Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Annar kaldasti apríl á þessari öld!

Fyrirsögnin er þýðing á færslu á bloggi sem er nokkuð vinsælt í Ameríku. Áhugaverð framsetning. Þarna var hann að benda á að apríl var annar kaldasti aprílmánuður á þessari öld og ákveður að geta þess ekki að árin sem hann miðaði við voru nokkur af hlýjustu árunum frá því mælingar hófust, allavega heitustu síðan Jesú var að rölta um Galileuvatn og sumir segja að þessi ár séu þau heitustu í milljónir ára. 

Hérna eru nýjustu mánaðartölur áranna frá 1979, RSS gervihnattagögn.  Ég bjó til línurit með nýjustu tölunum, bætti við trendlínu og 5 ára meðaltal að gamni (hái punkturinn er El Nino hitafrávik frá 1998).

RSS090509
Mynd sem sýnir mánaðarlegt hitafrávik út frá RSS mælingum frá 1979 til dagsins í dag (hægt er að sjá myndina stærri með því að smella á myndina tvisvar).

Svona lítur línuritið út ef eingöngu eru tölur frá apríl:

RSS090509-apríl 
RSS-hitastigsfrávik í apríl frá árinu 1979.

Hér skulum við svo sjá þróun hita frá upphafi hitastigsmælinga:

Instrumental_Temperature_Record
Hitafrávik frá 1880 til 2008 (af wikipedia.org).

Ef við skoðum þá þetta litla tímabil í samhengi við síðustu 1800 ár, ýmis konar samanburðargögn notuð við að gera þessa ferla sjávarset, trjáhringir og fleira, rauði ferillinn eru beinar mælingar.

fig3
Endurskoðaður hokkístafur (eftir Micheal Mann og fleiri 2008).

Eins og sést á þessari mynd þá má eiginlega segja að þótt apríl í ár hafi verið annar kaldasti apríl á þessari öld, þá má segja að hann sé nokkuð heitur - eða hvað?


Rækjan

Þar sem ég er úr litlu sjávarþorpi þar sem lífið snerist um innfjarðarrækju (sem nú er horfin), þá vakti þessi frétt athygli mína.

Raekja
Rækja - stóri kampalampi (Pandalus borealis), mynd af odinn.org.

Í fréttinni er fjallað um rannsókn sem birtist í Science og segir frá því að egg rækjunnar klekist út rétt fyrir þörungablóma vorsins, sem er megin fæða lirfunnar. Rækjan er aðlöguð að hitastigi sjávar á sínum heimaslóðum og hitinn ræður því hversu langan tíma eggin þurfa til að þroskast.

Því er búist við að rækjan muni eiga undir högg að sækja með hlýnun sjávar, þar sem að lirfurnar komi úr eggi áður en þörungablómi vorsins byrjar.

 


Skýrslur um ástandið á Norðurslóðum.

Vistkerfi sjávar á norðurslóðum

Ég rakst á nýlega skýrslu frá The Marine Climate Change Impacts Partnership (MCCIP) sem undirstrikar hversu miklar, hraðar og samtengdar breytingar í sjónum eru af völdum hlýnunar (skýrsluna má finna hér - þar er tengill yfir í skýrsluna á pdf formi - mæli með henni).

Hún er eiginlega útdráttur úr safni ritrýndra greina þar sem tekið var saman sú þekking sem til er á fimm sviðum tengdum vistkerfum sjávar á Norður-Atlantshafi (sérstaklega í nágrenni Bretlands): Umfjöllunarefnin eru súrnun sjávar (CO2 and ocean acidification), hafís norðurskautsins (Arctic sea ice), sjófuglar (A view from above), nýjar tegundir sjávar (Non-native species) og íbúar strandsvæða (Coastal economies and people). Á síðum þeim sem tengillinn vísar í er hægt að nálgast ritrýndu greinarnar á pdf formi.

Vistkerfi norðurslóða

Þá vil ég minna á ágæta norska skýrslu sem ég gæti hafa verið búinn að minnast á áður (hún er á ensku - eins og skýrslan hér fyrir ofan), um áhrif hlýnunar jarðar á vistkerfi norðurslóða. Hér er frétt um hana.


Hafís á Norðurskautinu í apríl.

Ég veit ekki hvort þetta eigi eftir að verða mánaðarlegur pistill, en ég kom allavega með pistil fyrir sirka mánuði síðan um stöðu hafíssins á Norðurskautinu í mars síðastliðnum og nú er komið að apríl.

Fyrir stuttu kom fréttatilkynning frá NSIDC um stöðu hafíss á Norðurskautinu fyrir apríl.

Helstu niðurstöður:

20090504_Figure3
Breytingar í aprílmánuði frá 1979-2009, um 2,8% á áratug.

20090504_Figure1
Útbreiðsla hafíss á Norðurskautinu í apríl 2009.

20090504_Figure2
Dagleg útbreiðsla hafíss fram tíl 3. maí 2009. Bláa línan = útbreiðsla 2009, græna línan = útbreiðsla 2007 (sem var algjört lágmark) og gráa línan ásamt gráu skyggingunni er meðaltal 1979-2000 +/- tvö staðalfrávik.

Bráðnunin nú í apríl hefur verið mun hægari en í apríl undanfarin ár, vegna kulda á Norðurskautinu - þetta er í fyrsta skipti í nokkur ár sem útbreiðslan nær því að vera innan marka náttúrulegs breytileika (miðað við tvö staðalfrávik).

Óvenju kalt var yfir Beringshafi fram undir miðjan apríl, auk þess sem kuldi hægði á bráðnun í Barentshafi. Það hlýnaði töluvert seinni part apríl og jókst þá bráðnun í Beringshafi.

Það er erfitt að meta hvaða áhrif þessi hæga bráðnun í apríl eigi eftir að hafa á útbreiðslu í lok sumarbráðnunar (í september venjulega). Ef sumarið verður kaldara en undanfarin ár, þá gæti útbreiðslan orðið meiri en mörg undanfarin ár. Það skal þó tekið fram að hafísinn er þunnur eftir mikla bráðnun síðastliðin sumur og því viðkvæmur fyrir sumarhita.

Mín spá (allt í gríni, ég er engin hafísspámaður): Mín spá er að útbreiðsla hafíss verði meiri en eftir sumarbráðnunina 2007, en að hún verði samt töluvert neðan við meðaltalið.


Mótrök

Hér á síðunni til vinstri má nú sjá fasta síðu þar sem sjá má yfirlit yfir þau mótrök gegn hlýnun jarðar af mannavöldum sem ég hef reynt að hrekja. Smellið á tengilinn til vinstri eða bara HÉR

Er yfirborð Grænlandsjökuls að hækka?

Ein af mótrökunum sem ég hef heyrt undanfarið, gegn kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum er sú fullyrðing að yfirborð Grænlandsjökuls sé að hækka (eða að hann sé að stækka).

Ég er búinn að minnast lauslega á Grænlandsjökul í nýlegum færslum hér á loftslagsblogginu, en hér kemur nákvæmara svar.

Í fyrsta lagi er þetta rökleysa.

Þótt svo væri að yfirborð Grænlandsjökuls væri að hækka, þá værum við að tala um staðbundið fyrirbæri - jökul sem rís hærra yfir sjávarmáli en almenn bráðnun nær, þrátt fyrir þá hlýnun jarðar sem nú er staðreynd. 

Í öðru lagi þá mætti nota þetta sem rök með hlýnun.

Ef yfirborð hans væri að hækka (sem hann virðist hafa gert á tímabili, þ.e. efst á jöklinum), þá væri allt eins hægt að benda á að úrkomumynstrið væri að breytast (meiri snjóalög að vetri), sem gæti allt eins verið vegna hlýnunar jarðar.  Til eru hæðargögn frá árinu 1992-2003 sem sýna þetta, að ofan við 1500 m þá hækkaði yfirborð Grænlandsjökuls um rúman hálfan metra - vísindamennirnir sem framkvæmdu þessa rannsókn, sýndu einnig fram á að jökullinn væri að þynnast út við jaðra Grænlands neðan við 1500 m hæð. Meiri ákoma að vetri tengdu þeir breytingum í úrkomu (sem sagt meiri snjókomu að vetri).

Í þriðja lagi þá er of lítið vitað um Grænlandsjökul. 

Til þess að hægt sé að tengja afkomutölur Grænlandsjökuls við loftslagsbreytingar, þá þyrfti að skoða gögn 20-30 ár aftur í tímann.  Áður benti ég á hæðargögn frá 1992-2003, en við hafa bæst gögn frá gervihnöttum sem mæla nákvæmlega massabreytingar í Grænlandsjökli frá árinu 2003-2008 - eða í fimm ár. Það er þó eingöngu hægt að nota gögnin sem vísbendingu um breytingu, en ekki hægt að túlka þau sem gögn sem sanna eða afsanna hlýnun jarðar.

Í fjórða lagi er þetta alls ekki rétt fullyrðing, miðað við nýjustu gögn.

Þetta er eflaust mikilvægast, því ef menn vilja nota þau mótrök að yfirborð Grænlandsjökuls sé að hækka, þá þurfa gögnin að sýna það, en nýjustu gögnin sýna það bara alls ekki.

160992main_mass_trend_greenland_md
Hér er þróunin í massabreytingum frá 2003-2005 myndrænt (frétt á vefsíðu NASA 2006)

Hér fyrir neðan er svo mynd sem sýnir massabreytingar á Grænlandsjökli út frá þessum gervihnattagögnum frá árinu 2003-2008. Við viljum líta á neðri myndina fyrst því hún tengist fullyrðingunni beint, en hún sýnir massabreytingu ofan við 2000 m hæð.

greenland_mass_loss
Hér eru myndir sem sýna massabreytingar í Grænlandsjökli, fyrst neðan við 2000 m og síðan ofan við 2000 m (ég hef ekki aðgang að greininni, en mér skilst að þessar myndir séu héðan - mynd stolin af skepticalscience.com).

Eins og sést á neðri myndinni þá eru nánast engar massabreytingar ofan við 2000 m hæð. Kíkið svo á efri myndina hún tengist næsta punkti - þ.e. massabreytingar neðan við 2000 m hæð.

Í fimmta lagi þá þarf að skoða Grænlandsjökul í heild til að fullyrða eitthvað um hann.

Eins og myndin hér fyrir ofan sýndi þá hefur Grænlandsjökull rýrnað töluvert neðan við 2000 m en staðið í stað ofan við 2000 m markið. Myndin hér fyrir neðan sýnir svo samtölu massabreytinga í Grænlandsjökli.

greenland_mass_loss_total
Hér er mynd sem sýna samtals massabreytingar í Grænlandsjökli síðastliðin fimm ár (ég hef ekki aðgang að greininni, en mér skilst að þessar myndir séu héðan - mynd stolin af skepticalscience.com).

Þetta gera um 179 gígatonn á ári sem Grænlandsjökull er að rýrna, síðastliðin fimm ár.  Það samsvarar sjávarborðshækkun um 0,5 mm á ári.

Þannig er nú það - Yfirborð Grænlandsjökuls er ekki að hækka ofan við 2000 m, heldur stendur í stað að meðaltali - en í heild er hann að rýrna töluvert.

---

Meira um Grænlandsjökul:

Skriðjöklar Grænlandsjökuls eru að auka hraða sinn - sem þýðir meiri bráðnun og meiri hækkun sjávar. 

GPS mælingar sýna að Grænland er að rísa um fjóra sentimetra á ári - það er vegna minnkandi fargs jökla (ísóstatískar hreyfingar) - jöklar bráðna, minni þyngd, land rís - hann er því sannarlega að minnka og hraði bráðnunarinnar eykst (fyrir 2004 reis Grænland um 0,5-1,0 sentimerta á ári - nú um 4 sentimetra á ári).

---

Auk þess hef ég meira að segja heyrt menn segja að Grænlandsjökull hafi stækkað í vetur - það er versta rökleysan, því eins og allir vita þá snjóar á veturna og jöklarnir safna á sig snjóalögum - auðvitað eykst massi jökulsins við það, en það er ekki hægt að fullyrða neitt um massabreytingar fyrr en eftir leysingar sumarsins.

--- 

Að lokum bendi ég á ágæta mynd sem sýnir þróun í þykkt jökla í heild í heiminum undanfarna áratugi, þ.e. áætlað meðaltal - hér ná upplýsingarnar það langt aftur að hægt er að tala um að þær túlki loftslagsbreytingu:

glacier_thickness
Hnattræn breyting á þykkt jökla frá 1961-2005 (mynd frá NSIDC).


Bandarísk rannsókn

Nú er bandarískt rannsóknateymi á vegum NASA að fara að mæla yfirborð jökla á Grænlandi og Íslandi. Ef ég skil þetta rétt, þá mun sérhönnuð flugvél fljúga í 12,500 metra hæð og radarmæla landslag jöklanna eða eins og segir:

Both radars use pulses of microwave energy to produce images of Earth's surface topography and the deformations in it. UAVSAR detects and measures the flow of glaciers and ice sheets, as well as subtle changes caused by earthquakes, volcanoes, landslides and other dynamic phenomena. GLISTIN will create high-resolution maps of ice surface topography, key to understanding the stresses that drive changes in glacial regions.

Sem sagt, gríðarlega spennandi verkefni og eiginlega skrítið að maður hefur ekki heyrt af þessu - kannski fylgist maður ekki nógu vel með.

Hvernig tengist þetta loftslagsbreytingum? Vísindamennirnir segja:

"We hope to better characterize how Arctic ice is changing and how climate change is affecting the Arctic, while gathering data that will be useful for designing future radar satellites," said UAVSAR Principal Investigator Scott Hensley of JPL.

Það verður fróðlegt að vita hvaða gögn koma út úr þessari rannsókn.


Straumar í Norður-Atlantshafi.

Ég varð bara að minnast á frétt sem ég var að lesa, aðallega af því að það fylgir góð skýringarmynd fréttinni.

Hún fjallar um nýjar rannsóknir á hitafari sjávar í Norður-Atlantshafi og hvernig nota megi þær til betri spáa um loftslagsbreytingar. Ég hef svo sem lítið um þetta að segja, þar sem ég hef litla þekkingu á málinu, en vísindamennirnir segja eftirfarandi (lauslega þýtt):

Hefðbundna skýringin er sú að breytileikinn í vatnsmassafærslum milli Norðurhafs og Norður-Atlantshafs stjórnist af breytingum í djúpsjó úr norðri. Við sjáum frávik sem hægt er að rekja til framlengingu Golfstraumsins yfir í Noregshaf.  

090504121923-large
Breyting frá heitum (rautt) og yfir í kaldan sjó (blá) í Norðurhafi. Svarta örin sýnir framlengingu á golfstraumnum yfir í Norefshaf og gráu örvarnar kalda djúpsjávarflæðið til baka.

Rannsóknin er sögð bæta þekkingu á Hita-Seltuhringrásinni í Atlantshafi frá heita Golfstrauminum í yfirborði og yfir í kalda djúpsjávarstrauma (sjá t.d. vísindavefinn). Rannsóknin er því sögð setja ný viðmið við að meta hvaða hafsvæði og mælingar eru best til að skilja loftslagsbreytingar að fornu og nýju og þar með hvaða grunn skuli nota við framtíðar vöktun og líkanagerð í tengslum við loftslagspár varðandi Norður-Atlantshaf og Norðursjávarsvæðin.

Hvort eitthvað sé til í þessu veit ég ekki, en myndin er flott - greinin sjálf birtist í Nature Geoscience, 2009: Eldevik et al. Observed sources and variability of Nordic seas overflow.


Hafísútbreiðsla

Ég rakst á forvitnilega frétt um teymi vísindamanna sem ætla að reyna að vinna úr og lagfæra gervihnattagögn frá sjöunda áratugnum til að sjá útbreiðslu hafíss á þeim tíma. Hingað til hafa eingöngu verið til gögn aftur til ársins 1979.  Eða eins og vísindamennirnir segja:

Expected Outcome and Impact
This project will provide an unprecedented improvement and assessment of a unique set of historical imagery. It will recover valuable data that is in danger of being lost. The recovered data will potentially extend our record of sea ice minimum extent, a key climate indicator, more than a decade longer than currently exists.

Þetta er flókið og erfitt verk og óljóst hvort þeim tekst þetta, en það verður áhugavert að fylgjast með því.

fig1
Dæmi um hvernig gögn er um að ræða, fyrir og eftir leiðréttingu (mynd frá http://cires.colorado.edu)


Svar

Þetta er eiginlega svar við bloggfærslu sem Kristinn Pétursson kom með fyrir nokkru og ég ætlaði að svara hjá honum, en hann virðist vera með ansi sveiflukennda opnun á athugasemdakerfinu sínu, þannig að þegar ég ætlaði að fara að tjá mig hjá honum þá voru tímamörkin skyndilega liðin. Líklega tilviljun en mögulega er ég of duglegur að skipta mér af umræðu um loftslagsmál og mögulega er ég farinn að pirra suma. En hvað um það, meðan órökstuddar fullyrðingar um loftslag svífa um bloggið, þá er ég með haglabyssuna á lofti Devil

Forsagan er sú að hann notar myndir til rökstuðnings þess að það hafi verið hlýrra á norðurslóðum fyrir 2500 árum en nú er, ég var búinn að biðja hann um að benda mér á hvaða gögn liggja á bakvið þessum myndum, fræðilegur áhugi að mestu, en einnig efasemdir um að hægt sé að nota myndir sem þessar sem rök fyrir hlýnun án þess að vita hvaða gögn eru á bakvið þær (hann hafði engin svör). Myndirnar eru þessar og eflaust góðar og gildar - en það skiptir ekki máli ef maður veit ekki hvernig þær eru gerðar:

c_documents_and_settings_atthing_serverk_my_documents_my_pictures_galciers_in_iceland_2500_years_ago

c_documents_and_settings_atthing_serverk_my_documents_my_pictures_glaciers_in_iceland_1000_years_ago

En altént, þá vil ég klára að svara því sem hann segir síðast í athugasemdunum, en þar segir hann (og sjá má hér):

  1. Sápubox, hér hefur ekkert verið "rifist" að mínu mati. Skoðanaágreiningur er ekki "rifrildi".  Svo er til betra orð ... það er "mismunandi skilningur" á málefnum. Þú og Páll hafði fullt leyfi samkvæmt stjórnarskránni - og mitt leyfi líka - til að viðra ykkar skoðanir hér. Ég er þakklátur fyrir athugasemdir. þen þessi er ekki rétt...." Þetta rifrildi þitt við Pál er síðan bara fyndið, sérstaklega þar sem þú neitar að viðurkenna að þú hafir rangt fyrir í þeirri fullyrðingu þinni að vísindamenn hafi talið jörðina verið flata fyrir 300 árum."
  2. "fyndið rifrildi"... he,he......     Ég hélt því fram - og geri einn að spænski rannsóknarrétturinn hafi pyntað Calileo (og fleiri) til að viðurkenna að jörðin væri flöt - var það ekki þannig......
  3. Svo var ég að nota þessar myndir til rökstuðnings um að það hefði verið hlýrra - ég fann þessar myndir á síðu Ágústar H Bjarnasonar.... og myndirnar tala sínu máli...  Svo er ég ekki fáanlegur til að "rökræða" gerð myndanna???   Hvað ertu að fara??  Ef þú veist eitthvað sérstakt um þessar myndir -  annað en þær sýna - þá er þér velkomið að skrifa um það.......  
  4. Ég held þessu fram: Allt of margar fullyrðingar - um þessa "hlýnun jarðar"... og "gervi"-vísindamenn fara langt fram úr sjálfum sér - í alls konar fullyrðingum og hafna því að sólin sé helsti orsakavaldur að hreyttu hitafari jarðar...    vitna ég þá í bloggsíðu Ágústar H Bjarnasonar - þar sem besta fagmennska er notuð sem ég hef séð...
  5. Svo hafa auðvitað eldgos haft mikil áhrif....
  6. Að lokum aftur: Skoðanaágreiningur er ekki rifrildi - þetta eru hrein skoðanaskipti. Ef laust hefur enginn "rétt" fyrir sér í endanlegri merkingu.... þetta er þróun - og við erum að reyna að skilja orsakir og alfeiðingar - og munum halda því áfram...

Svo ég svari þessu:

1, 2 og 6: mér þótti þetta fyndið, sérstaklega þar sem búið var að útskýra fyrir þér nokkrum sinnum að þú hefðir rangt fyrir þér varðandi hina flötu jörð.

3: Mér þykir mikilvægt að vita hvað liggur á bakvið þessar myndir - þær einar og sér segja ekkert, en einhver gögn liggja á bakvið gerð þeirra (það geta verið góð gögn - en geta líka verið úrellt gögn). Líklegast hafa rannsóknir á setkjörnum eða frjókornamælingar leitt í ljós eitthvað hitastig á Íslandi eða í nágrenni Íslands (líklega frjógögn miðað við að Þorleifur Einarsson kom að gerð myndanna) - útfrá hitanum sem þau gögn segja til um hafa menn talið líklegt að jöklar hafi legið eins og myndirnar sýna. Ef svo er þá er skrítið að nota þessar myndir til rökstuðnings um að það hafi verið hlýrra þá (þótt það hafi eflaust verið svo). Rökréttast væri að nota gögnin sem liggja á bakvið myndunum sem grundvöll rökfærslu. Mér vitanlega er allavega ekki fræðilegur möguleiki að þessar myndir séu gerðar eftir gögnum um legu jökla, því jökulgarðar frá þessum stöðum hefðu jöklar litlu ísaldarinnar afmáð fyrir löngu. Ef svo er, þá væri kjörið að nota myndirnar sem rök.

4: Málið er að fullyrðingarnar koma frá þér og þínum, þú fullyrðir að vísindamenn hafi rangt fyrir sér og hefur fyrir þér Ágúst Bjarnason (sem segist vera hlutlaus í sínum málflutningi) - en mest allt eru þetta órökstuddar fullyrðingar af þinni hálfu. Bentu á eina færslu hjá Ágústi sem sýnir fram á að það sé sólin sem sé helsti orsakavaldur hlýnunarinnar undanfarna áratugi og útskýrðu af hverju. Þú getur einnig skoðað hvað ég hef skrifað um þetta hér og hér og reynt að hrekja þau orð.

5: Varðandi eldfjöll þá hef ég fjallað um þau hér.

---- 

Svo að athugasemd númer 35, en þar er rökstuðningur Kristins merkilegur:

bullkenningunni um þessa "hnattrænu hlýnun".... af manna völdum....  það hefur sekki sést svona mikill snjór á NA landi í mörg ár....  og Grænlandsjökull er farinn að hækka aftur......  "hnattræn kólnun"....

Hann vísar sem sagt í veðurfar einn vetur á takmörkuðu svæði í litlu landi sem mótrök gegn hnattrænni hlýnun. Einnig segir hann að Grænlandsjökull sé að hækka aftur en minnist ekkert á það hvernig hann fær það út.

Hér eru myndir sem sýna massabreytingar í Grænlandsjökli, fyrst neðan við 2000 m og síðan ofan við 2000 m:

greenland_mass_loss

Samtals gerir þetta þá:

greenland_mass_loss_total

Gervihnattagögnin ljúga varla.

Ég ætla ekki að gera það að venju minni að svara athugasemdum bloggfærslna hér, en mér fannst ég knúinn til þess að þessu sinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband