Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009
22.6.2009 | 22:55
Sjávarstöðubreytingar
Hækkun sjávarstöðu er ein af verri afleiðingum hækkandi hitastigs og því eitt af því sem menn eru að reyna að átta sig á. Við hækkun sjávarstöðu geta þéttbýl landsvæði farið undir sjó, sjávarflóð geta aukist og haft verri afleiðingar, með tilheyrandi mengun grunnvatnsstöðu og strandrofi. En hvað mun sjávarstaða hækka mikið það sem af er þessari öld?
Í skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi er eftirfarandi texti:
Líkleg hækkun sjávaryfirborðs til loka aldarinnar er háð því hversu mikið hlýnar, en varmaþennsla veldur um 70% af hækkuninni. Stór óvissuþáttur í sjávaryfirborðshækkun felst í hugsanlegum breytingum á ísflæði í stóru íshvelunum á Grænlandi og Suðurskautslandinu. Þessi óvissuþáttur er ekki tekinn inn í útreikninga IPCC, en gæti aukið við sjávaryfirborðshækkunina. Hér að neðan verður því miðað efri mörk hækkunarinnar sem kemur fram hjá IPCC. Þetta er ófullkomin aðferð við að vega saman óþekkta óvissu vegna hugsanlegrar aukningar ísflæðis og þekktrar óvissu vegna annarra þátta, og mikilvægt er að hafa í huga að ekki er hægt að útiloka mun meiri sjávaryfirborðshækkun
Með því að taka hæstu gildi IPCC skýrslunnar fást allt að 0,6 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100 (frá árinu 1990) miðað við 4°C hækkun hitastigs. Í skýrslunni sem ég vitna í hér fyrir ofan kemur einnig fram að frá 1904-2003 hafi sjávarborð hækkað um 1,74 mm á ári (eða um 17 sm á öld), en einnig kemur fram að frá 1997-2007 hafi sjávarborð hækkað um 3,4 mm á ári og því ljóst að hækkun yfirborðs sjávar hefur sótt í sig veðrið, þá vegna aukinnar hlýnunar sjávar og aukinnar bráðnunar jökla.
Það skal tekið fram að allar sjávarstöðubreytingar sem ég tala um hér, eru hnattrænar breytingar fengnar út með mælingum á sjávarföllum á síðustu öld og síðar með gervihnattamælingum. Þá er búið að leiðrétta fyrir landrisi og landsigi, en það flækir málið víða, t.d. hér á Íslandi. Sem dæmi þá er land að rísa á Suðausturlandi vegna minna jökulfargs og er það frá 10-15 mm á ári. Á móti kemur að landsig er víða annars staðar, t.d. er það um 3,4 mm á ári í Reykjavík og allt að 8 mm á ári yst á Reykjanesi. Hugsið það bara þannig að þegar talað er um hækkun sjávarstöðu í kringum aldamótin 2100, þá má bæta 0,34 m við sjávarstöðuhækkunina í Reykjavík og 0,8 m við hækkunina á Reykjanesi, en draga 1,0-1,5 m frá hækkuninni á Suðausturlandi.
Í Kaupmannahafnarskýrslunni kemur einnig fram að hækkun sjávarstöðu hafi sótt í sig veðrið undanfarin ár, eins og sést á þessari mynd:
Sjávarstöðubreytingar frá 1970, smella þarf á myndina tvisvar til að sjá hana í réttri stærð, en skýringar eru á ensku.
Nýlegar rannsóknir um mögulega hækkun sjávarstöðu eru nokkuð hærri en áætlanir IPCC gerir ráð fyrir, t.d. gerir ein rannsókn ráð fyrir möguleikanum á 0,5-1,4 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100. Önnur rannsókn gerir ráð fyrir 0,8-2,0 m hækkun sjávarstöðu til ársins 2100.
Eitt eiga allar tilgátur um hækkun sjávarstöðu sameiginlegt og það er að jafnvægi muni ekki nást fyrr en eftir nokkur hundruð til þúsund ár og að sjávarstaða muni hækka töluvert á þeim tíma. Í dag las ég frétt um rannsóknarhóp sem segir að þessi jafnvægisstaða muni verða í kringum 25 m. Munið að það er ekki talið líklegt að það gerist á næstu áratugum, frekar horft til næstu þúsund ára eða svo. Með samsætumælingum í götungum í setlögum Rauða hafsins og samanburði við ískjarna í Suðurskautinu telja vísindamennirnir sem sagt að miðað við núvarandi CO2 magn í andrúmsloftinu þá sé jafnvægisstaða sjávarborðs um 25 m hærra en það er í dag (+/- 5 m). Það er reyndar í nokkru samræmi við hærri sjávarstöður sem eru um 3ja milljón ára gamlar og eru í 15-25 m hæð yfir núverandi sjávarmáli - en á þeim tíma var magn CO2 svipað og það er í dag.
Við getum svo sem huggað okkur við það að menn telja að þetta gerist ekki fyrr en eftir þúsund ár eða svo, nema hvað að ég las í dag frétt um nýja rannsókn sem bendir til þess að jökulbreiður geti hörfað hraðar en menn töldu áður og þar með hraða því að jafnvægi sjávarstöðuhækkana náist - það geti jafnvel gerst á örfáum hundruðum ára.
------
Það skal á það bent að jafnvel þótt þessar tvær fréttir séu ótengdar, þá tengdi ég þær svona saman og því er þetta mín túlkun á þeim. Segjum að það gerist á næstu 500 árum að jafnvægi upp á 25 m náist og að sjávarstöðuhækkunin verði jöfn og þétt fram að því. Þá yrði sjávarstaðan árið 2100, um 5 m hærri en hún er í dag og 25 m hærri árið 2500.
Mér datt því í hug að leika mér smá, sérstaklega eftir að ég rakst á skemmtilega viðbót í Google Earth. Þeir sem eru með Google Earth geta prófað eftirfarandi:
Opnið eftirfarandi viðbót í Google Earth: Rising Sea Level animation
Hér eru svo leiðbeiningar um hvernig stilla skuli Google Earth: Sjá ->hér<-
Niðurstaðan út úr þessum æfingum eru eftirtaldar tvær myndir sem sýna 5 m sjávarstöðuhækkun og 25 m:
Hækkun sjávarstöðu um 5 m í Reykjavík (ljós skuggi) samkvæmt Google Earth (smella til að stækka).
Hækkun sjávarstöðu um 25 m í Reykjavík (ljós skuggi) samkvæmt Google Earth (smella til að stækka).
Ég var þó ekki alveg sáttur við Google Earth, því mig grunar að landlíkan þeirra sé eitthvað vitlaust hér við land (auk þess sem skerpan er ekki nógu góð á myndinni, þegar ég er í Google Earth heima - kann ekki að laga það). Mig grunar að þessi viðbót virki samt nokkuð vel á þéttbýlari stöðum heims, t.d. London, New York og svo framvegis, svo endilega prófið.
Ég ákvað að búa mér til mitt eigið kort af vestanverðri Reykjavík og fylgdi hæðarlínum að mestu:
Sjávarstöðuhækkanir í Reykjavík á næstu öldum, fjólublátt sýnir 5 m hækkun og ljósblátt 25 m hækkun sjávarstöðu (smella til að stækka).
En þetta er að sjálfsögðu óljóst - eitt er þó víst að ef ég ætla að kaupa mér land í framtíðinni, sem ég vil að verði einhvers virði fyrir afkomendur mína, þá mun ég skoða hversu hátt yfir sjó landið er, svo viss er ég um að sjávarborð muni rísa töluvert á næstu hundrað árum.
22.6.2009 | 00:29
Samsæri vísindamanna
Maður heyrir stundum þau rök gegn kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum að þetta sé eitt allsherjar samsæri.
Það er ekki auðvelt að rökræða við þá sem halda því fram, en maður getur þó bent á glufur í þeim málflutningi.
Það er í fyrsta lagi frekar langsótt að þúsundir vísindamanna séu í einu allsherjar samsæri, hvort heldur það væri meðvitað eða ekki. Efasemdamenn benda oft á að vísindamenn þurfi á þessum heimsendaspádómum að halda til að fá styrki til rannsókna. Það gleymist í þeirra rökum að benda á það að það hefur tekið vísindamenn meira en öld að komast að þeirri niðurstöðu að gróðurhúsaáhrifin eru raunveruleg og að menn geti með losun gróðurhúsalofttegunda haft áhrif á loftslag. Ekkert samsæri þar í gangi, kenningar hafa flogið fram og til baka á milli vísindamanna undanfarna öld og síðastliðna tvo áratugi hefur sú kenning orðið ríkjandi - vegna þess að gögnin styðja þessa kenningu (sjá t.d. CO2 og áhrif á loftslagsbreytingar. Nokkur mótrök.) en gögnin styðja ekki aðrar kenningar (sjá t.d. Er það virkilega ekki sólin?, Útblástur eldfjalla).
Það er vissulega rétt að það er erfiðara fyrir þá sem aðhyllast aðrar kenningar að koma þeim í gegnum það ferli að fá sínar niðurstöður birtar og ritrýndar, en það efast enginn vísindamaður um það að ef slík kenning kemur, studd af vísindalegum gögnum, þá myndu menn hlusta á það. Reyndar er það þannig að ég efast ekki um að menn myndu fagna ef sýnt yrði fram á að við þyrftum ekki að óttast losun gróðurhúsalofttegunda - ég hugsa meira að segja að sá hinn sami vísindamaður fengi Nóbelinn og yrði hylltur sem hetja. Því miður hefur enginn slíkur komið fram, enn sem komið er.
Menn halda enn í vonina að kenning Svensmark eigi eftir að reynast lausnin, en enn sem komið er hefur kenning hans ekki hlotið mikinn hljómgrunn. Það getur þó allt gerst, skoðið t.d. grein á bloggsíðu Ágústs Bjarnasonar (Nýjar fréttir af Svensmark tilrauninni hjá CERN í Sviss...). Ég er þó ekki bjartsýnn á að hans kenning hreki kenninguna um hlýnun jarðar af mannavöldum.
Varðandi peningahliðina, þá hafa vísindamenn bent á að það væri tryggara fyrir þá, til að fá meiri styrki, að segja að það sé óvissa um hlýnun jarðar af mannavöldum, frekar en að segja að nú sé niðurstaða komin í málið og að nú þurfi að bregðast við á pólitíska sviðinu.
Reyndar er það svo að undanfarinn áratug hefur kenningin um hlýnun jarðar af mannavöldum þurft að berjast við öfl sem svo sannarlega hafa töluverðan pening á milli handanna. Öfl sem hafa bæði styrkt "vísindamenn" til að halda á lofti öðrum kenningum og þá helst efanum um að hlýnun jarðar af mannavöldum sé raunveruleg - auk þess sem þeir hafa ritskoðað eigin vísindamenn.
Það að hin "illu öfl" hafi styrkt vísindamenn segir ekkert um það hvort efasemdamenn hafi rangt fyrir sér eða ekki, það segir heldur ekkert til um sannleiksgildi kenningunnar um hlýnun jarðar af mannavöldum þótt meirihluti vísindamanna aðhyllist þá kenningu. Það sem skiptir máli eru gögnin og gögnin segja að jörðin sé að hlýna og að hlýnunina sé að mestu leiti hægt að rekja til losun á gróðurhúsalofttegundum (þá mest CO2) og að frekari hlýnun sé í kortunum sem muni hafa slæmar afleiðingar á samfélag manna, sérstaklega í vanþróuðu ríkjunum.
Mótrök | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.6.2009 | 01:27
Enn ein skýrslan
Nú er komin út enn ein skýrslan sem maður þarf að prenta út og lesa í sumarfríinu. Hér er um að ræða skýrslu sem ætluð er að brúa bilið frá IPCC skýrslunum 2007 og uppfæra þá þekkingu sem bæst hefur við síðan þá. Hún er unnin upp úr ráðstefnu sem haldin var í mars í Kaupmannahöfn og virðist full af nýjum upplýsingum sem hjálpa mun þjóðum heims að ákveða hvað skuli gera, hvað varðar viðbrögð við loftslagsbreytingum. Eftir að hafa rennt mjög lauslega í gegnum skýrsluna þá sýnist mér að það helsta í skýrslunni sé þetta:
Skýrslan sýnir fram á að staðan er verri í dag, en áætlanir IPCC gera ráð fyrir og að hættan hafi aukist á dramatískum áhrifum loftslagsbreytinga. Þá fer hún yfir viðbrögð til að takmarka áhrifin. Þá segir í skýrslunni að aðgerðarleysi sé óafsakanlegt í ljósi þeirra þekkingar sem við búum yfir. Eflaust er mun meira í henni, en skoða má skýrsluna ->Hér<-
Á sama tíma birtir umhverfisstofnun þær fréttir að losun íslendinga á gróðurhúsalofttegundum hafi aukist um 6% milli árana 2006 og 2007.
18.6.2009 | 22:30
Bandarísk skýrsla um hlýnun jarðar
Ég vil endilega benda á löngu tímabæra skýrslu sem bandarískir vísindamenn voru að gera fyrir þingnefnd. Í tíð George W. Bush var ekki tekið mikið mark á aðvörunum vísindamanna og voru helstu ráðgjafar Bush-stjórnarinnar með útstrikunarpennan á lofti í boði olíufyrirtækjanna. En það er alltaf von og nú ætlar Obama greinilega að taka á málunum og opna eyru ráðamanna og almennings fyrir þeirri vá sem er byrjuð að banka á dyrnar.
Hægt er að nálgast skýrsluna um ástandið og horfur í loftslagsmálum út frá bandarískum hagsmunum ->Hér<-, en einnig er rætt lítillega um hnattræn áhrif.
10 lykilatriði skýrslunnar:
1 - Hlýnun jarðar er ótvíræð og fyrst og fremst af völdum manna. Hnattræn aukning í hita síðastliðin 50 ár. Þessi aukning er fyrst og fremst af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.
2 - Loftslagsbreytingar eru byrjaðar í Bandaríkjunum og eiga eftir að aukast. Aukning á úrhellisrigningum, hækkandi hiti og sjávarborð, minnkandi jöklar, sífreri að bráðna, lengri vaxtartími plantna, íslaust lengur á hafi og vötnum og breytingar á vatnsrennsli fljóta.
3 - Áhrif loftslagsbreytinga eru byrjaðar og munu aukast. Þau hafa áhrif á vatn, orku, samgöngur, landbúnað, vistkerfi og heilsu. Þessar breytingar eru mismunandi eftir landsvæðum og eiga eftir að aukast.
4. Loftslagsbreytingar munu auka álagið á vatnsbúskap. Breytingar í vatnsbúskap er mismunandi eftir landsvæðum. Þurrkar vegna minnkandi úrkomu og aukinnar uppgufunar er víða vandamál sérstaklega á vesturströndinni. Flóð og minnkandi vatnsgæði eru líklega á mörgum landsvæðum.
5 - Framleiðsla landbúnaðarvara verður erfiðari. Aukið CO2 hefur jákvæð áhrif á hluta ræktaðs lands og hlýnunar, en eftir því sem það hlýnar meir þá mun ræktun verða erfiðari. Auknar plágur, vatnsvandamál, sjúkdómar og öfgaveður mun gera aðlögun landbúnaðar erfiða.
6 - Hætta hefur aukist fyrir strandsvæði vegna hækkandi sjávarstöðu og storma. Landeyðing og flóð, sérstaklega við Atlantshafið og mexikóflóa, auk eyja í Kyrrahafi og hluta Alaska. Orku og samgöngumannvirki, auk annarra mannvirkja við ströndina eru líkleg til að verða fyrir slæmum áhrifum.
7 - Aukin hætta á heilsubresti manna. Aðalástæður verða aukinn hiti, vatnsbornir sjúkdómar, minni loftgæði, öfgaveður og sjúkdómar vegna skordýra og nagdýra. Minni kuldi hefur einhver jákvæð áhrif. Bætt heilbrigðiskerfi getur minnkað þessi áhrif.
8 - Loftslagsbreytingar mun hafa aukin áhrif á mörg félags- og umhverfisvandamál. Vandamál vegna mengunar, fjölgunar, ofnotkun landgæða og annarra félags, efnahags og umhverfistengdra vandamála munu aukast vegna loftslagsbreytinga.
9 - Farið verður yfir hættulega þröskulda, sem leiða munu til stórra breytinga í loftslagi og vistkerfa. Þröskuldar eins og bráðnun hafíss og þiðnun sífrera, afkoma lífvera allt frá fiskum til skordýraplága sem hafa áhrif á samfélag manna. Því meiri loftslagsbreytingar því verri þröskulda verður farið yfir.
10 - Loftslagsbreytingar framtíðarinnar og áhrif þeirra fara eftir þeim ákvörðunum sem teknar eru í dag. Magn og hraði loftslagsbreytinga mun fara eftir hversu mikil núverandi og framtíðarlosun á gróðurhúsalofttegundum verður. Til að minnka áhrifin þá verður að minnka losun og aðlagast þeim breytingum sem eru nú þegar óumflýjanlegar.
18.6.2009 | 19:36
Vísindaþáttur útvarps Sögu
Á útvarpi Sögu er reglulega vísindaþáttur með ýmsu fróðlegu efni, mæli með því. Ástæðan fyrir því að ég minnist á það núna er að í síðasta þætti var viðtal við Halldór Björnsson loftslagsfræðing eða eins og segir á vefnum stjornuskodun.is:
Halldór Björnsson loftslagsfræðingur hjá Veðurstofu Íslands skýrði frá gróðurhúsaáhrifum og loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á jörðina. Komið var inn á kenningar danska vísindamannsins Henrik Svensmark og bandaríska vísindamannsins Richard Lindzen um kólnun jarðar.
Hægt er að hlusta á síðasta þátt og fleiri þætti frá síðustu mánuðum ->hér<-
Frábært framtak hjá umsjónarmönnunum Birni og Sævari og fá þeir þakkir fyrir.
Tenglar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.6.2009 | 01:05
Hvað veldur?
Hvernig vitum við að það erum við mennirnir sem erum að valda þeirri hlýnun sem orðið hefur?
Einfalda svarið í þremur liðum, skoðið tenglana fyrir nánari útskýringar eða tilvísun í þær.
- Aukningin í CO2 er vegna brennslu jarðefnaeldsneytis, þetta vitum við út frá kolefnissamsætum í andrúmslofti (hlutfall C-14, C13 og C12 sjá t.d. útskýringu á Real Climate). Auk þess sem það er augljóst ef skoðuð eru gröf sem sýna aukninguna sem orðið hefur frá upphafi iðnbyltingarinnar - ekki hafið, ekki eldgos, ekkert annað útskýrir aukninguna.
- Eðlisfræði CO2, metans og annarra gróðurhúsalofttegunda segir okkur að þau geisla frá sér hita, nokkuð sem hefur verið vitað í rúmlega öld.
- Hitastig hefur aukist gríðarlega síðan fyrir iðnbyltingu, ekki nóg með það þá hefur það aukist meira undanfarna nokkra áratugi en þekkt er í nánustu fortíð hvort heldur með beinum mælingum eða óbeinum mælingum. Tengslin við aukningu CO2 vegna bruna eru augljós, þrátt fyrir sveiflur í hitastigi sem verða vegna náttúrulegra orsaka, t.d. breytinga í virkni sólar, El Nino eða eldfjalla. Þessar náttúrulegu sveiflur og aðrar útskýra á engan hátt þessa miklu uppsveiflu sem orðið hefur í hitastigi undanfarna áratugi.
Blogg | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2009 | 09:44
Hafísinn 2000-2009
Rakst á vídeó með þróun útbreiðslu hafíss á Norðurslóðum undanfarin níu ár. Takið t.d. eftir lágmarksútbreiðslu hvers árs sem er oftast í september.
Myndbönd | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.6.2009 | 09:20
Loftslag framtíðar
Það eru margar vangaveltur um hvernig loftslagið verður á þessari öld.
Verði ekki gripið til harkalegra aðgerða þá er framtíðarsýnin ekki góð - þá er t.d. líklegt að hnattrænn hiti hækki um allt að 4°C. Það er ekki að ástæðulausu að þjóðir heims stefna að því að hitinn aukist ekki um 2°C. Sjá t.d. myndböndin í færslunni Nokkrar gráður. og grein í NewScientist frá því fyrr í vetur um hvað geti gerst ef hitinn hækkar um 4°C?
Ef menn eru heimakærari, þá er til skýrsla um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á Íslandi (pdf 10 mb)
Hætta á gríðarlegum náttúruhamförum eykst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.6.2009 | 23:39
Smáaurar
Greiði tugi milljarða í bætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pólitík | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.6.2009 | 23:13
Global Governance.
Ég lét til leiðast að horfa á fyrsta hluta myndbands sem Jón Aðalsteinn benti mér á að horfa á. Fyrsta hlutann má sjá hér með aðstoð youtube:
Hér er mitt álit á þessum 10-11 mínútum:
Það er greinilegt að í þessari mynd eru samankomnir helstu forkólfar á móti kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum og þeir endurtaka sömu þvæluna og hefur verið marg hrakin.
Myndin byrjar á því að segja að margir vísindamenn efist um að Al Gore hafi rétt fyrir sér ókey, ég er líka á því að hann hafi ekki alltaf rétt fyrir sér. Ég er þó viss um að hnattræn hlýnun jarðar sé af mannavöldum við erum því sammála um margt þó hann hafi ekki alltaf rétt fyrir sér að mínu mati. (sjá t.d. færsluna Potholer: Gore vs. Durkin)
Næst kemur frétt um staðbundið veðurfyrirbæri í Bandaríkjunum óvenju kalt um páskaleitið. Þar sem við erum að ræða hnattræna hlýnun þá á þetta bara alls ekki við í þeirri umræðu. Þetta skapar vissulega stemmninguna sem þetta áróðursmyndband er að vonast eftir (sjá t.d. færsluna Annar kaldasti apríl á þessari öld!)
Næst koma efasemdir um að CO2 hafi áhrif á loftslag. Þessar efasemdir eru óþarfar (sjá t.d. færsluna CO2 og áhrif á loftslagsbreytingar. Nokkur mótrök.)
Þar næst er gert lítið úr IPCC og sú staðreynd að hún er að einhverju leiti stjórnmálalegs eðlis geri hana ótrúverðuga. Það gleymist að geta þess að af því að hún er stjórnmálalegs eðlis, þá hafa olíuríki t.d. Bandaríkin fengið í gegn breytingar á orðalagi sem hefur gert minna úr vandanum í gegnum tíðina, en vísindin eru þó eins traust og þau geta verið miðað við þá þekkingu þegar hver skýrsla kom út. Ef þeir sem hefðu þekkinguna myndu ráða orðalaginu og stjórnvöld myndu síðan taka fullkomið mark á innihaldi þeirra, þá stæðum við ekki andspænis þeim vanda sem allt stefnir í.
Síðan kemur jarðfræðingur að nafni Ian Clarke, sem hefði greinilega ekki átt að fá sitt prófskirteini á sínum tíma. Fyrst segir hann að sólin sé uppspretta þeirrar hlýnunar sem orðið hefur hvernig hann fær það út þegar öll gögn segja annað skil ég ekki (sjá t.d. færsluna Er það virkilega ekki sólin?) Hann nefnir línurit Gores sem sýnir hversu vel CO2 og hitastig jökul- og hlýskeiða falla saman. Gore fer ekki með ósannindi þar en á það hefur verið bent að Gore minnist ekki á frumástæðuna fyrir því að það hlýnar, þ.e. sveiflur í hreyfingum jarðar; möndulhalli og fjarlægð frá sólu sem dæmi. Þegar hlýnar fer af stað ferli sem losar CO2 og stigmagnar hlýnunina það er því töluverður tímamunur á ferlunum þ.e. CO2 og hlýnuninni. Reyndar er það 800 ára munur eins og efasemdamenn hafa réttilega bent á. Málið er að vísindamenn vita þetta og hafa vitað lengi hvort Gore vissi það er óljóst, en hann einfaldar málið töluvert, mögulega til að flækja ekki myndina sína of mikið veit ekki. Það skiptir ekki máli, því vísindamenn hafa aldrei leynt þeirri staðreynd að CO2 hækkaði 800 árum seinna en hitastig á síðustu hlýskeiðum, enda hafa þeir góðar útskýringar á þeirri hækkun (sjá aftur færsluna CO2 og áhrif á loftslagsbreytingar. Nokkur mótrök.). Þeir vitna í The Great Global Warming Swindle sem sýnt hefur sig vera sjálft heilmikið svindl (sjá færsluna Algjört svindl).
Næst kemur Dr Fred Singer sem rekur rannsóknastofu sem styrkt er af olíurisanum Exxon maður getur ekki tekið hann alvarlega. Það er eins og ef hagfræðingur á launaskrá Björgólfs kæmi í viðtal og segði okkur að IceSave sé í raun algjör snilld. Hann segir að það sé í raun hlýnunin sem valdi aukningu á CO2 hvaðan kemur það CO2 spyr ég. Sumir efasemdamenn halda því fram að hún komi úr hafinu en því miður þá er CO2 líka að aukast í hafinu meira að segja er CO2 í hafinu farið að nálgast gildi sem mældust síðast fyrir 55 milljónum árum því fylgdi mikil niðursveifla og útdauði margra sjávarlífvera (sjá aftur færsluna CO2 og áhrif á loftslagsbreytingar. Nokkur mótrök.).
Síðan er rætt hversu lítill hluti af heildarmagni CO2 sé af mannavöldum en þeir gleyma því að minnast á það að aukningin sem orðið hefur frá upphafi iðnbyltingunnar má nær algjörlega rekja til losunar CO2 af mannavöldum (brennsla jarðefnaeldsneytis og skógareyðing stærstur hluti þar). Þar næst minnast þeir á þá staðreynd að vatnsgufa er langstærsti hluti gróðurhúsagasa en gleyma að minnast á að vatnsgufan magnast upp við þann aukna hita sem CO2 veldur. Þá segja þeir að ský auki enn á gróðurhúsaáhrif vatnsgufu en þar er gríðarleg óvissa flestar rannsóknir benda til þess að ský hafi frekar áhrif til kólnunar en hitt (sjá aftur færsluna CO2 og áhrif á loftslagsbreytingar. Nokkur mótrök.)
Ég ákvað að vera ekki að eyða meiri tíma í þetta myndband - ef maður kaupir 80 jarðaber og fyrstu 10 valda magapínu, þá hættir maður að borða þau.
Myndbönd | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)