Fréttir liðinnar viku - Loftslag.is

Hér er yfirlit yfir ýmsar fréttir sem við rákumst á við fréttaöflun vikunnar. Þetta eru stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint. Einnig er hér stutt yfirlit yfir færslur vikunnar af Loftslag.is. Þess má einnig geta að á næsta þriðjudag verður viðtal við okkur í Vísindaþættinum á Útvarp Sögu. Þátturinn er á dagskrá klukkan 17-18 á þriðjudag.

Stuttar fréttir

Fæðuöryggi í vanþróuðum löndum heims minnkar töluvert og allt að 25 milljónir fleiri börn verða hungri að bráð árið 2050 ef ekkert er gert til að sporna við loftslagsbreytingum samkvæmt nýrri bandarískri rannsókn. Hér er á ferðinni umfangsmikil rannsókn á tengslum milli loftslagsbreytinga og fæðuöryggis. Stærstu áhrifin verða á uppskeru hveitis og hrísgrjóna. Talið er að uppskera hveitis geti dregist saman um 20-35% árið 2050 miðað við óbreyttar áherslur í losun gróðurhúsalofttegunda. Sjá nánari umfjöllun á vef Nature.

Óvenjuhátt hitastig norðurskautsins og miklar rigningar í hitabeltinu er talið líklegur orsakavaldur fyrir hinni hnattrænu aukningu í metani í andrúmsloftinu frá árinu 2007 og 2008, samkvæmt NOAA. Áratuginn þar á undan hafði lítil sem engin aukning verið, en metan er önnur mikilvirkasta gróðurhúsalofttegundin - á eftir CO2 (koldíoxíð). Sjá nánar frétt af vef NOAA.

Votlendi sem verður til þegar lónstæði stórrar stíflu í Kína þornar að hluta á sumrin er hugsanlega stór uppspretta metans sem er áhrifarík gróðurhúsalofttegund. Vísindamenn hafa haft vaxandi áhyggjur af gróðurhúsalofttegundum frá gróðurlendi sem fer undir vatn við stíflugerð. Þegar slík lífræn efni rotna, þá losnar metan og CO2 sem bæta á þá hlýnun jarðar sem nú þegar í gangi. Aukning í metani er sérstakt áhyggjuefni þar sem áhrif þess er tuttugu sinnum áhrifameira en áhrif CO2. Sjá nánari umfjöllun á vef Nature.

Yfirlit - fréttir og pistlar vikunnar:

loftslagSíðastliðinn laugardag þá birtum við 2 færslur sem fjölluðu beint og óbeint um jökulísinn og hækkun sjávarborðs. Fyrst má nefna myndband um sjávarstöðubreytingar og síðan frétt um nýjar rannsóknir sem skoðuðu þynningu jökulíssins á Grænlandi og Suðurskautinu. Önnur merkileg frétt úr vikunni sem leið var fréttin um fjórar gráðurnar, sem er ný frétt um rannsóknir á vegum Met Office (bresku veðurstofunnar), þar sem því er haldið fram að óheft losun koldíoxíðs geti leitt til allt að 4°C hækkun hitastigs fyrir næstu aldamót. Myndbönd vikunnar voru nokkur, má þar helst nefna myndband af sýn Carl Sagan á bláa punktinn sem við lifum á, hversu agnarsmár hann er í samanburði við alheiminn, auglýsing frá Bandaríkjunum sem hefur vakið furðu og svo heimildamynd um súrnun sjávar. Einnig skrifuðum við um Sea Level Explorer, þar sem hægt er að skoða áhrif sjávarstöðubreytinga á hina ýmsu staði í heiminum. Síðast en ekki síst þá skrifaði Einar Sveinbjörnsson gestapistil vikunnar, sem fjallar um "Veðurfar Norðurheimskautsins frá upphafi okkar tímatals" og kunnum við honum þakkir fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Því miður óttast ég að veturinn framundan verði æði kaldur, ég held að nýtt kuldaskeið sé hafið og nái hámarki upp úr 2030.

Hvers vegna segi ég þetta?

Vegna þess að ég reyni að skoða allt sem ég kemst yfir varðandi loftslagsmál. Þess vegna fagnaði ég framtaki ykkar með Loftslag.is en ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum. Þið eruð hlutdrægir í allri ykkar umfjöllun, birtið aðeins það sem fellur undir kenninguna um að CO2 og mannanna verk sé að hækka hita hnattrænt, þið eruð sem sagt á IPCC línunni og hver er hún?

Að sanna að maðurinn sé að auka hita hnattrænt með gjörðum sínum. IPCC var ekki stofnað til að finna það sem sannara reynist og þið eruð greinilega á leiðinni að verða viljalaus verkfæri þessa alheimsáróðurs.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 2.10.2009 kl. 14:14

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Sigurður: Þetta verður ansi langur vetur hjá þér.

Fyrst þú tekur ekki mark á því sem við skrifum, þá geturðu allavega skoðað það sem gestapistlahöfundar okkar skrifa. Þeir ráða sín efnistök sjálfir - nema hvað að umfjöllun þeirra þarf að tengjast loftslagsmálum á einn eða annan hátt. Einnig mátt þú eins og aðrir kommenta við fréttir og umfjallanir á heimasíðunni ef þér finnst við fara með rangt mál.

Varðandi mýtuna sem þú hefur uppi um að IPCC hafi verið stofnað til að fara með fleipur og að eitthvað samsæri sé í gangi - þá hafa margir svarað því, sjá t.d. hér. Við höfum ekki enn skrifað um þessa mýtu á loftslag.is, en gerum það örugglega þegar líður á veturinn. Þangað til geturðu skoðað aðrar mýtur sem menn halda oft á lofti - sjá á loftslag.is -> Hér

Höskuldur Búi Jónsson, 2.10.2009 kl. 14:49

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Sigurður; hvar finnur þú lesefni sem varða loftslagsmál? Þú vitnar almennt ekki í neitt þegar þú fullyrðir eins og t.d. nú; að veturinn verði kaldur. Hvar verður hann kaldur? Hvaða gögn hefur þú varðandi það?

Ef þú hefur lesið svona mikið af efni varðandi þessi mál, þá finnst mér óhæft að þú komir ekki fram með gögnin, ef þau geta hugsanlega stutt mál þitt á einhvern hátt.

Við reynum alltaf að vitna í greinar og annað ítarefni þegar við skrifum færslur á Loftslag.is, þannig verður gegnsæið mest. 

Sveinn Atli Gunnarsson, 2.10.2009 kl. 15:37

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Tek undir með Sigurði um vonbrigðina

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.10.2009 kl. 02:44

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Við umsjónarmenn Loftslag.is viljum segja frá því sem vísindin hafa að segja um loftslagsbreytingar. Það inniber ekki sérstaklega að við þóknumst öllum hópum með skrifum okkar. Lesendum er velkomið að koma með málefnalegar athugasemdir og við fögnum því að fram komi umræða á vefnum varðandi málin. Það eru óvissupunktar í þessu eins og öðru, en ég tel þó að grunnkenningin sé rétt, því vísindaleg rök hennar eru sterk.

Sveinn Atli Gunnarsson, 6.10.2009 kl. 09:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband