Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Climategate mark 2 – Sölumenn vafans snúa aftur

Í myndbandi, sem sjá má á loftslag.is, má sjá fróðlega greiningu frá Potholer54 um hið nýja plathneyksli sem “efasemdamenn” eru að reyna að spinna upp nú um stundir og hafa kallað climategate 2,0 (frumlegheitin eru í hávegum höfð á þeim vígstöðvum). Það virðist vera sem þeir hafi “fundið” fleiri stolna tölvupósta til að birta – reyndar er eitthvað af því það sama og kom fram fyrir 2 árum og varla nokkuð nýtt í því, en nýtninni er þó fyrir að fara, ekki má taka það frá “efasemdamönnum” í þetta skiptið. En venju samkvæmt taka “efasemdamenn” hlutina úr samhengi og mistúlka af stakri “snild”…ekkert nýtt í því í sjálfu sér – sama aðferðafræðin er notuð aftur nú 2 árum seinna og núna er það rétt fyrir loftslagsráðstefnuna í Durban. Hvers vegna ættu “efasemdamenn” að henda góðu plotti fyrir róða, enda gekk það vonum framar síðast? Spyr sá sem ekki veit…

En, það má segja að það sé góð flétta hjá Potholer54 í myndbandinu, krydduð með léttri kaldhæðni og nettu líkingamáli. Sjón er sögu ríkari, gjörið svo vel:

Tengt efni á loftslag.is:


Climategate 2.0 – Enn eitt plathneykslið í uppsiglingu?

Hér undir er færsla sem var skrifuð fyrir ári síðan, eftir að það var orðið öllum ljóst (sem það vildu vita) að hið svokallaða climategatemál (hið fyrsta) var bara stormur í vatnsglasi. Nú er komið upp “nýtt” mál sem afneitunarsinnar kalla climategate 2,0 og því ekki úr vegi að rifja upp niðurstöðu síðasta máls, sjá hér undir. Reyndar má einnig geta þess að ekki hefur borið mikið á þessari umræðu um hið "nýja" Climategatemáli í fjölmiðlum almennt, enda lítið sem ekkert kjöt á þessu, eins og reyndar var líka í fyrra skiptið.  Það má lesa um þetta á einhverjum stöðum, sjá t.d. Climategate 2.0: Denialists Serve Up Two-Year-Old Turkey og Two Year Old Turkey ásamt grein í GuardianEitthvað virðist þetta mál vera endurtekning á gömlu góðu útúrsnúningunum sem gerðir voru í nafni “efasemdamanna” (afneitunarsinna) þegar climategate hið fyrra kom upp. En rifjum nú upp gamla málið áður en lengra er haldið:

Um þessar mundir er liðið ár frá því að gögnum sem stolið var frá CRU var lekið á internetið og hið svokallað Climategatemál kom fram í dagsljósið. Hinar ýmsu heimasíður þeirra sem afneita loftslagsvísindunum sem fræðigreinar, fóru fremstar í flokki þeirra sem töldu að þessi gögn sönnuðu allt mögulegt varðandi svindl og fals loftlsagsvísindamanna. Í kjölfarið komu fram margar ásakanir á hendur vísindamanna sem voru byggðar á litlu öðru en sérvöldum mistúlkunum eða bara almennum misskilningi á því hvernig vísindastörf eru unnin. En hvernig standa málin svo núna ári seinna?

Tímaritið Nature hefur birt ágæta grein um málið (PDF), þar sem eftirfarandi kemur m.a. fram:

.. More certain is the conclusion that the hack of the server was a sophisticated attack. Although the police and the university say only that the investigation is continuing, Nature understands that evidence has emerged effectively ruling out a leak from inside the CRU, as some have claimed. And other climate-research organizations are believed to have told police that their systems survived hack attempts at the same time.

En það er nú fleira sem vert er að skoða, t.d. hvað hefur gerst áþreifanlegt á þessu ári sem er liðið.

Fyrst er að nefna skýrslu Vísindanefndar breska þingsins þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Phil Jones, sem er einn af þeim sem var miðpunktur hins svokallað climategatemáls, hafi ekki falsað niðurstöður.

Næst ber að nefna skýrslu vísindanefndar undir stjórn Lord Oxburgh, sem er fyrrum stjórnarformaður Shell í Bretlandi, sem komst að því að vísindin séu traust og að ekkert bendi til þess að vísindamenn hafi falsað niðurstöður.

Í enn einni rannsókninni, nú undir stjórn Sir Muir Russell, kom fram að vísindamenn og störf þeirra eru gerð af nákvæmni og samviskusemi og að ekki lægi fyrir vafi um störf þeirra.

Í Bandaríkjunum, voru gerðar tvær rannsóknir á vegum Penn State háskólans, varðandi störf prófessor Michael Mann þar sem hann var sýknaður af öllum áburði um að hafa staðið að vísindalegum misgjörðum.

Að lokum má nefna að fyrir nokkrum vikum þá kom fram, frá breskum stjórnvöldum, að upplýsingarnar sem komu fram í hinum illa fengnu tölvupóstum létu ekki í té nein sönnunargögn sem skapaði vantraust varðandi rannsóknir á loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Þannig að í þessari upptalningu er ekki bara eitt tilfelli, heldur ein sex tilfelli þar sem vísindamenn eru hreinsaðir af þeim tilhæfulausu ásökunum sem upp komu í þessu máli. Þetta kemur reyndar ekki á óvart, þar sem að þeir sem afneita loftslagsvísindum virðast fá mikla áheyrn fjölmiðla (sérstaklega í BNA) og vaða uppi með tilhæfulausar staðhæfingar ef það hentar málsstað þeirra.

En hvað um hin ýmsu “alltmöguleg-gate” sem hafa verið sett upp sem dæmi um vanhæfni IPCC? – Þess ber að geta að við skrifuðum ekki um öll þessi svokölluð hliðamál…enda frekar óspennandi og alls ekki uppbyggjandi í vísindalegu samhengi.

Það sem m.a. hefur gerst hingað til í hinum ýmsu “alltmöguleg-gate”-málum er t.d. eftirfarandi.

Sunday Times hefur beðist afsökunar á og dregið til baka fréttir um hið svokallað “Amazongate”-mál. Það er s.s. ekkert Amazongate-mál og regnskógum Amazon stendur því miður enn ógn af breytingum vistkerfa vegna loftslagsbreytinga.

Hollensk stjórnvöld hafa tekið ábyrgð á því að hafa gefið IPCC rangar upplýsingar varðandi það að 55% af Hollandi sé undir sjávarmál, þegar staðreyndin er sú að “aðeins” 26% er í hættu vegna flóða, þar sem svæði eru undir sjávarmáli, á meðan önnur svæði, 29% eru í hættu vegna flóða frá ám og fljótum.

BBC hefur einnig beðið CRU afsökunar á því að hafa farið villandi orðum í sinni umfjöllun um “climategate” fals-hneykslið.

Það sem er eftir af þessum svokölluðu “alltmöguleg-gate” er því aðeins hin neyðarlega villa (já aðeins ein) og hin klaufalega afsökunarbeiðni IPCC í kjölfarið á því, varðandi bráðnun jökla Himalaya, þar sem ártalið 2035 kom fram í stað ártalsins sem talið er líklegra 2350. Sú villa varð öllum ljós, ekki vegna þess að blaðamenn hefðu fundið hana með rannsóknarblaðamennskuna að vopni eða að eitthvert “efasemdarbloggið” uppljóstraði um það, heldur vegna þess að einn af vísindamönnunum og meðhöfundum IPCC skýrslunnar sagði frá villunni (þannig virka alvöru vísindi).

Það sem eftir stendur, ári eftir climategate er ein stafsetningarvilla og 6 hreinsanir vísindamanna af ásökunum og lítið annað. Í kjölfarið á þessu má setja fram hinar raunverulegu spurningar sem fjölmiðlar og aðrir ættu að spyrja sjálfa sig núna:

Af hverju?

Hverjir?

Eða sagt á annan veg:

Hverjir há þessa baráttu gegn loftslagsvísindamönnum og af hverju?

Ítarefni:

Tengt efni á loftslag.is:


Hraðir flutningar, hærra og lengra


Það eru að verða breytingar í vistkerfum, bæði hjá farfuglum og öðrum lífverum við hækkandi hitastig. Þær breytingar eru þegar hafnar, eins og kemur fram í fréttinni á mbl.is. Hér undir er frétt af loftslag.is varðandi flutning lífvera vegna hlýnandi loftslags.

Í Science birtist nýlega grein um rannsókn, þar sem sýnt er fram á tengsl milli hinnar hnattrænu hlýnunar og flutning plantna og dýra til hærri breiddargráða og upp í meiri hæð yfir sjávarmál. Að auki kom í ljós að lífverur flytjast um set, um tvisvar til þrisvar sinnum hraðar en áður var talið.

Vistfræðingar sem fylgdust með fiðrildum, tóku eftir því fyrir um tíu árum síðan að þau voru að flytjast um set.  Það hefur síðan komið meir og meir í ljós að stór hluti af mismunandi plöntum og dýrum eru að færa sig að hærri breiddargráðum eða upp hlíðar fjalla.  Augljósa svarið hefur verið að lífverur séu að flýja aukinn hita af völdum hnattrænnar hlýnunar, en það er ekki fyrr en með þessari grein sem talið er að vafanum þar um hafi verið eytt.

Rannsóknarteymið hefur sýnt fram á að hinir ýmsu flokkar dýra -  liðdýr, fuglar, fiskar, spendýr, skeldýr, plöntur og skriðdýr – eru að færa sig fjær svæðum þar sem hlýnunin hefur verið mest.

Vistfræðingar óttast að miklir flutningar lífvera á hnattræna vísu, eigi eftir að hafa slæm áhrif á líffræðilega fjörlbreytni og hafa truflandi áhrif á jafnvægi vistkerfa, auk þess að hraða á útdauða lífvera. Þar sem þetta er að gerast hraðar en talið var, þýðir að minni tími mun gefast til að bregðast við.

Heimildir og ítarefni

Greinin birtist í Science og er eftir Chen o.fl. 2011 (ágrip): Rapid Range Shifts of Species Associated with High Levels of Climate Warming

Umfjöllun um greinina má lesa á Science Now: In Warming World, Critters Run to the Hills

Einnig er umfjöllun um greinina á heimasíðu Háskólans af York: Further, faster, higher: wildlife responds increasingly rapidly to climate change

Tengt efni á loftslag.is


mbl.is Farfuglar seinka ferðum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurt og svarað um sjávarstöðubreytingar

Endurbirting

Sjávarstöðubreytingar eru með verri afleiðingum loftslagsbreytinga og þó að óvissan sé nokkur um hvaða afleiðingar verða af þeim - hvar og hversu miklar, þá þykir nokkuð ljóst að þær munu hafa slæm áhrif víða. Talið er að þær muni hafa hvað verstar afleiðingar á þéttbýlustu svæðum heims og þar sem nú þegar eru vandamál af völdum landsigs vegna landnotkunar og þar sem grunnvatn er víða að eyðileggjast vegna saltsblöndunar frá sjó. Einnig verða ýmis strandsvæði í aukinni hættu af völdum sjávarstöðubreytinga vegna sterkari fellibylja framtíðar.

Hvernig eru sjávarstöðubreytingar mældar?


GRACE gervihnötturinn

Sjávarstöðubreytingar eru mældar á ýmsan hátt, sem síðan er samræmt til að gefa sem besta mynd. Til eru hundruðir sírita sem mæla flóð og fjöru og tengdir eru GPS mælum sem mæla lóðréttar hreyfingar landsins (landris og landsig). Einnig eru radarmælingar frá fjölmörgum gervihnöttum sem gefa upplýsingar um breytingar á sjávarstöðu yfir allan hnöttinn. Mælitæki sem mæla hitastig og loftþrýsting, ásamt upplýsingum um seltu sjávar eru einnig gífurlega mikilvæg til að kvarða gögnin, auk nýjustu og nákvæmustu gagnanna sem nú koma frá þyngdarmælingum gervihnattarins GRACE - en hann gefur nákvæmar upplýsingar um breytingu á massa, lands og sjávar.

Yfirlitsgrein eftir Merrifield o.fl. 2009 um GLOSS (Global Sea Level Observing System) gefur nokkuð góða mynd um það hversu margar og fjölbreyttar stofnanir og einstaklingar vinna að því að kortleggja sjávarstöðubreytingar. Þessar rannsóknir eru óháðar hvorri annarri og staðfesta hverja aðra.

Rís sjávarstaða jafnt og þétt yfir allan heim?

Þegar maður heyrir tölur um sjávarstöðubreytingar, þá er yfirleitt verið að tala um hnattrænt meðaltal. Það er margt sem hefur áhrif á staðbundnar sjávarstöðubreytingar. Sem dæmi þá gætu áhrifin orðið minni hér við strendur Íslands á sama tíma og þau gætu orðið mun meiri við Austurströnd Bandaríkjanna.


Flotjafnvægi. Jökulfarg ýtir jarðskorpunni niður í möttulefnið sem leitar til hliðanna. Þegar jökullinn bráðnar leitar möttulefnið jafnvægis og flæðir til baka.

Þættir sem hafa áhrif staðbundið á sjávarstöðubreytingar, er t.d. landris og landsig. T.d. er landris nú þar sem ísaldarjöklar síðasta jökulskeiðs voru sem þykkastir - í Kanada og Skandinavíu. Á móti kemur landsig þar sem landris var við farg jöklanna utan við þessar fyrrum þykku jökulbreiður (t.d. í Hollandi). Þetta er kallað flotjafnvægi (sjá mynd hér til hliðar). Svipuð ferli eru í gangi þar sem óvenjumikil upphleðsla hrauna er eða annað farg sem liggur á jarðskorpunni. T.d. er Reykjanesið að síga vegna fargs frá hraunum - á meðan landris er á Suðausturlandi vegna minnkandi massa Vatnajökuls. Landsig getur einnig verið af mannavöldum, t.d. mikil dæling vatns (eða olíu) upp úr jarðlögum, sem veldur því að land sígur þar sem áður var vatn sem hélt uppi jarðlögunum. Landris og landsig hafa því töluverð áhrif víða um heim, sem leiðrétta verður fyrir til að fá út meðaltalið.

Meiri áhrif staðbundið hafa síðan mögulegar breytingar ríkjandi vindátta, sem ýta stöðugt yfirborði sjávar að landi eða frá. Hið sama á við ef breytingar verða í hafstraumum, t.d. ef að golfstraumurinn veikist - þá gæti það þýtt minni sjávarstöðuhækkun við strendur Íslands - en að sama skapi myndi það hækka sjávarstöðuna t.d. við Austurströnd Bandaríkjanna.

Eitt af því sem valdið getur töluverðum staðbundnum áhrifum er bráðnun jökulbreiðanna á Grænlandi og Suðurskautinu. Þetta er líka eitt af því sem að vísindamenn eru fyrst að átta sig á nú. Þyngdarkraftur þessara miklu jökulmassa hefur þau áhrif nú að sjávarstaða nærri þeim jökulmössum er mun hærri en ella - ef t.d. jökulbreiðan á Grænlandi myndi bráðna, þá hefði sú bráðnun töluverð áhrif hnattrænt séð - en á móti kæmi að staðbundið, t.d. hér við Ísland, myndi sjávarstaða lækka, þrátt fyrir að meðalsjávarstöðuhækkunin um allan heim yrði um 7 m. Ef tekið er dæmi um Vestur Suðurskautið og ef það bráðnaði allt, þá myndi það valda 5 m meðalhækkun sjávarstöðu um allan heim. Þyngdarkraftur þess er þó það sterkt að það hefur hingað til orðið til þess að á Norðurhveli er sjávarstaða lægri en hún væri án þess, þannig að við þessa 5 m sjávarstöðuhækkun bætast um 1,3 metrar við Austurströnd Bandaríkjanna, svo tekið sé dæmi (eða 6,3 m sjávarstöðuhækkun alls).

Þessir margvíslegu þættir sem hafa áhrif staðbundið, er nokkuð sem vísindamenn eru að kortleggja núna.


Sjávarstöðubreytingar milli áranna 1993-2008, frá TOPEX/Poseidon, Jason-1 og Jason-2 gervihnöttunum. Sjórinn er litaður eftir breytingum á meðal sjávarstöðu. Gul og rauð svæði sýna hækkun í sjávarstöðu, á meðan græn og blá svæði sýna lækkun í sjávarstöðu. Hvít svæði sýna svæði þar sem skortur er á gögnum. Að meðaltali fer sjávarstaða hækkandi, en mikill breytileiki er þó milli svæða.

Eru til einhverjar upplýsingar um sjávarstöðubreytingar til forna?

Til að áætla sjávarstöðubreytingar til forna, þá verður að skoða setlög og hvernig þau hafa breyst í gegnum jarðsöguna. Með því að rýna í setlög, þá sjá jarðfræðingar að sjávarstaða hefur sveiflast mikið í gegnum jarðsöguna og oft á tíðum hnattrænt. Til dæmis var sjávarstaða um 120 m lægri, en hún er nú, á hámarki síðasta jökulskeiðs fyrir um 18-20 þúsundum ára - þegar mikið magn vatns var bundið í jöklum á Norðurhveli Jarðar.  Á þeim tíma var t.d. landbrú milli Asíu og Alaska. Miklar sjávarstöðubreytingar urðu þegar jöklarnir hörfuðu í lok síðasta jökulskeiðs.


Myndin sýnir hnattrænar sjávarstöðubreytingar frá því á hámarki síðasta jökulskeiðs þar sem tekin eru saman helstu gögn um sjávarstöðubreytingar, leiðrétt fyrir lóðréttum hreyfingum í jarðskorpunni.

Þess ber að geta að á Íslandi flækja fargbreytingar mjög þá mynd af sjávarstöðubreytingum sem urðu á Íslandi í lok síðasta jökulskeiðs, sjá t.d. grein Hreggviðs Norðdahls og Halldórs Péturssonar (2005). T.d. er ástæða margra malarhjalla sem sýna hærri sjávarstöðu á Íslandi sú að jöklar gengu fram á Íslandi og því var landsig - á sama tíma og jöklar heims voru almennt að bráðna t.d. í Norður Ameríku og ollu hækkandi sjávarstöðu.

Á milli jökulskeiða og hlýskeiða ísaldar voru miklar sveiflur í sjávarstöðu, t.d. var sjávarstaða fyrir um 120 þúsund árum (á síðasta hlýskeiði), um 6 m hærri en hún er í dag um stutt skeið. Enn hærri sjávarstöðu má síðan finna fyrir ísöld, þegar jöklar voru minni og hitastig hærra.

Síðastliðin 6 þúsund ár hefur sjávarstaða smám saman náð þeirri hæð sem hún er í dag og með auknum hraða undanfarna öld og sérstaklega síðustu áratugi.

Hversu hratt er sjávarstaðan að rísa?

Í skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi (Umhverfisráðuneytið 2008) kemur fram að frá 1904-2003 hafi sjávarborð hækkað um 1,74 mm á ári (eða um 17 sm á öld), en einnig kemur fram að frá 1997-2007 hafi sjávarborð hækkað um 3,4 mm á ári og því ljóst að hækkun yfirborðs sjávar hefur sótt í sig veðrið, þá vegna aukinnar hlýnunar sjávar og aukinnar bráðnunar jökla.

Hér er um að ræða hnattrænar breytingar fengnar út með mælingum á sjávarföllum á síðustu öld og síðar með gervihnattamælingum. Þá er búið að leiðrétta fyrir landrisi og landsigi, en það flækir málið víða, t.d. hér á Íslandi. Sem dæmi þá er land að rísa á Suðausturlandi vegna minna jökulfargs og er það frá 10-15 mm á ári. Á móti kemur að landsig er víða annars staðar, t.d. er það um 3,4 mm á ári í Reykjavík og allt að 8 mm á ári yst á Reykjanesi. Hugsið það bara þannig að þegar talað er um hækkun sjávarstöðu í kringum aldamótin 2100, þá má bæta 0,34 m við sjávarstöðuhækkunina í Reykjavík og 0,8 m við hækkunina á Reykjanesi, en draga 1,0-1,5 m frá hækkuninni á Suðausturlandi.


Hnattrænar sjávarstöðubreytingar frá 1870 til 2009 samkvæmt leiðréttum flóðagögnum (Church o.fl. 2008 og uppfært til 2009 -dökkblá lína, og Jevrejeva o.fl 2008- rauðir punktar). Gervihnattagögn með bleikum lit.

Hverjar eru helstu ástæður núverandi sjávarstöðubreytinga?

Í skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi (Umhverfisráðuneytið 2008) kemur fram að IPCC áætlaði að um 70% af hækkun sjávarstöðu væri af völdum varmaþennslu. Nýlegar greiningar á gögnum frá GRACE gervihnettinum, benda til að þáttur bráðnunar jökla í sjávarstöðuhækkunum hafi verið vanmetin eða sé að aukast og að um 30% af sjávarstöðuhækkunum undanfarin ár hafi verið af völdum varmaþennslu og um 55% af völdum bráðnunar jökla (Cazanave og Llovel 2010). Talið er að þáttur jökla muni aukast við áframhaldandi bráðnun stóru jökulbreiðanna á Grænlandi og Vestur Suðurskautinu.

Hver er framtíðin?

Fljótlega eftir að spá IPCC frá árinu 2007 kom um sjávarstöðuhækkun upp á 18-59 sm í lok aldarinnar, varð ljóst að þar væri efalaust um vanmat að ræða - þá aðallega vegna þess að gögn vegna bráðnunar jökulbreiða Grænlands og Suðurskautsins voru ófullnægjandi. Nýrri rannsóknir eru ekki samhljóða um hugsanlega hækkun sjávarstöðu að magninu til, en þó benda þær flestar til að sjávarstaða verði hærri en spár IPCC benda til, með lægstu gildi svipuð há og hæstu gildi IPCC og hæstu gildi allt að 2. m hækkun sjávarstöðu í lok aldarinnar.


Spá IPCC og nýlegar spár um sjávarstöðubreytingar til ársins 2100

Erum við tilbúin að takast á við sjávarstöðubreytingar?

Lönd heims eru mismunandi vel í stakk búin að aðlagast sjávarstöðubreytingum. Fátæk og lágt liggjandi lönd, t.d. Bangladesh eru án vafa ekki tilbúin að takast á við sjávarstöðubreytingar, hvort heldur þær verða nær lægri mörkum spáa um hækkun sjávarstöðu eða hærri mörkum. Skipulagsyfirvöld á landsvæðum þar sem ætla mætti að meiri peningur væri til aflögu, hafa mörg hver stungið höfuðið í sandinn og eru beinlínis ekki að búast við sjávarstöðubreytingum - eða telja að það sé ótímabært að bregðast við t.d. ríkið Flórída í Bandaríkjunum (sjá Nature Reports).

Erfitt er að meta hversu vel við stöndum hér á landi. Trausti Valsson taldi (árið 2005), að hækka þyrfti viðmiðanir skipulagsyfirvalda um 50 sm varðandi nýframkvæmdir við strönd (í skipulagslögum og reglugerð frá 1997/1998).  Bæði Siglingastofnun og Vegagerðin eru með verkefni í gangi til að meta framtíðarhönnun mannvirkja og viðhald til að bregðast við sjávarstöðubreytingum (sjá Gísli Viggóson 2008 og Vinnuhóp um veðurfarsaðlögun í starfsemi Vegagerðarinnar 2010). Ljóst er að kostnaður vegna viðhalds og varnar mannvirkja á eftir að aukast hér á landi og mikilvægt er að tekið verði tillit til þess við skipulag framkvæmda til framtíðar - sérstaklega vegna skipulags framkvæmda sem ætlunin er að eiga að endast út öldina eða lengur.

Ýmsar heimildir og Ítarefni

Greinar, skýrslur og glærur

Cazanave og Llovel 2010: Contemporary Sea Level Rise
Church o.fl. 2008:  Understanding global sea levels: past, present and future
Gísli Viggóson 2008: Skipulag og loftslagsbreytingar: Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn sjávarflóðum
Hreggviður Norðdahl og Halldór Pétursson 2005: Relative Sea-Level Changes in Iceland: new Aspects of the Weichselian Deglaciation of Iceland
Jevrejeva o.fl. 2008: Recent global sea level acceleration started over 200 years ago?
Merrifield o.fl. 2009: The Global Sea Level Observing System (GLOSS)
Trausti Valsson 2005:  Áhrif sjávarstöðubreytinga á skipulag við strönd
Umhverfisráðuneytið 2008: Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi
Vinnuhópur um veðurfarsaðlögun í starfsemi Vegagerðarinnar 2010: Loftslagsbreytingar og vegagerð.

Ýmist efni héðan og þaðan: 

Tvær áhugaverðar færslur af heimasíðu Yale Environment 360: The Secret of Sea Level Rise: It Will Vary Greatly by Region og How High Will Seas Rise? Get Ready for Seven Feet
Skeptical Science með góða umfjöllun: Visual depictions of Sea Level Rise
My big fat planet: Waves in the bathtub - Why sea level rise isn’t level at all
Nokkrar fréttaskýringar og pistlar um sjávarstöðubreytingar má finna í apríl hefti Nature reports, climate change

Hér á loftslag.is má einnig finna ýmsar umfjallanir um sjávarstöðubreytingar


Taktur loftslagsbreytinga síðastliðin 20 þúsund ár, á norður- og suðurhveli jarðar

Ein af rökum “efasemdamanna” um þátt manna í hinni hnattrænu hlýnun er að loftslagsbreytingar hafi alltaf orðið – og að hitasveiflur eins og nú eru, séu tíðar þegar skoðuð eru gögn um fornloftslag.

Ný rannsókn sem loftslagsfræðingur í háskólanum í Lundi – Svante Björck – birti fyrir skömmu, bendir til þess að miklar hitasveiflur gerist yfirleitt ekki á sama tíma á norður- og suðurhveli jarðar. Þettta á við um síðastliðin 20 þúsund ár, en það er eins langt aftur og nægilega nákvæm loftslagsgögn beggja hvela jarðar ná aftur. Þessi greining Svante nær því um 14 þúsund árum lengur aftur í tíman en fyrri sambærilegar greiningar.

Margskonar gögn eru notuð sem vísar að fornloftslagi – t.d. kjarnar úr botnseti úthafa og stöðuvatna, úr jöklum og fleira. Í þeim gögnum má lesa hvernig breytingar verða í hitastigi, úrkomu og samsetningu lofthjúpsins.

Ýmsar hitaraðir sem sýna hitastig jarðar á nútíma (holocene - af wikipedia.org).

Höfundur telur að sú hitaaukning sem nú er að gerast, sé harla óvenjuleg í jarðfræðilegu tilliti.

[...]

Nánar má lesa um þetta á loftslag.is, Taktur loftslagsbreytinga síðastliðin 20 þúsun ár, á norður- og suðurhveli jarðar

Tengt efni af loftslag.is


Að efast um BEST

Nú nýverið sendi rannsóknateymi – the Berkeley Earth Surface Temperature (BEST) – frá sér bráðabirgðaniðurstöðu rannsókna á hnattrænum hita jarðar. BEST verkefnið byrjaði á síðasta ári og þar var ætlunin að kanna hvort gögn um yfirborðshita sýni raunverulega hlýnun eða hvort eitthvað sé til í því sem “efasemdamenn” hafa haldið fram, að í þessum gögnum komi fram kerfisbundin bjögun, í mælingum og leiðréttingum sem myndi falska hlýnun. Verkefnið gekk út á að greina mun stærra gagnasafn yfir hitastig en aðrir höfðu gert og athuga t.d. hvort skekkja væri vegna þéttbýlismyndunar við þær veðurstöðvar sem notaðar eru.

Hitaröð BEST teymisins (Berkeley) ber nokkuð saman við fyrri hitaraðir sem gerðar hafa verið. Það er helst að HadCRU tímaröðin greini á við hinar.

Vonir og væntingar

Í forsvari fyrir teyminu er Richard Muller en hann hefur stundum verið hávær í loftslagsumræðunni. Segja má að þar hafi verið komið eins konar óskabarn “efasemdamanna” þar sem hann skaut sérstaklega föstum skotum í átt til vísindamanna sem hafa unnið að því að setja saman hitaraðir með hnattrænan hita. Eftir að í ljós kom að olíumilljarðamæringarnir Charles og David Koch styrktu teymið að hluta og að þekktir “efasemdamenn” (t.d. Judith Curry) voru að vinna í nánu samstarfi við Muller og félaga, þá má segja að vonir sumra “efasemdamanna” hafi vaknað, um að hér kæmi “hagstæð” niðurstaða fyrir þá.  Sem dæmi sagði forsvarsmaður “efasemda” heimasíðunnar Watts Up With That eftirfarandi í mars 2011:

And, I’m prepared to accept whatever result they produce, even if it proves my premise wrong. I’m taking this bold step because the method has promise. So let’s not pay attention to the little yippers who want to tear it down before they even see the results.

Hann var semsagt tilbúinn að bíta á jaxlinn og sætta sig við þá niðurstöðu sem kæmi út úr BEST verkefninu. Annað hljóð kom í strokkinn þegar ljóst var hver bráðabirgðaniðurstaðan varð, sjá orð Watts frá því í október 2011.

This is sad, because I had very high hopes for this project as the methodology is looked very promising to get a better handle on station discontinuity issues with their “scalpel” method. Now it looks just like another rush to judgement, peer review be damned.

Vonir “efasemdamannsins” voru brostnar.

Margt hefur verið skrifað um þessar niðurstöður í erlendum veftímaritum, bloggum og víða – og hefur það að hluta til bergmálast yfir í umræðuna hér á landi. Nýlegar ásakanir Judith Curry um að teymi Mullers, sem hún var hluti af  hafi stundað hálfgerðar falsanir – hefur verið fjallað um á heimasíðu Ágústar Bjarnasonar (Einn höfunda BEST skýrsunnar í loftslagsmálum ásakar aðalhöfundinn um að villa um fyrir fólki…). Þar segir Ágúst meðal annars í athugasemdum:

Öllu sæmilega sómakæru fólki hlýtur að blöskra hvernig Richard A. Muller kynnti niðurstöðurnar fyrir skömmu og hvernig fjölmiðlar gleyptu það gagnrýnislaust. Hvað gekk prófessor Muller eiginlega til? Þetta er auðvitað verst hans sjáfs vegna.

Einum meðhöfunda hans, Dr Judith Curry, var greinilega einnig misboðið, enda er hún mjög sómakær vísindamaður.

Curry sagði meðal annars að teymið – sem hún var partur af – hefði reynt að fela niðursveiflu í hitastigi (e. hide the decline).

This is “hide the decline” stuff. Our data show the pause, just as the other sets of data do. Muller is hiding the decline.

Áður hafði Richard Muller sagt í viðtali við BBC að ekki væri hægt að sjá í gögnunum að hin hnattræna hlýnun hefði hægt á sér – eins og “efasemdarmenn” vilja stundum meina:

We see no evidence of it [global warming] having slowed down

Spurningin er því – hvort hefur rétt fyrir sér, Muller eða Curry?

[...]

Nánar má lesa um þetta mál á loftslag.is, Að efast um BEST 

Tengt efni á loftslag.is


Vont, verra… BEST

Svo virtist fyrir nokkrum misserum að Richard Muller væri vonarstjarna “efasemdamanna” og líklegastur til að afsanna kenninguna um hnattræna hlýnun af mannavöldum – eða það las maður víða á veraldarvefnum á sínum tíma. Nú fyrir skömmu birtust fyrstu niðurstöður frá rannsóknateymi hans og “efasemdamenn” virðast ætla að afneita niðurstöðum hans líkt og annarra.

Hvað gerðist eiginlega – Peter Sinchlair (Greenman3610) fer lauslega yfir málið á sinn kjarnyrta og kaldhæðna hátt.

[...]

 

Myndband Peter Sinclair má sjá á loftslag.is, Vont, verra… BEST


Áhrif fyrri loftslagsbreytinga á vistkerfi

Þegar loftslag jarðar sveiflast á milli hlýrra og kaldra tímabila hafa lífverur oft þurft að flytja sig um set til að  halda sér innan síns kjörlendis.

Ný grein sem birtist í Science og vísindamenn í háskólanum í Árhúsum í Danmörku höfðu yfirumsjón um (Sandel o.fl. 2011) fjallar um aðferðir við að kortleggja hversu hratt lífverur verða að flytjast búferlum til að halda í við loftslagsbreytingar.  Það kom í ljós að staðbundnar lífverur – sem eru stór hluti af hinum líffræðilega fjölbreytileika jarðar – eru oftast á svæðum þar sem ekki hefur verið mikil þörf á búferlaflutningum.  Loftslagbreytingar af mannavöldum, þær sem nú eru í gangi, eru taldar munu auka á álag og þörf  lífvera til að flytjast búferlum – og auka áhættu í viðkomandi vistkerfum.

Við hámark síðasta kuldaskeiðs ísaldar (fyrir um 21 þúsund árum) var loftslag jarðar mun kaldara og margar tegundir lífvera lifðu á öðrum svæðum en þau gera í dag. Sem dæmi  [...]

Sjá  meira á loftslag.is - Áhrif fyrri lofstlagsbreytinga á vistkerfi

Heimildir og ítarefni

Byggt á efni af heimasíðu háskólans í Árósum: Ancient climate change has left a strong imprint on modern ecosystems

Greinin birtist í Science, eftir Sandel o.fl 2011 (ágrip): The Influence of Late Quaternary Climate-Change Velocity on Species Endemism

Tengt efni á loftslag.is

 


Loftslagsbreytingar og hörmungar fyrri tíma

Ný grein bendir til þess að margar meiriháttar mannlegar hörmungar – stríð og plágur – megi rekja til loftslagsbreytinga. Þetta eru svo sem ekki ný sannindi – en beinar rannsóknir á orsakasamhengi hafa reynst erfiðar.

Framfarir í fornloftslagsfræðum hafa nú auðveldað fræðmönnum að horfa lengra aftur til baka en áður. Einn þessara fræðimanna, David Zhang í háskólanum í Hong Kong skoðaði nýlega hvernig heit og köld tímabil hafa áhrif á samfélög manna. Zhang (o.fl. 2011) tóku saman mikið magn tölfræðigagna og notuðu öflug tölfræðitól við að greina gögnin. Notaðir voru 14 mismunandi þættir, líkt og hæð manna, gullverð, trjáhringaþykkt og hitastig frá Evrópu milli áranna 1500 og 1800, auk annarra þátta.   Rannsakað var hvort orsakasamhengi væri á milli þessara þátta. Síðan skiptu þeir tímabilinu niður í styttri tímabil, 40-150 ár hvert, til að sjá hvort stór atburður á þessum tímabilum var í raun vegna hitasmismunar á tímabilinu – en sýndi ekki bara leitni við hitastig.

[...]

Nánar má lesa um þetta á loftslag.is, Loftslagsbreytingar og hörmungar fyrri tíma

Tengt efni á loftslag.is


Aukin jarðfræðileg virkni við hnattræna hlýnun

Mörgum þykir órökréttur, ef ekki fráleitur möguleikinn á því að hin hnattræna hlýnun geti haft áhrif á jarðfræðilega virkni – líkt og tíðni jarðskjálfta, eldgosa og hafnarbylgja (e. tsunami).

Það er þó þannig að jarðfræðingar eiga auðvelt með að sjá fyrir að hin hnattræna hlýnun hafi áhrif . Við yfirborð jarðar eru massar vatns – ýmist í föstu eða í vökva formi sem valda þrýstingi niður í jarðlögin og hafa þannig áhrif á jarðskjálftasprungur og kvikuhólf. Breytingar á þessum mössum geta ýmist aukið eða dregið líkur á jarðfræðilegri virkni.

Sem dæmi þá hafa nú þegar orðið jarðskjálftar sem taldir eru tengjast athöfnum manna. T.d. er talið að jarðskjálfti sem varð í Kína árið 2008 og drap 80 þúsund manns hafi farið af stað vegna risavaxinnar stíflu sem breytt hafi þrýstingi jarðlagana undir.  Jarðskjálftinn varð aðeins 5 km frá stíflunni. Skemmst er frá að minnast á þá manngerðu skjálfta sem verða undir Hellisheiði – í tengslum við niðurdælingu vatns niður í jarðlögin (sjá t.d.  Manngerðir skjálftar).  Því ætti það ekki að vekja undrun – fyrst skjálftar verða við dælingu vatns niður í jarðhitakerfi – að loftslagsbreytingar geti breytt jarðfræðilegri virkni (McGuire 2010).

[...]

Sjá nánar á loftslag.is: Aukin jarðfræðileg virkni við hnattræna hlýnun

Heimildir og ítarefni

Unnið upp úr færslu á heimasíðu NewScientist: Climatequake: Will global warming rock the planet? 

McGuire 2010: Potential for a hazardous geospheric response to projected future climate changes

Geyer og Bindeman 2011: Glacial influence on caldera-forming eruptions

Guillas o.fl. 2010: Statistical analysis of the El Niño–Southern Oscillation and sea-floor seismicity in the eastern tropical Pacific

Þorsteinn Sæmundsson o.fl. 2008 (glærur): The Morsárjökull rock avalanche in the southern part of the Vatnajökull glacier, south Iceland

Bill McGuire 2012 (óútgefin bók): Waking the Giant: How a changing climate triggers earthquakes, tsunamis and volcanoes

Pagli og Sigmundsson 2008: Will present day glacier retreat increase volcanic activity? Stress induced by recent glacier retreat and its effect on magmatism at the Vatnajökull ice cap, Iceland

Bondevik o.fl. 2005: - The Storegga Slide tsunami—comparing field observations with numerical simulations.

Tengt efni á loftslag.is

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband