Færsluflokkur: Afleiðingar
11.8.2009 | 18:40
Súrnun sjávar - heimildarmyndir.
Heimildarmyndin A Sea Change
Í næsta mánuði (þann 26. september) verður sýnd heimildamyndin A Sea Change, sem er um súrnun sjávar (e. ocean acidification). Hún er sýnd á sjónvarpstöðinni Planet Green Network, en sú stöð skylst mér að sé hluti af Discovery Network. Nú er ég ekki nógu vel að mér í sjónvarpsfræðum til að vita hvort þessi stöð næst á einhvern hátt hér á landi, þó er ég nokkuð viss um að ef það er möguleiki að sjá stöðina, þá er það helst í gegnum gervihnött.
Hægt er að lesa sig til um myndina hér: New Film on Ocean Acidification Reveals Unseen Face of CO2 Pollution og hér fyrir neðan eru tvö sýnishorn úr myndinni:
Heimildarmyndin Acid Test
Við gerð þessarar færslu rakst ég á umfjöllun um aðra heimildarmynd um súrnun sjávar sem einnig á að sýna á sömu sjónvarpstöð, þann 12. ágúst. Sjá umfjöllun um þessa heimildarmynd hér: ACID TEST: The Global Challenge of Ocean Acidification og hér er svo sýnishorn:
Um súrnun sjávar
Súrnun sjávar er aukaafurð losunar á CO2 út í andrúmsloftið og oft kallað "hitt CO2-vandamálið" (á eftir hlýnun jarðar). Vegna aukningar CO2 í andrúmsloftinu gleypir sjórinn aukið magn CO2 og við það verða efnaskipti sem breyta pH gildi sjávar - sjórinn súrnar.
Súrnun sjávar hefur aukist það mikið undanfarna áratugi að talin er mikil hætta á því, að við munum verða vitni að svipaðri súrnun sjávar og varð fyrir 55-56 milljónum ára. Sú súrnun olli miklum útdauða sjávarlífvera. 1/6 af fæðu mannkyns er fengin úr sjónum og því eru miklir hagsmunir í húfi fyrir mannkynið (fyrir utan siðferðislega skyldu okkar að eyðileggja ekki lífsafkomu annarra lífvera).
Það má því segja að jafnvel þeir sem viðurkenna ekki staðreyndina um hlýnun jarðar af mannavöldum, ættu að geta tekið undir það að nú verði að bregðast við aukningu CO2 andrúmsloftsins, áður en illa fer. Við núverandi losun CO2, þá er talið að súrnun sjávar verði farin að nálgast hættumörk árið 2030 (við CO2 magn í lofthjúpnum í sirka 450 ppm) en nú þegar er talið að áhrifa súrnunar sjávar sé farið að gæta.
Frekari upplýsingar um súrnun sjávar:
CO2 - vágestur úthafanna (gömul bloggfærsla mín, frá því ég heyrði fyrst af þessu vandamáli).
Heimshöfin súrna jafnt og þétt (af erlendri bloggsíðu sem fjallar eingöngu um súrnun sjávar - hér hafa þeir tekið grein sem birtist í fréttablaðinu í mars og birt í heild).
Súrnun sjávar (hér er umfjöllun mín um áðurnefnda grein sem var í fréttablaðinu).
Í hverju felst súrnun hafsins? (af heimasíðu EPOCA - European Project on OCean Acidification).
Afleiðingar | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.8.2009 | 22:19
Jöklar heims bráðna
Mér datt í hug að gera óformlega könnun á fréttum um bráðnun jökla í heiminum, vísa í tengla hingað og þangað (meðal annars í sjálfan mig).
Í Sviss hefur rúmmál jökla minnkað um 12% síðan 1999.
Rhone jökullinn í svissnesku Ölpunum.
Á Kerguelen eyju sem er sunnarlega í Indlandshafi (lýtur franskri stjórn) hefur rúmmál jökla minnkað um 22 % á síðastliðnum 40 árum.
Bandarískir jöklar eru líka að hopa, sjá einnig myndband hér.
Jöklar í Bandaríkjunum og massabreytingar í þeim.
Ég fjallaði um jökla í Perú í síðustu færslu, en Einar Sveinbjörnsson skrifaði færsluna Loftslagsrannsóknir og jöklar á miðbaugssvæðum fyrir stuttu. Fleiri jöklar í Suður Ameríku fara minnkandi, sjá t.d. færslu Sveins Atla um jökla í Bólivíu, einnig frétt á mbl.is.
Okkur nær, þá hef ég áður minnst á Grænlandsjökul, en massi hans er að minnka um 179 gígatonn á ári.
En jöklar á Íslandi eru líka að minnka, sjá t.d. bloggfærslu Halldórs Björnssonar, en þar eru tvær myndir af Oki báðar teknar í ágúst með nokkurra ára millibili.
Hér fyrir neðan er svo mynd sem sýnir áætlaða bráðnun þriggja jökla á Íslandi:
Ath, fyrir Vatnajökul þá er bara sýndur sunnanverður Vatnajökull - V. Svo er H=Hofsjökull og L=Langjökull (af heimasíðu Veðurstofunnar).
Nýlegar fréttir segja okkur að Snæfellsjökull sé að bráðna hratt, einnig Hofsjökull.
Snæfellsjökull er að minnka (af heimasíðu Veðurstofunnar).
Skeiðarárjökull er að þynnast og hopa, svo breytingar hafa orðiða á rennsli Skeiðará. Svo má nefna Breiðamerkurjökul en það er reyndar ekki vitað hvað er í gangi þar og svo má nefna að Drangajökull stækkar (að því er virðist vegna breytingu í úrkomu).
Hér er síðan frétt frá því í febrúar, en þar kemur fram að jöklar um allan heim hafi misst massa og það á auknum hraða undanfarin ár:
Glaciers with long-term observation series (30 glaciers in 9 mountain ranges) have experienced a reduction in total thickness of more than 11 m w.e. until 2007. The average annual ice loss during 1980-1999 was roughly 0.3 m w.e. per year. Since 2000, this rate has increased to about 0.7 m w.e. per year.
Ef skoðaðir eru jöklar heims í heild, þá eru þeir að minnka töluvert:
Hnattræn breyting á þykkt jökla frá 1961-2005 (mynd frá NSIDC).
Það er því enginn efi að jörðin er að hlýna og afleiðingar þeirrar hlýnunar er nú þegar farinn að hafa mikil áhrif á jökla heims. Sumir efast enn:
5.8.2009 | 22:49
Jöklar hitabeltisins
Ég rakst á áhugavert myndband sem fjallar um rannsóknir vísindamanna á jöklum hitabeltisins og þá sérstaklega í Perú. Aðal áhugi vísindamannanna er að skrásetja jöklasöguna og taka ískjarna sem meðal annars má nota til ýmiss konar túlkana, t.d. á loftslagi. Í Perú er t.d. stærsti jökull innan hitabeltisins, en hann heitir Quelccaya.
Breytingar á Qori Kalis skriðjöklinum sem skríður frá Quelccaya íshettunni í Perú. Efri myndin tekin árið 1978 og hin árið 2002. Jökullinn hopaði um 1100 metra á þeim tíma.
Árið 2002 rákust þeir á gróðurleifar við jökullónið framan við jökulinn á stað sem var nýkominn undan jökli. Gróðurleifarnar voru aldursgreindar og voru um 5200 ára gamlar. Sem sagt síðast þegar jökullinn var jafn lítill og hann er nú var fyrir 5200 árum.
Ég kann ekki að setja þetta myndband inn hér, en það má finna með því að smella Hér.
Afleiðingar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.7.2009 | 21:27
Hækkun sjávarstöðu
Í júní birti ég færslu um sjávarstöðubreytingar þar sem farið var í helstu spár vísindamanna um hækkun sjávarstöðu fram til ársins 2100.
IPCC gerir ráð fyrir 18 - 76 sm hækkun sjávarstöðu til 2100 (ef allt er tekið inn í dæmið), en nýlegar spár hafa verið ákafari:
Nýlegar rannsóknir um mögulega hækkun sjávarstöðu eru nokkuð hærri en áætlanir IPCC gerir ráð fyrir, t.d. gerir ein rannsókn ráð fyrir möguleikanum á 0,5-1,4 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100. Önnur rannsókn gerir ráð fyrir 0,8-2,0 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100.
Ég tók það skrefi lengra og birti óábyrga spá mína út frá nýlegum rannsóknum um að jafnvægisstig sjávarstöðuhækkana miðað við núverandi hitastig yrði 25 m (en að sú hækkun sjávarborðs yrði þó ekki fyrr en eftir 1000 ár - sjá frétt) og tengdi það nýlegum rannsóknum um að bráðnun jökla geti orðið mun hraðari (jafnvægisstigi yrði náð eftir nokkur hundruð ár - sjá frétt).
Þar sem þetta er bara blogg þá voru þetta að sjálfsögðu bara pælingar og niðurstaða mín var sú, miðað við þær forsendur að jafnvægisstiginu (25 m) yrði náð á 500 árum jafnt og þétt, að hækkun sjávarstöðu yrði um 5 m í lok aldarinnar. Ég birti eftirfarandi mynd af vesturhluta Reykjavíkur að gamni, sem sýnir sjávarborð miðað við sjávarstöðuhækkanir upp á 5 og 25 m:
Sjávarstöðuhækkanir í Reykjavík á næstu öldum, fjólublátt sýnir 5 m hækkun og ljósblátt 25 m hækkun sjávarstöðu (smella til að stækka).
Það birtast enn fréttir sem geta stutt þær fullyrðingar að sjávarstöðuhækkanir geti orðið hraðari en IPCC spáir, sjá t.d. Sea level rise: It's worse than we thought. Bráðnun íshellna og jökla Grænlands og Suðurskautsins hefur verið að aukast undanfarna áratugi (sjá Íshellur Suðurskautsins og Er yfirborð Grænlandsjökuls að hækka? - einnig nýlegar fréttir t.d. Hér og Hér).
Ath: Íshellur er þykkur ís skautanna sem liggur við land og á sjó og hefur myndast á mörghundruð árum og í sjálfu sér veldur það ekki hækkun sjávarstöðu þó íshellurnar bráðni, þær aftur á móti eru hálfgerðir tappar sem halda aftur af skriði jökuls út í sjó og því valda þær óbeint hækkun sjávarstöðu.
Ilulissat jökullinn sem hefur hörfað um 15 km síðasta áratug.
Einnig skal á það bent að hitastig sjávar heldur áfram að hækka, en sjávarhiti hefur mikil áhrif á bráðnun íshellna. Síðastliðinn júní var sjávarhiti sá mesti fyrir júní frá því mælingar hófust samkvæmt þessari frétt.
En... þótt þessi inngangur sé að mestu helgaður því að færa rök fyrir því að hækkun sjávar geti orðið mun hraðari en spár IPCC segja til um, þá hefur nýleg grein vísað því á bug.
Í greininni nota vísindamennirnir kóralsteingervinga og hitastigsgögn úr ískjörnum og fengu út sjávarstöðubreytingar síðustu 22 þúsund ára (nú væri gott að hafa aðgang að greininni til að skoða aðferðafræðina og gröfin).
Með því að bera saman hvernig sjávarstöðubreytingar urðu miðað við hitabreytingar við lok síðasta jökulskeiðs (fyrir um 10 þús árum), þá fundu þeir út að IPCC hefði verið nokkuð nærri lagi í sínum útreikningum. Samkvæmt þeirra niðurstöðum þá þýðir 1,1-6,4°C hækkun í hitastigi um 7-82 sm hækkun sjávarstöðu árið 2100, sem er mun minna en spár undanfarin misseri hafa bent til og líkt tölum IPCC sem hljóðar upp á 18-76 sm. Vísindamennirnir sögðu ennfremur í viðtali við AFP:
"Fifty centimetres of rise would be very, very dangerous for Bangladesh, it would be very dangerous for all low-lying areas. And not only that, the 50 centimetres is the global mean. Locally, it could be as high as a metre perhaps even higher, because water is pushed into different places by the effect of gravity."
Lauslega þýtt: "Fimmtíu sentimetra hækkun sjávarstöðu yrði mjög hættuleg fyrir Bangladesh, það yrði mjög hættulegt fyrir öll svæði sem liggja nálægt sjávarborði. Einnig er þetta 50 sentimetra meðaltal fyrir hnöttinn allan. Staðbundið gæti sjávarstöðuhækkun orðið allt að metri, jafnvel meiri, vegna mismunandi áhrifa þyngdaraflsins." Að auki sögðu þeir að hættuleg flóð yrðu algengari, að ef sjávarstaða hækkar um 50 sm þá muni flóð sem hafa orðið einu sinni á öld, verða einu sinni á áratug. Að auki kom fram að þegar til lengri tíma er litið þá mun sjávarstöðuhækkun vegna hlýnunar á þessari öld, halda áfram í margar aldir.
* Fyrirvari: Það er ekki hægt að treysta fréttatilkynningum um málið fyrr en búið er að lesa greinarnar og því skuluð þið taka umfjöllunum um fréttatilkynningar sem ég er að fjalla um með fyrirvara.
27.7.2009 | 22:29
Magnandi svörun
Ástæðan fyrir því að ég var að pæla í orðasambandinu positive feedback í síðustu færslu (einnig nefnt amplifying feedback) og þýðingu á því yfir í íslensku (jákvæð svörun/magnandi svörun), er sú að það er frekar mikið notað hugtak í loftslagsfræðum. Þar er átt við ferli þar sem afleiðingin magnar upp orsökina og veldur keðjuverkun með hugsanlega slæmum stigvaxandi áhrifum. Á móti getur afleiðingin myndað negative effekt (neikvæða/mótvægis svörun) á móti orsökinni og dregið úr henni.
Magnandi svörun
Við hlýnun jarðar eru ýmis ferli sem valda magnandi svörun (e. positive effect). Við hlýnun eykst t.d. raki eða vatnsgufa í andrúmsloftinu og þar sem vatnsgufa er gróðurhúsalofttegund þá magnar það hlýnunina upp.
Annað þekkt ferli er hið svokallaða Ice-Albeido effect þ.e. þegar hafís bráðnar vegna hlýnunar jarðar þá endurspeglast minna sólarljós út úr lofthjúpnum og sjórinn gleypir meiri hita og því hitnar meira meiri hafís bráðnar.
Eitt af þeim ferlum sem valda mönnum hvað mestum áhyggjum er bráðnun sífrerans, en í honum er mikið magn kolefnis (Metan) sem hætt er við að losni út í andrúmsloftið. Það gæti haft geigvænleg áhrif og magnað upp hlýnun jarðar margfalt hraðar og sett af stað atburðarrás sem ekki sér fyrir endan á. Hlýnun - nokkurt magn Metans losnar - hlýnar enn meir - meira magn Metans losnar og svo koll af kolli.
Annað þekkt ferli sem menn hafa áhyggjur af, er að hæfni sjávarlífvera til að vinna kolefni úr sjónum og þar með að binda hið sívaxandi kolefni (sem óhjákvæmilega eykst í hafinu vegna útblásturs manna) minnkar töluvert við hlýnun sjávar. Á meðan er hafið að súrna sem minnkar enn möguleika sjávarlífvera að vinna kolefni úr sjónum (sjá CO2 - vágestur úthafanna). Það veldur því að hafið tekur við minna af CO2 og því mun CO2 í andrúmsloftinu aukast hraðar sem því nemur og auka þar með á hlýnun jarðar.
Hvað með skýin
En ég minntist á negative feedback, þar sem afleiðingin vinnur á móti orsökinni, en hingað til hefur það verið talið allt eins líklegt að aukin skýjamyndun vegna hlýnunar jarðar geti unnið á móti hlýnuninni (þó menn hafi ekki verið sammála um það frekar en margt annað). Nýlega birtist grein í Science sem bendir til þess að þessu sé öfugt farið. Þ.e. að aukin hlýnun sjávar minnki lágský sem hafa hingað til verið talin líklegust til að dempa hlýnunina. Hér er því mögulega komið nýtt ferli sem veldur magnandi svörun. Það skal þó tekið fram að þetta er umdeilt eins og allt sem tengist skýjum hvað varðar loftslag, en ég mun fylgjast með þessu og skrifa um það hér ef ég frétti meira.
24.7.2009 | 23:26
Staða hafíssins á Norðurskautinu
Það er nú orðið ljóst að bráðnunin í ár verður í hærri kantinum og spurningin nú er bara hvort bráðnunin nái lágmarkinu 2007. Það kemur í ljós hvernig lágmarkið verður, líklega í lok september en í fyrra þá náði lágmarkið ekki sömu lægðum og árið 2007 (útbreiðslan var þó næstminnst frá upphafi mælinga frá 1979):
Lágmörk hafíss á norðurskautinu frá árinu 1979 (nsidc.org).
Hér er staðan frá því í fyrradag, þar sem sýnd er þróunin fyrir 2007 og 2008 til samanburðar (nsidc.org).
Vísindamenn hafa gert margskonar líkön til að reyna að áætla lágmarkið í ár:
Spár vísindamanna eftir mismunandi líkönum (smella til að stækka, tekið af nsidc.org).
Ég hef engin spálíkön í mínum fórum, en mig grunar að vegna þess hve ísinn er þunnur og hversu hratt hann bráðnar nú að útbreiðslan verði svipuð og árið 2007 - og að jafnvel verði sláð met í lágmarksútbreiðslu.
Nú var norðurskautið að anda ansi köldu lofti yfir til Íslands, spurning hvort hann hafi fengið heitt loft í staðinn, sem auka muni bráðnunina enn frekar (en kannski skiptir það engu máli).
-----------------------------
Í öðrum hafísfréttum er það helst að vísindamenn hafa fundið vísbendingar um það að hafís norðurskautsins hafi ekki verið jafn lítill í nágrenni Grænlands í yfir 800 ár og að líklegt er talið að yfir sumartíman verði hafíslaust strax árið 2030 og að nýjar kannanir með gervihnöttum sýni gríðarlega þynningu hafíss síðustu ár.
Afleiðingar | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.6.2009 | 22:55
Sjávarstöðubreytingar
Hækkun sjávarstöðu er ein af verri afleiðingum hækkandi hitastigs og því eitt af því sem menn eru að reyna að átta sig á. Við hækkun sjávarstöðu geta þéttbýl landsvæði farið undir sjó, sjávarflóð geta aukist og haft verri afleiðingar, með tilheyrandi mengun grunnvatnsstöðu og strandrofi. En hvað mun sjávarstaða hækka mikið það sem af er þessari öld?
Í skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi er eftirfarandi texti:
Líkleg hækkun sjávaryfirborðs til loka aldarinnar er háð því hversu mikið hlýnar, en varmaþennsla veldur um 70% af hækkuninni. Stór óvissuþáttur í sjávaryfirborðshækkun felst í hugsanlegum breytingum á ísflæði í stóru íshvelunum á Grænlandi og Suðurskautslandinu. Þessi óvissuþáttur er ekki tekinn inn í útreikninga IPCC, en gæti aukið við sjávaryfirborðshækkunina. Hér að neðan verður því miðað efri mörk hækkunarinnar sem kemur fram hjá IPCC. Þetta er ófullkomin aðferð við að vega saman óþekkta óvissu vegna hugsanlegrar aukningar ísflæðis og þekktrar óvissu vegna annarra þátta, og mikilvægt er að hafa í huga að ekki er hægt að útiloka mun meiri sjávaryfirborðshækkun
Með því að taka hæstu gildi IPCC skýrslunnar fást allt að 0,6 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100 (frá árinu 1990) miðað við 4°C hækkun hitastigs. Í skýrslunni sem ég vitna í hér fyrir ofan kemur einnig fram að frá 1904-2003 hafi sjávarborð hækkað um 1,74 mm á ári (eða um 17 sm á öld), en einnig kemur fram að frá 1997-2007 hafi sjávarborð hækkað um 3,4 mm á ári og því ljóst að hækkun yfirborðs sjávar hefur sótt í sig veðrið, þá vegna aukinnar hlýnunar sjávar og aukinnar bráðnunar jökla.
Það skal tekið fram að allar sjávarstöðubreytingar sem ég tala um hér, eru hnattrænar breytingar fengnar út með mælingum á sjávarföllum á síðustu öld og síðar með gervihnattamælingum. Þá er búið að leiðrétta fyrir landrisi og landsigi, en það flækir málið víða, t.d. hér á Íslandi. Sem dæmi þá er land að rísa á Suðausturlandi vegna minna jökulfargs og er það frá 10-15 mm á ári. Á móti kemur að landsig er víða annars staðar, t.d. er það um 3,4 mm á ári í Reykjavík og allt að 8 mm á ári yst á Reykjanesi. Hugsið það bara þannig að þegar talað er um hækkun sjávarstöðu í kringum aldamótin 2100, þá má bæta 0,34 m við sjávarstöðuhækkunina í Reykjavík og 0,8 m við hækkunina á Reykjanesi, en draga 1,0-1,5 m frá hækkuninni á Suðausturlandi.
Í Kaupmannahafnarskýrslunni kemur einnig fram að hækkun sjávarstöðu hafi sótt í sig veðrið undanfarin ár, eins og sést á þessari mynd:
Sjávarstöðubreytingar frá 1970, smella þarf á myndina tvisvar til að sjá hana í réttri stærð, en skýringar eru á ensku.
Nýlegar rannsóknir um mögulega hækkun sjávarstöðu eru nokkuð hærri en áætlanir IPCC gerir ráð fyrir, t.d. gerir ein rannsókn ráð fyrir möguleikanum á 0,5-1,4 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100. Önnur rannsókn gerir ráð fyrir 0,8-2,0 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100.
Eitt eiga allar tilgátur um hækkun sjávarstöðu sameiginlegt og það er að jafnvægi muni ekki nást fyrr en eftir nokkur hundruð til þúsund ár og að sjávarstaða muni hækka töluvert á þeim tíma. Í dag las ég frétt um rannsóknarhóp sem segir að þessi jafnvægisstaða muni verða í kringum 25 m. Munið að það er ekki talið líklegt að það gerist á næstu áratugum, frekar horft til næstu þúsund ára eða svo. Með samsætumælingum í götungum í setlögum Rauða hafsins og samanburði við ískjarna í Suðurskautinu telja vísindamennirnir sem sagt að miðað við núvarandi CO2 magn í andrúmsloftinu þá sé jafnvægisstaða sjávarborðs um 25 m hærra en það er í dag (+/- 5 m). Það er reyndar í nokkru samræmi við hærri sjávarstöður sem eru um 3ja milljón ára gamlar og eru í 15-25 m hæð yfir núverandi sjávarmáli - en á þeim tíma var magn CO2 svipað og það er í dag.
Við getum svo sem huggað okkur við það að menn telja að þetta gerist ekki fyrr en eftir þúsund ár eða svo, nema hvað að ég las í dag frétt um nýja rannsókn sem bendir til þess að jökulbreiður geti hörfað hraðar en menn töldu áður og þar með hraða því að jafnvægi sjávarstöðuhækkana náist - það geti jafnvel gerst á örfáum hundruðum ára.
------
Það skal á það bent að jafnvel þótt þessar tvær fréttir séu ótengdar, þá tengdi ég þær svona saman og því er þetta mín túlkun á þeim. Segjum að það gerist á næstu 500 árum að jafnvægi upp á 25 m náist og að sjávarstöðuhækkunin verði jöfn og þétt fram að því. Þá yrði sjávarstaðan árið 2100, um 5 m hærri en hún er í dag og 25 m hærri árið 2500.
Mér datt því í hug að leika mér smá, sérstaklega eftir að ég rakst á skemmtilega viðbót í Google Earth. Þeir sem eru með Google Earth geta prófað eftirfarandi:
Opnið eftirfarandi viðbót í Google Earth: Rising Sea Level animation
Hér eru svo leiðbeiningar um hvernig stilla skuli Google Earth: Sjá ->hér<-
Niðurstaðan út úr þessum æfingum eru eftirtaldar tvær myndir sem sýna 5 m sjávarstöðuhækkun og 25 m:
Hækkun sjávarstöðu um 5 m í Reykjavík (ljós skuggi) samkvæmt Google Earth (smella til að stækka).
Hækkun sjávarstöðu um 25 m í Reykjavík (ljós skuggi) samkvæmt Google Earth (smella til að stækka).
Ég var þó ekki alveg sáttur við Google Earth, því mig grunar að landlíkan þeirra sé eitthvað vitlaust hér við land (auk þess sem skerpan er ekki nógu góð á myndinni, þegar ég er í Google Earth heima - kann ekki að laga það). Mig grunar að þessi viðbót virki samt nokkuð vel á þéttbýlari stöðum heims, t.d. London, New York og svo framvegis, svo endilega prófið.
Ég ákvað að búa mér til mitt eigið kort af vestanverðri Reykjavík og fylgdi hæðarlínum að mestu:
Sjávarstöðuhækkanir í Reykjavík á næstu öldum, fjólublátt sýnir 5 m hækkun og ljósblátt 25 m hækkun sjávarstöðu (smella til að stækka).
En þetta er að sjálfsögðu óljóst - eitt er þó víst að ef ég ætla að kaupa mér land í framtíðinni, sem ég vil að verði einhvers virði fyrir afkomendur mína, þá mun ég skoða hversu hátt yfir sjó landið er, svo viss er ég um að sjávarborð muni rísa töluvert á næstu hundrað árum.
18.6.2009 | 22:30
Bandarísk skýrsla um hlýnun jarðar
Ég vil endilega benda á löngu tímabæra skýrslu sem bandarískir vísindamenn voru að gera fyrir þingnefnd. Í tíð George W. Bush var ekki tekið mikið mark á aðvörunum vísindamanna og voru helstu ráðgjafar Bush-stjórnarinnar með útstrikunarpennan á lofti í boði olíufyrirtækjanna. En það er alltaf von og nú ætlar Obama greinilega að taka á málunum og opna eyru ráðamanna og almennings fyrir þeirri vá sem er byrjuð að banka á dyrnar.
Hægt er að nálgast skýrsluna um ástandið og horfur í loftslagsmálum út frá bandarískum hagsmunum ->Hér<-, en einnig er rætt lítillega um hnattræn áhrif.
10 lykilatriði skýrslunnar:
1 - Hlýnun jarðar er ótvíræð og fyrst og fremst af völdum manna. Hnattræn aukning í hita síðastliðin 50 ár. Þessi aukning er fyrst og fremst af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.
2 - Loftslagsbreytingar eru byrjaðar í Bandaríkjunum og eiga eftir að aukast. Aukning á úrhellisrigningum, hækkandi hiti og sjávarborð, minnkandi jöklar, sífreri að bráðna, lengri vaxtartími plantna, íslaust lengur á hafi og vötnum og breytingar á vatnsrennsli fljóta.
3 - Áhrif loftslagsbreytinga eru byrjaðar og munu aukast. Þau hafa áhrif á vatn, orku, samgöngur, landbúnað, vistkerfi og heilsu. Þessar breytingar eru mismunandi eftir landsvæðum og eiga eftir að aukast.
4. Loftslagsbreytingar munu auka álagið á vatnsbúskap. Breytingar í vatnsbúskap er mismunandi eftir landsvæðum. Þurrkar vegna minnkandi úrkomu og aukinnar uppgufunar er víða vandamál sérstaklega á vesturströndinni. Flóð og minnkandi vatnsgæði eru líklega á mörgum landsvæðum.
5 - Framleiðsla landbúnaðarvara verður erfiðari. Aukið CO2 hefur jákvæð áhrif á hluta ræktaðs lands og hlýnunar, en eftir því sem það hlýnar meir þá mun ræktun verða erfiðari. Auknar plágur, vatnsvandamál, sjúkdómar og öfgaveður mun gera aðlögun landbúnaðar erfiða.
6 - Hætta hefur aukist fyrir strandsvæði vegna hækkandi sjávarstöðu og storma. Landeyðing og flóð, sérstaklega við Atlantshafið og mexikóflóa, auk eyja í Kyrrahafi og hluta Alaska. Orku og samgöngumannvirki, auk annarra mannvirkja við ströndina eru líkleg til að verða fyrir slæmum áhrifum.
7 - Aukin hætta á heilsubresti manna. Aðalástæður verða aukinn hiti, vatnsbornir sjúkdómar, minni loftgæði, öfgaveður og sjúkdómar vegna skordýra og nagdýra. Minni kuldi hefur einhver jákvæð áhrif. Bætt heilbrigðiskerfi getur minnkað þessi áhrif.
8 - Loftslagsbreytingar mun hafa aukin áhrif á mörg félags- og umhverfisvandamál. Vandamál vegna mengunar, fjölgunar, ofnotkun landgæða og annarra félags, efnahags og umhverfistengdra vandamála munu aukast vegna loftslagsbreytinga.
9 - Farið verður yfir hættulega þröskulda, sem leiða munu til stórra breytinga í loftslagi og vistkerfa. Þröskuldar eins og bráðnun hafíss og þiðnun sífrera, afkoma lífvera allt frá fiskum til skordýraplága sem hafa áhrif á samfélag manna. Því meiri loftslagsbreytingar því verri þröskulda verður farið yfir.
10 - Loftslagsbreytingar framtíðarinnar og áhrif þeirra fara eftir þeim ákvörðunum sem teknar eru í dag. Magn og hraði loftslagsbreytinga mun fara eftir hversu mikil núverandi og framtíðarlosun á gróðurhúsalofttegundum verður. Til að minnka áhrifin þá verður að minnka losun og aðlagast þeim breytingum sem eru nú þegar óumflýjanlegar.
17.6.2009 | 09:20
Loftslag framtíðar
Það eru margar vangaveltur um hvernig loftslagið verður á þessari öld.
Verði ekki gripið til harkalegra aðgerða þá er framtíðarsýnin ekki góð - þá er t.d. líklegt að hnattrænn hiti hækki um allt að 4°C. Það er ekki að ástæðulausu að þjóðir heims stefna að því að hitinn aukist ekki um 2°C. Sjá t.d. myndböndin í færslunni Nokkrar gráður. og grein í NewScientist frá því fyrr í vetur um hvað geti gerst ef hitinn hækkar um 4°C?
Ef menn eru heimakærari, þá er til skýrsla um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Íslandi (pdf 10 mb)
Hætta á gríðarlegum náttúruhamförum eykst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.5.2009 | 20:24
Rækjan
Áhugavert, ég rakst einmitt á grein um daginn þar sem fjallað var um rækjuna í Science.
Þar segir frá því að egg rækjunnar klekist út rétt fyrir þörungablóma vorsins, sem er megin fæða lirfunnar. Rækjan er aðlöguð að hitastigi sjávar á sínum heimaslóðum og hitinn ræður því hversu langan tíma eggin þurfa til að þroskast. Því mun breytt hitastig mögulega verða til þess að rækjulirfan hitti ekki að að koma úr eggi á réttum tíma.
En ein athugasemd við fréttina - hvers konar rækja er þetta eiginlega á myndinni sem fylgir þessari frétt?
Hér er mynd sem er nær lagi:
Rækja - stóri kampalampi (Pandalus borealis), mynd af odinn.org.
Íslendingur meðhöfundur að grein í Science | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |