Færsluflokkur: Myndbönd
2.10.2009 | 08:31
Fréttir liðinnar viku - Loftslag.is
Hér er yfirlit yfir ýmsar fréttir sem við rákumst á við fréttaöflun vikunnar. Þetta eru stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint. Einnig er hér stutt yfirlit yfir færslur vikunnar af Loftslag.is. Þess má einnig geta að á næsta þriðjudag verður viðtal við okkur í Vísindaþættinum á Útvarp Sögu. Þátturinn er á dagskrá klukkan 17-18 á þriðjudag.
Stuttar fréttir
Fæðuöryggi í vanþróuðum löndum heims minnkar töluvert og allt að 25 milljónir fleiri börn verða hungri að bráð árið 2050 ef ekkert er gert til að sporna við loftslagsbreytingum samkvæmt nýrri bandarískri rannsókn. Hér er á ferðinni umfangsmikil rannsókn á tengslum milli loftslagsbreytinga og fæðuöryggis. Stærstu áhrifin verða á uppskeru hveitis og hrísgrjóna. Talið er að uppskera hveitis geti dregist saman um 20-35% árið 2050 miðað við óbreyttar áherslur í losun gróðurhúsalofttegunda. Sjá nánari umfjöllun á vef Nature.
Óvenjuhátt hitastig norðurskautsins og miklar rigningar í hitabeltinu er talið líklegur orsakavaldur fyrir hinni hnattrænu aukningu í metani í andrúmsloftinu frá árinu 2007 og 2008, samkvæmt NOAA. Áratuginn þar á undan hafði lítil sem engin aukning verið, en metan er önnur mikilvirkasta gróðurhúsalofttegundin - á eftir CO2 (koldíoxíð). Sjá nánar frétt af vef NOAA.
Votlendi sem verður til þegar lónstæði stórrar stíflu í Kína þornar að hluta á sumrin er hugsanlega stór uppspretta metans sem er áhrifarík gróðurhúsalofttegund. Vísindamenn hafa haft vaxandi áhyggjur af gróðurhúsalofttegundum frá gróðurlendi sem fer undir vatn við stíflugerð. Þegar slík lífræn efni rotna, þá losnar metan og CO2 sem bæta á þá hlýnun jarðar sem nú þegar í gangi. Aukning í metani er sérstakt áhyggjuefni þar sem áhrif þess er tuttugu sinnum áhrifameira en áhrif CO2. Sjá nánari umfjöllun á vef Nature.
Yfirlit - fréttir og pistlar vikunnar:
Síðastliðinn laugardag þá birtum við 2 færslur sem fjölluðu beint og óbeint um jökulísinn og hækkun sjávarborðs. Fyrst má nefna myndband um sjávarstöðubreytingar og síðan frétt um nýjar rannsóknir sem skoðuðu þynningu jökulíssins á Grænlandi og Suðurskautinu. Önnur merkileg frétt úr vikunni sem leið var fréttin um fjórar gráðurnar, sem er ný frétt um rannsóknir á vegum Met Office (bresku veðurstofunnar), þar sem því er haldið fram að óheft losun koldíoxíðs geti leitt til allt að 4°C hækkun hitastigs fyrir næstu aldamót. Myndbönd vikunnar voru nokkur, má þar helst nefna myndband af sýn Carl Sagan á bláa punktinn sem við lifum á, hversu agnarsmár hann er í samanburði við alheiminn, auglýsing frá Bandaríkjunum sem hefur vakið furðu og svo heimildamynd um súrnun sjávar. Einnig skrifuðum við um Sea Level Explorer, þar sem hægt er að skoða áhrif sjávarstöðubreytinga á hina ýmsu staði í heiminum. Síðast en ekki síst þá skrifaði Einar Sveinbjörnsson gestapistil vikunnar, sem fjallar um "Veðurfar Norðurheimskautsins frá upphafi okkar tímatals" og kunnum við honum þakkir fyrir.
Myndbönd | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.9.2009 | 20:43
Loftslag.is - Nýtt efni síðustu daga
Hér kemur stutt kynning á því efni sem birst hefur á Loftslag.is síðustu daga.
Í athyglisverðu myndbandi Carl Sagan eru hugleiðingar um stærð Jarðar í alheiminum gerð skil á fróðlegan hátt. Hversu stór er eiginlega hinn blái punktur sem við búum á.
Það eru ýmis tól sem okkur standa til boða á netinu, meðal annars er hægt að skoða ýmis áhrif af sjávarstöðubreytingum, hvaða áhrif hefur t.d. 1 m hækkun sjávarborðs? Skoðið tengilinn í þessari færslu á Sea Level Explorer.
Bandarísk auglýsing vekur furðu.
Í kjölfarið á auglýsingunni er svo hægt að skoða blogg sem kemur inn á hugsanlega áhrif aukningar CO2 í andrúmsloftinu, eru þau áhrif eingöngu jákvæð?
Að lokum er svo frétt um rannsóknir sem Met Office (breska veðurstofan) hefur birt um hugsanlega hitastigshækkun verði ekkert að gert til að draga úr losun koldíoxíðs.
Myndbönd | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2009 | 15:46
Sjávarstöðubreytingar og jökulísinn á Grænlandi og Suðurskautinu
Í dag hafa birst 2 nýjar færslur á Loftslag.is sem fjalla um, annars vegar sjávarstöðubreytingar og hins vegar um jökulísinn á Grænlandi og Suðurskautinu. Fyrst er um að ræða myndband, þar sem m.a. er tekið fyrir hækkun sjávarstöðu og spárnar um það. Hvað segja spárnar um hækkun sjávarstöðu, hvað er með í þeim spám og hvað ekki? Myndbandið er frá Greenman3610, sem er YouTube notandi og hefur gert nokkur myndbönd um loftslagsbreytingar. Það má segja að hann hafi persónulegan stíl við gerð sinna myndbanda, þar sem hann getur verið nokkuð meinhæðinn. Hin færslan er frétt um þynningu jökla á Grænlandi og Suðurskautinu. Þar er sagt frá nýjum rannsóknum er varða þynningu jökla á þessum svæðum.
Tenglar:
Myndband: Sjávarstöðubreytingar
Frétt: Þynning jökla á Grænlandi og Suðurskautinu
Myndbönd | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
2.9.2009 | 23:21
Climate Wars - heimildamynd frá BBC
Ég rakst á skemmtilega heimildamynd á youtube. Ég er nú þegar búinn að skoða fyrstu 5 bútana (af 18). Fræðandi og heldur manni föstum. Ein athugasemd þó: Í upphafi myndbandsins talar hann mikið um að vísindamenn áttunda áratugarins hafi verið sammála um að ísöld væri yfirvofandi sem er ekki alveg rétt með farið (sjá Ísöld spáð á áttunda áratugnum?). Ekki að það skipti miklu máli fyrir myndbandið í heild. Hér fyrir neðan er fyrsti búturinn, en nálgast má alla heimildamyndina hér.
Myndbönd | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.8.2009 | 00:16
Uppskera
Hérna er ágætt myndband sem sýnir áhrif hlýnunar jarðar á uppskeru ýmissa matjurta.
Myndbönd | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2009 | 18:40
Súrnun sjávar - heimildarmyndir.
Heimildarmyndin A Sea Change
Í næsta mánuði (þann 26. september) verður sýnd heimildamyndin A Sea Change, sem er um súrnun sjávar (e. ocean acidification). Hún er sýnd á sjónvarpstöðinni Planet Green Network, en sú stöð skylst mér að sé hluti af Discovery Network. Nú er ég ekki nógu vel að mér í sjónvarpsfræðum til að vita hvort þessi stöð næst á einhvern hátt hér á landi, þó er ég nokkuð viss um að ef það er möguleiki að sjá stöðina, þá er það helst í gegnum gervihnött.
Hægt er að lesa sig til um myndina hér: New Film on Ocean Acidification Reveals Unseen Face of CO2 Pollution og hér fyrir neðan eru tvö sýnishorn úr myndinni:
Heimildarmyndin Acid Test
Við gerð þessarar færslu rakst ég á umfjöllun um aðra heimildarmynd um súrnun sjávar sem einnig á að sýna á sömu sjónvarpstöð, þann 12. ágúst. Sjá umfjöllun um þessa heimildarmynd hér: ACID TEST: The Global Challenge of Ocean Acidification og hér er svo sýnishorn:
Um súrnun sjávar
Súrnun sjávar er aukaafurð losunar á CO2 út í andrúmsloftið og oft kallað "hitt CO2-vandamálið" (á eftir hlýnun jarðar). Vegna aukningar CO2 í andrúmsloftinu gleypir sjórinn aukið magn CO2 og við það verða efnaskipti sem breyta pH gildi sjávar - sjórinn súrnar.
Súrnun sjávar hefur aukist það mikið undanfarna áratugi að talin er mikil hætta á því, að við munum verða vitni að svipaðri súrnun sjávar og varð fyrir 55-56 milljónum ára. Sú súrnun olli miklum útdauða sjávarlífvera. 1/6 af fæðu mannkyns er fengin úr sjónum og því eru miklir hagsmunir í húfi fyrir mannkynið (fyrir utan siðferðislega skyldu okkar að eyðileggja ekki lífsafkomu annarra lífvera).
Það má því segja að jafnvel þeir sem viðurkenna ekki staðreyndina um hlýnun jarðar af mannavöldum, ættu að geta tekið undir það að nú verði að bregðast við aukningu CO2 andrúmsloftsins, áður en illa fer. Við núverandi losun CO2, þá er talið að súrnun sjávar verði farin að nálgast hættumörk árið 2030 (við CO2 magn í lofthjúpnum í sirka 450 ppm) en nú þegar er talið að áhrifa súrnunar sjávar sé farið að gæta.
Frekari upplýsingar um súrnun sjávar:
CO2 - vágestur úthafanna (gömul bloggfærsla mín, frá því ég heyrði fyrst af þessu vandamáli).
Heimshöfin súrna jafnt og þétt (af erlendri bloggsíðu sem fjallar eingöngu um súrnun sjávar - hér hafa þeir tekið grein sem birtist í fréttablaðinu í mars og birt í heild).
Súrnun sjávar (hér er umfjöllun mín um áðurnefnda grein sem var í fréttablaðinu).
Í hverju felst súrnun hafsins? (af heimasíðu EPOCA - European Project on OCean Acidification).
Myndbönd | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.8.2009 | 22:49
Jöklar hitabeltisins
Ég rakst á áhugavert myndband sem fjallar um rannsóknir vísindamanna á jöklum hitabeltisins og þá sérstaklega í Perú. Aðal áhugi vísindamannanna er að skrásetja jöklasöguna og taka ískjarna sem meðal annars má nota til ýmiss konar túlkana, t.d. á loftslagi. Í Perú er t.d. stærsti jökull innan hitabeltisins, en hann heitir Quelccaya.
Breytingar á Qori Kalis skriðjöklinum sem skríður frá Quelccaya íshettunni í Perú. Efri myndin tekin árið 1978 og hin árið 2002. Jökullinn hopaði um 1100 metra á þeim tíma.
Árið 2002 rákust þeir á gróðurleifar við jökullónið framan við jökulinn á stað sem var nýkominn undan jökli. Gróðurleifarnar voru aldursgreindar og voru um 5200 ára gamlar. Sem sagt síðast þegar jökullinn var jafn lítill og hann er nú var fyrir 5200 árum.
Ég kann ekki að setja þetta myndband inn hér, en það má finna með því að smella Hér.
Myndbönd | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.7.2009 | 23:23
How it all ends
Ég hef oft rekist á þetta myndband þegar ég hef verið að skoða youtoube, en ekki fundið neina löngun til að skoða það fyrr en nú. Það er bara nokkuð magnað - flottar pælingar. Mæli með því. Hann hefur síðan gert helling af öðrum myndböndum sem ég ætla að skoða, auk þess sem hann hefur skrifað bók um málið.
Myndbönd | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.7.2009 | 00:01
Meira frá Greenman
Ég fer hægt af stað eftir sumarfrí, hér er eitt myndband eftir Greenman.
Myndbönd | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.7.2009 | 21:51
Climate Denial Crock - loftslagslíkön
Áhugavert myndband frá Greenman, mæli með honum - alltaf.
Myndbönd | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)