Sýna gervihnattamælingar hækkandi hitastig?

Sumir halda því fram að gervihnattamælingar sýni enga hlýnun í veðrahvolfi lofthjúps Jarðar frá því þær mælingar hófust. Það er alrangt, gervihnattamælingar sýna að veðrahvolfið er að hlýna – líkt og við yfirborð Jarðar.   

Það voru þeir John Christy og Roy Spencer frá Háskólanum í Alabama sem komu fyrst fram með þær fullyrðingar að gervihnattamælingar bentu til þess að veðrahvolfið væri að hitna mun hægar en yfirborðsmælingar og loftslagslíkön bentu til (Spencer og Christy – 1992). Jafnvel héldu þeir því fram á tímabili að gögnin sýndu kólnun (Christy o.fl. 1995).    

Í kjölfarið fóru nokkrir hópar vísindamanna að kanna hverjar væru ástæðurnar fyrir þessu misræmi. Þar sem flestar vísbendingar bentu til þess að það væri að hlýna, þá þótti ólíklegt að veðrahvolfið væri ekki að hlýna. Það kom fljótlega í ljós að villa var í aðferðinni sem þeir félagar höfðu notað til að leiðrétta gögnin. Gervihnettir á ferð um sporbraut Jarðar verða að fara yfir sama punkt á sama tíma til að mæla meðalhita. Í raun gengur það ekki eftir og gervihnettir reka af sporbraut sinni smám saman. Til að leiðrétta fyrir þeim breytingum og öðrum breytingum á braut gervihnattanna þá verður að leiðrétta gögnin.

[...] 

Nánar á loftslag.is - Sýna gervihnattamælingar hækkandi hitastig? 

Tengdar færslur á loftslag.is 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Þetta er reyndar orðið mjög gamalt má og bloggaði ég um það árið 1998. Sjá hér.  Umfjöllunin um vandamálið ásamt skýringarmynd er í rammanum rétt fyrir neðan miðja síðuna.

Það verður að hafa í huga við lestur pistilsins að hann var skrifaður fyrir meira en áratug og allar krækjur eru væntanlega meira og minna úreltar. Einnig að í dag þekkja menn auðvitað betur þessa mæliaðferð sem hefur fjölmarga kosti umfram hinar hefðbundnu á jörðu niðri.

Ágúst H Bjarnason, 3.10.2010 kl. 07:56

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Takk Ágúst - Rétt hjá þér - þetta er gamalt mál, en það eru alltaf einhverjir sem vilja halda því fram að það sé ekki að hlýna og vilja meina að gervihnattagögn sýni fram á það. Staðreyndin er sú að gervihnattagögn sýna greinilega hlýnun, líkt og yfirborðsmælingarnar gera.

Höskuldur Búi Jónsson, 3.10.2010 kl. 10:01

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ágúst, þú talar réttilega um þessa villu í gögnum varðandi gervihnettina, en niðurstaðan sem þú kemst að er kólnun, eftirfarandi er tekið af síðunni þinni sem þú vitnaðir í:

Það er ljóst samkvæmt þessu að áreiðanleiki MSU mælinganna hefur ekki enn verið hrakinn, og sýna mælingarnar að mati NASA manna breytingu sem nemur -0.01°C á áratug, sé ekki tekið tillit til þessa árs.

Kannski þú ættir að laga þetta eitthvað hjá þér. Fyrir utan svo þessa færslu þar sem að þú velur tímabil þar sem gervihnattamælingar yfir stuttan tíma er tekið sem dæmi um lækkun hitastigs (4. júní 2008).

Þannig að það er víst alveg óhætt að skerpa á því að hlýnun hafi átt sér stað samkvæmt gervihnattagögnum, nóg er um rangfærslur í þeim efnum.

Sveinn Atli Gunnarsson, 3.10.2010 kl. 12:17

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Félagar.

Ég neita því alls ekki að það hafi hlýnað á undanförnum áratugum. Alls ekki. Ég er aftur á móti á þeirri skoðun að hlýnunin undanfarið, eins og fyrir 1000 árum og 2000 árum og..., sé fyrst og fremst af völdum náttúrulegra breytinga, en að nokkru leyti vegna aukins magns CO2 í lofthjúpnum.  Í hvaða hlutföllum nákvæmlega hef ég ekki hugmynd um, en þykir líklegt að meirihluti breytinganna eigi sér náttúrulegar skýringar.

Það kemur væntanlega í ljós á næstu árum hvort ég hef rétt fyrir mér. Ég vona reyndar að ég hafi rangt fyrir mér, svo undarlegt sem það kann að virðast . Þið vitið hvers vegna.

Þetta er mál sem ég hef engan áhuga á að deila um. Læt náttúruna hafa síðasta orðið þegar þar að kemur. Hún er fullfær um það . Þegar þar að kemur skal ég fúslega skipta um skoðun ef ástæða verður til.

Ágúst H Bjarnason, 3.10.2010 kl. 13:55

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vísbendingarnar liggja á glámbekk, um að gera að skoða þær, þá geturðu hætt að sérvelja gögn, eins og í færslunni frá 2008, sem eiga að sýna fram á kólnun sem ekki er til staðar...

Við höfum marg bent þér á skekkjur í þinni umfjöllun, þar sem þú hefur sérvalið gögn sem eiga að sýna kólnun eða ýkt þætti sólar og geimgeisla, en samt heldurðu áfram að hunsa þau gögn sem að benda til hlýnunar af mannavöldum...

Jæja, en það verður þó fróðlegt að sjá þegar þú skiptir um skoðun, það hlýtur að gerast einhvern daginn eins og þróunin er :)

Sveinn Atli Gunnarsson, 3.10.2010 kl. 14:12

6 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hlýnunin nú er langt um meiri en fyrir 1000 árum, 2000 árum og ... enda er hlýnunin nú að langmestu leyti af ástæðum sem voru ekki til staðar fyrir tíma iðnbyltingarinnar - þ.e. hin gríðarlega losun CO2 út í andrúmsloftið - sjá hvernig hlýnunin síðustu 2000 ár hafa verið + núverandi hlýnun:

Hvernig er svo líklegt að framhaldið verði:

Á neðri myndinni má t.d. sjá feril Mobergs sem var gulur á fyrri myndinni (hér er ferill hans fjólublár). Hér sést að sveiflurnar sem sjást í ferli hans eru hverfandi miðað við hvað má búast við. Gula svæðið (C3) sýnir okkur hvað myndi gerast ef hægt yrði að halda CO2 stöðugu eins og það var árið 2000 (mjög óraunhæft nú þegar). Bláa, græna og rauða svæðið er eitthvað sem búast má við ef það heldur áfram að ganga illa að draga úr losun CO2. 

Höskuldur Búi Jónsson, 3.10.2010 kl. 15:23

7 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Við sjáum hvað setur...

Ágúst H Bjarnason, 3.10.2010 kl. 17:11

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Tek undir það Ágúst...

Mér þætti þó lang best að á meðan við "bíðum", að við hlustum á þá sem hafa mest vit á þessum málum, sem eru starfandi loftslagsvísindamenn, sem eru nánast alveg sammála um hvað er orsök og afleiðing varðandi þessi mál, sem er einmitt það sem við bendum á, á loftslag.is. Það er að mínu mati mjög varhugavert að setja bara hendur í skaut án þess að hlusta á þær vísbendingar sem við höfum, sem einmitt byggja á rannsóknum og mælingum alvöru vísindamanna. Sá er einmitt tilgangur síðunnar loftslag.is, þ.e. að benda á orsakir, afleiðingar og lausnir varðandi loftslagsfræðin, með tilvitnanir og heimildir í sjálf vísindin.

Sveinn Atli Gunnarsson, 3.10.2010 kl. 18:27

9 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég mun örugglega taka gleði mína aftur og hætta þessu svartsýnisrausi ef það kemur í ljós eftir nokkur ár að þið hafið haft rétt fyrir ykkur en ég verið að vaða villu og reyk varðandi áhrif náttúrulegu sveiflanna og hættu á kólnun á næstu áratugum.

Ágúst H Bjarnason, 4.10.2010 kl. 13:53

10 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Persónulega yrði ég glaður ef allur heimur loftslagsvísindanna hefði rangt fyrir sér, því að þá væri einu vandamálinu minna. Að mínu mati er það stærra vandamál ef heimurinn hlýnar um t.d. 2°C fyrir árið 2100 (eins og vísbendingarnar benda til að geti hæglega gerst, eða jafnvel meira), með afleiðingum eins og t.d. hækkun sjávarstöðu, en að við fáum smávægilegt kuldaskeið í 1-3 áratugi, vegna náttúrulegra sveiflna í sólinni eða hafstraumunum (svona sveiflur geta hæglega hægt á hlýnun, við erum sjálfsagt sammála um það). En þetta er náttúrulega bara mitt mat, sem ég byggi á því sem ég hef lesið um fræðin.

En friður sé með því að við séum ósammála Ágúst (það er hollt að geta verið ósammála og lærdómsríkt líka)...við skulum því bara halda áfram að kvabbast hver í öðrum þar til annað kemur í ljós :)

Sveinn Atli Gunnarsson, 4.10.2010 kl. 14:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband