Svar: Hjarðhugsun Ágústar

Eflaust hafa einhverjir tekið eftir færslu Ágústar Bjarnasonar um Hjarðhugsun, en þar hafa  nokkrir komið með athugasemdir, meðal annars um loftslagsvísindamenn, mannfræðinga, vistfræðinga og skógræktarfrömuði. Því er það undarlegt að eftirfarandi athugasemd skuli ekki hafa fengið birtingu, en skýring Ágústar er þessi: 

Höskuldur Búi Jónsson:

Þú verður að fyrirgefa. Þessi pistill fjallar ekki um loftslagsmál. Hin langa ritgerð þín um þau mál verður því ekki birt.

Með kveðju.

 Það er því með ánægju sem við á loftslag.is birtum athugasemdina hér í heild: 

 

Eins og margir hafa bent á þá er margt gott í þessari færslu Ágústar og stendur hún ágætlega undir nafni - ein og sér. Hitt er annað að þeir sem þekkja til vita að hér er Ágúst að skjóta á loftslagsvísindin og þá staðreynd að 97% loftslagsvísindamanna eru sammála fullyrðingunni að Jörðin sé að hlýna og af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum - þetta er hjarðhegðun að hans mati.

Þessi færsla Ágústar er í raun skrifuð í kjölfarið á því að við ritstjórar á loftslag.is gagnrýndum hann fyrir að vilja nota hitamæligögn frá Stykkishólmi til að efast um hnattræna hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda í athugasemdum annars staðar (sjá athugasemdir hér). Til að skilja hugsunagang Ágústar, þá skulum við hugsa okkur skógrækt – þegar vöxtur tjráa í ákveðnum reit er skoðuð í heild, þá eru trén að vaxa um 25 sentimetra að meðaltali á ári. Um það eru flestir sammála sem skoða nægilega stórt gagnasafn og dreift yfir allan reitinn. Svo kemur maður fram sem segist ekki vilja elta hjörðina – því hann skoði gögnin í einu horni reitsins, sem er ekki í skjóli fyrir kaldri norðanáttinni. Þar er vöxtur lítill - sum tré að drepast, önnur tré standa í stað og sum vaxa um 2-3 sentimetra á ári - þar af leiðandi telur viðkomandi ekki að trjávöxtur í reitnum sé marktækur. Hann eltir ekki hjörðina.

En aftur að þessari færslu, en með henni er Ágúst að gefa í skyn að hinn yfirgnæfandi meirihluta loftslagsvísindamanna sé einhverra hluta vegna að sýna af sér hjarðhegðun – á móti eru þá þeir sem eru á sömu skoðun og Ágúst, lausir við hjarðhegðun eða hvað? Auðvitað er hægt að benda á hið gagnstæða, því þrátt fyrir ósamræmi í gögnum "efasemdarmanna" - þá eru þeir sammála um að öll gögn sem eru í ósamræmi við þeirra eigin skoðanir séu röng á einhvern hátt - er það ekki ágætt dæmi um hjarðhegðun?

Það að vísindamenn innan ákveðins geira eru komnir að ákveðnum kjarna sem flestir geta verið sammála um innan greinarinnar, virðist vera orðið merki um hjarðhegðun - allavega innan viss kjarna "efasemdamanna" hér á landi með Ágúst fremstan í flokki fylkingar. Það að loftslagsvísindamenn segja að yfirgnæfandi líkur séu á að kenningin um hnattræna hlýnun af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum sé rétt og að ekki hafa komið fram kenningar eða mæligögn sem hrekja það– þ.e. kenninguna um hin auknu gróðurhúsaáhrif.

Yfirleitt þykir það ekki neikvætt þegar vísindamenn eru búnir að sanka að sér nógu miklum gögnum og mælingum til að sýna fram á hvernig eitthvað í náttúrunni virkar (í þessu tilfelli fjölmargar mismunandi rannsóknir, mælingar á hnattrænu hitastigi með yfiborðsmælum og gervihnöttum – mælingar á hafísútbreiðslu, jöklabráðnun, breytingu á útbreiðslu lífvera og svo framvegis) – ath. hér er ekki verið að halda því fram að niðurstaða sé komin varðandi endanlegar afleiðingar losunar manna á gróðurhúsalofttegundum - aðeins er því haldið fram að Jörðin sé að hlýna, það séu að verða loftslagsbreytingar og að þær séu að mesta leiti af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundu og þær loftslagsbreytingar muni halda áfram.

Um þetta ber loftslagsvísindamönnum saman um og að mínu mati er þar ekki um hjarðhegðun að ræða - heldur bein afleiðing þess hvað gögn og mælingar segja okkur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Í fyrsta lagi er þessi pistill ykkar, sem tileinkaður er Ágústi H. Bjarnason, ótrúlega óskammfeilinn og ykkur til mikillar minnkunar.

Í öðru lagi; þið segið hér:

 "...staðreynd að 97% loftslagsvísindamanna eru sammála fullyrðingunni að Jörðin sé að hlýna og af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum..."

Ég spyr; þeir sérfræðingar sem lögðu þekkingu sína til, fyrir IPCC, voru þeir allir "loftslagsvísindamenn"?

Og ég spyr einnig;Var gerð formleg könnun á því, hverjir eru 100% vissir um orsök (og ekki síst afleiðingar) hnattrænrar hlýnunar og ef sú könnun fór fram, hvert var svarhlutfallið?

Og þriðja spurningin; Hvaða meðhöndlun fær þessi meinta 3% vísindamanna, sem hafa "efasemdir" (þið kallið þá reyndar "afneitunarsinna" ) af hinum 97%?

Ef meðhöndlun þessa meirihluta er á svipuðum nótum og skrif ykkar á þessari bloggsíðu, þá getur bloggpistill Ágústs vel átt við "loftslagsvísindamenn", þó hann hafi hvergi minnst á loftslagsmál í pistli sínum. En það gat Höski greinilega ekki skilið, heldur gerir hann hinum ágæta bloggara upp hugsanir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.2.2011 kl. 00:28

2 Smámynd: Einar Þór Strand

Það er sennilega rétt hjá ykkur að loftslags"vísindin" eru gott dæmi um hjarðhugsun en Ágúst minntist ekkert á þau í sínum pistli en vissulega var það ger í athugasemdum.  Persónulega finnst mér þið skulda Ágústi afsökun fyrir að fara í manninn í stað þess að ræða málefnið og reyndar sýnduð þið mér í eitt skipti fyrir öll að það verður að endurskoða alla umræðu um loftslagsmál og sennilega náttúruvísindi vegna þess að þar er ekki leyft að hafa skoðanir heldur verða allir að vera sammála.  Og eins og Ibsen sagði í þjóðníðingum "meirihlutinn hefur alltaf rangt fyrir sér" þá gerir sú fullyrðing ykkar um að 97% loftslagsvísindamanna sé sammála um að jörðin sé að hlýna af mannaföldum það af verkum að ég efast um að það sé allt með feldu.  Einnig það að geta ekki leyft fólki að velta fyrir sér hlutunum á þess að níða það er ekki mjög faglegt.

Svo að lokum þá er kannski rétt að benda á að ef þið hafið rétt fyrir ykkur sem vel getur verið, þá er ekki til sá stjórnmála eða vísindamaður sem þorir að tækla málið. Vandamálið er því miður að mannfjöldinn á jörðinni er sennilega orðinn að minnsta kosti tvöfaldur sá fjöldi sem jörðin ber. Hver þorir að ræða það opinberlega?

Einar Þór Strand, 9.2.2011 kl. 09:03

3 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Gunnar: Er óskammfeilni falin í því að birta sem færslu, athugasemd sem er jafn saklaus og þessi hér fyrir ofan. Ritskoðun er eitt af því sem að þú hefur gagnrýnt þá sem eru á öndverðu meiði við þig - því ekki að líta á þetta sem skref til að uppræta slíkt?

Hitt er annað að fjölmargir voru búnir að fara útfyrir efnið - en það er ekki fyrr en það er ég sem geri slíkt (að hans mati) sem að hann grípur til ritskoðunar. Auk þess er  augljóst að Ágúst á við loftslagsvísindamenn - þ.e. ef þú hefur skoðað athugasemdirnar hjá Trausta sem vísað er í (sjá athugasemdir hér).

Varðandi spurningar þínar - þá ættirðu að geta leitað sjálfur og fundið svar við flestum  spurningunum, sjá ipcc.ch - þær skipta þó ekki máli í sambandi við þessa athugasemd/færslu að mínu mati - því eitt er 97% samdóma álit loftslagsvísindamanna og annað er samantektarskýrsla vísindamanna um loftslagsmál. 

----

p.s. ég ætla að birta hér líka athugasemd sem ég setti inn og Ágúst ákvað að ritskoða líka - væntanlega of mikill skætingur að hans mati?

Fyndið að þú skulir ritskoða athugasemdina, svona miðað við að færslan fjallar um hjarðhugsun - talandi um að gefa mönnum ekki færi á að hugsa öðruvísi en þú og hafa aðra skoðun en þú.

Höskuldur Búi Jónsson, 9.2.2011 kl. 10:00

4 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Einar: Þetta eru okkar viðbrögð við ritskoðun hans, hann hefði getað haldið þessari saklausu athugasemd inn á sínu bloggi, en hann vildi ekki birta hana.

Pistill hans er að mínu mati beint um loftslagsvísindi (sjá athugasemdir hér)  - en þó svo væri ekki, þá er það ósanngjarnt af honum að ritskoða mig sérstaklega, svona ef skoðaðar eru athugasemdir hinna - en þar koma pælingar um loftslagvísindamenn, mannfræðinga, skógfræðinga og vistfræðinga o.fl.

Er eitthvað í athugasemdinni/færslunni hér að ofan sem er svo alvarlegt að hann hefði ekki getað birt hana líkt og hverja aðra athugasemd?

Á þessi athugasemd ekki fullkomlega rétt á sér miðað við hvernig umræðurnar höfðu þróast?

Getur verið að ástæða ritskoðunarinnar sé sú að ég sýni ekki þá hjarðhegðun að vera sammála honum?

Höskuldur Búi Jónsson, 9.2.2011 kl. 10:10

5 Smámynd: Einar Þór Strand

Höskuldur: Þú hefðir getað skrifað þetta án þess að persónugera það.

En Höskuldur hvenær verður farið að ræða offjölgun og loftslagsbreytingar í stað loftslagsbreytinga og skattheimtu?

Einar Þór Strand, 9.2.2011 kl. 11:43

6 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Einar:

Geturðu útskýrt fyrir mér hvað þú átt við með að persónugera?

Geturðu einnig útskýrt fyrir mér á hvaða plani þú vilt ræða offjölgun?

Höskuldur Búi Jónsson, 9.2.2011 kl. 12:16

7 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Mig langar til að birta hluta athugasemdar Ágústar sem hann skrifaði við hjarðhugsunarpistil sinn áður en hann lokaði fyrir athugasemdirnar. Mér finnst þetta athyglisvert, ekki síst í ljósi fyrri athugasemda við pistil Ágústar og athugasemda Höskuldar við hann sem var síðan ritskoðuð:

Í fræðunum um groupthink er fjallað um hugsanagæslumenn (mind guards) sem gæta þess að hjörðinni berist ekki óheppilegar upplýsingar, persónuárásir (ad hominem) sem notað er þegar rök þrýtur, og sitthvað fleira sem einkenni hóphugsunar eða groupthink.

Nú hefur mér öðlast sá mikli heiður að á Sveinn Atli Gunnarsson (Svatli) og Höskuldur Búi Jónsson (Höski Búi) hafa skrifað heilan pistil um mig á velþekktu bloggsvæði sínu loftslag.blog.is. Pistillinn nefnist hvorki meira né minna en Hjarðhugsun Ágústar.

Vil ég nú eindregið hvetja alla lesendur þessa pistils að fara á loftslag.blog.is og lesa nýjasta pistilinn. Gjarnan skrifa komment þar ef menn telja ástæðu til og vísa til þessarar athugasemdar, en það mun ég ekki gera sjálfur.

Sjálfur vil ég gjarnan mega þakka félögunum Svatla og Höska fyrir að koma með dæmi sem passar einstaklega vel við umræðuefni þessa pistils sem er "Hjarðhugsun manna eða Groupthink" eins og fyrirsögnin bendir til. Það er ekki á hverjum degi sem svonalagað smellpassar við umræðuefnið.

Takk enn og aftur fyrir aðstoðina Höski Búi og Svatli . Ég mun ekki eiga við ykkur orðastað um þessi mál eða loftslagsmál í framtíðinni... Þeim kafla er lokið.

---

Í fyrsta lagi þá er þessi pistill svar til Ágústar, eftir að hann greip til ritskoðunar (með nákvæmlega sömu athugasemd og Ágúst lokaði fyrir), en er ekki hugsaður sem sérstakur pistill. Mér finnst ritskoðun Ágústar mjög undarleg í ljósi fyrri athugasemda sem hann hafði leyft við pistilinn. Enda nefnist pistillinn hér að ofan "Svar: Hjarðhugsun Ágústar", en ekki "Hjarðhugsun Ágústar", eins og Ágúst virðist halda.

Í öðru lagi er farið um víðan völl í umræðunum í athugasemdakerfinu hjá Ágústi við færslu hans og þar er, eins og Höski nefnir, m.a. komið inn á skógfræði, mannfræði, vistfræði og líka loftslagsvísindi. En það má greinilega ekki nefna hjarðhegðun vissra aðila, þá lenda athugasemdir í ritskoðunarferli Ágústar.

Að lokum þá langar mig að beina orðum mínum að Ágústi:

Mig langar að þakka fyrir umræðuna um loftslagsmál hingað til, hún var fróðleg á köflum, ég vona þó að Ágústi renni reiðin og endurskoði afstöðu sína til umræðunar um loftslagsmálin - enda ekkert í athugasemd Höskuldar hér að ofan sem getur fallið undir brot á ritstjórnarreglum hans. Þetta er í mínum augum ritskoðun hjá Ágústi, af því að Höskuldur kom inn á hlut hjarðhegðunar sem Ágúst vildi ekki taka upp og ræða nánar.

Sveinn Atli Gunnarsson, 9.2.2011 kl. 14:59

8 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Þá fyrst er ég á varðbergi þegar yfirgnæfandi meirihluti vísindamanna er sammála um eitthvað og ekki þurfi að ræða aðrar skoðanir, sagan uppfull af dæmum um slíkt til aðvörunar.

Georg P Sveinbjörnsson, 9.2.2011 kl. 19:26

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Vísinda--hvað? hafa menn ekki augu og eyru sem þeir trúa? Þarf ég að lesa vísindaritgerð til að átta mig á því hvort mér sé kalt á fótunum.

Grænlandsjökull er á hröðu undanhaldi. Höfin eru að súrna. Fiskur er ekki lengur hæfur til neyslu vegna mengunar á afmörkuðum, stórum svæðum.

Átuskortur er að gera útaf við nokkra varpstofna við Ísland. Sandsílið hefur varla verið merkjanlegt við ströndina. Vísbendingarnar og váboðarnir hrannast upp.

Til hvers höfum við þessa vísindamenn?

  En þetta virðist ekki nægja til að sannfæra þessa aumingja menn sem hafa ekki kjark til að horfa í spegilinn og sjá hvað við erum að gera lífríki jarðar.

Árni Gunnarsson, 9.2.2011 kl. 20:34

10 Smámynd: Einar Þór Strand

Þú persónugerir þegar þú notar "Hjarðhegðun Ágústar" sem titil sem á svo varla við þar sem einn maður er varla hjörð, reyndar sannar þú þar að fara í manninn ekki málefnið.

Varðandi offjölgunina þá vil ég sjá raunverulega tillögur frá vísindamönnum um hvað gera á eitthvað sem virkar ekki "okkur vantar pening til að skrifa dæmi".

Árni þetta er ekki í fyrsta skiptið sem loftslag breytist, þú segir til hvers höfum við vísindamennina sem er góð spurning því ekki gefa þeir svör sem geta gegnið í raun.

Einar Þór Strand, 9.2.2011 kl. 20:44

11 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Einar: Með titlinum Svar: Hjarðhugsun Ágústar, er ég beint að vísa í að þetta er svar við færslu Ágústar um hjarðhugsun. Það að þú kýst að skilja það öðru vísi er á þinni ábyrgð.

Höskuldur Búi Jónsson, 9.2.2011 kl. 21:18

12 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Svona til að það sé alveg ljóst, þá er málið það að við Höski, viljum ræða málin á breiðum grundvelli, miðað við það sem mælingar og rannsóknir sýna okkur, en ekki einhverja óskhyggju og útúrsnúninga, eins og stundum vill verða í athugasemdum t.d. hér á þessari síðu. Ég er t.d. langt frá því að vera viss um að við Höski séum sammála um hvernig á að nálgast lausnir eða um hvort að hitt eða þetta atriði vegi þyngra í umræðunni (sjá t.d. yfirlýsingu okkar á loftslag.is), svo dæmi sé tekið. Við teljum þó báðir að það sé mjög sterkur grundvöllur fyrir því að gera eitthvað við loftslagsvandanum, enda benda nánast öll gögn (og það úr mörgum ólíkum áttum) til þess að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu staðreynd.

En það sem sumir aðilar vilja gera, er að taka einstök atriði eða mælingar út og staðhæfa eitthvað um fals vísindamanna eða skeikulleika fræðigreinarinnar út frá því, í stað þess að skoða heildarmyndina. Við Höski höfum verið duglegir að benda á þegar slíkar rökleysur eru settar fram. Það hlýtur að mega benda á betri gögn þegar slíkar rökleysur eru í gangi, en það virðist þó fara í taugarnar á ákveðnum hóp manna...jæja, en hvað um það, það verður þá bara svo að vera, enda hafa sumir hjakkast eins og rjúpur við staur við að rakka okkar málflutning niður allt frá upphafi - án árangurs, sem virðist vera farið að fara í taugarnar á einhverjum.

Sveinn Atli Gunnarsson, 9.2.2011 kl. 21:51

13 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Árni, það sjá og finna allir breytingarnar, málið er hvort að fyrst og fremst sé um að kenna gróðurhúsalofttegundum eða eðlilegum sveiflum eins og hafa komið oft áður í sögu mannkyns. Flest bendir til að hlýrra hafi verið t.d á landnámsöld en nú er orðið og ekki fórst heimurinn þá. Allir sammála um það held ég að ganga þarf betur um Móður Jörð og minnka mengun og slæma umgengni um auðlindir á allan mögulegan hátt og óþarfi að segja "aumingjans menn" sem eru ekki alveg að kaupa hræðsluáróðurinn, raunar margt sem bendir til þess að nú muni kólna hratt næstu áratugi og hlýindaskeiði sé lokið í bili.

Georg P Sveinbjörnsson, 10.2.2011 kl. 20:02

14 identicon

Ég held að þetta sé ekki rétt hjá þér Georg. Það bendir flest til þess að heitara sé nú en var á landnámsöld. Þá er ég að tala um meðalhita á jörðinni. Ef teknir eru einstakir staðir út úr, þá er annað uppi á teningnum, því dreifing varmans um jörðina breytist við tilfærslu veðrakerfa eða breytingu á hafstraumum. Margt sem bendir til að N- Atlantshaf hafi verið tiltölulega hlýtt á þessum tíma kannski vegna sterkari Golfstraums.

Umfjöllun um orsakir fyrri loftslagsbreytinga er víða að finna. Það eru t.d. ágætisfærslur um það efni á loftslag.is. Fyrri tíma loftslagsbreytingar af náttúrulegum orsökum útiloka ekki loftslagsbreytingar af mannavöldum. Rannsóknir á þeim fyrrnefndu eru reyndar mikilvægur hluti af skilningi okkar á þeim síðarnefndu.

Jón Erlingur Jónsson (IP-tala skráð) 10.2.2011 kl. 20:54

15 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég skil ekki þá sem vilja kalla upplýsingar um loftslagsmál og vísindi hræðsluáróður, en kannski þeir séu bara hræddir við gögn sem fengin eru með vísindalegum aðferðum - sem er merkilegt í sjálfu sér. Merkilegt er einnig að grípa til þess að afneita gögnum vísindamanna í stað þess að skoða gögnin með gagnrýnum augum. Það er nokkuð ljóst út frá gögnum og mælingum vísindamanna að við mannfólkið erum fær um að hafa áhrif á loftslag Jarðar með óheftri losun CO2 og annarra gróðurhúsalofttegunda.

Sveinn Atli Gunnarsson, 10.2.2011 kl. 21:22

16 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Ég reikna allavegana fastlega með því að þurfa að nota hlýju úlpuna mun meira á næstu áratugum en stuttbuxurnar, svo er bara að sjá hvort að ég sé að veðja á réttan hest, held að margir "rétttrúaðir" munu verða illa hissa á næstu árum. en auðvitað vona ég að ég hafi rangt fyrir mér, frekar vil ég hlýnun en kólnun, svo mikið er víst.

Georg P Sveinbjörnsson, 10.2.2011 kl. 21:40

17 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Georg, þú ferð þá bara í að kaupa þér úlpu og vonast eftir hlýnun (sem hefur verið í gangi í nokkurn tíma núna), við höldum þá bara áfram að skoða fræðin á okkar hátt. Ég myndi persónulega ekki veðja á móti gögnum sem eru eins vel ígrundu og gögn loftslagsvísindamanna, en þú um hvað þú gerir Georg.

En hér í lokin langar mig að benda á eftirfarandi; Mælingar staðfesta kenninguna

Sveinn Atli Gunnarsson, 10.2.2011 kl. 21:50

18 identicon

Georg. Ég skipti mér ekki af því hvernig þú raðar í fataskápinn þinn. Það er nokkuð ljóst að þú hefur ekki áhuga á því að skilja hvernig loftslag virkar eða kynna þér hvað vitað er um það.

Ég er reyndar líka á þeirri skoðun að ýmislegt geti gerst sem ekki er fyrirsjáanlegt. Það sem er fyrirsjáanlegt er að hlýnun jarðar vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa heldur áfram (en meðalhiti jarðar fer upp og niður fyrir tilverknað annarra þátta eins og verið hefur). Áhrif þessa á veðrakerfi og hafstrauma er hins vegar erfiðara að segja til um. Sérstaklega ef ekki verði gripið í taumana fljótlega og jörðin verði látin hitna um 3, 4, 5 eða 6 gráður. Hvernig verður umhorfs hér þá er afskaplega erfitt að sjá fyrir. Fyrir efri tölurnar þarf að fara tugi milljóna aftur í jarðsöguna til að finna sambærileg skilyrði og reyna að gera sér mynd út frá þeim gögnum.

Jón Erlingur Jónsson (IP-tala skráð) 10.2.2011 kl. 22:20

19 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ísland árið 2200. Ekki slæmt!

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.2.2011 kl. 22:33

20 identicon

Þurrkaðu út pálmana og settu hraunjaðar í staðinn. Svo er ekki vitað hvernig Golfstraumnum reiðir af. En það er frekar ólíklegt að Ísland fari verst út úr hlýnun jarðar. Fleiri stuttbuxnadagar munu svo gleðja margan stuttbuxnadrenginn.

Jón Erlingur Jónsson (IP-tala skráð) 10.2.2011 kl. 23:33

21 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Eftir pólskiptin (og Ísland er víst ekki versti staður til að vera á þegar þau verða segja þau er sjá nefi sínu lengra) verðum við íslendingar í mun hlýrra loftslagi og mun farnast vel bæði á meðan snúningnum stendur og eftirleiknum, alltaf gott að hafa vitneskju sem þeir sem eru í góðum tengslum við andaheima hafa fram að færa og njóta leiðsagnar þeirra

Georg P Sveinbjörnsson, 16.2.2011 kl. 20:19

22 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Georg: Hvað áttu við og geturðu komið með heimildir sem benda til þess að það sem þú segir sé ekki eitthvað rugl sem þig dreymdi?

Höskuldur Búi Jónsson, 16.2.2011 kl. 23:48

23 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Held að það væri að æra óstöðuga ef ég færi að koma með heimildir úr andaheimum þar sem vísindasamfélagið trúir helst aðeins því sem hægt er að mæla með tækjum þess og tólum :)

En Shamanar og og aðferðir þeirra við að nálgast upplýsingar er sérstakt áhugamál hjá mér...eða eins og vitur maður sagði einhverntímann eitthvað á þessa leið: Í hvert skipti sem að öflugur shaman deyr er það tjón á við það þegar gott bókasafn brennur til grunna. Ég trúi á margt fleyra en "viðtekna vísindaþekkingu" hvers tíma, jafn fallvölt og hún reynist ítrekað í gegnum aldirnar og tel öllum hollt að leggja við eyrun þegar góð ráð og aðvaranir koma "að handan" ;)

Georg P Sveinbjörnsson, 17.2.2011 kl. 04:27

24 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Allt í lagi, var ekki viss um að heimildin væri á þessum nótum :)

Höskuldur Búi Jónsson, 17.2.2011 kl. 07:50

25 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Geri mér líka fulla grein fyrir því að slík skilaboð og vitneskja fengin með þessum aðferðum verður seint tekin alvarlega af vísindasamfélaginu þótt vissulega finnist vísindamenn sem hafi áhuga á þessum hlutum, hér er ég vissulega komnir langt út fyrir þráð greinarinnar og ég biðst afsökunar á því.

Loftlagsmál eru mér samt hugleykin og ég kíki reglulega á loftlag.is og þessa síðu og hafið þakkir fyrir að halda síðunni úti og alla vinnuna sem fer í þetta þótt við séum ekki sammála um ýmisleg, enda er ég er alger leikmaður þegar kemur að vísindum og treysti því meira á innsæi mitt og fleyri til að reyna að skilja gangverkið, hvers virði sem það svo er :)

http://www.youtube.com/watch?v=ze0qVmghxF0

Georg P Sveinbjörnsson, 17.2.2011 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband