1.6.2010 | 09:55
Að fela núverandi hlýnun
Eitt af því sem gerir loftslagsumræðuna hvað mest spennandi, allavega í augum þess sem þetta skrifar, eru mistúlkanir og falsanir efasemdamanna til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Sá sem þetta skrifar hefur sérstakan áhuga á fornloftslagi og við á loftslag.is höfum skrifað nokkuð um það (sjá hér).
Falsanir og mistúlkanir eru misjafnar varðandi fornloftslag og fjölbreytileikinn mikill. Algengast er þó eftirfarandi sérstaklega hvað varðar hina svokölluðu miðaldahlýnun:
Fyrsta brellan er að fela hitastigskvarðann og/eða gildi hitastigsins. Önnur brellan er að velja eitt landsvæði í heiminum og sú þriðja er að klippa í burtu eða hunsa mælingar sem sýna undanfarna hlýnun. Úr færslunni Miðaldabrellur.
Þá er algengt að sýna núverandi hitastig lægra en það í raun og veru er þ.e. bæta við línu sem á að sýna hvar hitastigið er nú og hnika henni niður í átt til lægri hita (eða miða hreinlega við hitastig fyrir öld eða svo). Einnig er klassískt að sýna úrellt gögn og birta þau eins og þau séu besta mat á fornloftslagi (sjá t.d. færslurnar Miðaldir og Loehle og Miðaldaverkefnið).
Hlutur Don Easterbrook
Fyrir nokkrum vikum var haldin ráðstefna efasemdamanna um hnattræna hlýnun og einn fyrirlesara virðist kunna flestar brellurnar í handbók efasemdamanna. Það er Don Easterbrook, fyrrum prófessor í jarðfræði og áður væntanlega þokkalega virtur í sínu fagi. Hann hefur verið sannfærður undanfarin ár að Jörðin eigi eftir að verða fyrir kólnun á næstu árum og áratugum. Þessi sannfæring hans á reyndar ekki við nein vísindaleg rök að styðjast (sjá mýtuna Lítil ísöld eða kuldaskeið er á næsta leiti).
Við skulum byrja á léttri mistúlkun, en hér er mynd sem sýnir hans pælingar um væntanlega kólnun sem hann telur vera yfirvofandi:
Eins og sjá má, þá virðist hann auka vægi hlýnunar fyrr á síðstu öld á kostnað hlýnunar sem er nú samkvæmt honum þá er hitastig nú svipað og það var í kringum miðja síðustu öld. Við vitum að svo er ekki (sjá Helstu sönnunargögn og NASA | Heitasta 12 mánaða tímabilið), þannig að annað hvort er hann að nota staðbundin hitagögn eða hann er að breyta þeim gögnum sem til eru. Auk þess má benda á að spár IPCC líta ekki eins út og hann sýnir (sjá Loftslag framtíðar).
En þetta eru litlu tölurnar. Þegar horft er á meðferð Easterbrook á gögnum um fornloftslag, þá bregður flestum í brún. Lítum hér á fallega og lýsandi mynd úr smiðju hans:
Þessa mynd þarf líklega ekki að útskýra mikið en hún á að sýna hitastig á nútíma (e. holocene). Kannski er þó rétt að byrja á því að segja frá því innsláttarvillu en þar sem stendur Younger Dyas á að standa Younger Dryas. Takið nú eftir því hvar hann setur núverandi hitastig (e. Present day temperature). Samkvæmt þessari mynd þá ætti að vera ljóst að núverandi hitastig er bara alls ekki hátt. Hitinn mest allan nútímann hefur verið hærra en er í dag samkvæmt þessari mynd.
Hitt er annað að hér hefur hann tekið mynd frá Global Warming Art og breytt töluvert þ.e. sett inn skáldaða línu sem segir hvenær núverandi hitastig er og litað upp á nýtt. Hér fyrir neðan má sjá orginalinn, en við á loftslag.is höfum stundum notað þá mynd til að sýna hitastig á nútíma:
Við að skoða þessa mynd þá fer ekki milli mála að hitastig nú er í hæstu hæðum hvað varðar hita á nútíma (sjá örina sem bendir á 2004).
Til samanburðar eru hér tvær útgáfur fyrir neðan sem sýna þessar tvær myndir bornar saman:
Með þessari fölsun hefur Easterbrook lækkað núverandi hnattrænt hitastig Jarðar um sirka 0,75°C. Það munar um minna.
Annað línurit frá honum hefur einnig vakið athygli, en tilgangur þess er sá sami þ.e. að sýna fram á að nú sé kaldara en á meirihluta nútíma:
Fyrir utan undarlegar merkingar og ranga viðmiðun hvað varðar núverandi hitastig, þá er þetta nokkuð rétt mynd eins og síðasta mynd. Hér gefur að líta hitastig upp á Grænlandsjökli út frá borkjarnarannsóknum (GISP). Því er hér um að ræða staðbundið hitastig. Líklega er best að byrja á að benda á undarlegar merkingar á miðaldahlýnuninni og Litlu Ísöldinni en á báðum stöðum skeikar það um nokkur hundruð ár. Það sem skortir hér er hitastig síðastliðin 100 ár eða svo. Þegar upprunalegu gögnin eru skoðuð fram yfir síðustu aldamót og þau borin saman við ofangreinda mynd þá fæst þessi mynd:
Hér sést að núverandi hitastig samkvæmt Easterbrook (blá lína) er næstum 3°C lægra en hitastigið í raun er nú upp á Grænlandsjökli (græn lína). Hér er því mesta rangtúlkunin sem að fundist hefur hingað til hjá Easterbrook. Hér er er um staðbundinn hita að ræða og því lítið hægt að túlka út frá þessu en það er augljóst að hitastigið nú er orðið nánast jafn hátt og það var þegar það var mest á Grænlandsjökli á nútíma.
Nú er spurning hvað aðrir efasemdamenn segja verður ekki að rannsaka þetta nánar?
Heimildir og ítarefni
Aðalheimild fyrir þessari færslu eru færslur af bloggsíðunni Hot Topic
- Fools rush in
- Cooling-gate! Easterbrook fakes his figures, hides the incline
- Cooling-gate: Easterbrook defends the indefensible
- Cooling-gate: the 100 years of warming Easterbrook wants you to ignore
Tengdar síður á loftslag.is
- Miðaldaverkefnið
- Miðaldir og Loehle
- Miðaldabrellur
- Mýta: Hokkíkylfan er röng
- Hvað er rangt við þetta graf?
31.5.2010 | 09:31
Jafnvægissvörun Lindzen
Bloggfærsla þýdd af Skeptical Science og einnig birt þar og á loftslag.is, Jafnvægissvörun Lindzen.
Jafnvægissvörun loftslags segir til um hversu mikið loftslag bregst við ójafnvægi í orkubúskap Jarðar. Algengasta skilgreiningin er breyting í hnattrænu hitastigi við tvöföldun á styrk CO2 í andrúmsloftinu. Ef hvorki væri magnandi né dempandi svörun, þá væri jafnvægissvörunin í kringum 1°C. Vitað er að það verka á loftslagið bæði magnandi og dempandi svörun. En hver eru heildaráhrifin af þeim? Ein lausnin er að skoða hvernig loftslagið bregst við breytingum í hitastigi. Til eru gervihnattamælingar á geislunarbúskap og yfirborðsmælingar á hitastigi. Með því að bera þessa tvo þætti saman, ætti að vera hægt að fá áætlun á heildarsvöruninni.
Í einni grein birtist tilraun til að gera slíkt On the determination of climate feedbacks from ERBE data (Lindzen og Choi 2009). Þar er skoðað hitastigsgildi í hitabeltinu (beltið sem liggur 20° sitt hvoru megin við miðbaug) frá árinu 1986 til 2000. Sérstaklega var litið til tímabila þar sem hitabreytingin var meiri en 0,2°C, merkt með rauðum og bláum lit (mynd 1).
Mynd 1: Hitafráviksgildi hvers mánaðar við yfirborð sjávar milli 20°S og 20°N. Tímabil hitabreytinga sem eru meiri en 0,2°C er merkt með rauðum og bláum lit (Lindzen og Choi 2009).
Lindzen og Choi greindu einnig gervihnattamælingar á útgeislun yfir tímabilið. Þar sem skammtímasveiflur í hitastigi hitabeltisins er að mestu stjórnað af El Nino sveiflunni (ENSO), þá veitir breytingin í útgeislun innsýn í það hvernig loftslag bregst við breytingum í hitastigi. Greining þeirra leiddi af sér að þegar það er hlýrra þá var meiri útgeislun út í geim. Niðurstaða þeirra er sú að svörunin væri dempandi og heildarjafnvægissvörunin loftslags fyrir Jörðina væri um 0,5°C.
Þessar niðurstöður hafa þó verið hraktar í nýlegri grein. Relationships between tropical sea surface temperature and top-of-atmosphere radiation (Trenberth o.fl. 2010) sýndi fram á ýmsa galla í greiningu Lindzen. Það kom í ljós að niðurstaðan fyrir hina lágu jafnvægissvörun loftslags var háð vali á því hvaða byrjunar- og endapunktur var valinn við greininguna. Litlar breyingar í því vali gerði það að verkum að gjörólík niðurstaða fékkst. Reyndar var það þannig að með því að færa til þessa byrjunar- og endapunkta þá var hægt að fá hvaða jafnvægissvörun sem maður vildi.
Mynd 2: Hlýnunar- (rauð lína) og kólnunartímabil (blá lína) í hitabeltissjó (20°S-20°N). Tímabil sem notuð voru af Lindzen og Choi 2009 (fylltir hringir) og annarskonar tímabil (opnir hringir) (Trenberth o.fl. 2010).
Annar meiriháttar galli í greiningu Lindzen og Choi er að þeir reyna að reikna út hnattræna jafnvægissvörun loftslags út frá gögnum í hitabeltinu. Hitabeltið er ekki lokað kerfi töluvert af orku flyst á milli hitabeltisins og heittempruðu beltanna. Til að reikna hnattræna jafnvægissvörun loftslags, þá þarf að nota hnattrænar mælingar.
Það er staðfest í annarri grein, sem birtist í byrjun maí (Murphy 2010). Í þessari grein kemur fram að smáar breytingar í hitafærslu milli hitabeltisins og heittempruðu beltanna getur yfirgnæft merki frá hitabeltinu. Niðurstaða þeirra er sú að jafnvægissvörun loftslags verði að reikna út frá hnattrænum gögnum.
Að auki kom út grein fyrir stuttu, þar sem greining Lindzen og Choi 2009 var endurtekin og hún borin saman við niðurstöður þar sem notuð voru nánast hnattræn gögn (Chung o.fl. 2010). Þau gögn benda til heildar magnandi svörunar og niðurstaða höfundar er sú að það sé ekki fullnægjandi að reikna út hnattræna jafnvægissvörun loftslags út frá gögnum úr hitabeltinu.
Til að skilja loftslag, þá verður að taka með í dæmið öll tiltæk gögn. Í tilfelli jafnvægissvörunar loftslags og gervihnattagagna, þá er nauðsynlegt að nota hnattræn gögn ekki eingöngu gögn frá hitabeltinu. Einstakar greinar verður einnig að skoða í ljósi annarra sambærilegra ritrýndra greina. Mikill fjöldi greina þar sem litið er á mismunandi tímabil jarðsögunnar sýna hver um sig töluvert samræmda niðurstöðu - jafnvægissvörun loftslags er um 3°C og þar með eru heildar áhrifin í formi magnandi svörunar.
Tengdar færslur á loftslag.is
- Afsanna loftslagsbreytingar fyrri tíma, hlýnun jarðar af mannavöldum?
- Hver er jafnvægissvörun loftslags?
- Vatnsgufa er öflugasta gróðurhúsalofttegundin
- Geta vísindamenn spáð fyrir um loftslag?
- Norðurskautsmögnunin
30.5.2010 | 23:03
Umfjöllun á loftslag.is um danska uppkastið
Þetta er fróðleg þróun mála, sem kemur fram í fréttinni. Hvort hægt er að gera forsætirsráðherra Dana persónulega ábyrgan fyrir því að ráðstefnan fór út í sandinn veit ég ekki, en það má kannski segja að þetta skjal hafi skapað ákveðin óróa á ráðstefnunni. Hér undir má lesa það sem við skrifuðum á loftslag.is daginn sem skjölin komu upp á yfirborðið.
...
Það var uppi fótur og fit á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn þegar skjöl sem lekið var, komu fram í dagsljósið. Þessi skjöl, eru talin vera drög að samningi sem þjóðarleiðtogar hafa átt að skrifa undir í næstu viku. Samkvæmt heimildum þá eru skjölin talin veita ríkari löndum meiri völd og á sama tíma setja Sameinuðu þjóðirnar á hliðarlínuna í framtíðarviðræðum um loftslagsmál. Einnig lítur út fyrir að í skjölunum sé þróunarlöndunum sett ólík takmörk varðandi losun kolefnis á hvern íbúa, miðað við ríkari lönd árið 2050. Þetta er talið hafa þá þýðingu að ríkari þjóðir geti losað u.þ.b. tvöfalt meira 2050, en þróunarlöndin. Hinn svokallaði Danski texti, var leynilegt skjal, sem aðeins einstaklingar í innsta hring ráðstefnunnar höfðu unnið að. Í þeim hópi eru m.a. lönd eins og Bretland, Danmörk og Bandaríkin. Aðeins þátttakendur frá örfáum löndum höfðu haft möguleika á að líta þennan texta augum, eftir að hann var kláraður nú í vikunni.
Samkomulaginu í skjalinu sem lekið var til the Guardian, sýnir frávik frá Kyoto bókuninni, en samkvæmt Kyoto áttu þær þjóðir sem í gegnum tíðina hafa losað mest af gróðurhúsalofttegundum, að skila meiri minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda en aðrar þjóðir. Samkvæmt skjalinu þá á Alþjóða bankinn (World Bank) að taka við stjórn fjárstuðnings vegna loftslagsbreytinga, en það er einnig breyting frá því sem var í Kyoto bókuninni.
Greining á skýrslunni, gerð af þróunarlöndunum, hefur komist í hendur the Guardian. Þessi greining sýnir fram á ýmislegt sem veldur þeim áhyggjum, þar á meðal eftirtaldir punktar:
- Telja þróunarlöndin að neyða eigi þau til að samþykkja ákveðin losunartakmörk, sem ekki voru í fyrri skjölum
- Flokka á fátækari lönd frekar, með því að búa til nýjan flokk sem kallaður er þau mest berskjölduðu
- Veikja á áhrif Sameinuðu þjóðanna í að höndla fjármagn vegna loftlagsmála
- Ekki á leyfa þróunarlöndunum að losa meira en 1,44 tonn af kolefni á ári á mann, fyrir 2050, á meðan ríkari lönd fá að losa 2,67 tonn
Þau þróunarlönd sem hafa séð textan eru sögð vera ósátt við hvernig staðið er að málinu, án viðræðna við þau.
Hægt er að lesa nánar um þetta mál á the Guardian, ásamt því að skoða skjalið sjálft hér. Það er spurning hvaða áhrif þetta hefur á viðræðurnar og hvort þetta skjal er eitthvað sem var hugsað sem uppkast að einhverskonar samkomulagi og svo hvort að þjóðirnar geti fundið lausn á málinu þrátt fyrir lekann á skjalinu. En væntanlega verður að telja líklegt að þetta muni hafa einhver áhrif á framgang mála. Samkvæmt þessari heimild, þá er skjalið 10 daga gamalt og gæti hafa tekið breytingum síðan þá.
...
Tengt efni á loftslag.is:
![]() |
Rasmussen klúðraði málum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.5.2010 | 10:37
Nýr gestapistill | Orkusetur
Gestapistill eftir Sigurð Inga Friðleifsson framkvæmdastjóra Orkuseturs var birtur á loftslag.is í dag. Pistillinn fjallar um nýja reiknivél sem gerir notendum kleift að reikna út eldsneytisnotkun bifreiða, m.a. með tilliti til kostnaðar og losun á CO2.
Árið 2020 hefur verið notað sem viðmiðun í áætlunum ríkja í loftlagsmálum og stefna ríki að mismunandi miklum samdrætti fyrir þann tíma. Ef miðað er við meðallíftíma bifreiða þá er ljóst að langstærstum hluta bifreiða sem nú er á götum landsins verður skipt út fyrir árið 2020. Ef neytendur velja bifreiðar með t.d. 20% lægra útblástursgildi þá er ljóst að samdráttur í útblæstri frá samgöngum verður kringum 20% minni fyrir árið 2020.
Nánar má lesa um þetta á loftslag.is; Orkusetur | Ný reiknivél.
Tengt efni á loftslag.is:
29.5.2010 | 15:31
3 Myndbönd
28.5.2010 | 09:23
Vísindin á bak við fræðin
27.5.2010 | 09:39
Súrnun sjávar hraðari en fyrir 55 milljónum ára
26.5.2010 | 08:37
Hitabylgjur í Evrópu
24.5.2010 | 13:58
Er CO2 mengun?
22.5.2010 | 12:09
Smávegis um hafís
21.5.2010 | 12:16
Efasemdir eða afneitun
20.5.2010 | 20:38
Fordæmalaus hlýnun Tanganyika vatns
19.5.2010 | 10:55
Hvenær fer bráðnun Grænlandsjökuls á fullt?
18.5.2010 | 16:53
Heitasti apríl og tímabilið janúar - apríl
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.5.2010 | 08:40