Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Sveiflur í bráðnun Grænlandsjökuls

Frétt, einnig birt á loftslag.is 

Í nýrri grein sem birtist í Nature Geoscience er sagt frá rannsókn þar sem mældar hafa verið árstíðabundnar sveiflur í hraða í skriði jökuls á Suðvestur Grænlandi. Niðurstaðan er sú að á sumrin er hraðinn allt að 220% miðað við hraðann að vetri. Niðurstöðurnar þykja mikilvægar fyrir skilning á því hvernig jöklar munu bregðast við aukinni hlýnun – þ.e. viðbrögð hans við yfirborðsbráðnun og breytingar í vatnskerfi við botn jökulsins.

Jökulbreiða Grænlandsjökuls inniheldur nægilega mikið vatn til að hækka sjávarstöðu hnattrænt um 7 m. Hins vegar er massajafnvægi jökulbreiðunnar illa þekkt og þar með á hvaða hraða jökullinn mun bráðna. Aukin massarýrnun við ströndina hefur orðið samhliða auknum hraða í skriði jökla. Yfirborðsvatn rennur niður að botni jökulsins og talið er að það auki hraðann.

Ian Bartholomew og félagar notuðu GPS móttakara á um 35 kílómetra sniði inn eftir vesturhluta jökulbreiðu Grænlands og mældu þannig hraða jökulsins yfir sumartímann 2008 og veturinn þar á eftir.  Mælingarnar sýndu aukinn hraða, en á sama tíma sýndu mælarnir að yfirborðið reis. Túlka þeir það þannig að vatnsþrýstingur lyfti þannig undir jökulinn og að skriðið aukist vegna þess. Hraðinn jókst einnig smám saman lengra frá ströndinni eftir því sem leið á sumarið.

Ein af niðurstöðum höfunda er að við lengri og heitari sumur, þá muni hraðinn aukast lengra inn eftir Grænlandsjökli og því muni bráðnun jökulsins stigmagnast og ná yfir stærra svæði jökulbreiðunnar. Höfundar vonast eftir að þessar nýju upplýsingar séu enn eitt púslið til að auka skilning á því hvernig Grænlandsjökull mun bregðast við aukinni hlýnun.

Heimildir og ítarefni

Greinina sjálfa má finna á heimasíðu Nature Geoscience (ágrip):  Ian Bartholomew o.fl. 2010 – Seasonal evolution of subglacial drainage and acceleration in a Greenland outlet glacier

Tengdar færslur á loftslag.is


Yfirlýsing frá Vísindaráði Bandaríkjanna

Tags: Yfirlýsing

thumb_NASVísindaráð Bandaríkjanna (National Academy of Science – NAS) sendi á dögunum frá sér yfirlýsingu sem birtist sem bréf í tímaritinu Science. Það er skrifað af 255 meðlimum ráðsins, sem er ein virtasta vísindastofnunin í Bandaríkjunum. Við mælum með að fólk lesi bréfið í heild, en hér fyrir neðan er þýðing á nokkrum brotum úr bréfinu:

Það er alltaf einhver óvissa tengd vísindalegum niðurstöðum; vísindi geta aldrei sannað eitthvað að fullu. Þegar einhver segir að þjóðir heims eigi að bíða þar til vísindamenn eru búnir að fullvissa sig um eitthvað áður en gripið er til aðgerða, þá er sá hinn sami að segja að þjóðir heims eigi aldrei að grípa til aðgerða. Varðandi vandamál, sem hefur alla möguleika til að þróast yfir í náttúruhamfarir, líkt og loftslagsbreytingar þá þýðir það að grípa ekki til aðgerða töluverða áhættu fyrir Jörðina…

…Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC – The Intergovernmental Panel on Climate Change) og aðrar vísindalegar samantektir um loftslagsbreytingar, þar sem þúsundir vísindamanna hafa gert umfangsmikla og ítarlegar samantektir, hafa, eins og við mátti búast og eðlilegt er, gert mistök. Þegar bent er á villur, þá eru þær leiðréttar. En það er ekkert sem hægt er að festa hendi á í nýlegum atburðum sem breytir eftirfarandi grunnatriðum um loftslagsbreytingar:

  1. Jörðin er að hlýna vegna aukins styrk gróðurhúsalofttegunda i andrúmsloftinu. Snjór um hávetur í Washington breytir ekki þeirri staðreynd
  2. Megin hluti aukningarinnar í styrk þessara lofttegunda síðastliðna öld er vegna athafna manna, sérstaklega vegna bruna á jarðefnaeldsneyti og skógarhöggs
  3. Nátturlegir þættir skipta alltaf máli við loftslagsbreytingar Jarðarinnar, en nú yfirgnæfir loftslagsbreyting af mannavöldum þá þætti
  4. Hlýnun Jarðarinnar mun valda breytingum í ýmsum öðrum loftslagskerfum á hraða sem á sér ekki hliðstæðu í nútímanum, þar á meðal aukinn hraði sjávarstöðuhækkana og breytingar í vatnshringrásinni. Aukinn styrkur CO2 í andrúmsloftinu er að auki að auka sýrustig úthafana.
  5. Samspil þessara flóknu loftslagsbreytinga ógna strandsamfélögum og borgum, fæðuöryggi og vatnsforða, vistkerfum sjávar og ferskvatna, skóga, háfjallavistkerfa og ýmsu öðru.

Mikið fleira má og hefur verið sagt af vísindasamfélagi Jarðar, háskólasamfélögum og einstaklingum, en fyrrnefndar niðurstöður ættu að vera nægar til að sýna hvers vegna vísindamenn hafa áhyggjur af því hvað framtíðarkynslóðir munu þurfa að horfast í augu við ef ekki er gripið til aðgerða. Við hvetjum stefnumótendur og almenning að bregðast skjótt við orsökum loftslagsbreytinganna, þar á meðal óheftri brennslu jarðefnaeldsneytis.

Heimildir og Ítarefni

Yfirlýsinguna í heild má sjá á heimasíðu Science:  P. H. Gleick o.fl. 2010 – Climate Change and the Integrity of Science

Þar er einnig viðauki með lista yfir nöfn þeirra vísindamannas sem skrifuðu undir: P. H. Gleick o.fl. 2010 – Supporting Online Material for Climate Change and the Integrity of Science

Pistil Peter H. Gleick um yfirlýsinguna, sem birtist í Huffington Post, má sjá hér: Climate Change and the Integrity of Science

Áhugaverð heimasíða Vísindaráðsins um loftslagsbreytingar: America’s Climate Choices - en þar er einnig gott myndband sem útskýrir það verkefni, sjá má myndbandið í færslunni á Loftslag.is, Yfirlýsing frá Vísindaráði Bandaríkjanna

Tengdar færslur á loftslag.is

 


Rökleysur loftslagsumræðunnar

Hér fyrir neðan er inngangur ítarlegrar útgáfa á grein sem undirritaður skrifaði og birtist í Morgunblaðinu fyrr í dag (laugardag 8. maí). Lesa má greinina eins og hún birtist í Morgunblaðinu hér á loftslag.is.

Hér verður fjallað um ýmsar rökleysur í loftslagsumræðunni. Á undanförnum mánuðum hefur umræðan varðandi loftslagsmál í kjölfar hins svokallaða Climategate-máls farið á undarlegt stig. Í því máli var tölvupóstum loftslagsvísindamanna stolið og í kjölfarið byrjuðu samsæriskenningar og rangtúlkanir út frá fullyrðingum um hvað það væri sem tölvupóstarnir voru taldir innihalda. Þetta hefur verið mikið í umræðunni síðustu mánuði og margskonar rökleysur orðið til í kjölfarið. Fjölmiðlafólk, bæði erlendis og hérlendis virðist hafa fallið í þá gryfju að draga umræðuna á plan afneitunar, sem helst virðist eiga uppruna sinn hjá ýmsum þrýstihópum með aðra hagsmuni en að hafa vísindin að leiðarljósi. En hvers vegna dregst umræða alvöru blaðamanna á þetta stig? Ég ætla að reyna að svara því í þessari grein, en mig langar fyrst að skoða hvernig hérlendir fjölmiðlar og bloggsíður hafa afvegaleitt umræðuna á köflum.

...

Þar sem okkur langar að fá athugasemdir við þessa grein á loftslag.is þá höfum við lokað fyrir athugasemdir hér og beinum þeim þangað. Sjá nánar:


Miðaldaverkefnið

Við höfum lengi ætlað að fjalla um heimasíðuna CO2 Science eða réttara sagt um Miðaldaverkefni þeirra og jókst áhuginn á því töluvert við að sjá nýlega íslenska bloggfærslu þar sem þeirri síðu er meðal annars hampað. Þeir sem halda síðunni út er “rannsóknamiðstöðin” Center for the Study of Carbon Dioxide and Global Change en markmið þeirra er að dreifa:

…factual reports and sound commentary on new developments in the world-wide scientific quest to determine the climatic and biological consequences of the ongoing rise in the air’s CO2 content

Heimasíðan virðist þó aðallega vera eins konar viðkomustaður þeirra sem að hafa efasemdir um kenninguna um gróðurhúsaáhrifin að leiðarljósi, enda er oft vísað til síðunnar þegar efasemdamenn benda á “staðreyndir” sem sýna fram á að hlýnun jarðar af mannavöldum sé byggð á hæpnum grunni. 

Þarna virðist vera á ferðinni fjölskyldufyrirtæki, þar sem Idso fjölskyldan (Craig, Sherwood, Keith og Julene) ræður ríkjum. Þau segja að umræða um hvaða fjársterku aðilar standa á bakvið síðunni skipti ekki máli því að rannsóknirnar sem síðan bendir á tali sínu máli. Milli áranna 1998 og 2005 fékk þetta fjölskyldufyrirtæki um 90 þúsund dollara í styrk frá olíurisanum Exxon (á núverandi gengi er það um 12 milljónir króna).

Miðaldaverkefnið

Eitt af stærri verkefnum heimasíðunnar er að taka saman heimildir sem sýna eiga fram á að miðaldarhlýnunin sé meiri en hlýnunin nú og því sé ekkert óvenjulegt í gangi. Á heimasíðunni er hægt að fletta upp á miklum fjölda heimilda og línurita sem sýna miðaldarhlýnunina – með þeirra túlkunum. Með þessu nota þeir algenga aðferð sem sést oft meðal efasemdamanna, en það er að birta ekki eina rannsókn sem að “styður” þeirra málstað – heldur fjöldan allan af rannsóknum. Svo hafa þeir þær rannsóknir sem þeir telja að styðji þeirra skoðun mest áberandi og flokka niður eftir gæðum - samkvæmt þeirra mati. Þetta gera þeir í trausti þess að  fáir hafi nennu né getu til að fletta í gegnum allt gagnasafnið og benda á misfærslur við túlkun þeirra á hverri einustu rannsókn. Svo virðist ómögulegt að fá leiðréttingu – þegar búið er að benda þeim á misfærslur.

Á loftslag.is má finna nánari útlistingu á rangfærslum og mistúlkunum sem finna má á heimasíðunni CO2 Science og systursíðu hennar Science Skeptical Blog, þó alls ekki sé það tæmandi lýsing.

Sjá Miðaldaverkefnið

Sjá einnig tengt efni á loftslag.is


Miðaldir og Loehle

Hér er færsla sem einnig er birt á loftslag.is, sjá Miðaldir og Loehle

Oft er bent á Loehle (2007) til að sýna fram á að miðaldarhlýnunin hafi verið einstök og að hlýnunin nú blikni í samanburði við þá (sjá t.d. bloggsíðu Karls Jóhanns hér):

Þetta graf var reyndar leiðrétt ári seinna (Loehle 2008) og leit þá svona út:

Það sem hvað helst mælir á móti þessu línuriti er að eingöngu  eru notuð 18 gagnasöfn og því er oft bent á að þetta sé varla lýsandi fyrir hnattrænan hita, sérstaklega þar sem einungis þrjú gagnasöfn hans koma frá Suðurhveli Jarðar:

Staðsetning gagnasafns Loehle (2008).


Annar galli er að þótt það líti þannig út, ef maður lítur snöggt á grafið, að hlýnunin á miðöldum sé mun meiri en nú – þá sýnir myndin ekki hita eftir 1935. Loehle fer reyndar ekki leynt með það en efasemdamenn ræða það sjaldnast. Einnig benda þeir oft á tíðum á óleiðrétta línuritið frekar en það leiðrétta – sem er bagalegt og bendir til ónákvæmra vinnubragða.

Það sem efasemdamann telja, að geri þetta línurit betra en önnur línurit, er að hér er ekki notast við trjáhringjagögn - á það má benda að línuritið sem að efasemdamenn hafa hvað minnsta trú á (hokkíkylfa Manns o.fl), er nánast eins með og án trjáhringjagagna:

Hokkíkylfan. Öll gögnin (græn lína), án trjáhringjagagna (blá lína). Mann o.fl. 2008.



Loehle og núverandi hlýnun

En burt séð frá því hvort gögn hans hafi verið fullnægjandi, þá ná þau ekki fram til hlýnunarinnar sem er nú, heldur eingöngu fram til ársins 1935.

Dr. Roy Spencer er einn af þeim sem hefur notað leiðrétta línuritið frá 2008 og hefur bætt við gögnin mælingar frá Met Office til að lengja línuritið fram til loka síðustu aldar (þunna bláa punktalínan sýnir viðbæturnar):

Þarna á að sjást að hlýnunin nú er ekki búin að ná þeim hæðum sem að miðaldarhlýnunin náði. Þannig hefur hann náð að sannfæra ansi marga um að hlýnunin nú sé minni en á miðöldum. Hér á landi hefur þetta línurit (eða sambærilegt) verið íslenskað af Ágústi Bjarnasyni og notað á sama hátt, þ.e. til að sýna fram á að miðaldarhlýnunin sé einstök (sjá t.d. hér):

Þýðing Ágústs Bjarnasonar á teikningu Dr. Roy Spencer


Þess ber að geta að línuritið sem Ágúst notar er að öllum líkindum teiknað eftir óleiðréttu gögnum Loehle (2007).

En er þetta réttmæt mynd af hitastigi síðastliðinna tvö þúsunda ára ef miðað er við gögn Loehle? Áhugamaður um loftslagsbreytingar að nafni Rob Honeycutt, hafði samband við Loehle sjálfan og eftir töluverð samskipti þá afhenti Loehle honum hitagögn með sambærilegu vegnu meðaltali frá HadCRU (29 ára meðaltal) – til að framlengja línurit Loehle fram til loka síðustu aldar. Hann teiknaði það upp og fékk eftirfarandi mynd:

Svo virðist vera, að þrátt fyrir allt þá sé hlýnunin undanfarna áratugi einstök síðastliðin 2000 ár. Ef við síðan berum rannsókn Loehle  saman við önnur línurit þar sem metið hefur verið hitastig síðastliðin 2000 ár (Mann o.fl., Crowley og Lowery, Jones o.fl., Moberg og Shaolin o.fl.), þá sést að þrátt fyrir allt, þá er enginn vafi á því að hlýnunin nú er óvenjuleg – einungis er spurningin sú, hversu mikið meiri er hlýnunin nú en á miðöldum:

Þannig að þó notuð séu gögn Loehle (sem þykja byggð á of fáum gagnasöfnum), þá er ljóst að niðurstaðan er sú að hlýnunin nú er meiri en á miðöldum.

Heimildir

Loehle 2007 og 2008 má finna í sama skjalinu hér (leiðréttingin er í enda skjalsins): A 2000-Year Global Temperature Reconstruction Based on Non-Treering Proxies (+correction)

Sjá einnig samanburð á völdum myndum úr þessari færslu í Viðauka.

Tengdar færlsur á loftslag.is


Spurt og svarað um sjávarstöðubreytingar

Sjávarstöðubreytingar eru með verri afleiðingum loftslagsbreytinga og þó að óvissan sé nokkur um hvaða afleiðingar verða af þeim – hvar og hversu miklar, þá þykir nokkuð ljóst að þær munu hafa slæm áhrif víða. Talið er að þær muni hafa hvað verstar afleiðingar á þéttbýlustu svæðum heims og þar sem nú þegar eru vandamál af völdum landsigs vegna landnotkunar og þar sem grunnvatn er víða að eyðileggjast vegna saltsblöndunar frá sjó. Einnig verða ýmis strandsvæði í aukinni hættu af völdum sjávarstöðubreytinga vegna sterkari fellibylja framtíðar.  

Margar spurningar vakna.

  • Hvernig eru sjávarstöðubreytingar mældar?
  • Rís sjávarstaða jafnt og þétt yfir allan heim?
  • Eru til einhverjar upplýsingar um sjávarstöðubreytingar til forna?
  • Hversu hratt er sjávarstaðan að rísa?
  • Hverjar eru helstu ástæður núverandi sjávarstöðubreytinga?
  • Hver er framtíðin?
  • Erum við tilbúin að takast á við sjávarstöðubreytingar?

Á loftslag.is höfum við reynt að svara þessum spurningum, sjá Spurt og svarað um sjávarstöðubreytingar


Hjólað í vinnuna

thumb_hjoladÁtakið Hjólað í vinnuna fer í gang miðvikudaginn 5. maí og stendur yfir til 25. maí. Hjólað í vinnuna er orðið að árlegum viðburði, þar sem starfsmenn fyrirtækja landsins eru hvattir til að hjóla, ganga, fara á línuskautum eða á annan hátt nota eigin orku til að komast í og úr vinnu. Undirritaður hefur verið með undanfarin ár og verður með að því marki sem mögulegt er í ár. Hér undir ætla ég að skoða ávinningin af átakinu út frá nokkrum sjónarmiðum. Í útreikningunum tek ég sem dæmi einstakling sem vegur 80 kg og sem þarf að fara 6 km til vinnu, þ.e. 12 km til og frá vinnu. Hann er eigandi ósköp venjulegs skutbíls, með 1600 cl vél, en þó sjálfskipts. Helstu útreikningar eru gerðir með hjálp reiknivélanna á orkusetur.is.

Kolefnissjónarmið

Með því að hjóla 12 km á dag í stað þess að keyra, þá minnkar losun CO2 um 2,3 kg á dag, sem gerir í allt á þessum 13 dögum 29,9  kg minni losun CO2 út í andrúmsloftið en ella af einstaklingnum. Þetta á við um einstakling, en í fyrra voru farnir 493.202 km í allt sem þýðir út frá sömu forsendum að losun CO2 minnkaði um u.þ.b. 94,5 tonn í átakinu.

Hitaeiningasjónarmið

Ef hjólaðir eru 12 km á dag þá er kaloríubrennslan um 406 kal á dag, sem eru um 200 kal hvora leið fyrir sig. Á myndinn neðst í færslunni (af heimsíðunni orkusetur.is) má sjá hvað 200 kal eru í formi hinna ýmsu matvæla. Heildar kaloríubrennslan alla 13 daganna væri því samkvæmt þessu 5.278 kal. Þess má geta að brennslan er meiri ef gengið er.

Sparnaðarsjónarmið

Við að spara bílinn þessa 156 km sem ætla má að bíllinn sitji heima með því að taka þátt dag hvern, má spara í beinhörðum peningum u.þ.b. 2.500 krónur bara í bensín kostnað. Sem eru um 8 milljónir í heildina miðað við tölurnar 2009.

Vellíðunarsjónarmið

Það má kannski segja að mikilvægast fyrir flesta sé sú vellíðun sem fæst út úr því að hreyfa sig á degi hverjum, það er ekki vanþörf á fyrir venjulegar skrifstofublækur eins og t.d. þann sem þetta skrifar.


Útdauðinn fyrir 250 milljónum ára

Í grein sem birt var fyrir stuttu í Proceedings of the National Academy of Sciences er sagt frá nýjum gögnum, þar sem kalsíum samsætur hafa verið greindar í Kínverskum kalkstein.

Á mörkum Perm og Trías varð mikil eldvirkni af völdum heits reits þar sem nú er Síbería og myndaði svokölluðu Síberíu tröppuhraun (Siberian Traps). Við það jókst styrkur CO2 gríðarlega í andrúmsloftinu, sem síðan leystist upp í hafinu - sýrustig þess jókst, sem leiddi síðan til mesta útdauða sjávarlífvera til þessa.

Þessi samsetning aukins styrk CO2 í andrúmsloftinu og súrnun sjávar af sömu völdum er talið að hafi þurrkað út 90% sjávarlífvera og um 70% lífvera á landi – í lok Perm fyrir 250 milljónum ára.

Sjá nánari umfjöllun á loftslag.is - Útdauðinn fyrir 250 milljónum ára

Heimildir og ítarefni

Greinina sjálfa má finna hér: Payne o.fl. 2010 – Calcium isotope constraints on the end-Permian mass extinction 

Umfjöllun um rannsóknina má finna á heimasíðu Stanford: Stanford scientists link ocean acidification to prehistoric mass extinction

Tengt efni á loftslag.is


Um loftslagsfræðin

Færsla af loftslag.is frá því í desember síðastliðin, sjá Um loftslagsfræðin

Þar sem loftslagsráðstefna Sameinuðu Þjóðanna er nú í hámæli, þá er ekki úr vegi að skoða hver þekkingin er í loftslagsmálum, þó ekki væri nema til að vita hvers vegna vísindamenn hvetja þjóðir heims til að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum og þá sérstaklega CO2.

Samkeppni en samt samhljóða álit

consensusÍ vísindasamfélaginu er mikil samkeppni í hverju fagi fyrir sig um að komast að réttri niðurstöðu eða réttari niðurstöðu en aðrir í faginu koma fram með – menn efast um niðurstöður annarra vísindamanna og reyna að afsanna þær. Þrátt fyrir það, þá myndast alltaf ákveðinn þekkingargrunnur sem flestir aðilar innan greinarinnar eru sammála um – einhverskonar samhljóða álit (e. Scientific consensus). Vísindamenn innan þessa samhljóða álits eru þó ávallt að reyna að hrekja ríkjandi hugmyndir, hugtök og kenningar annarra, með betri mælingum, rannsóknaraðferðum og úrvinnslu. Þótt samhljóða álit geti verið nokkuð sterkt í kjarnanum, þá er þó alltaf deilt um áherslur.

Loftslagfræðin eru engin undantekning og jafnvel er meiri áhersla lögð á að reyna að afsanna ríkjandi hugmyndir í því fagi – auk þess sem á þau fræði herja öflugir hópar þeirra sem hafa hag af því að reyna að afsanna þær kenningar, sem oft er blásið upp af öflugum efasemdabloggsíðum – stundum eru jafnvel vísindamenn þar framarlega í flokki (reyndar eru þeir fáir og oftast þeir sömu).

Sökum mikilvægi þess að vita hvaða öfl eru að verki við að breyta loftslagi jarðar, þá eru hópar alþjóðlegra stofnanna að keppast við að afla betri gagna og smíða betri loftslagslíkön.  Það samhljóða álit sem er ríkjandi í dag í loftslagsfræðum er því ekki bundið fámennan hóp vísindamanna né einyrkja sem mögulega gætu framið einhvers konar samsæri eða fiktað við gögn til að ýkja þá hlýnun sem er – til þess eru þessir hópar of stórir og margir.

Hin viðamikla þekking á loftslagskerfum jarðar er byggð á athugunum, tilraunum og líkönum gerð af efnafræðingum, veðurfræðingum, jöklafræðingum, stjarneðlisfræðingum, haffræðingum, jarðfræðingum, jarðefnafræðingum, líffræðingum, steingervingafræðingum, fornloftslagsfræðingum, fornvistfræðingum svo einhverjir séu upp taldir.

Að komast að samhljóða áliti innan svona fjölbreytilegs hóps er oft eins líklegt og friðarumleitanir stríðandi fylkinga. Þrátt fyrir það, þá er meginmyndin skýr varðandi loftslagsbreytingar og vísindamennirnir sammála um hana.

Afganginn af færslunni má lesa á loftslag.is:

Undirkaflar:

  • Flókið samspil
  • Hvað er óljóst?
  • Fortíð, nútíð, framtíð
  • Ítarefni 

Tengt efni af loftslag.is:


Hvað veistu um hitastig á Jörðinni?

Tags: Léttmeti, Lofthiti, Tenglar

Heimasíða NASA um hnattrænar loftslagsbreytingar er skemmtileg – allavega fyrir áhugafólk um loftslagsbreytingar og mjög notendavæn. Þar er meðal annars skemmtilegt próf þar sem hægt er að athuga þekkingu sína á hitastigi Jarðar.

Til að taka prófið, smelltu þá á myndina hér fyrir neðan (eða á þennan tengil - NASA Global Climate Change site). Á forsíðunni hægra megin er glugginn “Cool Stuff” og má þar meðal annars finna prófið “Hot Challenge”. Sá sem þetta skrifar fékk ekki fullt hús stiga – þorir þú?

Tengt efni á loftslag.is:


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband