Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Hvað er kolefnisfótspor?

thumb_footprint-sandÞað mikið talað um losun koldíoxíðs vegna athafna manna. En hvað er verið að tala um og  hvað er kolefnisfótspor (e. carbon footprints)?

Þegar talað er um kolefnisfótspor í sambandi við loftslagsbreytingar, þá er fótspor myndlíking fyrir þau áhrif sem eitthvað hefur. Í þessu tilfelli má segja að kolefni sé notað sem einhverskonar samnefnari fyrir þær gróðurhúsalofttegundir sem valda hnattrænni hlýnun.

Þar af leiðandi má kannski orða það þannig að kolefnisfótspor sé einhverskonar samnefnari á áætluðum heildaráhrifum losunar gróðurhúsalofttegunda sem eitthvað veldur. Þetta eitthvað getur svo verið hvað sem er, t.d. athafnir, hlutir, lífsstíll, fyrirtæki, lönd eða jafnvel allur heimurinn.

Hvað er CO2e?

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eða svokölluð hnattræn hlýnun af mannavöldum er talin eiga sér stað vegna aukins styrks gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Aðal gróðurhúsalofttegundin er koldíoxíð (CO2). CO2 verður m.a. til við brennslu jarðefnaeldsneytis. Það eru einnig aðrar gróðurhúsalofttegundir sem við þurfum að huga að en eru þó losaðar í mun minna magni. Metan (CH4) er dæmi lofttegund sem m.a. kemur frá landbúnaði og er 25 sinnum áhrifameiri gróðurhúsalofttegund en CO2 á hvert kílógram. Einnig má nefna gróðurhúsalofttegundir, eins og t.d. nituroxíð (N2O), sem er u.þ.b. 300 sinnum öflugri en CO2 og ýmsar lofttegundir frá kælitækjum sem geta verið nokkur þúsund sinnum öflugri en CO2.

Á Bretlandi eru heildaráhrif á loftslagið eftir gróðurhúsalofttegundum nokkurnvegin á þessa leið: koldíoxíð (86%), metan (7%), nituroxíð (6%) og lofttegundir frá kælitækjum (1%). Hver hlutur eða athöfn getur valdið margskonar áhrifum vegna þess að fleiri gróðurhúsalofttegundir koma við sögu í mismunandi magni í hverju tilfelli. Þannig myndi kolefnisfótsporið ef allt er tiltekið vera nánast óskiljanlegt hrafnaspark þar sem margar gróðurúsalofttegundir í mismunandi magni koma fyrir. Til að koma í veg fyrir það, er kolefnisfótsporinu lýst sem koldíoxíð jafngildi (e. equivalent) eða CO2e. Þetta þýðir að heildaráhrif allra gróðurhúsalofttegunda sem hlutur eða athöfn sem hefur í för með sér er lýst með tilliti til þeirra áhrifa sem yrðu miðað við það magn sem þyrfti að vera af koldíoxíði til að hafa sömu áhrif. CO2e er því það magn sem lýsir því, miðað við ákveðið magn og blöndu af gróðurhúsalofttegundum, hversu mikið magn af CO2 hefði sömu áhrif til hlýnunar andrúmsloftsins, þegar reiknað er á ákveðnu tímabili (almennt eru notuð 100 ár).

Bein losun og óbein losun

Það er nokkur ruglingur varðandi kolefnisfótspór, þegar kemur að því að skoða muninn á beinni og óbeinni losun. Hið raunverulega kolefnisfótspor á hlut eins og plast leikfangi, svo dæmi sé tekið, er ekki bara bein losun sem verður til við framleiðslu og flutning leikfangsins til verslunar. Það þarf einnig að skoða margskonar óbeinna losun, eins og t.d. þá losun sem verður til við vinnslu olíu sem notuð er við framleiðslu plastsins. Þetta eru aðeins dæmi um þær athafnir í ferlunum sem hafa áhrif á losunina. Ef við spáum í það, þá getur verið að mjög erfitt að rekja alla ferlana sem eru á bak við þá losun sem kemur frá einum hlut eða athöfn. T.d. eitthvað svo hversdagslegt sem notkun skrifstofufólks í plastverksmiðjunni á pappírsklemmum úr stáli. Til að fara enn nánar út í þessa sálma má svo skoða námaverkamanninn sem vinnur í námunni sem járnið í stálið kemur frá…og svo framvegis nánast út í hið óendanlega. Verkefnið við útreikninga á kolefnisfótspori leikfangs úr plasti, getur í raun innihaldið fjöldan allan af ferlum sem taka mætti inn í dæmið. Nákvæmur útreikningu er nánast ómögulegur og sum áhrifin eru líka mjög smá miðað við heildaráhrifin.

Til að nefna annað dæmi, þá er raunverulegt kolefnisfótspor við það að keyra bíl ekki einungis sú losun sem verður til við bruna eldsneytisins, heldur einnig sú losun sem varð til við vinnslu olíunnar í bensín, flutningur þess til landsins og á bensínsstöðvarnar, ásamt þeirri losun sem verður til við framleiðslu bílsins og viðhalds, svo eitthvað sé nefnt.

Hinn nauðsynlegi en ómögulegi útreikningur

Kolefnisfótsporið eins og það er skilgreint hér að ofan er varðandi þær mælingar sem taka þarf tillit til við athugun á losun gróðurhúsalofttegunda vegna loftslagsbreytinga. Það er nánast ómögulegt að leysa þetta úrlausnarefni nákvæmlega. Við eigum engan möguleika á að skilja nákvæmlega hver áhrif banana eru samanborið við allt mögulegt annað sem við getum keypt, nema við getum tekið inn í dæmið allan ferilinn, þ.e. ræktun, flutning, geymslu og aðra ferla sem máli skipta. Hvernig er best að nálgast dæmi sem er nánast ómögulegt sökum mikils flækjustigs?

Ein aðferð sem stundum sést, er að gefast hreinlega upp og mæla á einfaldari hátt, jafnvel þó að stór hluti þess sem verið er að reyna reikna út detti út úr myndinni. Í raun er þó reynt að nálgast viðfangsefnið með því að skoða heildarmyndina og reyna að gera eins raunhæfa áætlun og hægt er varðandi þá losun sem fylgir þeim hlut eða athöfn sem skoða á. Þetta er hægt þrátt fyrir hið háa flækjustig sem oft þarf að hafa í huga í hverju tilfelli. Kunnátta varðandi þá óvissu sem fylgir útreikningunum þarf að vera ljós ásamt því hvernig nálgast beri óvissuna á heiðarlegan og áreiðanlegan hátt.

Heimildir:

Tengt efni á loftslag.is:


Hver er þróun hitastigs frá síðustu ísöld?

Þessi færsla fer undir spurningar og svör á loftslag.is á næstu dögum.

Hitastigsþróun á jörðinni síðustu 12 þúsund ár má lesa út úr myndinni hérundir:

Á þessari mynd má sjá þróun hitastigs frá síðustu ísöld og fram til nútíma samkvæmt proxígögnum frá ýmsum stöðum. Svarta línan er meðaltal proxígagna sem unnin eru út frá 8 mismunandi gagnasöfnun sem eru sýnd með hinum línunum og er notast við gögn frá ýmsum stöðum í heiminum sem eru unnin með nokkrum aðferðum, sjá nánar hér. Eins og sjá má er meðalhitastig í heiminum 2004 merkt þarna inn og er það nokkuð hátt miðað við hitastig síðustu árþúsunda. Ef litið er á þróunina frá því fyrir u.þ.b. 8 þúsund árum, má sjá að hitastigið lækkar jafnt frá þeim tíma fram til u.þ.b. byrjun 20. aldar. Punktalínan er meðalhitastig á miðri síðustu öld. Það ber að taka það fram að með proxígögnunum er ekki hægt að sýna hitastigið í betri upplausn en sem 300 ára meðaltalshitastig (sjá nánar hér), en hitastigið 2004 er hitastigið á því eina ári, og því er beinn samanburður á þessum tölum ekki alveg borðliggjandi, vegna mismunandi aðferðafræði.

Heimildir:

Tengt efni á loftslag.is:


Kolefnisfótboltaspor

wm_2010_logo_uv;property=onlineBildHeimsmeistarakeppnin í fótbolta í Suður-Afríku byrjar í dag eins og flestir vita. Við flesta stærri íþróttaviðburði, eins og t.d. Ólimpíuleikarnir og HM í fótbolta er reynt að kolefnisjafna viðburðina, helst þannig að kolefnisfótsporið verði hlutlaust. HM í Suður-Afríku er engin undantekning þar á. Keppnin í Suður-Afríku þarf að takast á við 10 sinnum stærri kolefnislosun heldur en keppnin 2006 í Þýskalandi. Mikilvægt er í þessu sambandi að taka fram að Þjóðverjar þurftu ekki að huga að því að kolefnisjafna frá flugi eins og gert verður í Suður-Afríku. Kolefnislosun frá flugi í þessum mánuði á meðan keppnin fer fram, verður 67% af heildarlosun landsins á tímabilinu, þar sem búist er við um 500.000 áhorfendum og þátttakendum á keppnina. Sjá nánar frétt á Reuters.

Tengt efni á loftslag.is:


mbl.is Flautað til leiks klukkan 14
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafís | Maí 2010

Við stefnum að því að þessi færsla verði sú fyrsta af nýjum föstum þætti á loftslag.is.  Á fyrstu dögum hvers mánaðar kemur yfirlit á NSIDC varðandi hafísinn á norðurslóðum og munum við birta helstu gröf og myndir sem skipta máli ásamt örlitlum texta.

Hafísútbreiðslan á norðuskautinu minnkaði verulega í maí eftir að hafa verið mikil í apríl. Hitastigið var yfir meðallagi sem hefur væntanlega haft áhrif á útkomuna. Undir lok mánaðarins var útbreiðslan orðin nærri því sem var í maí 2006, sem er það lægsta sem mælst hefur fyrir lok maí mánaðar. Greiningar sérfræðinga frá Háskólanum í Washington reikna með að ísrúmmálið hafi haldið áfram að minnka miðað við síðastliðin ár. Það er hins vegar of snemmt að segja til um það hvort að útbreiðsla hafíssins verði minni í september, en árið 2007, þegar það var minnst frá því mælingar hófust. Það fer mikið eftir aðstæðum í sumar, þ.e. veðurfari og vindi á næstu mánuðum.

Hafísútbreiðsla um mánaðarmótin maí-júní 2010. Miðgildið er merkt með bleikri línu. Hafísútbreiðslan er 500.000 ferkílómetrum undir meðaltalinu 1979-2000.

Þróun hafíss 2010, viðmiðun við meðaltal 1979-2000 og einnig 2006 og 2007.

Samanburður á útbreiðslu hafís í maímánuði, eftir árum. Eins og sjá má er línuleg minnkun í þróun útbreiðslu hafíssins.

Hitafrávik fyrir maí 2010. Hitastigið var víðast 2°-5°C yfir meðaltalinu í mánuðinum.

Frávik í rúmmáli hafíss síðan 1979. Í maímánuði var rúmmálið minnst fyrir mánuðinn síðan mælingar hófust.

Heimildir:

Tengt efni á loftslag.is:


Ísbirnir

Úrdráttur úr tveimur færslum um ísbirni af loftslag.is.

Thumb_isbjorn-Ursus_maritimus_us_fish

Niðurstaða rannsókna, sem farið hafa fram við Beauforthaf við norðurströnd Alaska, hafa gefið beinar mælingar sem sýna fram á tengsl milli hnignandi hafíss og afkomu ísbjarna.

Í grein sem birtist í Ecological Applications þá könnuðu höfundar ýmis atriði sem tengjast afkomu ísbjarna við Beaufort haf, en hafís á þeim slóðum hefur hnignað töluvert á tímabilinu sem rannsóknin nær yfir, þ.e. frá 1982-2006.

Það sem gerði rannsóknina erfiða er sú staðreynd að þó að það sé fylgni milli breytinga í ísbjarnastofninum og hafíss, þá er það engin ávísun á að þar með hafi fundist orsök og afleiðing. Lykillinn að lausninni reyndist vera tengsl næringar og líkamstærðar. Vel þekkt tengsl eru til milli fæðuúrvals annars vegar og þyngdar sem og stærðar beinagrindar hins vegar, hjá björnum. Hvað varðar ísbirni, þá er hafísinn mikilvægur þáttur í fæðuöflun [...]

[...] Það er frekar ólíklegt að hægt sé að finna líffræðinga sem rannsaka ísbirni, sem myndu halda því fram að þeim hafi fjölgað síðustu áratugi – það er ekki heldur auðvelt að segja til um að þeim hafi fækkað – til þess eru rannsóknir á ísbjörnum of stutt á veg komnar.

Á sjöunda áratug síðustu aldar, var giskað á að ísbirnir væru á milli 5-20 þúsund og er seinni talan sú tala sem oftast er talað um núna. [...]

Samkvæmt mati IUCN sérfræðingahóps um ísbirni, þá eru 19 þekktir undirstofnar ísbjarna, fjöldi í einum þeirra er að aukast, þrír eru stöðugir og átta eru að hnigna (ekki eru til nægilega góð gögn til að meta hina undirstofnana). [...]


Eðlur á undanhaldi

NThumb_Sceloporus_sp4_Oaxý rannsókn bendir til að árið 2080, þá muni um 20% allra eðlutegunda verða útdauðar.

Þótt notaðar séu bjartsýnustu sviðsmyndir hvað varðar minnkandi losun á CO2 í framtíðinni, þá bendir greining alþjóðlegs teymis vísindamanna til þess að allt að 6% eðlutegunda muni deyja út fyrir árið 2050.

Nú þegar hafa loftslagsbreytingar orðið til þess að stofnstærð hinnar svokölluðu Sceloporus eðlu hefur minnkað um 12% frá árinu 1975.

Ef losun CO2 heldur áfram óheft, þá er því spáð að fyrir árið 2080 þá muni 39% af heildarfjölda eðla í heiminum hafa horfið - sem samsvarar að um 20% allra eðlutegunda deyji út. Grein um rannsóknina birtist í Science fyrir skömmu (sjá Sinervo o.fl. 2010).

Sinervo, einn aðalhöfunda ætlaði sér ekki að rannsaka útdauða eðlutegunda - upphaflega ætlaði hann að kanna hlutverk litabrigða í þróun eðla. Á nokkrum stöðum, í Evrópu og í Mexíkó - þar sem hann bjóst við að finna eðlur, þá hafði þeim fækkað það mikið að erfitt reyndist að finna þær. Hann safnaði því saman hóp vísindamanna til að rannsaka þetta frekar - hnattrænt. Niðurstaðan er sú að vandamálið er útbreitt.

Svæði voru könnuð á verndarsvæðum, til að útiloka áhrif á búsvæði af völdum breyttrar landnotkunar manna.

Eins og allar lífverur, þá verða eðlur að forðast það að ofhitna og halda líkamshita sínum innan vissra marka til að lifa af. Vandamálið virðist vera, samkvæmt rannsókninni, hærri hiti á vorin - frekar en hæsti hiti yfir hádaginn eða yfir sumartímann. Hærri hiti á vorin þýðir að dýrin eyða minni tíma yfir fengitíman til fæðuöflunar og meiri tíma í skugga. Á þessum tíma þurfa kvendýrin hámarksfæðu til að viðhalda orkuþörfinni og tímanum sem varið er í skugganum nýtist illa og vannærð kvendýrin eiga í erfiðleikum með að geta af sér afkvæmi.

Vistfræðilegar afleiðingar hugsanlegs útdauða eðlanna er óþekktur, en ef rétt reynist þá gætu þær orðið nokkrar - en aðalfæða eðla eru ýmis skordýr, auk þess sem þær sjálfar eru megin fæða ýmissa dýrategunda.

Heimildir og ítarefni

Grein Sinervo o.fl. 2010 sem birtist í Science (ágrip): Erosion of Lizard Diversity by Climate Change and Altered Thermal Niches

Þessi færsla er byggð á frétt í Nature News: Lizards succumb to global warming

Aðra góða umfjöllun má finna á heimasíðu NewScientist: Lost lizards validate grim extinction predictions

Tengdar færslur á loftslag.is


Hagfræði og loftslagsbreytingar

Inngangur

Það er nokkuð almenn einning meðal vísindamanna sem vinna að loftslagstengdum rannsóknum, um að athafnir mannsins og þá sérstaklega bruni jarðefnaeldsneytis hafi áhrif að loftslagið á hnattræna vísu. Eftir áratuga rannsóknir og umræður, m.a. hjá nefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) og mikið átak við að miðla þekkingunni áfram til almennings, þá er það almennt álit þeirra sem vinna að þessu á vísindalegum grunni að aðgerða sé þörf og að draga þurfi úr losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið.

Minna er hinsvegar vitað um hvort þetta er einnig tilfellið meðal hagfræðinga (og viðskiptamenntaðra) sem rannsaka loftslagsmál, þ.e. um hugsanleg áhrif gróðurhúsalofttegunda og afleiðingar hækkandi hitastigs á hagkerfið. Umfangsmikil fjölmiðlaumfjöllun um kostnaðinn við aðgerðir við að taka á loftslagsvandanum, getur auðveldlega leitt til þess að utanaðkomandi hafi það á tilfinningunni að hagfræðingar séu á móti reglugerðum varðandi loftslagsmál eða að ekki sé um mikla ógn að ræða fyrir hagkerfið, þó svo losun gróðurhúsalofttegunda haldi áfram nú sem áður. Í þessari skýrslu sem um er rætt í þessari færslu skoða þeir J. Scott Holladay, Jonathan Horne og Jason A. Schwarts hvernig þessi mál standa. Með því að fylgjast með því hvað sérfræðingar á sviðinu eru að gera, reyna þeir að komast að niðurstöðu varðandi málið. Útkoman er sláandi. Hagfræðingar eru almennt sammála um að loftslagsbreytingar séu ógn við hagkerfi heimsins. Það sem meira er, þá eru flestir á því að það sé hagur í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að sá hagur geti réttlætt kostnaðinn við það. Flestir styðja einhverskonar markaðskerfi þar sem hægt væri að draga úr losun, með t.d. Cap and Trade eða einhverskonar sköttum. Það eru líka svið þar sem hagfræðingar eru ekki sammála um hvernig á að standa að verki, m.a. um það hvernig á að standa að því að skoða ábyrgð núverandi kynslóðar gagnvart kynslóðum framtíðarinnar. Þar skiptust svörin jafnt á milli aðferða. En heilt yfir þá er myndin skýr; það ríkir almennt samkomulag meðal hagfræðinga sem vinna að rannsóknum tengdum loftslagsmálum, að losun gróðurhúsalofttegunda sé raunveruleg ógn við hagkerfið og að ef rétt er að verki staðið við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þá muni það skila fjárhagslegum ávinning fyrir hagkerfið í heild. Þó umræðan sé sífellt í gangi, þá getur þessi skýrsla hjálpað til við að beina augum á þær spurningar sem nauðsynlegt er að spyrja varðandi þessa hlið málsins.

[...]

Nánar má lesa um þetta á loftslag.is; Hagfræði og loftslagsbreytingar

Tengt efni á loftslag.is:


Lax og silungur við loftslagsbreytingar

salmon_troutLax og silungur hafa á undanförnum áratugum fækkað – og á sumum svæðum töluvert.

Mengun, rýrnun búsvæða og ofveiði hafa hingað til verið taldir helstu sökudólgarnir, en nýjar vísbendingar benda til þess að loftslagsbreytingar geti verið helsti þátturinn og að þær ógni báðum tegundunum.

Vísindamennirnir rönnsökuðu stofn ungra laxa og silungs í ánni Wye í Wales, sem er ein af bestu stangveiðiám Bretlandseyja. Þeir fundu út að á milli áranna 1985 og 2004, þá fækkaði lax um 50% og silung um 67% – þrátt fyrir að áin sjálf yrði hreinni á þeim tíma.

Harðast urðu fiskarnir úti eftir heit og þur sumur, líkt og árin 1990, 2000 og 2003. Niðurstaðan bendir til þess að heitara vatn og lægri vatnsstaða hafi hvað mest áhrif á báðar tegundirnar. Þar sem kalt vatn er kjörsvæði laxa og silungs, þá gæti áframhaldandi hlýnun skapað enn meiri vanda fyrir þessar tegundir.

Vísindamennirnir notuðu gögn um stofnstærðir fiskanna, sem breska Umhverfisstofununin (British Environment Agency) hafði safnað á yfir 50 stöðum í ánni Wye. Hitastig vatnsins jókst á þessu tímabili um 0,5-0,7°C yfir sumartíman og 0,7-1,0°C yfir vetrartíman – en hitinn um vetrartíman ásamt minna rennsli í ánni hafði mest áhrif. Vitað er að vatnshiti hefur áhrif á vöxt og hversu viðkvæmur fiskurinn er gagnvart sjúkdómum – en minna rennsli í ám hindrar að hann komist á kaldari búsvæði.

Samanburður á laxi og silung eykur gildi þessarar rannsóknar, þar sem silungur – ólíkt laxinum – dvelst ekki í sjó. Því eru það eingöngu aðstæður í ánni sem hafa áhrif á hann.

Heimildir og ítarefni

Greinin sjálf birtist í Global Change Biology og er eftir Clews o.fl. 2010:  Juvenile salmonid populations in a temperate river system track synoptic trends in climate

Unnið upp úr frétt af Science Daily: Climate Threatens Trout and Salmon

Tengdar færslur á loftslag.is


Loftslagsbreytingar - vísindin

Hvað eru loftslagsbreytingar og hver er hinn vísindalegi grunnur á bakvið þær kenningar sem nú eru uppi um hlýnandi jörð?

Eitt af kortunum sem sýnir áætlaða aukningu á hitastigi jarðar.

Eitt af kortunum sem sýnir áætlaða aukningu á hitastigi jarðar (globalwarmingart.com)

Á þessum síðum verða skoðaðar kenningar um loftslagsbreytingar, þá sérstaklega þær sem eru í gangi núna – oft nefndar hlýnun jarðar af mannavöldum (e. Anthropogenic global warming – AGW).  Leitast verður við að svara því hvaða afleiðingar geta orðið vegna hækkandi hitastigs í heiminum og hvaða lausnir er verið að skoða til mótvægis hlýnun jarðar og aðlögun að henni. Á spurt og svarað verða sett fram ýmis hugtök og staðreyndir á aðgengilegan hátt. Í helstu sönnunargögnum eru sönnunargögnin skoðuð. Síðast en ekki síst verður kíkt á nokkrar mýtur sem oft heyrast þegar rætt er um loftslagsmál. Þetta eru mýtur eins og “hitastigið fer ekki hækkandi”, “þetta bara er sólin” og margt fleira í þeim dúr.

Kenningin
Afleiðingar
Lausnir
Spurningar og svör
Helstu sönnunargögn
Mýtur


Hitt og þetta

Sitthvað af loftslag.is. Fréttir, bloggfærslur, gestapistlar og myndbönd er meðal þess efnis sem birst hefur nýlega:

Fellibylir á Atlantshafi 2010

Frétt – Spá NOAA varðandi fellibyljatímabilið 2010 í Atlantshafinu
 

Hitabylgjur í Evópu

Frétt um nýja rannsókn um hitabylgjur í Evrópu á þessari öld
 

Að fela núverandi hlýnun

Bloggfærsla um fölsun og mistúlkun gagna, hjá Don Easterbrook – en hann hefur verið uppvís að því að fela núverandi hlýnun
 

Jafnvægissvörun Lindzen

Bloggfærsla þýdd af Skeptical Science um útreikninga Lindzen á jafnvægissvörun loftslags og niðurstöður hans hraktar
 

Áratugasveiflur hitastigs

Vangaveltur um áhrif áratugasveiflna í hafinu á hitastig Jarðar
 

Orkusetur | Ný reiknivél

Gestapistill eftir Sigurð Inga Friðleifsson um nýja reiknivél sem Orkusetur hefur tekið í notkun
 

NASA | Stórtölvutækni og loftslagslíkön

Myndband um stórtölvutækni NASA og loftslagslíkön

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband