Varla hvirfilbylur

Líklega hafa þýðendur á mbl.is orðið fótaskortur á tungunni í fréttinni sem hér er tengt við og líklega er átt við að fellibylur hafi gengið á land í Kína. En svo þetta sé ekki upplýsingalaust tuð, þá er hér frétt um fellibyli framtíðar - áður birt á loftslag.is (sjá Stormar fortíðar sýna vindasama framtíð):

Í nýrri grein, sem birtist í Nature í síðustu viku, er sagt frá rannsókn sem bendir til mun meiri tíðni fellibylja á Plíósen (sem varði frá 5,3-2,6 milljónum ára) en nú- sem leiddi til stöðugs El Nino ástands. Talið er að niðurstaðan geti haft ákveðið forspárgildi hvað framtíðina varðar, miðað við spár um hitastig framtíðar.

Vísindamennirnir notuðu fellibyli og loftslagslíkön til að áætla tíðni og dreifingu fellibylja á Plíósen – en þá var hitastig allt að 4°C hærra en það er í dag. Útkoman var sú að það var tvisvar sinnum fleiri fellibylir á því tímabili en í dag, að þeir entust tveimur til þremur dögum lengur að meðaltali og ólíkt því sem er í dag, þá mynduðust þeir um allt Kyrrahafið.

Myndin sýnir braut fellibylja út frá SDSM - líkani. (a) Loftslag eins og það er í dag (b) á Pliósen. Litir benda til styrks fellibyljanna - venjuleg hitabeltislægð (bláar línur) til fellibyls að styrk 5 (rauðar línur). Brautirnar sýna tveggja ára tímabil hvor á meðaltali 10 þúsund keyrslna úr líkaninu. Smella á mynd til að stækka.

Líkindin á milli Plíósens og þess hitastigs sem líklegt er að verði í framtíðinni, gerir það að verkum að vísindamenn leita meir og meir í að skoða aðstæður þær sem voru þá. Við þessa rannsókn þá komust vísindamennirnir einnig að því að það myndaðist magnandi svörun á milli fellibylja og hringferlis sjávarstrauma í Kyrrahafinu sem útskýrir aukningu í tíðni storma og virðist hafa myndað stöðugt El Nino ástand.

Í dag þá streymir kaldur sjór frá ströndum Kaliforníu og Chile og um svæði fellibyljamyndana við miðbaug – þannig að köld tunga teygir sig í vestur frá ströndum Suður Ameríku. Á Plíósen þá náði þessi tunga ekki að myndast vegna fellibyljanna, sem að blönduðu kalda sjónum við hlýrri sjó. Þessi hlýindi við miðbauginn leiddu til breytinga í andrúmsloftinu sem myndaði fleiri fellibyli  – og magnandi svörun hélt þessu ferli gangandi.

Vísindamennirnir vara þó við því að það sem var að gerast á Plíósen þurfi ekki endilega að gerast í framtíðinni – enda spá flestir því að líklegra sé að í framtíðinni verði færri en sterkari fellibylir (sjá t.d. fréttina Tíðni sterkra storma í Atlantshafi). Eitt er víst að hvort heldur sé réttara, þá má búast við vindasamari framtíð ef hlýnun heldur áfram.

Heimildir

Greinin birtist í tímaritinu Nature (áskrift nauðsyn): Tropical cyclones and permanent El Niño in the early Pliocene epoch

Greinina má lesa í handritsformi hér: Tropical cyclones and permanent El Niño in the Early Pliocene


mbl.is Fellibylur gekk á land í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband