Hokkístafurinn

Af því að ég minntist á hokkístafinn í síðustu færslu, þá langar mig að minnast aðeins á hann í einni færslu. 

Hockey_stick_chart_ipcc_large 
Hokkístafurinn gerður 1999 og birtist í skýrslu IPCC 2001 (eftir Micheal Mann).

Hokkístafurinn er línurit kallað sem sýnir útreiknað hitastig aftur í tímann, gert af Micheal Mann sem er sérfræðingur í fornloftlagsfræðum (paleoclimatology).

Svona fornhitastig er gert með samanburði á ýmsum ferlum sem voru í gangi til forna og hvernig þessi ferli eru nú. Trjáhringagögn, setlög, vöxtur kórala og borkjarnar úr jöklum er meðal þess sem notað er við að meta fornhitastig.

Það fékk verðskuldaða athygli á sínum tíma, vegna þess að það sýndi svo skýrt og greinilega að hitinn nú væri mun meiri en hann hefur verið síðastliðin þúsund ár. Þetta línurit þótti því undirstrika það sem vísindamenn töldu sig vita, að ástandið nú væri óvenjulegt - hlýnunin væri langt umfram það sem eðlilegt gæti talist.

Þetta línurit fékk líka verðskuldaða gagnrýni, enda sýndu menn fram á það að galli væri á tölfræðinni og að gögnin sem notuð væru við gerð þessa línurits, væru ófullnægjandi (t.d. of mikið af trjáhringagögnum) Þetti gerði það að verkum að línuritið varð minna sveiflukennt en það ætti eflaust að vera (þ.e. minni hitabreytingar).

Meðal annars fékk hann gagnrýni frá vísindanefnd í USA (US National Academy of Science).   Eða eins og einhver orðaði það: Röng aðferð + rétt niðurstaða = léleg vísindi. Sem sagt, menn deildu ekki á niðurstöðurnar þannig séð, aðferðafræðin þótti þó ekki til fyrirmyndar - Mann hófst því handa við að lagfæra aðferðafræðina.

Í september í fyrra kom síðan út grein þar sem Mann (og fleiri) endurskoðuðu línuritið og notuðu til þess tvær nýjar tölfræðiaðferðir (aðrar en í upphafi) og bættu með viðbótar gögnum.  Þessi grein styðst því minna við árhringjarannsóknir en fyrri rannsóknir hans.

Micheal Mann og félagar endurgerðu semsagt línuritið og bættu um betur og lengdu það, svo nú sýnir það áætlað hitastig síðustu 1800 árin.

fig3
Hokkístafurinn hinn nýji (Mann og fleiri 2008)

Niðurstaðan er enn sú sama að það er heitara nú en síðastliðin þúsund ár að minnsta kosti.

Sem stendur er því hokkístafurinn aftur kominn á þann byrjunarreit að hann er besta nálgunin sem við höfum varðandi hitastig síðustu þúsund árin.

Menn eru þó byrjaðir að leita að villum í aðferðafræði höfunda og byrjaðir að gagnrýna hokkístafinn hinn nýja, en þeirri gagnrýni hefur verið svarað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Þú teygir þig langt til að réttlæta mann (Michael Mann) sem hefur verið staðinn að fölsunum því vissulega er Hokkýstafurinn ekkert annað en fölsun. Þú nefnir réttilega að MM notaði árhringi í trjám til að búa til þetta línurit sem flestir sómakærir vísindamann eru búnir að afneita. Gallinn við að nota árhringi trjáa er sá að árhringirnir sýna aðeins það sem er að gerast meðan tréð er virkt, í vexti, en meirihluta ársins eru tré á norðurhveli í dvala. Líklega eru hvergi á norðurhveli jafn óyggjandi gögn til um hitastig frá því á miðöldum en á Íslandi. Sögur okkar og annálar eru svo mikill , svo mikið um þetta efni. Ekki veit ég hvort þú hefur lesið og stúderað Sturlungu en eftir lestur hennar er mér ljóst að sú borgarastyrjöld sem hér var háð á 13. öld hefði ekki verið möguleg nema vegna þess einstaka háa meðalhita sem þá var hérlendis. Búsmali var nægur hvarvetna, herir gátu valsað um landið þvert og engilangt og rænt og ruplað nautpeningi og fé í haga sér til viðurværis. Stundum þurfti einn her heilt naut sé til hádegisverðar.

Hokkýstafurinn hefur aðeins nokkuð verið færður að því sem best er vitað um loftslag sl 1000 ár, Michael Mann hefur þar með hrakist til að viðurkenna fölsun sína. En hann stendur fastur á því að falsa hvað er að gerast sl. ár, það er engin hlýnun í gangi  hnattrænt séð.

PS: Mig minnir að þú hafir sett ofan í við mig vegna þess að ég sagði "að sólin réði veðrum og vindum". Þú sagðir með all miklu yfirlæti að loftslag og veður vær sitt hvað. Ef þetta er rétt munað hjá mér þá finnst mér að nú ættir þú að líta í eigin barm.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 11.5.2009 kl. 10:30

2 Smámynd: Loftslag.is

Það er einkenni góðra vísindamanna að breyta um aðferðafræði ef sýnt er fram á að þeirra aðferð er röng. Það gerði Mann. Fölsun eru stór orð og vísindamenn heimsins taka ekki undir þá skoðun þína. Varðandi árhringi - þá hlýturðu að taka undir nýja línuritið þar sem það byggir að litlu leiti á árhringjum.

Það efast enginn um að það hafi verið hlýtt á sturlungaöld - en að það hafi verið hlýrra en nú, hafa menn ekki sýnt óyggjandi fram á, svo ég viti.

Ég skil ekki hvernig þú færð það út að það sé engin hlýnun í gangi.

Ef þér finnst ég yfirlætislegur, þá það - vel getur verið að ég komi þannig fyrir á þessu bloggi, en það er ekki ætlunin - það er samt ekki líklegt að ég hætti að setja ofan í við þig ef þú ferð með rangt mál (að mínu mati).

Ég man ekki nákvæmlega hvað ég sagði við þig varðandi sólina, en ég get þó allavega endurtekið það sem ég er búinn að segja margoft og víða. Það hefur ekki verið sýnt fram á það að það sé sólin sem standi á bakvið þá hlýnun sem orðið hefur síðastliðna áratugi (ef hún réði öllu þá væri búið að kólna töluvert undanfarna áratugi) og engir aðrir þekktir náttúrulegir ferlar eru að verki. Það sem eftir stendur er útblástur CO2.

Loftslag og veður eru sitthvað, stend við það.

Loftslag.is, 11.5.2009 kl. 12:09

3 Smámynd: Loftslag.is

Hér er nýútkomin grein í tímaritinu Geophysical Research Letter, þar sem fjallað er að nokkru um yfirlýsingar sem birtast á bloggum og í fjölmiðlum um að það sé ekki lengur að hlýna: http://www.agu.org/pubs/crossref/2009/2009GL037810.shtml

Loftslag.is, 11.5.2009 kl. 18:40

4 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Er það bara ég eða hvað? Mér finnst nýja Mann línuritið ekki líkjast hokkístaf.

Finnur Hrafn Jónsson, 12.5.2009 kl. 21:43

5 Smámynd: Loftslag.is

Nei, það ert ekki bara þú, held ég, allavega finnst mér það ekki beint eins og hokkístafurÞað þarf allavega nokkuð frjótt ímyndunarafl til að sjá hokkístaf út úr því

Loftslag.is, 12.5.2009 kl. 22:37

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er lítið sem ekkert á Sturlungu að byggja um veðurfar. Þó er á einum stað talað um hafís á Húnaflóa!

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.5.2009 kl. 00:15

7 Smámynd: Loftslag.is

Okey, nú er ég farinn að efast um að það hafi verið hlýtt á Sturlunguöld

Ég get þó staðfest það sem Sigurður Grétar hefur haldið á lofti varðandi að það hafi verið hlýtt á miðöldum hér á landi (og í Evrópu) - frjókornamælingar og vatnasetlög staðfesta það hér við land (og ýmis önnur gögn í Evrópu - t.d. trjáhringamælingar), en þau gögn segja ekkert til um að það hafi verið hlýrra en nú er, bara að það hafi verið hlýtt.  Eins og sést á hinum nýja hokkístaf, þá eru talsverð hlýindi á norðurhveli jarðar í kringum árið 1000, en það er mun hlýrra nú.

Loftslag.is, 15.5.2009 kl. 08:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband