólnunar. Rauða línan sýnir bein mæligögn á hitastigi. Mynd úr Science, breytt af UCAR).
Athugið að hér er ekki verið að fjalla um hnattræna lýnun, en hér eru proxýmælingar fyrir norðurhvel jarðar - Hokkístafurinn endurbætti:

Hokkístafurinn (Mann og fleiri 2008)
Það má eiginlega segja að báðir þessir ferlar sýni nokkurn vegin það sama - hitastig var búið að falla eitthvað síðastliðin 1000 ár (2000 ár skv. ferlinum úr nýju greininni og meira áberandi þar).
Hér er svo mynd sem sýnir áætlað hitastig núverandi hlýskeiðs í heild:
Áætlað hitastig núverandi hlýskeiðs. Nútíminn vinstra megin, hér má sjá hvernig hitastig hækkaði eftir kuldaskeið ísaldar og náði hæstu hæðum fyrir um 6-8 þúsund árum síðan (mynd wikipedia).
Á tölti í átt til til kuldaskeiðs ísaldar
Hlýnun jarðar af mannavöldum hefur strokað út þá kólnun sem orðið hefur undanfarin nokkur þúsund ár, sem orðið hafa vegna breytinga í sporbaug jarðar (Mynd: National Science Foundation)
Það er niðurstaða greinarinnar að breytingar í sporbaug jarðar hafi verið frumororsökin í þessari hægu kólnun í átt til kuldaskeiðs ísaldar - eins og gerist alltaf á hlýskeiðum ísaldar (við erum stödd á einu slíku núna). Það þýðir að smám saman verður kaldara og kaldara og jöklar taka yfir á norðurhveli jarðar - kuldaskeið byrjar smám saman.
Þetta gerist smám saman á nokkrum þúsund þúsund árum. Fyrir rúmri öld, þá gerðist síðan nokkuð sem breytti þessum náttúrulegu sveiflum skyndilega -Iðnbyltingin olli hlýnun jarðar vegna losunar CO2 út í lofthjúpinn af mannavöldum.
Breytingar í CO2 nokkur hundrað þúsund ár aftur í tímann.
Þessar náttúrulegu breytingar í hlýskeið og kuldaskeið ísaldar eru að mestu stjórnað af svokölluðum Milankovitch sveiflum (sjá Loftslagsbreytingar fyrri tíma) og þegar hlýnar þá losnar CO2 út í andrúmsloftið vegna hlýnunar sjávar - sem magnar upp breytinguna með svokallaðri magnandi svörun (e. positive feedback).
Hér fyrir neðan má sjá þessar sveiflur - nema hvað að ég er búinn að bæta við einu lóðréttu striki til að sýna fram á að við vorum á hægfara leið í átt til ísaldar:
Sveiflur Milankovitch. Rauði ferillinn og svarti ferillinn sýna heildaráhrifin á tvo vegu. Svarti ferlillinn sýnir sólarinngeislun á sólstöðum á 65. breiddargráðu norðurs. Þegar inngeislunin er há, þá er hlýskeið og öfugt. Þetta fellur nokkuð vel að fyrri hlý og kuldaskeiðum ísaldar, til lengri tíma litið. Fyrir neðan eru svo tvö hitastigsproxý (götunga í sjávarsetlögum og ískjarna úr Vostock ískjarnanum) sem styðja þessa kenningu Milankovitch. Rauða lóðrétta strikið sýnir svipaða stöðu allavega myndrænt séð og við erum í núna - þ.e. náttúrulega ferlið segir okkur að hitastig ætti að fara smám saman lækkandi - en ekki hækkandi eins og það hefur gert undanfarna öld.
Gott eða slæmt?
Það er nokkuð ljóst að margir sem þetta lesa eiga eftir að líta þetta jákvæðum augum, þarna kemur í ljós að útblástur CO2 hefur komið í veg fyrir hægfara kólnun í átt til kuldaskeiðs ísaldar - nokkuð sem við íslendingar fáum allavega hroll yfir þegar við hugsum um það. En hvað mun það kosta okkur og lífríkið í heild?
Af tvennu illu þá er ljóst að hægfara náttúruleg kólnun í átt til kuldaskeiðs ísaldar (nokkur þúsund ár) hljómar mun betur hnattrænt séð heldur en snöggur ofsahiti af mannavöldum. Kuldinn hefði að vísu smám saman gert óbyggilegt hér í Norður Evrópu og Norður Ameríku, en annars hefði staðan sjálfsagt orðið þokkaleg fyrir meirihluta þeirra sem byggja þessa jörð.
Þess í stað stefnir allt í að við séum búin að koma af stað atburðarrás sem erfitt getur reynst að aðlagast - gríðarlega hraðar breytingar sem ekki hafa sést hér á jörðinni í tugmilljónir ára og þessi hlýnun Norðurskautsins á mögulega eftir að magna upp hlýnun jarðarinnar töluvert (sjá Metanstrókar). Ekki bara breytingar í loftslagi og tilheyrandi afleiðingum (sjá Hækkun sjávarstöðu), heldur einnig í vistkerfi sjávar (svokallaðri súrnun sjávar).
Langbest fyrir jarðarbúa væri að hætta losun CO2 sem fyrst og reyna að halda hinni óhjákvæmilegu hlýnun eitthvað í skefjum. Einnig er rétt að jarðarbúar fari að búa sig undir það versta og stilli saman strengi sína til að reyna að aðlagast þessum breytingum.
Ýmsar umfjallanir um nýju greinina:
Sjá umfjallanir nokkurra netmiðla um málið:Guardian, BBC, CBC og Telegraph.
![]() |
Norðurskautið kólnaði í 2.000 ár fyrir hlýnunina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.9.2009 | 21:35
Spegillinn í gær
Þeir sem misstu af viðtalinu við Halldór Björnsson í Speglinum í gær, geta hlustað á það með því að smella <Hér>
Halldór Björnsson skrifaði bókina Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.8.2009 | 21:51
Ráðstefna um bindingu koltvíoxíðs í bergi
Alþjóðleg ráðstefna um bindingu koltvíoxíðs í bergi Hefst: 07/09/2009 - 08:00 Nánari staðsetning: Hellisheiðarvirkjun Dagana 7.-8. september nk. verður haldin ráðstefna í Hellisheiðarvirkjun um um bindingu koltvíoxíðs í bergi. Er ráðstefnan hluti af svokölluðu CarbFix samvinnuverkefni Jarðvísindadeildar Háskóla Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur, The Earth Institute í Columbia Háskóla og CNRS í Toulouse í Frakklandi. Dagana á undan ráðstefnunni verða um 50 ungir vísindamenn frá Evrópu þjálfaðir í vatns- og gassýnatöku vítt og breytt um Hellisheiði og að ráðstefnu lokinni verður farið í fræðsluferð um Ísland. Tilraunir með niðurdælingu á koltvíoxíðs munu hefjast nú á haustdögum eftir tveggja ára undirbúning hér á landi. Tilraunin verður gerð djúpt í bergi, svokölluðu basalti, á athafnasvæði Orkuveitunnar í Svínahrauni sunnan við gamla Suðurlandsveginn. CarbFix verkefnið hefur það að markmiði að kanna möguleika þess að bindagróðurhúsalofttegundina CO2 frá virkjuninni í fast form sem karbónatsteind í basalti. Gasið verður þá steinrunnið, eins og tröllin í ævintýrunum. Verkefnið kann að leiða í ljós að gerlegt sé að draga umtalsvert úr losun CO2 frá jarðvarmavirkjunum og öðrum uppsprettum koltvísýrings. Kolsýrðu vatni verður dælt undir þrýstingi niður á 500]800 m dýpi sem er einangraður frá efri grunnvatnslögum. Kolsýrða vatnið er hvarfgjarnt og leysir málmjónir úr berginu sem bindast koltvíoxíðinu og mynda karbónatsteindir. Þetta ferli hefur átt sér stað á náttúrulegan hátt um aldir á jarðhitasvæðinu en með verkefninu er verið að hvetja þessi efnahvörf. Vísindamenn víða um heim fylgjast grannt með tilrauninni þar sem hún miðar að bindingu gróðurhúsalofttegundarinnar CO2 með varanlegri hætti en reynt hefur verið annars staðar. Fjöldi fyrirlesara verður á ráðstefnunni. Skráningu er lokið. |
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.8.2009 | 13:39
Fyrirlestur
Opinn fyrirlestur Dr. Robert Costanza 26. ágúst 2009 í ÖskjuDr. Robert Costanza mun halda opinn fyrirlestur í Háskóla Íslands miðvikudaginn 26. ágúst nk. kl. 16.00-18.00, í Öskju sal 132. Titill fyrirlestrarins er "Using the global recession as an opportunity to create
a sustainable and desirable future."
Dr. Robert Costanza er einn af þekktustu fræðimönnum samtímans innan umhverfisgeirans, einkum fyrir mat sitt á þeim fjárhagslegu verðmætum sem felast í þjónustu vistkerfa ("Ecosystem Services"). Grein hans um virði
náttúrunnar "The value of the world's ecosystem services and natural capital" sem birtist í Nature 1997, hefur vakið gríðarlega athygli og er ein þeirra greina sem hvað mest hefur verið vitnað í, í umhverfisfræði og vistfræði síðustu 10 árin. Í greininni var lagt mat á alheims-virði þjónustu náttúrunnar og bentu niðurstöður til að verðmæti þessarar þjónustu væri nær tvöfalt hærra en samanlögð þjóðarframleiðsla allra þjóða, eins og hún er venjulega mæld. Þrátt fyrir að greinin væri ákaflega umdeild, olli hún straumhvörfum innan umhverfisfræði og umhverfishagfræði.
Dr. Costanza, sem er prófessor í visthagfræði (ecological economics) og forstjóri Gund Institute for Ecological Economics við Vermontháskóla, er aðalkennarinn við alþjóðlega sumarskólann Breaking the barriers, sem haldinn verður við Háskóla Íslands 24-25 ágúst 2009. Þess að auki er Dr. Costanza þáttakandi í íslensku rannsóknarverkefni þar sem lagt er mat á mikilvægi þjónustu náttúrunnar á Íslandi, og er þetta fyrsta íslenska rannsóknin á þessu sviði.
Dr. Costanza hefur birt meira en 400 vísindagreinar og samið 20 bækur.
Vitnað hefur verið í verk hans í meira en 4500 vísindagreinum og er hann einn þeirra vísindamanna sem oftast hefur verið vitnað til í vísindaheiminum (one of ISI's Highly Cited Researchers).
Finna má frekari upplýsingar um Dr. Robert Costanza og Gund stofnunina á vefsíðunni www.uvm.edu/giee/
Sjá einnig frétt af vedur.is
Fréttir | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.6.2009 | 23:33
Hitastig og CO2
Í nýjasta Nature er grein þar sem því er haldið fram að bein tengsl séu á milli losunar CO2 og hlýnunar jarðar. Það er viðtal við einn höfunda hér.
Höfundar notuðu loftslagslíkön og loftslagsgögn aftur í tíman til að sýna fram á að það er einfalt línulegt samband milli heildarlosunar CO2 og breytinga í hitastigi jarðar.
Þeir telja því að nú sé hægt að áætla hversu miklar hitastigsbreytingar verða miðað við magn losunar CO2:
...if you emit that tonne of carbon dioxide, it will lead to 0.0000000000015 degrees of global temperature change.
Þ.e. að við hvert tonn af CO2 sem losað er, muni það leiði til 0,0000000000015 gráðu hækkun í hitastig jarðar.
Þeir segja ennfremur að ef við viljum halda hlýnun jarðar innan við tveggja gráðu markið, þá megi losun ekki verða meiri en 500 milljarðar tonna af kolefni það sem eftir er, eða svipað mikið og losað hefur verið frá upphafi iðnbyltingarinnar.
Þetta er helmingi minni losun en mér sýnist önnur nýleg rannsókn hafi gefið til kynna (sjá Tveggja gráðu markið), en þar var miðað við að 1000 milljarðar tonna væri markið (frá árinu 2000 til ársins 2050). Til samanburðar var losað um 243 milljarðar tonna frá árinu 2000-2006.
Það er því ljóst að mikið þarf að gerast í alþjóðlegu samstarfi ef menn vilja forðast að hitastig jarðar hækki meira en um þessar tvær gráður.
Að lokum er tengill yfir í myndbönd þar sem því er velt upp hvað myndi gerast ef hitastig jarðar hækkar um nokkrar gráður.
Fréttir | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.6.2009 | 21:08
Breiðamerkurjökull
Ég vil benda á frétt á heimasíðu veðurstofunnar um Breiðamerkurjökul og lónið framan við hann, en það er nú fullt af jökulís.
Líklega er um að ræða framhlaup í Breiðamerkurjökli (þó ég ætti nú ekki að fullyrða neitt fyrr en sérfræðingarnir tjá sig um það), en framhlaup jökla er talið verða vegna óstöðugleika í ísflæði, sem veldur því ad mikill ísmassi getur á stuttum tíma (mánuðum) flust frá svæði ofarlega á jökli og að jökuljöðrum.
Á heimasíðu Veðurstofunnar má einnig lesa eftirfarandi:
...framhlaupsjöklar [eru þeir jöklar kallaðir], sem styttast stöðugt um langt árabil en hlaupa svo skyndilega fram án þess að loftslag gefi sérstakt tilefni til.
Þessi hegðun sumra jökla hefur ekki verið skýrð svo fullnægjandi sé, en þó er ljóst að á milli framhlaupa skríða þeir einhverra hluta vegna ekki nógu hratt til að skila niður á leysingarsvæðið þeirri ákomu, sem bætist á jökulinn ofan snælínu. Framhlaupsjöklar verða því smám saman brattari uns þolmörkum brattans er náð.
En eins og kemur fram í fréttinni, þá er ekki vitað hvað er í gangi - hvort það er framhlaup eða eitthvað annað sem er á seyði. Það verður fróðlegt að fylgjast með því.
[Leiðrétti vitlaust nafn á jöklinum]
Fréttir | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.6.2009 | 23:05
Ísland ætlar að draga úr losun CO2
Jákvæð yfirlýsing frá Umhverfisráðherra:
Skýr skilaboð - Ísland ætlar að draga úr losun til 2020
Þar segir meðal annars:
Ríkisstjórnin hefur tvö leiðarljós í loftslagsviðræðunum. Annars vegar að Ísland skipi sér í hóp þeirra ríkja sem vilja ná metnaðarfullu hnattrænu markmiði í loftslagsmálum og leggja sitt af mörkum til að ná því markmiði. Hins vegar á íslenskt efnahagslíf og atvinnustarfsemi að búa við réttlátar og gegnsæjar reglur um losun gróðurhúsalofttegunda, sambærilegar við þær sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Án metnaðarfullra markmiða og skuldbindinga munu ríki heims ekki ráða við loftslagsvandann. Án sanngirni og gegnsærra reglna mun ekki nást sátt um hnattrænt átak gegn vanda sem ekkert ríki ræður eitt við.
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)