Suðurskautið

Ég hef ætlað að fjalla um hafísútbreiðslu á Suðurskautinu í nokkurn tíma, en ekki haft tíma til þess. 

Það sem vakið hefur furðu vísindamanna og áhugamanna um loftslagsbreytingar er sú staðreynd að hafís á Suðurskautinu hefur aukið útbreiðslu sína jafnt og þétt frá því mælingar hófust (um 1979). Þetta er á sama tíma og hafís á Norðurskautinu hefur jafnt og þétt verið að minnka og þynnast. Þetta má sjá t.d. í nýlegu línuriti sem sýnir samanburð hafísútbreiðslu fyrir marsmánuð síðastliðin 30 ár.

sh-seaice-200903-pg
Hafísútbreiðsla á Suðurskautinu í marsmánuði frá 1979-2009 (NCDC National Climate Data Center). 

Þessi staðreynd hefur verið notuð sem rök efasamdamanna gegn hlýnun jarðar af mannavöldum.  

Áður en lengra er haldið er rétt að gera greinarmun á hafís og íshellum. Hafís er lagnaðarís sem myndast á veturna og það fer mikið eftir hitastigi sumarsins á eftir hvaða útbreiðslu hann heldur áður en vetur hefst á ný - hann hefur sem sagt verið að aukast undanfarna áratugi á Suðurskautinu, á sama tíma og jörðin í heild er að hlýna.  

Líkön ná ekki að líkja eftir þessum aðstæðum og sumar spár ganga út á að hann ætti að vera búinn að minnka um 1/3 í lok þessarar aldar- því er óljóst hvernig stendur á því að hann er að auka útbreiðslu sína nú á tímum hnattrænnar hlýnunar.

Hvaða aðstæður gera það að verkum að hafísinn er að aukast á Suðurskautinu?

Nýleg kenning leitar skýringa í þynnandi ósonslagi. Vísindamenn sem hafa stúderað ósonlagið hafa sýnt fram á að gatið í ósonlaginu yfir Suðurskautinu hafi breytt veðrakerfinu í kringum Suðurskautslandið. Þessar breytingar valda því að hlýtt loft hefur blásið yfir Suðurskautsskagann (Antarctic Peninsula) sem er á Vestur-Suðurskautinu og kælt loftið yfir Austur-Suðurskautinu.

Ef Suðurpóllinn væri á miðju Suðurskautinu þá myndu vindar blása í fallegum hring í kringum skautið. En miðja meginlandsins er í raun staðsett lítillega frá pólnum. Af því leiðir að vindarnir blása óreglulega í hálfgerðum hvirfilstraumum af landi (sjá myndatexta).

Höfundar hafa keyrt tölvulíkön af lofthjúpnum með og án gatsins á ósonlaginu og fundu út að þynning ósonlagsins hefur aukið vindstyrk og dregið hlýtt loft frá Chile í Suður Ameríku - sem valdið hefur mikilli hlýnun á Suðurskautsskaganum og á móti orsakað sterkan kaldan blástur yfir Rosshafi.

dn16988-1_731
Vindur blæs réttsælis í kringum Suðurskautið, blæs af Viktoríulandi (Victoria Land) sem myndar kalt streymi lofts yfir Rosshafi (Ross Sea), þar sem hafís er að aukast. Að sama skapi blæs hlýr vindur frá Suður-Ameríku og hitar upp Suðurskautsskagann (Antarctic Peninsula), en þar eru stórar íshellur að leysast upp. (Mynd tekin af www.newscientist.com).

Gervihnatttagögn sýna að ísinn hefur minkað vestur af Suðurskautsskaganum en vaxið á Rosshafi . Samtals hefur ísinn verið að aukast síðastliðin 30 ár og tengja vísindamenn því þynningu ósonlagsins út frá fyrrnefndri líkanagerð. Þeir útiloka þó ekki að náttúrulegar ástæður ráði för.

Önnur kenning varðandi aukna hafísútbreiðslu á Suðurskautinu:

Ein kenning gengur út á það að hafís sé að aukast vegna minnkunar á uppstreymi hita í lögum sjávar vegna bráðnunar hafíss. Lauslega er kenningin svona:

Lofthiti eykst - hafís minnkar - selta minnkar - hlýrri og seltuminni sjór minnkar eðlisþyngd uppsjávarins - meiri lagskipting í lögum sjávar - hitastreymi minnkar úr neðri lögum sjávar - bráðnun hafíss minnkar af völdum sjávarhita - hafís eykst. 

Ástæður þess að hafís minnkar er samkvæmt þessari kenninu vegna þess að lofthiti eykst þá eykst bráðnun, upphaflega stuðlar sjávarhiti einnig að þessari bráðnun en vegna eðlisbreytinga þá slokknar á bráðnuninni af völdum sjávarhita og hafís eykst.

----------------------

Ég veit ekki hvor kenningin er betri eða hvort önnur betri eigi eftir að koma fram (ég er ekki búinn að stúdera þetta í þaula og því get ég verið að missa af einhverri góðri kenningu).

Eitt er víst að hafísinn í kringum Suðurskautið hegðar sér undarlega, en það er samt að hlýna á Suðurskautinu. Það er því útilokað að efasemdamenn geti notað þetta sem rök gegn hnattrænni hlýnun, nema til að slá ryki í augu almennings.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband