Færsluflokkur: Afleiðingar

Meira um súrnun sjávar.

Ég vil benda á frétt í fréttablaðinu í dag (14 maí) um áhyggjur manna af súrnun sjávar. Skýrsluna sem þeir vísa í má finna með því að smella hér (pdf skjal, 4,5 MB).

Annars hef ég mynnst á súrnun sjávar áður hér á síðunni sjá færslurnar CO2 - vágestur úthafanna, Súrnun sjávar, Skýrslur um ástandið á Norðurslóðum. og Fleiri neikvæð áhrif á kórallinn.


Fleiri neikvæð áhrif á kórallinn.

Í fréttinni, sem ég er að blogga við, er greint frá því að hlýnun sjávar eigi töluverða sök á hnignun kóralrifa (þá vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum - vegna útblásturs CO2). En útblástur CO2 hefur einnig önnur og slæm áhrif á kóralrifin, svokallaða Súrnun sjávar af völdum aukins CO2 sem sjórinn gleypir úr andrúmsloftinu:

ocean_pH_change
Breyting á pH gildi sjávar frá 18. öld til lok 20. aldar (heimild earthtrends.wri.org).

Svo má hérna finna yfirlit yfir ástand og horfur, en þar er einnig tengill yfir í meira ítarefni á pdf-formi (558 KB).

Fyrir þá sem halda að þetta hafi ekki áhrif á Íslandi, þá skal á það bent að kórallar, skeldýr og önnur dýr sem að súrnunin hefði mest áhrif á, eru mikilvægir hlekkir í lífríki hafsins við Ísland.

Sjómenn hafa til dæmis bent á það að við komu stórvirkra togara, sem hafa skrapað og eyðilagt kóral hér við land, hafi ástand fiskistofna versnað til mikilla muna hér við land - svokölluð eyðilegging búsvæða (vakning hefur orðið í þessum efnum, samanber í þessari skýrslu frá árinu 2005). Ekki væri á það bætandi ef kórallinn myndi eyðast vegna súrnunar sjávar.


mbl.is Kóralrifin í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki eini jökullinn sem er að minnka.

Ég hef áður minnst á Grænlandsjökul, en massi hans er að minnka um 179 gígatonn á ári. Þar minntist ég á mynd sem sýnir þróun í þykkt jökla í heild í heiminum undanfarna áratugi, þ.e. áætlað meðaltal:

glacier_thickness
Hnattræn breyting á þykkt jökla frá 1961-2005 (mynd frá NSIDC).

En jöklar á Íslandi eru líka að minnka, sjá t.d. bloggfærslu Halldórs Björnssonar, en þar eru tvær myndir af Oki báðar teknar í ágúst með nokkurra ára millibili.

Hér fyrir neðan er svo mynd sem sýnir áætlaða bráðnun þriggja jökla á Íslandi:

HB_Liklegt-Islandi_mynd6
Ath, fyrir Vatnajökul þá er bara sýndur sunnanverður Vatnajökull - V. Svo er H=Hofsjökull og L=Langjökull (af heimasíðu Veðurstofunnar).

En fyrir þá sem hafa gaman af jöklum og myndum af þeim, þá er hér nokkuð góð síða.


mbl.is Jökull hverfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rækjan

Þar sem ég er úr litlu sjávarþorpi þar sem lífið snerist um innfjarðarrækju (sem nú er horfin), þá vakti þessi frétt athygli mína.

Raekja
Rækja - stóri kampalampi (Pandalus borealis), mynd af odinn.org.

Í fréttinni er fjallað um rannsókn sem birtist í Science og segir frá því að egg rækjunnar klekist út rétt fyrir þörungablóma vorsins, sem er megin fæða lirfunnar. Rækjan er aðlöguð að hitastigi sjávar á sínum heimaslóðum og hitinn ræður því hversu langan tíma eggin þurfa til að þroskast.

Því er búist við að rækjan muni eiga undir högg að sækja með hlýnun sjávar, þar sem að lirfurnar komi úr eggi áður en þörungablómi vorsins byrjar.

 


Nokkrar gráður.

Ég rakst á nokkur stutt myndbönd á YouTube frá National Geographic Channel. Þar er verið að velta því upp hvað geti gerst við hverja gráðuhlýnun á jörðinni. Þetta er í hasarmyndastílnum.


Tveggja gráðu markið.

Eitt af því sem mikið er rætt þessa dagana er áætlun evrópusambandsríkja (og annarra ríkja) að reyna að miða við að það hlýni ekki meir en um 2°C, ef miðað er við árið 1990. Þetta er hægara sagt en gert segja sumir - meðan aðrir segja að þetta sé hálfgerð uppgjöf.

Til þess að þetta sé hægt, þarf að draga töluvert úr losun á CO2 eða um sirka 80% fyrir árið 2050.

090502092019-large
Efri myndin sýnir útblástur CO2 með takmörkunum á útblæstri (blátt) og án takmarkana (rautt). Þar neðan við er líkan sem sýnir hvaða áhrif þessar tvær sviðsmyndir myndu mögulega hafa á hitastig jarðar (mynd af ScienceDayly.com).

Það er talið að nú þegar sé farið að styttast í að útblástur manna verði kominn að því marki að hlýnunin verði 2°C, hvort sem þróuninni verði snúið við eður ei. Eftir því sem við drögum það meir að draga úr útblæstri, því erfiðara verður að fara ekki yfir tveggja gráðu markið.

Það verður þó að taka fram að þótt það sé góðra gjalda vert að miða við tveggja gráðu markið, þá er líklegt að sá hiti muni hafa mjög neikvæð áhrif á mannkynið. Tíðari þurrkar, hitabylgjur, flóð og einhver hækkun sjávarmáls - ásamt fylgikvillum sem fylgja þessum atburðum (fólksflótti og stríð). Tveggja gráðu hlýnun myndi þýða að jörðin yrði heitari en hún hefur verið í milljónir ára. En það er þó allavega skárra en fjögurra gráða hlýnun, hvað þá sex gráða hlýnun.

Aðrir hafa fjallað um þetta, meðal annars Einar Sveinbjörnsson og RealClimate.

Smá útúrdúr: Miðað við þessar áætlanir, þá er það skrítið að Íslendingar séu að spá í olíuleit - en jú, það má nota olíu í annað en að brenna - t.d. að framleiða plast - er það ekki? Hver ætli losunin sé við það?


Flundran

Hér er áhugaverð grein úr fréttablaðinu. Bæði veiðimenn og vísindamenn eru í raun að kenna hlýnun sjávar um veikingu bleikjustofnsins. Talið er nefnilega að Flundran sé að aukast hér við land vegna hlýnunar sjávar, eins og sjá má í  skýrslunni sem gefin var út í fyrra um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Íslandi (pdf 10 mb).

Hér er greinin úr fréttablaðinu, smella á tvisvar til að stækka í lesanlegt horf.

flundra-frett


Spurning um siðferði

Án þess að ég ætli að blanda mér mikið í deilur um olíuleitina (sem jarðfræðingur þá finnst mér það spennandi, en hef áhyggjur af umhverfisáhrifunum), þá vil ég benda á siðferði þessarar fullyrðingar félagsmálaráðherra. Feitletra það sem ég hjó eftir.

„Með breytingunum skapast nýtt ástand í nánasta nágrenni Íslands í norðri. Við verðum að aðlaga okkur að því og nýta þau tækifæri sem felast í breyttu ástandi. Við bentum á að innan fárra ára kynnu að opnast ný siglingaleið til Kyrrahafsins um Norður-Íshafið. Þá geti verið hagkvæmt að hafa umskipunarhöfn á Íslandi fyrir  flutninga á milli Evrópu og Norður-Ameríku yfir til Asíu."

Fyrst og fremst finnst mér að við íslendingar ættum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að ástandið breytist ekki (við eigum ekki að þurfa neinar undanþágur frá losun CO2). Við þurfum að gera okkar til að draga úr útblæstri á CO2, því við og aðrar iðnvæddar þjóðir erum að skapa geigvænlegt ástand í vanþróaðri löndum og þá sérstaklega í löndum umhverfis miðbauginn.

Þar eru lönd sem hafa lítið gert til að skapa þetta ástand, en þau verða verst úti - minni úrkoma yfir árið, en samt meiri rigning á styttri tíma - það munu því skiptast á þurrkar og hrikaleg flóð í mörgum af þessum löndum. Hækkandi sjávarstaða skapar síðan vandamál fyrir margar af fjölmennustu þjóðirnar, en margar af stærstu borgum heims eru við sjávarmál.

Mögulega jákvætt fyrir Ísland: Margt bendir til þess að einhver partur af hlýnuninni geti verið til góðs fyrir Íslendinga - mögulega opnast siglingaleiðir, mögulega eykst gróður og allavega eykst tímabundið rennsli í jökulám (til að virkja), jafnvel getur verið að nýta nýjar tegundir dýra til sjávar og sveita (ræktun á strútum kannski Cool). Svona má eflaust lengi telja.

Mögulega neikvætt fyrir Ísland: Siglingaleiðir við Ísland (mengunarslys aukast), ágengar tegundir nema land (gróður, skordýr o.fl). Fergingalosun við bráðnun jökla - auknar líkur á eldgosum. Þetta er ekki tæmandi heldur (t.d. sýring sjávar sem er hluti af CO2 vandamálinu og hefur áhrif á grunnstoðir lífríkis sjávar).

Ég vil þó segja að þótt ekkert neikvætt fylgi þessari hlýnun fyrir okkur Íslendinga, þá er það rangt siðferði að ætla að hagnast á ástandinu, hagnast á eymd annarra - sérstaklega ef við gerum ekki okkar besta til að draga úr losun á CO2. Við erum ekki að standa okkur vel í að draga úr losun.


mbl.is Hlýnunin felur í sér tækifæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppfærsla - bráðnun hafíss á Norðurskautinu.

Bráðnun hafíss á Norðurskautinu virðist samkvæmt þessari mynd ganga hægar en búist var við:

N_timeseries
Bráðnun það sem af er 2009 nálgast meðaltalið (mynd NSIDC).

Það verður fróðlegt að sjá hvað þeir segja um apríl mánuð, en fréttatilkynning kemur yfirleitt frá NSIDC þegar um vika er liðin af hverjum mánuði. (sjá síðasta mánuð)


Uppfærsla - Wilkins íshellan

Það var í fréttum um daginn að ísbrúin sem hélt Wilkins íshellunni saman væri brostin (sjá færslu). Í kjölfarið bjuggust vísindamenn við því að íshellan myndi byrja að brotna upp næsta sumar (á Suðurskauti - þar er vetur nú).

Nú hafa borist myndir frá gervihnettinum TerraSAR-X sem sýna að hún er nú þegar byrjuð að brotna upp.

tsx20090423annotated
Mynd frá TerraSar gervihnettinum (smelltu á myndina tvisvar til að sjá hana stærri).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband