Staðnir að óvönduðum vinnubrögðum

Tvær staðhæfingar

Tvær af þeim staðhæfingum sem hafa verið nokkuð áberandi meðal efasemdarmanna um hnattræna hlýnun hafa verið hraktar sem verandi alrangar og byggðar á óvönduðum vinnubrögðum.

Aðdragandi málsins er sá að tvær staðhæfingar um mælingar á hitastigi hefur verið haldið uppi af efasemdarmönnum (aðallega í BNA). Þessar tvær staðhæfingar eru:

  1. Að mikil fækkun í fjölda mælistöðva, fyrir hitastig, sem var gerð árið 1992 hafi leitt til rangrar hitaleitni (þ.e. að hitaleitnin hafi því sýnt meiri hækkun hitastigs en rétt sé)
  2. Að vinnsla gagna (leiðrétting gagna fyrir hverja mælistöð) hafi einnig leitt til rangrar hitaleitni.

Þessum staðhæfingum er m.a. haldið fram af þeim Anthony Watts og Joseph D’Aleo í skýrslu sem þeir birtu í síðasta mánuði. Í skýrslunni velta þeir ýmsu fram og staðhæfa ýmislegt, m.a. um þýðingu þess að fækka mælistöðvum og um vinnslu gagna. 

...

Staðhæfingarnar athugaðar

Til að rannsaka 1. staðhæfinguna, var reiknað út hver munurinn á norðurhvelinu var fyrir þær mælistöðvar sem hætt var að nota eftir 1992 og þeim sem voru notaðar voru áfram eftir 1992, til að sjá hvort að það væri marktækur munur á leitni hitastigs á milli þessara tveggja þátta á öldinni þar á undan.  Þannig á að vera hægt að sjá hvort líklegt væri að myndast hefði einhver skekkja við það að hætta að nota mælistöðvarnar 

Til að rannsaka 2. staðhæfinguna, var reiknað út meðalhitastig stöðva á norðurhvelinu með því að nota óleiðrétt gögn og bar það svo saman við leiðrétt meðalhitastig eins og NASA GISS notar, til að sjá hvort að það sé marktækur munur á leitninni, með eða án leiðréttinga eins og GISS notar. 

...

Til að lesa alla færsluna, þar sem m.a. rætt er um Tamino, sem fyrstur gerði þessa athugun út frá þessum forsendum, aðferðafræðina á bak við vinnslu gagna og niðurlag, sjá:

prepost1


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Hvernig í ósköpunum má það vera að þið notið einhvern Tamino, sem þið vitið ekki einu sinni deili á, sem aðalheimildarmann varðandi gagnrýni á skýrslu Watts og D’Aleo?

Skýtur það ekki skökku við það sem hafið oft haldið fram, að nauðsynlegt sé að vitna til áreiðanlegra heimilda, helst ritrýndra vísindagreina?

Eru þetta vönduð vinnubrögð að ykkar mati?

Fyrirgefið að ég skuli vera hissa á ykkur í dag...

Á vefsíðu ykkar stendur m.a:

"...Í færslu eftir Tamino, á síðunni Open Mind, eru staðhæfingar efasemdarmannanna athugaðar. Það er svo sem ekki vitað hver Tamino er, en jafnvel er talið að hann sé stærðfræðingur. Það er oft vitnað í hann í loftslagsumræðunni og m.a. má finna tengingu á síðuna hans á heimasíðu RealClimate og einnig rakst ég á þessar upplýsingar um Tamino á loftslagssíðu Yale háskóla. Það má því segja að borin sé ákveðin virðing fyrir færslum hans á Open Mind síðunni. Tamino notar aðferð við að reikna ársgildin, svipað og útskýrt er hér að ofan, sem virðist virka vel varðandi ársgildi hitastigs... "

Ágúst H Bjarnason, 3.3.2010 kl. 11:37

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það er vitnað í fleiri greinar sem skoða sama mál, sjá neðst í færslunni. En aðferðafræði hans virðist standast og við tökum það skýrt fram að við vitum ekki hver hann er, engu leynt þar og fólk hefur möguleika á að skoða þetta nánar ef það hefur áhuga á því. En ef þeir félagar Watts og D'Aleo hafa ekki skoðað þessa þætti áður en þeir gerðu þessa skýrslu sína, þá erum við, að mínu mati, að tala um óvönduð vinnubrögð að þeirra hálfu. Það lítur alls ekki út fyrir að þeir hafi unnið gögnin á þennan hátt, sem hlýtur að vera mikilvægt þegar svo þungar ásakanir koma fram eins og þeir setja fram í skýrslu sinni.

Sveinn Atli Gunnarsson, 3.3.2010 kl. 12:41

3 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ágúst: Þegar verið er að hrekja amatöra - þá finnst mér í lagi að nota amatöra við það (ekki það - hann er augljóslega enginn amatör þrátt fyrir nafnleysið)... hitt er annað að hann er að vinna að grein um málið, sem verður ritrýnd og þá kemur í fyrsta lagi í ljós hver hinn frægi Tamino er og í öðru lagi þá mun koma í ljós hvernig vinnubrögð Watts og félagar stunda.

Höskuldur Búi Jónsson, 3.3.2010 kl. 12:47

4 Smámynd: Vendetta

Það er ekkert sem bendir til að þessi tímabundna hlýnun jarðar sé af mannavöldum.

Í fyrsta lagi hafa oft verið svona hlýnunarskeið áður en reglulegar mælingar hófust jafnvel löngu fyrir iðnbyltinguna. Íce hockey-kúrfan svokallaða er þess vegna hrein blekking.

Í öðru lagi þarf talsvert meira koltvíildi í andrúmsloftinu til að orsaka hlýnun, amk. tveggja stafa prósentutölur. Hlutfallið af CO2 í andrúmsloftinu í dag er ennþá undir 1%, að meðtöldu öllu koltvíildi útleiddu af mannavöldum.

En hræðsluáróðurinn skapar lifibrauð fyrir ótal embættismenn, og stjórnmálamenn hafna auðvitað engu sem er hægt að skattleggja. Það væri mikið nær að gera tilheyrandi ráðstafanir og aðlaga sig hlýnuninni, sem mannkynið getur hvort eð ekkert gert við, fyrst þessi hlýnun er hvort eð ekki af mannavöldum.

Ég hvet viðstadda til að horfa á myndskeiðin á þessari síðu:

http://en.sevenload.com/videos/UsTF3KX-The-Great-Global-Warming-Swindle

Vendetta, 3.3.2010 kl. 17:17

5 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Vendetta: Þú ferð með fleipur og því rétt að leiðrétta þig:

Í fyrsta lagi hafa oft verið svona hlýnunarskeið áður en reglulegar mælingar hófust jafnvel löngu fyrir iðnbyltinguna. Íce hockey-kúrfan svokallaða er þess vegna hrein blekking.

Það er misskilningur hjá þér að loftslagsbreytingar fyrri tíma afsanni það að hlýnun nú sé af völdum CO2. Náttúrulegar loftslagsbreytingar fyrri tíma sýna þvert á móti fram á viðkvæmni loftslags við breytingm í orkujafnvægi. Þegar Jörðin safnar í sig hita, hækkar hnattrænt hitastig. Sem stendur er CO2 að auka orkuójafnvægi vegna aukinna gróðurhúsáhrifa. Fyrri loftslagsbreytingar veita okkur ennfremur sönnun fyrir viðkvæmni loftslags við breytingum á CO2. Sjá meira á loftslag.is: Afsanna loftslagsbreytingar fyrri tíma, hlýnun jarðar af mannavöldum?

Hvað varðar hokkíkylfuna, þá er hún besta nálgunin sem til er varðandi fornloftslag síðustu þúsund árin (og lengur). En það er mikill miskilngur að auki að kenningin um hlýnun jarðar standi og falli á þessu eina línuriti. Sjá meira á loftslag.is: Mýta: Hokkíkylfan er röng.

Í öðru lagi þarf talsvert meira koltvíildi í andrúmsloftinu til að orsaka hlýnun, amk. tveggja stafa prósentutölur. Hlutfallið af CO2 í andrúmsloftinu í dag er ennþá undir 1%, að meðtöldu öllu koltvíildi útleiddu af mannavöldum.

Þú gerir þér grein fyrir því að núverandi magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu veldur því að hitinn á jörðinni er um 30°C hærri en annars. Annars þætti mér vænt um að fá heimildir fyrir þessari fullyrðingu þinni - því hún er með þeim fullyrðingum sem eru hvað fjarstæðukenndastar af því sem við höfum séð hér á loftslag.is - og höfum við samt séð ýmislegt.

Það væri mikið nær að gera tilheyrandi ráðstafanir og aðlaga sig hlýnuninni, sem mannkynið getur hvort eð ekkert gert við, fyrst þessi hlýnun er hvort eð ekki af mannavöldum.

Við erum sammála því að það er nauðsynlegt að aðlaga sig að loftslagsbreytingunum - en fyrst þú segir að þær séu ekki af mannavöldum, þá hlýtur hún að vera af öðrum völdum. Geturðu sagt okkur hvaða fyrirbæri er valdur að þessari hlýnun? Eitt er víst að sólin veldur ekki núverandi hlýnun, sjá á loftslag.is: Mýta:  Hlýnunin nú er af völdum sólarinnar

Höskuldur Búi Jónsson, 3.3.2010 kl. 18:04

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ýmsir fleiri tenglar sem vert er að skoða:

Varðandi þessa mynd The Global Warming Swindel,  þá er hún villandi og full af vitleysum;

Hérna er t.d. YouTube myndband sem fjallar um þessa mynd (u.þ.b. 9 mínútur) http://www.youtube.com/watch?v=boj9ccV9htk&feature=PlayList&p=AF5937DE798813D5&index=2

Sveinn Atli Gunnarsson, 3.3.2010 kl. 18:18

7 Smámynd: Vendetta

Ég stend við allt sem ég skrifaði. Ekkert af því sem þú skrifar, Höski, breytir afstöðu minni. Þú þarft að gera betur ef þú ætlar að sannfæra mig, og ég sannfærist aðeins af gildum rökum byggðum á, ef ekki sönnunum, þá yfirgnæfandi líkum. Það þýðir ekkert að halda því fram að nokkurra prómilla aukning á CO2 orsaki 30°C hlýnun, án sannana. Og þetta sem þú skrifar um íshockeykúrfuna er vitleysa. Skaftið á kylfunni sem er aðallega tímabilið fram að fyrstu reglulegu mælingum er hrein ágizkun). Heldur ekki þessi myndskeið sem þú setur hlekk á. Þú kallar á sannanir af minni hálfu, en hvernig væri að fá raunverulegar sannanir frá ykkur, ekki bara hálfan sannleik og vafasamar fullyrðingar.

Ég mun leitast við að styðja mínar fullyrðingar á morgun, þegar ég hef safnað saman eins mörgum hlekkjum og þið. Í augnablikinu finnst mér ég vera í sömu stöðu og þegar ég diskútera við sköpunarsinna, sem aldrei vilja hlusta á öll þau rök, sem styðja þróunarkenninguna.

Ég hef horft á þessa mynd An Inconvenient Truth og gat ekki sannfærzt um neitt sem Al Gore hélt fram. Hvar er hann annars þessa dagana meðan á núverandi hnattrænu kólnun stendur? Þorir hann ekki að viðurkenna, að sveiflurnar í loftslaginu eru alveg óháðar þeim snefil af lofttegundum sem mannkynið sleppir út?  

Vendetta, 3.3.2010 kl. 20:44

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ágúst; svona til að svala forvitni minni. Finnst þér ekki ámælisvert hjá þeim Watts og D'Aleo að koma fram með þessar staðhæfingar án þess að gera samanburð á stöðvunum sem notaðar voru áfram og þeim sem hætt var að nota? Skiptir einhverju máli hver (með réttri aðferðafræði) gerir athugunina sem sýnir fram á að vinnubrögð þeirra eru óvönduð, sérstaklega þegar fleiri gera sömu útreikninga í kjölfarið og komast að sömu niðurstöðu? Þessi vinnubrögð Watts og félaga eru til vitnis um slæleg vinnubrögð og það er engin ástæða til verja þau að mínu mati, en einhverra hluta vegna kemur þú fram með athugasemd, sem ekki er efnisleg um málið, heldur beint að þeim sem framkvæmir útreikningana (og okkur líka fyrir að nefna þetta), eru það ekki ad hominem rök? Annars er að koma betur og betur í ljós hversu slæleg vinnubrögð þeirra, sem afneita vísindunum um loftslagsmál, eru. Það virðist oft liggja einhver önnur hvöt á bak við rök þeirra, en að sýna fram á hlutina á vísindalegan hátt.

Sveinn Atli Gunnarsson, 3.3.2010 kl. 20:56

9 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Vendetta: Ólíkt þér, þá fullyrðum við ekki eitthvað - heldur bendum á rök máli okkar til stuðnings. Miðað við það sem þú hefur fram að færa - þá líst mér samt ekki á blikuna að þú farir að fylla allt hér af einhverjum tenglum - veldu frekar fáa og veldu vel, því annars er óvíst að við höfum tíma til að svara þér. En að svaranlegum fullyrðingum þínum í síðustu athugasemd:

Það þýðir ekkert að halda því fram að nokkurra prómilla aukning á CO2 orsaki 30°C hlýnun, án sannana. 

Þetta er ósköp einfalt mál, það er hægt að mæla inngeislun sólar og reikna út hvað hitastig ætti að vera ef hún sæi eingöngu um að hita jörðina - þá væri meðalhiti jarðar um -18°C. Gróðurhúsaáhrifin hækka meðalhitastig jarðar upp í 15°C. Af gróðurhúsalofttegundum, þá hefur sýnt sig að CO2 er það sem veldur mestum gróðurhúsaáhrifum (þótt vatnsgufa sé áhrifaríkust í að magna upp gróðurhúsaáhrifin). Ég hef það á tilfinningunni að þú takir ekki orð mín, né þess sem við höfum skrifað á loftslag.is trúanlegt (þótt við vísum í góðar heimildir) og því bendi ég þér á að lesa orginal heimildir um málið:

Earth’s Annual Global Mean Energy Budget - hér er farið í gegnum niðurstöður rannsókna á orkubúskap jarðarinnar - hvað kemur inn í andrúmsloftið, hvað endurspeglast, hvað mikið gleypa skýin eða endurkastast og síðast en ekki síst hvað gróðurhúsalofttegundirnar gleypa mikið af innrauðri geislun frá jörðinni og geisla mikið til baka - sem hitar upp jörðina.

Measurements of the Radiative Surface Forcing of Climate - hér er farið í gegnum beinar mælingar sem sýna breytingu á innrauðri geislun í átt til jarðarinnar frá lofthjúpnum, líkt og spáð var að myndi gerast við aukningu gróðurhúsalofttegunda.

Og þetta sem þú skrifar um íshockeykúrfuna er vitleysa. Skaftið á kylfunni sem er aðallega tímabilið fram að fyrstu reglulegu mælingum er hrein ágizkun).

Þetta er ekki ágiskun, heldur er notaður fjöldinn allur af vísum (proxies) til að áætla hvert hitastigið var (vöxtur kóralla, dropasteinar, trjáhringir, setkjarnar stöðuvatna og sjávar og ískjarnar). Þar með eru hokkíkylfurnar orðnar nokkrar og byggja á mörgum mismunandi vísum - en þær styðja samt niðurstöðu hverrar annarar - þ.e. að hlýnunin í lok tuttugustu aldar er meiri en nokkurn tíman síðastliðin eittþúsund ár:

 

Þetta er úr greininni: Proxy-based reconstructions of hemispheric and global surface temperature variations over the past two millennia

Hitt er annað að hlýnunin síðustu áratugi er langt frá því að vera náttúruleg - en hlýnun til forna var af náttúrulegum völdum.

Ég mun leitast við að styðja mínar fullyrðingar á morgun, þegar ég hef safnað saman eins mörgum hlekkjum og þið. Í augnablikinu finnst mér ég vera í sömu stöðu og þegar ég diskútera við sköpunarsinna, sem aldrei vilja hlusta á öll þau rök, sem styðja þróunarkenninguna.

Jah - ef þú neitar að hlusta á það sem vísindamenn segja og neitar að hlusta á rök byggð á mælingum og vel ígrunduðum aldagömlum kenningum sem ekki hefur tekist að hrekja - þá eru líkindin við þína afstöðu og afstöðu sköpunarsinna nokkuð lík.

Ég hef horft á þessa mynd An Inconvenient Truth og gat ekki sannfærzt um neitt sem Al Gore hélt fram. Hvar er hann annars þessa dagana meðan á núverandi hnattrænu kólnun stendur?

Geturðu bent mér á einhverja hnattræna kólnun?

Ég vil síðan benda þér á að svara spurningunni sem ég setti fyrir þig áðan. 

Geturðu sagt okkur hvaða fyrirbæri er valdur að þessari hlýnun?

Höskuldur Búi Jónsson, 3.3.2010 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband