Eldgos - áhrif á loftslagsbreytingar?

Nú eru tvö eldgos í gangi, eitt sunnanvert í Kyrrahafi - neðansjávareldfjallið Tonga og annað í Alaska - Redoubt

Hér er tengill á brjálaðan bloggara sem fylgist nokkuð vel með þessum gosum og þá sérstaklega gosið í Redoubt.

Eins og ég hef minnst á áður, þá geta stór eldgos haft áhrif til kólnunar loftslags, í nokkra mánuði og jafnvel 1-2 ár ef eldgosið er kröftugt.

Á heimasíðu Veðurstofunnar er minnst á áhrif eldgosa lítillega hvað varðar loftslagsbreytingar:

Mjög stór eldgos geta haft umtalsverð áhrif á veðurlag en eru hins vegar flókin og verða ekki rakin hér. Í flestum tilvikum standa áhrifin aðeins í nokkra mánuði og upp í um tvö ár. Að meðaltali valda eldgos kælingu, tímabil þegar stór gos eru tíð eru því heldur kaldari en tímabil þar sem þau eru sjaldgæf. Unnið er að úttektum á eldgosum aftur í tímann. Er þá einkum stuðst við afurðir þeirra í ískjörnum.

Mögnuðustu eldgosin spúa ösku og brennisteinsríkum lofttegundum (SO2) í miklu magni út í andrúmsloftið, sem dreifir sig um veðrahvolfið (troposphere) og heiðhvolfið (stratosphere) en mörkin eru í um 10-12 km hæð. Þar dreifa þau sig sem ský um lofthjúp jarðar á nokkrum vikum. Við það dregur úr inngeislun sólar sem nær yfirborði jarðar og meðalhiti jarðar lækkar.

Gott dæmi um þetta er eldgosið í Pinatubo 1991 í Filippseyjum.

Mynd af gosmekkinum í Pinatubo eldfjallinu, júní 1991
Eldfjallið gaus 12. júní 1991 og gosmökkurinn náði í allt að 20 km hæð. Það framleiddi um 5 rúmkílómetra af dasíti (ísúr-súr gosefni) og 20 milljón tonn af lofttegundinni SO2 (brennisteinsdíoxíði) mesta magn sem mælst hefur. Lofttegundin fór upp í heiðhvolfið og var búin að umlykja hnöttinn á þremur vikum.

Brennisteinsdíoxíð og fíngerð aska dreifði sig um allan hnöttin. 

Við það minnkaði inngeislun sólar um heil 10% á Hawaii:

pinatubo 

Þaö er talið að hitastig jarðar hafi lækkað hnattrænt séð um 0,5 gráður á sesíus í 2-4 ár vegna eldgossins í Pinatubo.

Short_Instrumental_Temperature_Record
Mynd sem sýnir greinilega kónunina tengda eldgosinu í Pinatubo.

Nú er það spurning, geta eldgosin í Alaska eða Tonga haft þessi áhrif?

gvp_09-03-11
Á þessu korti má sjá Tonga sem rauðan þríhyrning austur af Ástralíu (norðaustur af Nýja Sjálandi) og Redoubt sem er í Alaska (Norður Ameríku) sést einnig sem rauður þríhyrningu.

Tonga: 

Við skulum byrja á Tonga, sem er neðansjávargos sem hefur náð yfirborði sjávar og minnir því um margt á eldgosið í Surtsey (enda er það kalla "Surtseyan eruption").

xin_29203061920419373195325
Mynd af eldgosinu í Tonga.

Tonga er í Suður Kyrrahafi, norðaustur af Nýja Sjálandi.

NZ1
Hér má sjá tektónískt kort af svæðinu en þar er úthafskorpa kyrrahafsplötunnar að skríða undir úthafskorpu Ástralíuplötunnar. Við það myndast eyjabogar.

hafsbotnsskorpa_2_030103

Við þess háttar eldgos myndast oft öflug eldgos, oft ísúr að efnasamsetningu (andesít).

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, þá byrjaði gosið þann 16. mars síðastliðinn og náði gosmökkurinn upp í um 10 km hæð. Svo virtist sem gosið væri í rénum þann 20. mars og því er hægt að áætla enn sem komið er að það verði ekki eins öflugt og eldgosið í Pinatubo - það verður þó fróðlegt að skoða framhaldið því það er ekki útilokað að það haldi áfram og auki styrk sinn og jafnvel að það geti lækkað hnattrænan hita um einhver brot úr gráðu í einhverja mánuði.

Redoubt:

Búist hefur verið við gosi í eldfjallinu Redoubt síðan í lok janúar, en það var ekki fyrr en í gær (23. mars að morgni dags hér en rétt fyrir miðnætti 22. mars að staðartíma) sem eldgosið byrjaði af alvöru.

redoubt_2009-03-23_avo05
Mynd frá því í gær (23. febrúar) af Redoubt eldfjallinu.

Það er hægt að segja svipaða sögu af eldfjallinu Redoubt og Tonga, nema hvað að þar er kyrrahafsflekinn að reka undir norðurhluta norðurameríkuflekans sem er meginlandsfleki og því eru gosefnin ísúr og súr (eins og Tonga og Pinatobu).

13

Stutt er liðið frá því að eldgosið hófst, en nú þegar hefur gosmökkurinn náð upp í um 18 km hæð og því nálgast það að vera jafn öflugt og eldgosið í Pinatubo.  En mun það hafa áhrif á loftslag?

Í stuttu máli sagt, það er ólíklegt af nokkrum ástæðum:

  1. Staðsetning. Eldgos á svona norðlægum slóðum hefur takmörkuð áhrif á loftslag, þar sem askan og brennisteinsdíoxíðið nær ekki að dreifast nema um takmarkað svæði umhverfis norðurpólinn (myndar þó magnað sólarlag meðan áhrifin endast). Við miðbauginn þá dreifast um mun stærra svæði vegna háloftavinda til suðurs og norðurs.
  2. Framleiðsla brennisteinsdíoxíðs: Reynslan sýnir okkur að Redoubt eldfjallið framleiðir mun minna af SO2 en Pinatubo (tæplega 1% í síðasta eldgosi 1989-1990)
  3. Þar sem stutt er frá síðasta gosi, þá er ólíklegt að mikil kvika hafi safnast saman í kvikuhólfi Redoubt og því ekki líklegt að það haldi dampi lengi.
  4. Öskumagn bendir til þess að þetta verði ekki mjög öflugt eldgos.

Í leit minni að heimildum, þá rakst ég á stutta en skemmtilega grein um nokkur eldgos sem hafa haft nokkur áhrif á menn og mannkynssöguna, sjá hér.

En já, enn sem komið er er ólíklegt að eldgosin í Tonga og Redoubt eigi eftir að hafa einhver áhrif á loftslag jarðarinnar - en það kemur í ljós.... við vitum jú að loftslag kemur ekki fram á línuritum fyrr en eftir nokkur misseri.


mbl.is Eldgos í Alaska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftslag.is

Það er orðið ljóst að þetta er mjög öflugt eldgos í Redoubt (samkvæmt bloggsíðunni sem ég vísa í, í fyrstu málsgreininni). Gosmökkurinn hefur náð 20 km hæð. Verður spennandi að fylgjast með.

Loftslag.is, 27.3.2009 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband