Færsluflokkur: Blogg

Hjólað í vinnuna

thumb_hjoladÁtakið Hjólað í vinnuna fer í gang miðvikudaginn 5. maí og stendur yfir til 25. maí. Hjólað í vinnuna er orðið að árlegum viðburði, þar sem starfsmenn fyrirtækja landsins eru hvattir til að hjóla, ganga, fara á línuskautum eða á annan hátt nota eigin orku til að komast í og úr vinnu. Undirritaður hefur verið með undanfarin ár og verður með að því marki sem mögulegt er í ár. Hér undir ætla ég að skoða ávinningin af átakinu út frá nokkrum sjónarmiðum. Í útreikningunum tek ég sem dæmi einstakling sem vegur 80 kg og sem þarf að fara 6 km til vinnu, þ.e. 12 km til og frá vinnu. Hann er eigandi ósköp venjulegs skutbíls, með 1600 cl vél, en þó sjálfskipts. Helstu útreikningar eru gerðir með hjálp reiknivélanna á orkusetur.is.

Kolefnissjónarmið

Með því að hjóla 12 km á dag í stað þess að keyra, þá minnkar losun CO2 um 2,3 kg á dag, sem gerir í allt á þessum 13 dögum 29,9  kg minni losun CO2 út í andrúmsloftið en ella af einstaklingnum. Þetta á við um einstakling, en í fyrra voru farnir 493.202 km í allt sem þýðir út frá sömu forsendum að losun CO2 minnkaði um u.þ.b. 94,5 tonn í átakinu.

Hitaeiningasjónarmið

Ef hjólaðir eru 12 km á dag þá er kaloríubrennslan um 406 kal á dag, sem eru um 200 kal hvora leið fyrir sig. Á myndinn neðst í færslunni (af heimsíðunni orkusetur.is) má sjá hvað 200 kal eru í formi hinna ýmsu matvæla. Heildar kaloríubrennslan alla 13 daganna væri því samkvæmt þessu 5.278 kal. Þess má geta að brennslan er meiri ef gengið er.

Sparnaðarsjónarmið

Við að spara bílinn þessa 156 km sem ætla má að bíllinn sitji heima með því að taka þátt dag hvern, má spara í beinhörðum peningum u.þ.b. 2.500 krónur bara í bensín kostnað. Sem eru um 8 milljónir í heildina miðað við tölurnar 2009.

Vellíðunarsjónarmið

Það má kannski segja að mikilvægast fyrir flesta sé sú vellíðun sem fæst út úr því að hreyfa sig á degi hverjum, það er ekki vanþörf á fyrir venjulegar skrifstofublækur eins og t.d. þann sem þetta skrifar.


Um loftslagsfræðin

Færsla af loftslag.is frá því í desember síðastliðin, sjá Um loftslagsfræðin

Þar sem loftslagsráðstefna Sameinuðu Þjóðanna er nú í hámæli, þá er ekki úr vegi að skoða hver þekkingin er í loftslagsmálum, þó ekki væri nema til að vita hvers vegna vísindamenn hvetja þjóðir heims til að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum og þá sérstaklega CO2.

Samkeppni en samt samhljóða álit

consensusÍ vísindasamfélaginu er mikil samkeppni í hverju fagi fyrir sig um að komast að réttri niðurstöðu eða réttari niðurstöðu en aðrir í faginu koma fram með – menn efast um niðurstöður annarra vísindamanna og reyna að afsanna þær. Þrátt fyrir það, þá myndast alltaf ákveðinn þekkingargrunnur sem flestir aðilar innan greinarinnar eru sammála um – einhverskonar samhljóða álit (e. Scientific consensus). Vísindamenn innan þessa samhljóða álits eru þó ávallt að reyna að hrekja ríkjandi hugmyndir, hugtök og kenningar annarra, með betri mælingum, rannsóknaraðferðum og úrvinnslu. Þótt samhljóða álit geti verið nokkuð sterkt í kjarnanum, þá er þó alltaf deilt um áherslur.

Loftslagfræðin eru engin undantekning og jafnvel er meiri áhersla lögð á að reyna að afsanna ríkjandi hugmyndir í því fagi – auk þess sem á þau fræði herja öflugir hópar þeirra sem hafa hag af því að reyna að afsanna þær kenningar, sem oft er blásið upp af öflugum efasemdabloggsíðum – stundum eru jafnvel vísindamenn þar framarlega í flokki (reyndar eru þeir fáir og oftast þeir sömu).

Sökum mikilvægi þess að vita hvaða öfl eru að verki við að breyta loftslagi jarðar, þá eru hópar alþjóðlegra stofnanna að keppast við að afla betri gagna og smíða betri loftslagslíkön.  Það samhljóða álit sem er ríkjandi í dag í loftslagsfræðum er því ekki bundið fámennan hóp vísindamanna né einyrkja sem mögulega gætu framið einhvers konar samsæri eða fiktað við gögn til að ýkja þá hlýnun sem er – til þess eru þessir hópar of stórir og margir.

Hin viðamikla þekking á loftslagskerfum jarðar er byggð á athugunum, tilraunum og líkönum gerð af efnafræðingum, veðurfræðingum, jöklafræðingum, stjarneðlisfræðingum, haffræðingum, jarðfræðingum, jarðefnafræðingum, líffræðingum, steingervingafræðingum, fornloftslagsfræðingum, fornvistfræðingum svo einhverjir séu upp taldir.

Að komast að samhljóða áliti innan svona fjölbreytilegs hóps er oft eins líklegt og friðarumleitanir stríðandi fylkinga. Þrátt fyrir það, þá er meginmyndin skýr varðandi loftslagsbreytingar og vísindamennirnir sammála um hana.

Afganginn af færslunni má lesa á loftslag.is:

Undirkaflar:

  • Flókið samspil
  • Hvað er óljóst?
  • Fortíð, nútíð, framtíð
  • Ítarefni 

Tengt efni af loftslag.is:


Hvað veistu um hitastig á Jörðinni?

Tags: Léttmeti, Lofthiti, Tenglar

Heimasíða NASA um hnattrænar loftslagsbreytingar er skemmtileg – allavega fyrir áhugafólk um loftslagsbreytingar og mjög notendavæn. Þar er meðal annars skemmtilegt próf þar sem hægt er að athuga þekkingu sína á hitastigi Jarðar.

Til að taka prófið, smelltu þá á myndina hér fyrir neðan (eða á þennan tengil - NASA Global Climate Change site). Á forsíðunni hægra megin er glugginn “Cool Stuff” og má þar meðal annars finna prófið “Hot Challenge”. Sá sem þetta skrifar fékk ekki fullt hús stiga – þorir þú?

Tengt efni á loftslag.is:


Samhengi hlutanna - Ístap Grænlandsjökuls

Oft er gott að fá samhengi í hlutina. Það er hægt að gera með því að bera hlutina sjónrænt við eitthvað sem við teljum okkur þekkja. Stundum vill það verða þannig að gögnin og tölfræðigreiningarnar skyggja á stærðarsamhengið. Gott dæmi um þetta er sá massi sem Grænlandsjökull missir á ári hverju. Þegar vísindamenn ræða um massatap Grænlandsjökuls er oftast talað um gígatonn. Eitt gígatonn er einn milljarður tonna. Til að gera sér þetta í hugarlund, þá er gott að hafa það í huga að 1 gígatonn er u.þ.b. “1 kílómeter x 1 kílómeter x 1 kílómeter”, (reyndar aðeins stærra í tilfelli íss, ætti að vera 1055 m á hvern veg). Til að gera sér í hugarlund hvað 1 gígatonn er þá skullum við bera það saman við hina frægu Empire State byggingu:

Hversu mikið er massatapið á Grænlandsjökli? Með því að fylgjast með og mæla breytingar í þyngdarafli í kringum ísbreiðuna hafa verið notaðir gervihnettir síðasta áratug (Velicogna 2009). Á árunum 2002 og 2003 var tap í ísmassa Grænlandsjökuls u.þ.b. 137 gígatonn á ári.

En massatap Grænlandsjökuls hefur meira en tvöfaldast á innan við áratug. Hraði massatapsins á tímabilinu 2008 til 2009 var um 286 gígatonn á ári.

Þetta er skýr áminning um það að hlýnun jarðar er ekki bara tölfræðilegt hugtak, sett saman á rannsóknarstofum, heldur hefur raunveruleg áhrif.

Þessi færsla er lausleg þýðing af þessari færslu á Skeptical Science.

Tengt efni á Loftslag.is:


Magnandi svörun að verki

Þetta er áhugaverð frétt hjá mbl.is - þeir fá rós í hnappagatið að fylgjast svona vel með, við sáum minnst á þessa grein fyrst í dag.

Til að byrja með viljum við tengja á greinina sjálfa, eftir þá Screen og Simmonds (2010), en hún heitir The central role of diminishing sea ice in recent Arctic temperature amplification. Þeir sem hafa ekki áskrift af Nature, verða að láta sér nægja ágripið, en þar segir í lauslegri þýðingu:

Hlýnun við yfirborð sjávar hefur verið næstum tvisvar sinnum meiri á Norðurskautinu en sem nemur hnattrænu meðaltali síðustu áratugi - nokkuð sem kallað er Norðurskautsmögnunin (Arctic amplification). Aukinn styrkur gróðurhúsalofttegunda hefur stjórnað hlýnun Norðurskautsins og Jarðarinnar í heild; hin undirliggjandi ástæða Norðurskautsmögnunarinnar hefur verið óljós hingað til. Hlutverk minnkunar í snjó og hafísútbreiðslu og breytingar í straumum loftshjúps og sjávar, skýjahula og vatnsgufa er enn ókljáð deiluefni. Betri skilningur á þeim ferlum sem hafa verið ráðandi í hinni magnandi hlýnun er nauðsynlegt til að dæma um líkur, og áhrif, á framtíðarhlýnun Norðurskautsins og hafíssbráðnunar.

Í þessari grein sýnum við að hlýnun Norðurskautsins er mest við yfirborðið flest árin og er að mestu leiti í samræmi við minnkun í hafísútbreiðslu. Breytingar í skýjahulu hafa, aftur á móti, ekki haft mikil áhrif á undanfarna hlýnun. Aukning í vatnsgufu lofthjúpsins, sem er að hluta afleiðing minnkandi útbreiðslu hafíss, gæti hafa aukið á hlýnun í neðri hluta lofthjúpsins yfir sumartímann og í fyrri hluta haustsins.

Niðurstaða okkar er sú að minnkandi hafís hefur haft afgerandi hlutverk í Norðurskautsmögnuninni. Sú niðurstaða styrkir tilgátur um að sterk magnandi svörun milli hafíss og hitastigs sé hafið á Norðurskautinu, sem eykur líkurnar á hraðari hlýnun og frekari bráðnun hafíss, sem mun líklega hafa áhrif á vistkerfi Pólsins, massabreytingar jökulbreiða og mannlegar athafnir á Norðurskautinu.

Þetta er nokkuð mikið að melta í einum bita. Útskýringu má finna á loftslag.is á því hvað magnandi svörun er, en þar segir meðal annars:

"Magnandi svörun (e. positive feedback) er hugtak sem er frekar mikið notað í loftslagsfræðum. Þar er átt við ferli þar sem afleiðingin magnar upp orsökina og veldur keðjuverkun með hugsanlega slæmum stigvaxandi áhrifum. Á hinn bóginn getur afleiðing myndað dempandi svörun (e. negative feedback) á móti orsökinni og dregið úr henni.

Magnandi svörun

Við hlýnun jarðar eru ýmis ferli sem valda magnandi svörun.  Við hlýnun eykst t.d. raki eða vatnsgufa í andrúmsloftinu og þar sem vatnsgufa er gróðurhúsalofttegund þá magnar það hlýnunina upp.

Annað þekkt ferli er hið svokallaða Ice-Albeido effect þ.e. þegar hafís bráðnar vegna hlýnunar jarðar þá endurspeglast minna sólarljós út úr lofthjúpnum og sjórinn gleypir meiri hita og því hitnar meira og meiri hafís bráðnar."

Magnandi svorun

Tengdar færslur á loftslag.is 

Lesa meira um hafís á loftslag.is


mbl.is Bráðnun íss veldur meiri hlýnun en hingað til hefur verið talið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnuhópur 1 fær toppeinkun

ipcc-cartoonNýlega birtist samantekt og gagnrýni á fjórðu úttekt IPCC frá árinu 2007 – gagnrýnin er sú að fjórða úttektin innihaldi allt að 30% af óritrýndum greinum (sjá NOconsensus.org). Það skal tekið fram að hér er á ferðinni gagnrýni frá efasemdamönnum um hnattræna hlýnun af mannavöldum.

Það sem þeir virðast ekki hafa áttað sig á er, að með því að flokka niður skýrslurnar eftir vinnuhópum, þá gáfu þeir vinnuhópi 1 toppeinkun. Vinnuhópur 1 (wg1) sá um að skrifa um vísindalega þekkingu á veðurfari og loftslagsbreytingum – eða eins og við höfum áður skrifað hér á loftslag.is:

Það helsta sem verið er að gagnrýna IPCC fyrir, er í kafla um afleiðingar og áhrif á samfélög. Þar er þekkingin götótt og svo virðist vera sem að inn í skýrslu vinnuhóps 2 (wg2) hafi ratað heimildir sem ekki eru ritrýndar – oft skýrslur sem unnar eru upp úr ritrýndum greinum, en þar hefur greinilega slæðst inn villa varðandi jökla Himalaya. Skýrsla vinnuhóps 1 (wg1) sem fór í gegnum ástand jarðarinnar, vísindalega og ritrýnt, hefur sýnt sig að er byggð á ansi góðum grunni – þótt eflaust megi gagnrýna mat þeirra á sumu – t.d. má benda á að jökulbreiður Grænlands og Suðurskautsins eru að bráðna hraðar en búist var við í skýrslunni (og samfara var vanmat á hækkun sjávarstöðu) – einnig hefur bráðnun hafíss verið hraðari en búist var við af IPCC og fleira má nefna.

Í úttekt NOconsensus.org kemur fram að yfir 93% af þeim 6226 greinum sem eru notaðar í vinnuhóp 1 eru ritrýndar. Það þýðir samkvæmt þeim að vinnuhópur 1 fær einkunina A - ekki slæmt - þ.e. hin vísindalega þekking á veðurfari og loftslagsbreytingum er samkvæmt þeim mjög vel unnin af IPCC. Þ.e. þeir hljóta því að taka undir eftirfarandi niðurstöðu:

Megin niðurstaða fjórðu úttektar milliríkjanefndarinnar er að breytingar í ýmsum náttúruþáttum í lofthjúpnum, hafinu og í jöklum og ís bera óumdeilanleg merki hlýnunar jarðar.  – Það er mjög líklegt að meðalhiti á norðuhveli jarðar hafi á síðari hluta 20. aldar verið hærri en á nokkru öðru 50-ára tímabili síðustu 500 árin, og líklega sá hæsti í a.m.k. 1300 ár. – Það er afar ólíklegt að þá hnattrænu hlýnun sem orðið hefur á síðustu fimm áratugum megi útskýra án ytri breytinga. Samanlögð áhrif náttúrulegra þátta, þ.e. eldgosaösku og breytinga á styrk sólar, hefðu líklega valdið kólnun á tímabilinu (úr skýrslu sem unnin var fyrir Umhverfisráðuneytið um Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi).

Fleiri slíkar vel ígrunaðar niðurstöður má finna í skýrslu vinnuhóps 1 (sjá wg1). Vel af sér vikið hjá NOconcensus.org að sýna fram á hversu sterk gögn eru á bak við hinn vísindalega grunn bakvið kenninguna um að Jörðin sé að hlýna af mannavöldum. Að sama skapi má hrósa IPCC fyrir vel unnið starf.

Tengdar færslur af loftslag.is


Opinn þráður I

thumb_open_threadÞessi færsla er hugsuð sem einskonar hvati á hverskonar umræðu um loftslagsmál. Athugasemdir eru opnar fyrir alls kyns innlegg í umræðuna. Það má koma með hvað sem er sem tengist loftslagsvísindunum eða umræðunni um þau á einhvern hátt í athugasemdir hér undir. Skiptir ekki aðalmálinu hvort um efnisleg nálgun er að ræða eða bundið mál, svo einhver dæmi séu tekin. Um að gera að tvinna saman ýmislegt tengt loftslagsmálum, nýtt og gamalt efni, ýmsar rannsóknir, fróðlega tengla, koma skilaboðum til okkar eða bara til að segja hæ.

Svona færslur nefnast "open thread" á ensku og eru algengt form til að skapa umræðu á erlendum heimasíðum. Það er því ekki úr vegi að prófa þetta hér. Eins og sjá má út frá rómversku tölunni sem í yfirskriftinni, þá gerum við ráð fyrir framhaldi á þessu í framtíðinni.

Við viljum gjarnan fá allar athugasemdir á einn stað og vísum því athugasemdum á Loftslag.is:


Yfirlýsing GSA um loftslagsbreytingar

The_Geological_Society_of_America-logo-B3FCB353D6-seeklogo_comÁ fundi í síðustu viku, uppfærði GSA (Geological Society of America – Jarðfræðafélags Bandaríkjanna) yfirlýsingu sína um loftslagsbreytingar og vísindin þar á bakvið. Þar segir meðal annars, lauslega þýtt:

Rannsóknir síðustu áratugi hafa sýnt að loftslag er að breytast, bæði vegna náttúrulegra ástæðna og mannlegra athafna. Jarðfræðafélag Bandaríkjanna (GSA) tekur undir mat Bandarísku Vísindanefndarinnar (National Academies of Science 2005), Bandaríska Rannsóknarráðsins (National Research Council 2006) og Loftslagsnefndar Sameinuðu Þjóðanna (Intergovernmental Panel on Climate Change – IPCC 2007) um að hnattrænt loftslag hafi hlýnað og að mannlegar athafnir (mest losun gróðurhúsalofttegunda) sé megin ástæða hlýnunarinnar frá miðri síðustu öld. Ef áfram heldur sem horfir, þá megi búast við því að hnattrænn hiti í lok þessarar aldar muni hafa töluverð áhrif á menn og aðrar lífverur. Að taka á aðsteðjandi vanda vegna loftslagsbreytinga mun krefjast aðlögunar að breytingunum og átaks í að draga úr losun CO2 af mannavöldum.

Í yfirlýsingunni er meðal annars rakið að hægt sé að útiloka skammtímaáhrif af völdum eldvirkni og El Nino og svo segir:

Niðurstaðan er sú að styrkur gróðurhúsalofttegunda, sem er að breytast af mannavöldum, og sveiflur í sólvirkni eru einu þættirnir sem gætu mögulega breyst nógu hratt og nógu lengi til að skýra út mældar breytingar á hnattrænum hita. Þótt þriðja skýrsla IPCC hafi ekki útilokað að allt að 30% af loftslagsbreytingunum gætu verið af völdum sveifla í sólvirkni frá 1850, þá hafa mælingar á sambærilegum stjörnum og nýjar hermanir á þróun sólvirkni sólar lækkað það mat. Í fjórðu skýrslu IPCC er niðurstaðan sú að breytingar í sólvirkni, sem hefur verið samfellt mælt frá árinu 1979, nemi einungis um 10% af þeirri hlýnun sem orðið hefur síðastliðin 150 ár.

Heimildir og ítarefni

Fréttatilkynning GSA má finna hér: Geological Society of America Adopts New Position Statement on Climate Change
Lesa má yfirlýsinguna í heild hér: GSA Position Statement on Climate Change. Adopted October 2006; revised April 2010

IPCC (Intergovernmental Panel on Climate Change), 2007, Summary for policymakers, in Climate Change 2007: The physical science basis: Cambridge, United Kingdom, Cambridge University Press, 18 p.

National Academies of Science (2005). Joint academes statement: Global response to climate change.

National Research Council, 2006, Surface temperature reconstructions for the last 2000 years: Washington, D.C., National Academy Press, 146 p.

Tengt efni á loftslag.is


Fjöldaútdauði lífvera

Bloggfærsla þýdd af Skeptical Science og einnig birt þar sem og á loftslag.is

Við loftslagsbreytingar, þá er ein af stóru spurningunum sú hvort náttúran muni ná að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Svarið má finna með því að skoða jarðsöguna. Í jarðsögunni, þá hafa komið tímabil þar sem loftslag hefur breyst gríðarlega. Við þær breytingar urðu gjarnan fjöldaútdauðar, þar sem margar lífverur dóu út – og í kjölfarið kom hægfara bati lífríkisins. Saga kóralrifja gefur okkur innsýn í þessa atburði, þar sem kóralrif eru langlíf og saga þeirra í gegnum jarðsöguna tiltölulega vel þekkt (Veron 2008). Með því að skoða þau, þá sést að kóralrif hafa orðið fyrir áhrifum þessara fjöldaútdauða, sem tók þau milljónir ára að jafna sig af. Þau tímabil eru þekkt sem “reef gaps” (eða kóralrifjabil).

Mynd 1: Tímalína útdauða lífvera. Fimm tímabil eru merkt sérstaklega þegar mikill útdauði lífvera varð. Svartir kassar sýna tímabil þegar bil varð í vexti kóralrifja, múrsteinsmunstur sýnir tímabil töluverðar vaxtar kóralrifja (Veron 2008).

Það hafa orðið fimm tímabil fjöldaútdauða lífvera í sögu jarðar:

  1. Fyrsta fjöldaútdauða atburðurinn varð í lok Ordovisium, en steingervingagögn benda til þess að 60% af ættkvíslum lífvera í sjó og á landi hafi þurrkast út.
  2. Fyrir 360 milljónum ára, í lok Devon, þá umbreyttist lífvænlegt umhverfi fyrir kóralla, yfir í óhagstætt í 13 milljónir ára og fjöldaútdauði númer tvö varð á Jörðinni.
  3. Steingervingagögn í lok Perm benda til fjöldaútdauða lífvera eða allt að 80-95% útdauði sjávarlífvera. Kóralrif birtast ekki aftur fyrr en eftir um 10 milljón ár, lengsta eyða í myndun kóralrifja í jarðsögunni.
  4. Í lok Trías varð fjöldaútdauði um helmings hryggleysingja sjávar. Um 80% ferfætlinga á landi dóu út.´
  5. Fyrir 65 milljónum ára, við lok Krítar er frægasti útdauðinn, en þá þurrkuðust út risaeðlurnar. Nánast ekkert stórt landdýr lifði af. Plöntur urðu einnig fyrir barðinu á sama tíma og sjávarlífverum í hitabeltinu var útrýmt að mestu. Hnattrænn hiti Jarðar var 6-14°C hærri en hann er í dag og sjávarstaða yfir 300 m hærri en nú.  Á þessum tíma þá þöktu höfin allt að 40% af núverandi yfirborði meginlandanna.

En hvað olli þessum fjöldaútdauða lífvera?

...

Nánar er hægt að lesa um það á Loftslag.is:

Tengdar færslur af loftslag.is:

 


Hrakningar Monckton

Í tveimur nýjum myndböndum frá Greenman3610, öðru nafni Peter Sinclair, skoðar hann á kaldhæðin hátt rökleysur Lord Monckton um loftslagsmál. Lord Monckton hefur verið iðinn við að leggja fram fullyrðingar um að vísindin á bak við loftslagsfræðin séu röng, að engin hlýnun eigi sér stað og ýmsu fleiru í þeim dúr. Að mati Greenman3610 á því hversu mikið “þvaður, markleysur, bull og vitleysa” kemur frá Lord Monckton varðandi loftslagsfræðin, þá hefur hann gert tvö myndbönd um hann. Eftirfarandi er lýsing hans á fyrra myndbandinu:

Hann dúkkar allsstaðar upp í umræðu afneitunarsinna loftslagsvísindanna.
Hann er ekki vísindamaður. Hann er með gráðu í blaðamennsku.
En hvernig hefur honum tekist að selja sig sem aðal talsmann þeirra sem afneita loftslagsvísindunum?
Í fyrsta lagi, eins og allir góðir sölumenn, þá þekkir Lord Monckton viðskiptavini sína.

Eftirfarandi er lýsing hans á seinna myndbandinu:

Hann minnir á persónu beint út úr Monty Python atriði, en Lord Monckton er uppáhald þeirra sem óska þess í örvæntingu að hugarburður afneitunarsinna loftslagsvísindanna sé réttur. Það er mikið meira efni en hægt er að koma fyrir í einu myndbandi, þar af leiðandi var tveggja þátta röð nauðsynleg, bara til að  byrja að fara yfir þá uppsprettu rangfærslna sem Lord Monckton ber á borð.

Myndböndin má sjá á Loftslag.is:

Að venju eru myndbönd Greenman3610 nokkuð kaldhæðin, en þau innihalda oft nokkuð fróðlegan vinkil á málin, sjá önnur myndbönd frá honum hér.

Tengt efni af Loftslag.is:


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband