Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Hækkun sjávarstöðu

Í júní birti ég færslu um sjávarstöðubreytingar þar sem farið var í helstu spár vísindamanna um hækkun sjávarstöðu fram til ársins 2100.

IPCC gerir ráð fyrir 18 - 76 sm hækkun sjávarstöðu til 2100 (ef allt er tekið inn í dæmið), en nýlegar spár hafa verið ákafari:

Nýlegar rannsóknir um mögulega hækkun sjávarstöðu eru nokkuð hærri en áætlanir IPCC gerir ráð fyrir, t.d. gerir ein rannsókn ráð fyrir möguleikanum á 0,5-1,4 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100. Önnur rannsókn gerir ráð fyrir 0,8-2,0 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100.

Ég tók það skrefi lengra og birti óábyrga spá mína út frá nýlegum rannsóknum um að jafnvægisstig sjávarstöðuhækkana miðað við núverandi hitastig yrði 25 m (en að sú hækkun sjávarborðs yrði þó ekki fyrr en eftir 1000 ár - sjá frétt) og tengdi það nýlegum rannsóknum um að bráðnun jökla geti orðið mun hraðari (jafnvægisstigi yrði náð eftir nokkur hundruð ár - sjá frétt).

Þar sem þetta er bara blogg þá voru þetta að sjálfsögðu bara pælingar og niðurstaða mín var sú, miðað við þær forsendur að jafnvægisstiginu (25 m) yrði náð á 500 árum jafnt og þétt, að hækkun sjávarstöðu yrði um 5 m í lok aldarinnar. Ég birti eftirfarandi mynd af vesturhluta Reykjavíkur að gamni, sem sýnir sjávarborð miðað við sjávarstöðuhækkanir upp á 5 og 25 m:

5-25 m Reykjavik copy
Sjávarstöðuhækkanir í Reykjavík á næstu öldum, fjólublátt sýnir 5 m hækkun og ljósblátt 25 m hækkun sjávarstöðu (smella til að stækka).

Það birtast enn fréttir sem geta stutt þær fullyrðingar að sjávarstöðuhækkanir geti orðið hraðari en IPCC spáir, sjá t.d. Sea level rise: It's worse than we thought. Bráðnun íshellna og jökla Grænlands og Suðurskautsins hefur verið að aukast undanfarna áratugi (sjá Íshellur Suðurskautsins og Er yfirborð Grænlandsjökuls að hækka? - einnig nýlegar fréttir t.d. Hér og Hér).

Ath: Íshellur er þykkur ís skautanna sem liggur við land og á sjó og hefur myndast á mörghundruð árum og í sjálfu sér veldur það ekki hækkun sjávarstöðu þó íshellurnar bráðni, þær aftur á móti eru hálfgerðir tappar sem halda aftur af skriði jökuls út í sjó og því valda þær óbeint hækkun sjávarstöðu.

_46108533_ice466boat
Ilulissat jökullinn sem hefur hörfað um 15 km síðasta áratug.

Einnig skal á það bent að hitastig sjávar heldur áfram að hækka, en sjávarhiti hefur mikil áhrif á bráðnun íshellna. Síðastliðinn júní var sjávarhiti sá mesti fyrir júní frá því mælingar hófust samkvæmt þessari frétt.

En... þótt þessi inngangur sé að mestu helgaður því að færa rök fyrir því að hækkun sjávar geti orðið mun hraðari en spár IPCC segja til um, þá hefur nýleg grein vísað því á bug. 

Í greininni nota vísindamennirnir kóralsteingervinga og hitastigsgögn úr ískjörnum og fengu út sjávarstöðubreytingar síðustu 22 þúsund ára (nú væri gott að hafa aðgang að greininni til að skoða aðferðafræðina og gröfin).

Með því að bera saman hvernig sjávarstöðubreytingar urðu miðað við hitabreytingar við lok síðasta jökulskeiðs (fyrir um 10 þús árum), þá fundu þeir út að IPCC hefði verið nokkuð nærri lagi í sínum útreikningum. Samkvæmt þeirra niðurstöðum þá þýðir 1,1-6,4°C hækkun í hitastigi um 7-82 sm hækkun sjávarstöðu árið 2100, sem er mun minna en spár undanfarin misseri hafa bent til og líkt tölum IPCC sem hljóðar upp á 18-76 sm. Vísindamennirnir sögðu ennfremur í viðtali við AFP:

"Fifty centimetres of rise would be very, very dangerous for Bangladesh, it would be very dangerous for all low-lying areas. And not only that, the 50 centimetres  is the global mean. Locally, it could be as high as a metre perhaps even higher, because water is pushed into different places by the effect of gravity."

Lauslega þýtt: "Fimmtíu sentimetra hækkun sjávarstöðu yrði mjög hættuleg fyrir Bangladesh, það yrði mjög hættulegt fyrir öll svæði sem liggja nálægt sjávarborði. Einnig er þetta 50 sentimetra meðaltal fyrir hnöttinn allan. Staðbundið gæti sjávarstöðuhækkun orðið allt að metri, jafnvel meiri, vegna mismunandi áhrifa þyngdaraflsins." Að auki sögðu þeir að hættuleg flóð yrðu algengari, að ef sjávarstaða hækkar um 50 sm þá muni flóð sem hafa orðið einu sinni á öld, verða einu sinni á áratug. Að auki kom fram að þegar til lengri tíma er litið þá mun sjávarstöðuhækkun vegna hlýnunar á þessari öld, halda áfram í margar aldir.

* Fyrirvari: Það er ekki hægt að treysta fréttatilkynningum um málið fyrr en búið er að lesa greinarnar og því skuluð þið taka umfjöllunum um fréttatilkynningar sem ég er að fjalla um með fyrirvara.


Ritskoðun

Þeir sem afneita eða efast um hlýnun jarðar af mannavöldum eru oft háværir um að verið sé að ritskoða þá, þeir fái ekki birtar greinar um loftslagsmál í virtum tímaritum og að fjölmiðlar fjalli ekki nóg um þeirra hlið málanna. Síðasta vika hefur verið áhugaverð hvað þetta varðar.

Fyrir stuttu rataði grein efasemdamanna inn í virt tímarit (sjá færsluna Hlýnun. - seinni hluti færslunnar). En menn eru búnir að hakka þessa grein í sig undanfarið (sjá t.d. Global warming and the El Niño Southern Oscillation). Ef þetta er ein af þeim greinum sem menn kvarta yfir að séu ritskoðaðar, þá skil ég vel að þær greinar sleppi ekki í gegn - þessi grein er ekki höfundum sínum til sóma. Ef greinin var ekki nógu slæm, þá voru yfirlýsingar höfunda í fjölmiðlum yfirgengilega vitlausar (sjá ágætar umfjallanir um þetta í erlendum bloggum: How not to analyze climate data, Mother nature’s sons, Old News og Is our whole dissembly appeared?).

En þetta er ekki ástæðan fyrir því að þessi færsla er skrifuð, heldur var ástæðan sú að benda efasemdamönnum á það að nú eru að koma í ljós aftur og aftur ritskoðun þeirra sem hafa barist hvað mest gegn kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum. Fyrst ætla ég að endurbirta bút úr eldri færslu minni:

Einnig vil ég benda á áhugaverða bloggfærslu sem ég las áðan um falsanir og mistúlkanir olíuiðnararins á gögnum sinna eigin vísindamanna - sjá hér og greinin sem hann vísar í er úr The New York Times og má sjá hér.

Þetta er það sem olíuiðnaðurinn tjáði umheiminum:

"The role of greenhouse gases in climate change is not well understood... scientists differ" on the issue.

Þ.e. "Áhrif gróðurhúsalofttegunda á loftslagsbreytingar eru lítið þekktar... vísindamönnum ber ekki saman um málefnið."

Það sem vísindamenn höfðu tjáð sínum yfirmönnum var aftur á móti þetta:

The scientific basis for the Greenhouse Effect and the potential impact of human emissions of greenhouse gases such as CO2 on climate is well established and cannot be denied.

 Þ.e.  "Vísindalegur bakgrunnur gróðurhúsaáhrifanna og hugsanleg áhrif útblásturs manna á gróðurhúsalofttegundum eins og CO2 á loftslag er vel ígrundað og er ekki hægt að draga í efa."

Það er því ljóst að olíuiðnaðurinn ritskoðaði sína vísindamenn.

Nú hefur komið í ljós að Bush-stjórnin vísvitandi leyndi gríðarlega nákvæmum gervihnattagögnum sem hefðu getað sýnt mönnum fyrr fram á þá gríðarlegu breytingu sem er að verða á norðurskautinu. Sjá frétt um málið Hér.

---

Það sem var síðan einna helst kveikjan að þessari færslu er það að nú hefur einn "virtasti" efasemdamaður bloggheimsins um hlýnun jarðar veðurfræðingurinn Anthony Watts fengið það fram að myndbandi var eytt af síðu YouTube. Ég sé eiginlega eftir því að hafa ekki verið búinn að benda ykkur á þetta myndband, en það kemur ekki að sök, því hægt er að nálgast það á ný (í bili allavega).

Myndbandið setti hinn frábæri Greenman (Peter Sinclair) inn á Youtube, en það er sá sami og hefur gert Climate Denial Crock myndböndin sem ég birti hér annað slagið.

Menn eru í raun frekar hissa á þessu, því það er ekki eins og verið sé að brjóta á höfundarétti Watts, heldur eru viðhafðar efasemdir um gagnsemi rannsókna hans á veðurstöðvakerfi Bandaríkjanna. Hann hefur lengi haldið því fram að það sé ekki að hlýna, heldur séu gögn frá veðurstöðvum að sýna einhverskonar gervihlýnun vegna þess hve illa sé staðið að uppsetningu þeirra. Greenman fer í saumana á þessum rannsóknum Watts og reyndar tekst honum að afgreiða það þannig að í raun sé ekkert að marka þessar rannsóknir Watts. 

Það sem gerir þetta enn furðulegra er að Watts birtir endalaust á heimasíðu sinni efni sem eignað er öðrum, ágrip greina, myndir og fleira - og hann getur ekki heimilda í öllum tilfellum. Einnig að ekki megi efast um rannsóknir þess manns sem efast hvað mest um verk annarra - hlægilegt eiginlega.

En allavega, annar notandi af YouTube er búinn að stelast til að setja myndbandið inn aftur og ég myndi drífa mig að skoða það, áður en Watts lætur loka þessu myndbandi líka.

Aðrir bloggarar hafa skrifað um þetta mál, sjá t.d. Climate Crock of the Week: What's Up with Anthony Watts [take 2], The video that Anthony Watts does not want you to see: The Climate Denial “Crock of the Week” og Roger Pielke Sr speaks on Climate Crock: Laugh or cry?


Hlýnun.

Ég hef sagt nokkrum sinnum hér á þessu bloggi að hitastigsþróun undanfarinna nokkurra ára segi ósköp lítið um undirliggjandi hlýnun sem er í gangi vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum (sjá Er að kólna? og Annar kaldasti apríl á þessari öld!).

Undanfarin nokkur ár hefur hiti jarðar nefnilega staðið í stað að mestu, sumir segja að loftslag sé jafnvel að kólna, sem er fjarri lagi (sjá þessar erlendu bloggfærslur: What cooling trend? og Global Warming? why is it so freaking cold?).

Ástæðan fyrir því að hitinn hefur nánast staðið í stað er sú, að þrátt fyrir hina sterku undirliggjandi hlýnun sem á sér stað, þá hafa náttúrulegar sveiflur í sólinni (sjá Er það virkilega ekki sólin?) og ENSO (sjá El Nino/La Nina - tímabundnar sveiflur í hitastigi.) verið í þannig fasa að þau hafa náð að draga úr hlýnuninni það mikið að hlýnunin hefur að einhverju leiti týnst, sérstaklega fyrir þá sem gleyma því að það er búið að hlýna töluvert undanfarna nokkra áratugi.

Það hefur þó valdið mér nokkrum áhyggjum að þrátt fyrir kuldafasa náttúrulegra sveiflna, þá hefur hitinn staðið í stað í hæstu hæðum (en ekki hefur kólnað jafn mikið og kuldafasarnir myndu valda venjulega), en heitustu ár frá því mælingar hófust hafa verið langflest undanfarin nokkur ár (sjá grein Sveins Atla: Heitustu ár í heiminum frá 1880).

06_13_08_globalairtemp
Hitastig jarðar frá því mælingar hófust.

Því kemur það mér ekki á óvart að vísindamenn eru nú að spá aukningu í hlýnun jarðar næstu fimm árin (sjá fréttatilkynningu Hér, sjá síðan neðst í þessari færslu fyrirvara vegna fréttatilkynningarinnar*). Í fréttatilkynningunni er meðal annars sagt:

The analysis shows the relative stability in global temperatures in the last seven years is explained primarily by the decline in incoming sunlight associated with the downward phase of the 11-year solar cycle, together with a lack of strong El Niño events. These trends have masked the warming caused by CO2 and other greenhouse gases.

Lauslega þýtt: "Greiningin sýnir að hið tiltölulega stöðuga hitastig síðustu sjö ára, geti verið útskýrt að mestu með niðursveiflu í útgeislun sólar í hinni 11 ára sólblettasveiflu, ásamt skorti á sterkum El Nino. Þessi ferli hafa hulið hlýnunina sem er af völdum CO2 og annarra gróðurhúsalofttegunda".

Vísindamenn spá því nú að hlýnunin muni aukast töluvert næstu árin og að jafnvel verði slegið metið frá 1998. Það getur vel verið að við séum byrjuð að sjá þessa aukningu í hitastigi nú þegar (sjá færslu Emils: Meðalhiti jarðar í hæstu hæðum), enda virðist El Nino vera byrjaður:

surfacetemp_lastweek_300
Sjávarhiti í kyrrahafinu 1. júlí 2009 við miðbaug, er að minnsta kosti einni gráðu hærri en að meðaltali - sem er vísbending um El Nino (appelsínugula svæðið við miðbaug noaanews.noaa.gov).

Undirliggjandi hlýnun jarðar af mannavöldum hefur því haldið áfram að aukast samkvæmt þessari grein og munu náttúrulegar sveiflur næstu ára magna hitastigstölurnar upp í hæstu hæðir (með þeim fyrirvara að ekki komi eldgos sem dragi úr vægi hlýnunarinnar á móti) á svipaðan hátt og náttúrulegar sveiflur undanfarinna ára hafa lækkað hitastigstölur.

--- --- --- ---

Þessu tengt þá verð ég að minnast á undarlega rannsókn sem komst í gegnum ritrýningakerfi hins þekkta tímarits Journal of Geophysical Research, en greinin heitir Influence of the Southern Oscillation on tropospheric temperature. Þeir sem efast um hlýnun jarðar af mannavöldum hafa fjallað um þessa grein (sjá t.d. bloggfærslu eftir Ágúst og Watts).

Það hefur komið í ljós að þetta er gölluð grein. Aðferðafræðin er vafasöm og niðurstöðukaflinn líka. Ef ég skil þetta rétt, þá er aðferðafræði þeirra þannig að með tölfræðilegum aðferðum þá eyða þeir út trendinu sem er í hlýnun jarðar. Þeir semsagt eyða út sveiflur úr gögnunum, nema sveiflur sem eru með tíðnina 1,5-7 ár, sem þeir magna upp (sveiflur í ENSO magnast þannig upp) og álykta sem svo að það sé ekkert sem bendi til þess að það sé trend til staðar annað en það sem ENSO gefur og þar með sé engin hlýnun í gangi vegna útblásturs manna.

Það sem verra er, er að yfirlýsingarnar voru jafnvel mun sterkari í fréttatilkynningum um þessa "frábæru" grein og hvernig hún "afsannaði" hlýnun jarðar af mannavöldum. Fréttatilkynningarnar voru alls ekki í samræmi við umfjöllunarefnið. 

Sjá ágætar umfjallanir um þetta í erlendum bloggum: How not to analyze climate data, Mother nature’s sons, Old News og Is our whole dissembly appeared?

Eitt af því sem ég lærði af því að fylgjast með þessu fíaskó í kringum þessa grein, er að framvegis ætla ég að skoða fréttir og fréttatilkynningar sem fylgja nýjum greinum með varúð (ég mun þó birta það sem mér þykir áhugavert - en hafa fyrirvara á).

Einnig hefur þetta afhjúpað mögulegan galla í ritrýningakerfinu (það er nánast skandall að hleypa þessari grein í gegn, fer ekki ofan af því), en sem betur fer er þetta undantekning frekar en regla - það er ekki oft sem slíkar greinar sleppa í gegnum það kerfi - en það getur gerst.

Það er vitað mál að það er búið að fara mikið í pirrurnar á efasemdamönnum um hlýnun jarðar að þeir hafa ekki fengið birtar greinar eftir sig í ritrýnd tímarit, einfaldlega af því að vísindin eru ekki þeirra sterkasta hlið. Þeir hafa því reynt mikið að gera lítið úr því kerfi. Með einhverjum lúalegum vinnubrögðum tókst þeim að koma þessari grein í gegnum ritrýningakerfið, en um leið afhjúpa þeir skort sinn á vísindalegri rökhugsun. Ég verð ekki hissa þótt að ritstjóri þessa tímarits muni segja af sér - lágmarkið væri að sjálfsögðu að hann komi með opinbera afsökunarbeiðni. Yfirlýsingar um að ekki sé hægt að treysta þessum tímaritum eru þó ekki tímabærar (þetta er undantekning frekar en regla).

* Fyrirvari: Það er ekki hægt að treysta fréttatilkynningum um málið fyrr en búið er að lesa greinarnar og því skuluð þið taka umfjöllunum um fréttatilkynningar sem ég er að fjalla um með fyrirvara.


How it all ends

Ég hef oft rekist á þetta myndband þegar ég hef verið að skoða youtoube, en ekki fundið neina löngun til að skoða það fyrr en nú. Það er bara nokkuð magnað - flottar pælingar. Mæli með því. Hann hefur síðan gert helling af öðrum myndböndum sem ég ætla að skoða, auk þess sem hann hefur skrifað bók um málið.


Magnandi svörun

Ástæðan fyrir því að ég var að pæla í orðasambandinu positive feedback í síðustu færslu (einnig nefnt amplifying feedback) og þýðingu á því yfir í íslensku (jákvæð svörun/magnandi svörun), er sú að það er frekar mikið notað hugtak í loftslagsfræðum. Þar er átt við ferli þar sem afleiðingin magnar upp orsökina og veldur keðjuverkun með hugsanlega slæmum stigvaxandi áhrifum. Á móti getur afleiðingin myndað negative effekt (neikvæða/mótvægis svörun) á móti orsökinni og dregið úr henni.

Magnandi svörun 

Við hlýnun jarðar eru ýmis ferli sem valda magnandi svörun (e. positive effect).  Við hlýnun eykst t.d. raki eða vatnsgufa í andrúmsloftinu og þar sem vatnsgufa er gróðurhúsalofttegund þá magnar það hlýnunina upp.

Annað þekkt ferli er hið svokallaða Ice-Albeido effect þ.e. þegar hafís bráðnar vegna hlýnunar jarðar þá endurspeglast minna sólarljós út úr lofthjúpnum og sjórinn gleypir meiri hita og því hitnar meira meiri hafís bráðnar.

global-warming-arctic-ice-sheets

Eitt af þeim ferlum sem valda mönnum hvað mestum áhyggjum er bráðnun sífrerans, en í honum er mikið magn kolefnis (Metan) sem hætt er við að losni út í andrúmsloftið. Það gæti  haft geigvænleg áhrif og magnað upp hlýnun jarðar margfalt hraðar og sett af stað atburðarrás sem ekki sér fyrir endan á. Hlýnun - nokkurt magn Metans losnar - hlýnar enn meir - meira magn Metans losnar og svo koll af kolli.

Siberia-Russia-002

Annað þekkt ferli sem menn hafa áhyggjur af, er að hæfni sjávarlífvera til að vinna kolefni úr sjónum og þar með að binda hið sívaxandi kolefni (sem óhjákvæmilega eykst í hafinu vegna útblásturs manna) minnkar töluvert við hlýnun sjávar. Á meðan er hafið að súrna sem minnkar enn möguleika sjávarlífvera að vinna kolefni úr sjónum (sjá CO2 - vágestur úthafanna). Það veldur því að hafið tekur við minna af CO2 og því mun CO2 í andrúmsloftinu aukast hraðar sem því nemur og auka þar með á hlýnun jarðar.

Hvað með skýin

En ég minntist á negative feedback, þar sem afleiðingin vinnur á móti orsökinni, en hingað til hefur það verið talið allt eins líklegt að aukin skýjamyndun vegna hlýnunar jarðar geti unnið á móti hlýnuninni (þó menn hafi ekki verið sammála um það frekar en margt annað). Nýlega birtist grein í Science sem bendir til þess að þessu sé öfugt farið. Þ.e. að aukin hlýnun sjávar minnki lágský sem hafa hingað til verið talin líklegust til að dempa hlýnunina. Hér er því mögulega komið nýtt ferli sem veldur magnandi svörun. Það skal þó tekið fram að þetta er umdeilt eins og allt sem tengist skýjum hvað varðar loftslag, en ég mun fylgjast með þessu og skrifa um það hér ef ég frétti meira.

clouds


Positive feedback

Í vísindum er oft notað orðasambandið positve feedback sem hefur verið þýtt á íslensku sem jákvæð afturverkun eða jákvæð svörun (sem ég nota mest). Þeir sem hafa verið að pæla í loftslagsmálum vita að jákvæð svörun er alls ekki jákvæð í sjálfu sér, heldur einstaklega neikvætt ferli (í sambandi við hlýnun jarðar sem er óneitanlega neikvætt).

Jákvæð svörun felur í sér að eitthvað magnast upp, t.d. þegar hafís bráðnar vegna hlýnunar jarðar þá endurspeglast minna sólarljós út úr lofthjúpnum og sjórinn gleypir meiri hita og því hitnar meira - meiri hafís bráðnar - meira hitnar og  svo framvegis. Ekki beint jákvætt.

Ég rakst á orðasamband sem einn blaðamaður notar í útlandinu þ.e. amplifying feedback í staðinn fyrir positive feedback.

Því spyr ég ykkur: Dettur ykkur eitthvað í hug til að nota í staðin fyrir jákvæða svörun?


Staða hafíssins á Norðurskautinu

Það er nú orðið ljóst að bráðnunin í ár verður í hærri kantinum og spurningin nú er bara hvort bráðnunin nái lágmarkinu 2007. Það kemur í ljós hvernig lágmarkið verður, líklega í lok september en í fyrra þá náði lágmarkið ekki sömu lægðum og árið 2007 (útbreiðslan var þó næstminnst frá upphafi mælinga frá 1979):

20081002_Figure3
Lágmörk hafíss á norðurskautinu frá árinu 1979 (nsidc.org).

 

20090722_Figure2
Hér er staðan frá því í fyrradag, þar sem sýnd er þróunin fyrir 2007 og 2008 til samanburðar (nsidc.org).

Vísindamenn hafa gert margskonar líkön til að reyna að áætla lágmarkið í ár:

20090722_Figure4
Spár vísindamanna eftir mismunandi líkönum (smella til að stækka, tekið af nsidc.org).

Ég hef engin spálíkön í mínum fórum, en mig grunar að vegna þess hve ísinn er þunnur og hversu hratt hann bráðnar nú að útbreiðslan verði svipuð og árið 2007 - og að jafnvel verði sláð met í lágmarksútbreiðslu.

Nú var norðurskautið að anda ansi köldu lofti yfir til Íslands, spurning hvort hann hafi fengið heitt loft í staðinn, sem auka muni bráðnunina enn frekar (en kannski skiptir það engu máli).

-----------------------------

Í öðrum hafísfréttum er það helst að vísindamenn hafa fundið vísbendingar um það að hafís norðurskautsins hafi ekki verið jafn lítill í nágrenni Grænlands í yfir 800 ár og að líklegt er talið að yfir sumartíman verði hafíslaust strax árið 2030 og að nýjar kannanir með gervihnöttum sýni gríðarlega þynningu hafíss síðustu ár.


Lýsandi næturský

Ég rakst á áhugaverða bloggfærslu um breytingar á skýjafari, sem sumir tengja hlýnandi loftslagi. Hvort svo er ætla ég ekki að fullyrða en vissulega er þetta áhugavert. 

Skýin sem um ræðir eru kölluð á íslensku Lýsandi næturský en á ensku heita þau Noctilucent cloud (samkvæmt heimasíðu Veðurstofunnar, sjá neðst á þessari síðu).

Ofan við háský eru til glitský / perlumóðuský (nacreous clouds) í um 15 - 30 km hæð og lýsandi næturský (noctilucent clouds) í um 75-90 km hæð. Þessar skýjagerðir eru mjög sjaldgæfar og tengjast ekki veðri. (tekið af vedur.is)

noctilucentbastilleday
Mynd af blogginu sem ég minntist á áðan. Þess ber að geta að mér sýnist ein myndin af þeirri heimasíðu vera af ósköp venjulegu glitský, sem er þó glæsileg sjón.

Ástæða þess að menn hvá yfir þessum skýjum núna, er að þau eru farin að sjást á breiddarbaugum utan beltis sem þau sjást venjulega (þau sjást venjulega á milli 50. og 70. breiddargráðu Norður og Suður). Þessi ský myndast í 75-85 km hæð eða í miðhvolfinu.

Miðhvolfið (mesosphere) er næst heiðhvolfinu og nær upp í 80 km hæð. Í neðri hluta þess er fremur hlýtt og stafar það af geislanámi útfjólublárrar geislunar sem aftur veldur myndun ósons.  (af vedur.is)

Noctilucent_clouds_bargerveen
Mynd tekin af wikipedia.

Ástæða þess að menn tengja þessa auknu útbreiðslu Lýsandi næturskýja við hlýnun jarðar er að við aukningu gróðurhúsalofttegunda þá er ekki nóg með að jörðin hlýni, heldur kólna efri lög lofthjúpsins (vegna þess að útgeislun jarðar nær ekki í gegnum lofthjúpinn) og gæti þetta tengst því að einhverju leiti. Það sem einnig virðist styðja þessa kenningu er að fyrstu heimildir um þessi ský komu ekki fram fyrr en eftir að iðnbyltingin hófst. Til eru aðrar kenningar t.d. um aukið methan vegna landbúnaðar.


Meira frá Greenman

Ég fer hægt af stað eftir sumarfrí, hér er eitt myndband eftir Greenman.


Climate Denial Crock - loftslagslíkön

Áhugavert myndband frá Greenman, mæli með honum - alltaf.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband