26.4.2009 | 23:47
Hví að blogga um loftslagsmál?
Ég tók það upp hjá sjálfum mér að blogga um loftslagsmál fyrir nokkrum vikum síðan, því mér fannst sem sumir bloggarar og lesendur þeirra væru í mörgum tilfellum að fara með rangt mál, en margir hverjir hafa ansi skrítnar upplýsingar í höndunum um það hvað er að gerast á þessari jörð - sumir halda að ekki sé að hlýna, aðrir segja að ekki sé að hlýna af mannavöldum og sumir halda því jafnvel fram að það sé bara gott ef það er að hlýna. Áður hafði ég skautað í gegnum hitt og þetta og komist að þeirri niðurstöðu að líklega væri jörðin að hlýna og að allt benti til þess að það væri af mannavöldum, en ég var alls ekki viss en hafði gaman af því að rökræða þessi mál og finna upplýsingar með og á móti. Skemmtilegt áhugamál jafnvel.
Fyrst eftir að ég byrjaði að blogga um þetta, þá tók ég það því upp á mitt einsdæmi að skoða þær upplýsingar sem eru til á netinu, en netið er endalaus uppspretta upplýsinga um hin ýmsustu álitamál. Ég hef eytt ótal kvöldstundum síðustu vikur við að skoða hitt og þetta um þessi mál, en á netinu má finna hafsjó af upplýsingum um hlýnun jarðar af mannavöldum og einnig fullt af síðum um menn sem fullyrða að kenningin sé röng.
Ég las bókina Gróðurhúsaáhrif og Loftslagsbreytingar eftir Halldór Björnsson, auk þess sem ég hef blaðað í gegnum skýrslu sem gefin var út í fyrra um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Íslandi (pdf 10 mb). Þessi rit eru á vel skiljanlegu máli og enginn heimsendastíll í þeim, en rauði þráðurinn er þó sá að hlýnun jarðar af mannavöldum er raunveruleg og áhrifa þeirra gætir nú þegar og að allt bendir til þess að þetta eigi eftir að versna.
Þetta var í ákveðinni mótsögn við margt af því sem maður hefur verið að lesa á erlendum netsíðum, en þar eru ákveðnar síður sem endurspegla þær skoðanir sem margir netverjar íslenskir halda fram um hlýnun jarðar, að búið sé að afsanna kenningar um hlýnun jarðar af mannavöldum, talað um samsæri vísindamanna og annað í svipuðum stíl.
Svo rak á fjörur mínar Ritið: 1/2007 og Ritið 2/2008 (takk Guðni). Það síðarnefnda verð að segja að ætti að vera skyldulesning fyrir áhugafólk um loftslagsbreytingar - þá á ég að sjálfsögðu við greinarnar sem fjalla um hlýnun jarðar (en fjölbreyttar greinar um önnur mál eru í þessu tímariti).
Ég ætla að fjalla lítillega um Ritið 2/2008, en mæli einnig með grein Guðna í Ritinu 1/2007 sem fjallar um gróðurhúsaáhrifin og íslenska umræðuhefð.
Þar er grein eftir Þorstein Vilhjálmsson sem heitir Viðhorf og vistkreppa, sem er eiginlega sögulegt yfirlit um hugmyndir að vistkreppu, auðlindaþurrð og hlýnun jarðar. Einn punktur vakti helst athygli mína en það er að spár um framtíðina (t.d. hlýnun jarðar), eru ekki í raun forsagnir um það sem koma skal, heldur aðvaranir um það sem getur gerst ef ekki verður brugðist við, því falla þessar spár um sjálft sig ef brugðist er við vandanum (eins og gert var með ósonlagið). Þetta eru því ekki í raun heimsendaspámenn, heldur eru þetta aðvaranaorð frá mönnum sem hafa vit í sínu fagi. Lokaorðin voru líka viðeigandi:
Að lokum er rétt að tilfæra hér frægt spakmæli frá Kenía sem lýsir kjarna málsins. Í rauninni ættu allar ritsmíðar um umhverfismál að enda á því:
Við höfum ekki fengið jörðina til eignar frá foreldrum okkur; við höfum hana að láni frá börnunum okkar.
Grein Halldórs Björnssonar og Tómasar Jóhannessonar er skyldulesning, þar er fjallað um á einföldu máli hvað er lagt til grundvallar kenningunni um gróðurhúsaáhrifin og hlýnun jarðar og afleiðingar þeirra. Einnig er farið yfir nokkur rök efasemdamanna um hlýnun jarðar af mannavöldum og þau hrakin.
Þarna var einnig grein eftir Snorra Baldursson um áhrif hlýnunar á lífríki jarðar og Íslands, svolítið yfirborðskennt enda um víðfeðmt efni að ræða og erfitt að kafa djúpt í slíkt í lítilli grein í tímariti - þetta efni á erindi í bók og mæli ég með að einhver kýli á að skrifa þá bók. Fínt yfirlit samt.
Þá er merkileg grein eftir Guðna Elísson um efahyggju og afneitun. Fjallar hann um pólitíkina í kringum þetta viðfangsefni og umfjöllun manna hér á landi um hlýnun jarðar. Mjög uppljóstrandi og lýsir hann ótta frjálshyggjumanna við þessar kenningar og hvernig þær geti grafið undan þeirra hugmyndum um frelsi (þetta er mín túlkun). Hann vitnar í Hannes Hólmstein hér:
"Hvers vegna ættum við að afsala okkar þægilegu lífi venjulegs Vesturlandamanns fyrir orð þeirra ein? Kapitalisminn hefur fært okkur stórkostleg lífsgæði. Ég ætla ekki í björgunarbátana, fyrr en ég er viss um, að skipið sé að sökkva," sagði Hannes Hólmsteinn Gissurarsson í einni af mörgum greinum sínum um umhverfismál um þá sem varað hafa við hættunni af alvarlegum loftslagsbreytingum. Skipið sem Hannes vísar til er jörðin sjálf, en Hannes fer ekki nánar út í hvert hann ætlar að fara.
Það sem vakti þó einna helst athygli mína var þýdd grein í Ritinu og er eftir George Monbiot, en sú grein fjallar um afneitunariðnaðinn. Eftir lestur þeirrar greinar áttar maður sig á þeim sterku öflum sem hvíla þungt á baki margra af þeim röddum sem eru hvað háværastar um það að hlýnun jarðar af mannavöldum sé bull. Búið er að sá efasemdafræjum víða (og hér á landi virðast þau vaxa vel).
Margir geta vottað það að ég hef verið duglegur síðustu vikur að blogga um þetta málefni og jafnvel svarað færslum annarra um þessi mál og reynt að rökstyðja mál þeirra sem halda því fram að hlýnun jarðar af mannavöldum sé veruleiki. En alltaf koma upp aftur og aftur sömu rökin, sem hafa verið hrakin og því fer þetta að verða leiðingjarnt til lengdar. Því er ég mikið að íhuga að hætta þessu bara, leyfa efasemdaröddunum að eiga sig, enda virðist pólitíska landslagið loks vera að lagast út í hinum stóra heim (Obama virðist ætla að gera góða hluti og loks er kominn forseti sem er ekki í eigu afnetunarsinnanna). Þá er sá flokkur hér á landi sem er hvað harðastur á því að hlýnun jarðar af mannavöldum sé ekki staðreynd, kominn í stjórnarandstöðu og vonandi tekur við ríkisstjórn sem tekur á þessum málum af festu.
Því er það eingöngu vandræðalegt að hér á landi skuli vera svona sterkar raddir á móti kenningunni um hlýnun jarðar, en ég held að það muni ekki hafa nein úrslitaáhrif á þróunina hnattrænt séð - þótt vissulega séu Íslendingar hálfgerðir umhverfissóðar hvað varðar útblástur CO2 - og þótt eingöngu væri fyrir stolt okkar sem upplýsta þjóð, þá ættum við að standa okkur betur.
23.4.2009 | 00:05
Suðurskautið
Ég hef ætlað að fjalla um hafísútbreiðslu á Suðurskautinu í nokkurn tíma, en ekki haft tíma til þess.
Það sem vakið hefur furðu vísindamanna og áhugamanna um loftslagsbreytingar er sú staðreynd að hafís á Suðurskautinu hefur aukið útbreiðslu sína jafnt og þétt frá því mælingar hófust (um 1979). Þetta er á sama tíma og hafís á Norðurskautinu hefur jafnt og þétt verið að minnka og þynnast. Þetta má sjá t.d. í nýlegu línuriti sem sýnir samanburð hafísútbreiðslu fyrir marsmánuð síðastliðin 30 ár.
Hafísútbreiðsla á Suðurskautinu í marsmánuði frá 1979-2009 (NCDC National Climate Data Center).
Þessi staðreynd hefur verið notuð sem rök efasamdamanna gegn hlýnun jarðar af mannavöldum.
Áður en lengra er haldið er rétt að gera greinarmun á hafís og íshellum. Hafís er lagnaðarís sem myndast á veturna og það fer mikið eftir hitastigi sumarsins á eftir hvaða útbreiðslu hann heldur áður en vetur hefst á ný - hann hefur sem sagt verið að aukast undanfarna áratugi á Suðurskautinu, á sama tíma og jörðin í heild er að hlýna.
Líkön ná ekki að líkja eftir þessum aðstæðum og sumar spár ganga út á að hann ætti að vera búinn að minnka um 1/3 í lok þessarar aldar- því er óljóst hvernig stendur á því að hann er að auka útbreiðslu sína nú á tímum hnattrænnar hlýnunar.
Hvaða aðstæður gera það að verkum að hafísinn er að aukast á Suðurskautinu?
Nýleg kenning leitar skýringa í þynnandi ósonslagi. Vísindamenn sem hafa stúderað ósonlagið hafa sýnt fram á að gatið í ósonlaginu yfir Suðurskautinu hafi breytt veðrakerfinu í kringum Suðurskautslandið. Þessar breytingar valda því að hlýtt loft hefur blásið yfir Suðurskautsskagann (Antarctic Peninsula) sem er á Vestur-Suðurskautinu og kælt loftið yfir Austur-Suðurskautinu.
Ef Suðurpóllinn væri á miðju Suðurskautinu þá myndu vindar blása í fallegum hring í kringum skautið. En miðja meginlandsins er í raun staðsett lítillega frá pólnum. Af því leiðir að vindarnir blása óreglulega í hálfgerðum hvirfilstraumum af landi (sjá myndatexta).
Höfundar hafa keyrt tölvulíkön af lofthjúpnum með og án gatsins á ósonlaginu og fundu út að þynning ósonlagsins hefur aukið vindstyrk og dregið hlýtt loft frá Chile í Suður Ameríku - sem valdið hefur mikilli hlýnun á Suðurskautsskaganum og á móti orsakað sterkan kaldan blástur yfir Rosshafi.
Vindur blæs réttsælis í kringum Suðurskautið, blæs af Viktoríulandi (Victoria Land) sem myndar kalt streymi lofts yfir Rosshafi (Ross Sea), þar sem hafís er að aukast. Að sama skapi blæs hlýr vindur frá Suður-Ameríku og hitar upp Suðurskautsskagann (Antarctic Peninsula), en þar eru stórar íshellur að leysast upp. (Mynd tekin af www.newscientist.com).
Gervihnatttagögn sýna að ísinn hefur minkað vestur af Suðurskautsskaganum en vaxið á Rosshafi . Samtals hefur ísinn verið að aukast síðastliðin 30 ár og tengja vísindamenn því þynningu ósonlagsins út frá fyrrnefndri líkanagerð. Þeir útiloka þó ekki að náttúrulegar ástæður ráði för.
Önnur kenning varðandi aukna hafísútbreiðslu á Suðurskautinu:
Ein kenning gengur út á það að hafís sé að aukast vegna minnkunar á uppstreymi hita í lögum sjávar vegna bráðnunar hafíss. Lauslega er kenningin svona:
Lofthiti eykst - hafís minnkar - selta minnkar - hlýrri og seltuminni sjór minnkar eðlisþyngd uppsjávarins - meiri lagskipting í lögum sjávar - hitastreymi minnkar úr neðri lögum sjávar - bráðnun hafíss minnkar af völdum sjávarhita - hafís eykst.
Ástæður þess að hafís minnkar er samkvæmt þessari kenninu vegna þess að lofthiti eykst þá eykst bráðnun, upphaflega stuðlar sjávarhiti einnig að þessari bráðnun en vegna eðlisbreytinga þá slokknar á bráðnuninni af völdum sjávarhita og hafís eykst.
----------------------
Ég veit ekki hvor kenningin er betri eða hvort önnur betri eigi eftir að koma fram (ég er ekki búinn að stúdera þetta í þaula og því get ég verið að missa af einhverri góðri kenningu).
Eitt er víst að hafísinn í kringum Suðurskautið hegðar sér undarlega, en það er samt að hlýna á Suðurskautinu. Það er því útilokað að efasemdamenn geti notað þetta sem rök gegn hnattrænni hlýnun, nema til að slá ryki í augu almennings.
Mótrök | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2009 | 23:57
Gott mál... ef...
Þetta gæti mögulega orðið "gott" mál fyrir okkur Íslendinga... ef allt fer á versta veg fyrir meirihluta jarðarbúa. Þá er það bara spurning hvort það er siðleysi að ætla að græða á eymd annarra þjóða - en við höfum svo sem gert það áður.
Samhliða íslausum pól er útlit fyrir að það verði þurrkar víða um heim, flóð og sjávarflóð, ólíft í marga mánuði á hverju ári vegna hita í sumum löndum og landsvæðum. Allt þetta þýðir uppskerubrestur, hungursneyðir og búferlaflutningar í mörgum af þeim löndum sem fjölmennust eru - stríð og almenn eymd fylgja yfirleitt í kjölfarið á slíku.
Við skulum þó vona að þetta verði ekki og að hægt verði að snúa hlýnun jarðar til baka og mér finnst að við ættum frekar að einbeita okkur í því að gera okkar besta til að snúa hlýnuninni við, frekar en að ætla að græða á henni.
Ef það gengur eftir að það verði íslaust á Norðurskautinu (í lok sumars, áfram verður lagnaðarís að vetri), sem allt bendir til (sjá færslu hér)... þá gæti nefnilega svo margt annað verið búið að fara úrskeiðis í heiminum að ég efast um að það verði eitthvað til að flytja, jú kannski hjálpargögn frá þeim fáu stöðum sem verða aflögufærir til neyðaraðstoðar til staða sem verr fara út úr þessu.
Íslendingar ættu því að gera sitt besta til að þetta verði ekki að veruleika, t.d. með því að segja nei við CO2-útblástursríka stóriðju og nýta orkuna frekar til einhvers annars, t.d. til ræktunar (fyrirsjáanlegur matarskortur í heiminum myndi leiða til þess að það yrði örugglega hagstætt einhvern tíman) eða til að framleiða rafmagn á bíla - sem myndi enn fremur hjálpa í baráttunni gegn hlýnun. Við eigum ekki að þurfa undanþágu frá alþjóðasamningum til að losa meira CO2 en aðrir.
Ég skil vel fólk sem hugsar mest um sinn eiginn hag, auðvitað vil ég að minn hagur og hagur minna barna verði sem bestur, en helst ekki á kostnað annarra.
Auðvitað ef við gerum okkar besta til að snúa hlýnuninni við og samt sem áður verður hlýnun, þá getum við með betri samvisku nýtt okkur það okkur til hagsbóta, án þess að samviskubitið verði alltof mikið.
![]() |
Góð skilyrði fyrir umskipunarhöfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pólitík | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2009 | 16:09
Sólin
Hér má sjá umfjöllunina sem þessi frétt er skrifuð upp úr.
Eins og segir í greininni þá var ákveðið hámark í sólinni árið 1985, um það eru flestir vísindamenn sammála (sjá þó hvernig mönnum greinir á í þessari færslu hér). Sólin hefur semsagt dregið úr virkni sinni á sama tíma og það hefur hlýnað.
Ef það er rétt að sólin dragi smám saman úr virkni sinni á næstu áratugum, þá má draga þá ályktun að hlýnunin verði ekki eins áköf og hún var í lok síðustu aldar, en líklegt þykir þó að það haldi nú samt áfram að hlýna, sérstaklega þar sem útblástur hefur ekkert dregið saman samkvæmt nýjustu tölum um útblástur á CO2, þrátt fyrir efnahagssamdrátt.
Það hefur nefnilega verið sýnt fram á að útblástur CO2 er búið að vera ráðandi í að stjórna hitafari síðastliðna áratugi, sjá t.d. hér, sérstaklega myndina neðst.
Hér er svo myndband fyrir þá sem eru á þeirri skoðun að það sé sólin sem sé að valda hinni hnattrænu hlýnun, sem nú er í gangi.
![]() |
Dregur úr virkni sólar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.4.2009 | 09:55
Fljót heimsins að minnka
Afleiðingar | Breytt s.d. kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.4.2009 | 23:02
Ritið
20.4.2009 | 22:45
Climate Denial Crock - CO2 fylgir hita en ekki öfugt.
Myndbönd | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2009 | 22:57
Vöktun lífríkis
17.4.2009 | 21:16
Encounters at the end of the world
Myndbönd | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2009 | 22:38
Veðurfar jarðar í marsmánuði 2009.
Gögn | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2009 | 21:44
Virkar varla
9.4.2009 | 00:24
Er að kólna?
Mótrök | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.4.2009 | 22:31
Íslendingar standa sig vel - eða hvað?
Pólitík | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2009 | 22:49
Enn um hafís Norðurskautsins
Gögn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.4.2009 | 22:19
Climate Denial Crock - sjávarstöðubreytingar
Myndbönd | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)