Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Útblástur eldfjalla

Í umræðuna um loftslagsmál, koma stundum fram fullyrðingar um það hversu lítil áhrif mennirnir hafa miðað við eldfjöllin. Það er einhver míta í gangi þar, sem er kannski eðlilegt því eldfjallafræðingar héldu uppi þeirri mítu á árum áður.

44226451dipthreeapf27b9sd8 
Eldfjallið Anak Krakatau í Indónesíu, en eldfjöll gefa frá sér ýmis gös, meðal annars CO2. 

Fyrir fáeinum árum reiknuðu vísindamenn magn útblásturs CO2 frá eldfjöllum (bæði á landi og á botni sjávar) og útreiknað magn þess sem eldfjöll gefa frá sér samtals eru 130-250 milljón tonn af CO2 á ári - sem er slatti.

Menn gefa frá sér um 29 milljarða tonna á ári í allt (tölur frá árinu 2006).

Eldfjöll gefa því frá sér tæplega 1 % af því sem menn gefa frá sér af CO2. Þau hafa því sáralítil áhrif miðað við mennina, allavega undanfarna áratugi.

Þá hafa ísótópamælingar á CO2 leitt í ljós að það sé upprunnið úr brennslu eldsneytis mannana.

Ef menn eru ekki sannfærðir og telji að eldgos fyrri tíma hafi framleitt meira CO2 en þau sem eru grundvöllur þessara mælinga, þá er hér graf sem sýnir CO2 magn út frá ískjörnum, sem benda til þess að það sé ekki mikið stökk í CO2 við stærstu eldgos fyrri tíma:

 volcanoes_co2
Mynd sem sýnir CO2 magn úr ískjörnum (Law dome, Antarktíku) og svo samanburð við mæld gildi frá Hawai. Örvarnar sýna dagsetningar nokkurra stórra eldgosa (U = óþekkt 1258, T = Tambora 1815, K = Krakatá 1883, A = Agung 1963 og P = Pinatubo 1991 sem olli tímabundinni kólnun á misserunum þar á eftir, sjá hér fyrir neðan). 

Það er því ljóst að eldgos hafa sáralítil áhrif til hlýnunar á jörðinni, en samt hafa þau áhrif á hitastig tímabundið. 

Stór eldgos geta til dæmis haft töluverð áhrif til kólnunar og þá vegna öskuskýja og sýruúða sem hindrar sólarljósið í leið sinni niður til jarðar (samanber kólnunina árið 1991 - Pinatubo). Önnur dæmi eru til um slík eldgos og nærtækast að er að taka skaftárelda 1783-84, en það eldgos er talið hafa kælt norðurhvel jarðar í 2-3 ár (talið er að franska byltingin sé að hluta til afleiðing af því gosi (en það er önnur saga og væri skemmtilegt að taka það saman einhvern tíman, þó ég hafi ekki fullkomna þekkingu á því).

 Laki2
Lakagígar, en þeir brunnu í Skaftáreldum 1783-84.


Endajaxlakenningin

Mér var bent á línurit sem olli mér heilabrotum (sá það fyrst hér hjá Ágústi Bjarnasyni):uah_lt_since_1979_810359

Það er Dr. Roy Spencer (einn af andstæðingum kenninga um hnattræna hlýnun af mannavöldum) sem bjó þetta línurit til. Mér skilst að það eigi að sýna fram á að nú sé að kólna aftur, eftir hlýnun undanfarins áratugs, með því að skoða teiknaða trend línu (sem er útreiknuð fjórðu gráðu margliða). Gögn eru fengin frá gervitunglamælingum frá 1979 og til febrúar í ár. Sjá grunngögnin hér

Þetta er ansi sannfærandi línurit og já gott ef það sýnir okkur ekki að nú fari að kólna aftur.

Af því að ég hékk heima, því sonur minn er með flensu þá ákvað ég að skella gögnunum inn í Excel og búa til svona trendlínu. Það er ekkert mál, Excel gerir það nánast fyrir mann ef maður kann ögn á það forrit. Mér tókst að endurskapa þennan feril nokkurn vegin, ekki alveg eins en mjög svipaður:
Trendlína_takmorkud
Með því að smella á myndina og svo aftur, þá ætti að vera hægt að sjá hana stærri.

En ég var að sjálfsögðu allt of forvitinn og ákvað að sjá hvernig þetta trend rímar við fortíðina og hvernig það myndi þá spá fyrir um framtíðina og excel reiknaði:

Trendlína_framlengd
Með því að smella á myndina og svo aftur, þá ætti að vera hægt að sjá hana stærri.

Í ljós kemur að fimbulkuldi kuldaskeiða ísalda ríkti hér á jörðinni um miðja síðustu öld og ekki nóg með það, heldur er að renna upp nýtt kuldaskeið á næstu árum og áratugum. Það mætti kalla þetta endajaxlakenninguna.

Ætli það sé ekki rétt að setja inn ósköp venjulega beina trendlínu svona til samanburðar.

Trendlína_einföldu
Með því að smella á myndina og svo aftur, þá ætti að vera hægt að sjá hana stærri.

Jú, ætli það ekki bara - mér sýnist að það sé ennþá hlýnun í gangi.


Ráðstefnan.

Þeir sem ekki vita, þá byrjaði þessi ráðstefna á þriðjudaginn og endaði í dag. Nú þegar hefur ýmislegt áhugavert komið fram, eins og ég hef minnst á áður (t.d. ný gögn um súrnun úthafana

Fyrir þá sem vilja lesa um ráðstefnuna, þá er heimasíða hennar hér. Þar má meðal annars komast í ágrip erinda með því að fara inn á þessa síðu og velja eitthvert session (eftir því hvað hentar hverjum), t.d. session 4 (Vulnerability in Carbon Sinks-fjallað um kerfi sem gleypa CO2 t.d. hafið og hitabeltisfrumskógarnir).

Vísindamenn sendu frá sér fréttatilkynningu með 6 atriðum í lok ráðstefnunarinnar:

Concress key findings - final press release

Hér eru skilaboðin (lauslega þýdd og nokkuð stytt): 

Lykilskilaboð 1: Loftslagsbreytingar

Nýjar ransóknir benda til að svartsýnustu spár IPCC séu að rætast. T.d. Hnattrænn meðalhiti yfirborðs jarðar, hækkun yfirborðs sjávar, breytingar í hafís, súrnun úthafana og öfgar í veðri. Margt bendir til að breytingarnar verði hraðari sem leitt geti til að skyndilegra og óbreytanlegra loftslagsbreytinga.

Lykilskilaboð 2:  Samfélagsleg upplausn

Rannsóknir sýna að samfélög eru gríðarlega viðkvæm fyrir smávegilegum loftslagsbreytingum, fátæk ríki eru í sérstakri hættu. Það yrði erfitt fyrir okkur nútímamenn að ráða við, ef hækkun í lofthita færi yfir 2 gráður á selsíus.

Lykilskilaboð 3: Langtímamarkmið 

Fljótvirk, samfelld og áhrifarík vöktun, með hnattrænni og svæðsibundinni samvinnu er nauðsynleg til að forða okkur frá hættulegum loftslagsbreytingum. Ef farið er hægar í rannsóknirnar er hætt við að ekki verði aftur snúið. Því seinna sem brugðist er við, því erfiðara verður að snúa þróuninni við.

Lykilskilaboð 4: Sanngirni 

Loftslagsbreytingar hafa og munu hafa mismunandi áhrif á fólk eftir löndum og landshlutum, hafa mismunandi áhrif á þessa kynslóð og næstu, og á samfélag manna og lífríki jarðar. Öryggisnet þarf að setja upp fyrir þá sem eiga í mestum erfiðleikum með að ráða við áhrif loftslagsbreytinga.

Lykilskilaboð 5: Aðgerðarleysi er óafsakanlegt 

Það eru engar afsakanir fyrir aðgerðarleysi. Við höfum nú þegar mörg tól og nálganir til að glíma við loftslagsbreytingar. Þau þarf að nota til að draga úr kolefnisnotkun hagkerfisins. 

Lykilskilaboð 6: Standast áskorunina

Til að breyta samfélaginu svo það standist loftslagsbreytinga-áskoruninni, verðum við að velta þungu hlassi og grípa gæsina þegar hún gefst [Nú var ég að komast í þýðingagírinn en komst ekki lengra í bili]


mbl.is Jörðin hlýnar hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

CO2 - vágestur úthafanna

Ég er sjómannssonur, frændur mínir og vinir eru margir hverjir sjómenn. Ég eyddi 12-13 sumrum frá 12 ára aldri út á sjó, verðmæt reynsla. Mig langar í litla trillu þegar ég verð kominn á seinni hluta ævinnar, stunda handfæri og jafnvel leggja nokkur grásleppunet á vorin. Kenna sonum mínum handtökin og ef synir mínir myndu vilja verða sjómenn þá myndi ég ekki hika við að hvetja þá í því.

Því hef ég sérstakar áhyggjur af ástandi sjávar og hingað til mestar áhyggjur af afleiðingum hlýnunar á vistkerfi sjávar við Ísland. Ég hef ekki kynnt mér nýjustu kenningar um mögulegar breytingar á hafstraumum, en einhvern tíma las ég kenningar um það að við aukna bráðnun hafíss norðurskautsins þá gæti flæði kaldra hafstrauma úr norðri, með lítilli seltu, haft þau áhrif að Golfstraumurinn myndi þrjóta kraftur og að Norður-Atlantshafstraumurinn myndi ekki lengur ná til Íslands. Hafsvæðið í kringum Ísland er á mótum kaldra næringarríkra hafstrauma úr norðri og heitra næringarsnauðra hafstrauma úr suðri. Það er ein meginástæða þess hversu mikill fiskur hefur verið við Íslands strendur síðastliðna öld.


Hér sést hringrás Norður-Atlantshafsstraumsins (tekið af vísindavefurinn.is).

Ef eitthvað er að marka þessar kenningar um hafstraumabreytingar (en það hefur lítið farið fyrir fréttum af þeim síðustu ár), þá er rétt að fylgjast vel með breytingum á hafís norðurskautsins sem helst í hendur við hlýnun jarðar undanfarin ár, sjá t.d. nýja bloggfærslu um hafís norðurskautsins og frétt á mbl.is um leiðangur á norðurskautið. En þetta er bara útúrdúr, ég ætlaði ekki að tala um þessa gömlu kenningu.

¨¨¨¨¨¨

Nú koma fréttir af annarri vá sem bætist ofan á hlýnunina sem talin er fylgja útblæstri manna á CO2, eitthvað sem gæti ógnað lífríki sjávar allóhugnalega. Sjá frétt á vefsíðunni Guardian, Carbon emissions creating acidic oceans not seen since dinosaurs.  Ég rakst einnig á blogg þar sem nær eingöngu er fjallað um þessa súrnun úthafana, en þar er viðtal við einn af þeim sem eru með erindi á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn sem ég minntist á í fyrri færslu, en erindi um súrnun úthafana var til umræðu þar í dag (hægt er að skoða ágrip erinda hér). Svo ég grípi niður í brot úr þessari færslu af fyrrgreindu bloggi (Deep reductions, or deep trouble for the oceans):

A researcher from California’s Carnegie Institution presents a stern warning. “If current trends in carbon dioxide emissions are not reversed soon, we will produce chemical changes in the oceans of a magnitude that has not been seen for many tens of millions of years,” says climate scientist Ken Caldeira. “A failure to cut carbon dioxide emissions deeply and soon risks widespread extinctions in the marine environment, with difficult-to-predict consequences for marine ecosystems generally.”

Lauslega þýtt þá segir þessi Ken Caldeira: "Ef núverandi þróun í útblæstri CO2 er ekki snúið við fljótlega, þá verða breytingar í efnafræði úthafanna af stærðargráðu sem við höfum ekki séð í tugi milljón ára." Svo segir hann: "Ef okkur mistekst að draga úr losun CO2 mikið og fljótt, þá er gríðarleg hætta á viðamiklum útdauða í úthöfunum, með afleiðingum sem erfitt er að sjá fyrir í vistkerfi sjávar." [Illa þýtt, en þið skiljið þetta hvort sem er]

Fleiri fréttir um þessi mál hafa rekist inn á erlendar síður undanfarnar vikur og mánuði, t.d.  PlanetEarth: Ocean acidification - the other CO2 problem og önnur af vefsíðu TimesOnline: The toxic sea og hér er svo ein af vefsíðunni ScienceDaily: Coral Reefs May Start Dissolving When Atmospheric Carbon Dioxide Doubles.

horpudiskur_310308
Hörpudiskur er ein af þeim sjávarlífverum sem verða hart úti ef spárnar ganga eftir (mynd af vísindavefnum)

Það er spurning hvort þetta er eitthvað rugl og að þeir séu í sínum spám að fara með einhverjar fleipur, en ef sá möguleiki er fyrir hendi að eitthvað sé til í þessu, þá er ljóst að jarðarbúar verða að taka sig saman í andlitinu og minnka útblástur CO2. Ég veit að við Íslendingar erum ekki stór biti af heildar-CO2-kökunni, en við hljótum að geta haft einhver áhrif, framtíð okkar sjávarútvegs gæti oltið á því að losun CO2 minnki.

Þetta var heimsendaspá dagsins í dag.


CO2 útblástur

Ég rakst á áhugaverða síðu í The Guardian sem sýnir heildarútblástur CO2 fyrir árið 2006. Myndin sýnir Kína í efsta sætinu, en árið 2005 voru Bandaríkin í efsta sæti. Smelltu á myndina til að sjá heildarútblástur fyrir jörðina. Einnig er hægt að smella á hvert land til að sjá heildarútblásturs hvers lands árið 2005 og 2006 og útblástur á mann.

carbon


Vöktun plantna á tindum Tröllaskaga.

Starri Heiðmarsson, fyrrum vinnufélagi minn af Náttúrufræðistofnun er grasafræðingur, nánar tiltekið fléttufræðingur. Nú fyrir stuttu hélt hann erindi sem hét Vöktun tegundafjölbreytni við loftslagsbreytingar. Ég missti reyndar af þessu erindi, en ég veit fyrir víst að það hefur verið áhugavert.

Þar fjallaði hann um GLORIA-verkefnið (The Global Observation Research Initiative in Alpine Environments). Hann sagði meðal annars í erindinu (texti af heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands):

Loftslag á jörðinni fer hlýnandi, líklegast af manna völdum (IPCC). Hver áhrif hlýnunarinnar verður á gróðurfar heimsins er erfitt að spá en sá gróður sem er viðkvæmastur fyrir hlýnuninni og mun líklega fyrst bregðast við er háfjallagróður. GLORIA-verkefnið er alþjóðlegt og byggir á að lagðir eru út fastir reitir á fjallatindum í mismunandi hæð. Gróðurþekja og tegundasamsetning er skráð í reitunum og þær mælingar svo endurteknar á 8–10 ára fresti. Vöktunarnet GLORIA mun geta sýnt fram á breytileg áhrif hlýnunar við mismunandi loftslagsskilyrði í mismunandi heimshlutum auk þess sem góður mælikvarði fæst á gróðurbreytingar á Íslandi vegna hlýnandi loftslags.

world
Tröllaskagi er meðal þeirra staða sem verða vaktaðir (mynd af heimasíðu GLORIU-verkefnisins)

Ef ég skil þetta rétt, þá voru 64 reitir mældir út síðastliðið sumar í Öxnadal. Það verður fróðlegt að sjá hvað kom út úr þessum mælingum (ég verð bara að bíða eftir grein í náttúrufræðingnum þar sem ég missti af erindinu). Einnig verður áhugavert að sjá hvort einhverjar breytingar verða næst þegar reitirnir verða mældir, eftir hvað 7-9 ár?


Sofandi risi?

Ég rakst á áhugaverða frétt á heimasíðu um loftslagsbreytingar á vegum hins virta tímarits Nature, en sú grein heitir á ensku A sleeping giant?

Greinin fjallar í stuttu máli um hættuna af því þegar stór forðabúr af metani (sem er gróðurhúsalofttegund) fara að losna úr frosnum jarðlögum, meðal annars á landgrunni Síberíu við hlýnun jarðar og hafsins.

Vísindamenn eru nú þegar farnir að sjá merki þess að metan geti verið byrjað að losna úr þessum jarðlögum, en metan er um 25 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2. Því gæti þetta haft geigvænleg áhrif og magnað upp hlýnun jarðar margfalt og sett af stað atburðarrás sem ekki sér fyrir endan á. Hlýnun - nokkurt magn Metans losnar - hlýnar enn meir - meira magn Metans losnar og svo koll af kolli (svokallað á ensku "positive feedback" - "jákvæð afturverkun").

Þetta er vissulega áhyggjuefni, en bent hefur verið á að þetta geti verið staðbundið fyrirbæri eða hluti af lengri atburðarrás og því ótengt núverandi hlýnun jarðar.

Landgrunn Síberíu er talið geyma um 1400 milljarða tonna af metangasi, um tvöfallt meira af kolefni en öll tré, grös og blóm á jörðinni. 

IBCAO_betamap
Landgrunn Síberíu er ljósbláa hafsvæðið norðan við Síberíu Rússlands (mynd stolin frá Wikipedia).

Ofan á þessum jarðlögum á botni Síberíu-landgrunnsins er grjótharður freri sem virkar eins og lok á undirliggjandi jarðlög og kemur í veg fyrir að metangasið losni (reiknað hefur verið út að ef sjórinn hitni um eina gráðu þá losni metanið). Metan hefur mælst í nokkru magni undan ströndum landanna við norðurskautið en hvort hægt sé að sanna að það sé úr þessum jarðlögum er annar höfuðverkur.

Einnig hafa menn áhyggjur af sífrera á landi á norðurslóðum (þá einna helst í Síberíu), en þiðnun hans er nú þegar hafin. Talið er að samtals sé um 950 miljarðar tonna af kolefni bundið í sífrera á norðurhveli jarðar, helmingur þess í sífrera sem kallaður er yedoma og er mjög ríkur af lífrænum efnum en megnið af því hefur verið frosið síðan á Pleistósen (tímabil jarðsögunnar frá því ísöld hófst og þar til síðasta jökulskeiði lauk fyrir um 10 þúsund árum). Þar sem yedoma er byrjað að þiðna hefur orðið vart við nokkurn metan-leka.

A sleeping giant?
Yedoma sífrerinn er byrjaður að losa kolefni við þiðnun (mynd stolin af Nature síðunni).

Jæja, ég ætla nú ekki að endurskrifa alla greinina þar sem ég er enginn þýðandi (hvað þá þíðandi), en mæli með að fólk renni í gegnum hana.

Bendi þó á línurit sem er í greininni sem sýnir magn metans í lofthjúpnum síðastliðin ár.

climate.2009.24-f1 
Svolítið óskýr mynd, en hún sýnir magn metans í lofthjúpi jarðar frá sirka 1997-2008 (tekin af Nature síðunni).

Vísindamenn veðja á að skýringin á þessari aukningu árið 2007 sé að finna í votlendi norðurslóða og að metan-aukningin sé til komin vegna bráðnunar sífrera. Það verður áhugavert að sjá á næstu árum hvort metan eykst eða hvort það minnki aftur.

Athugið að nú er upplagt að koma fram með kenningar um auknar meltingatruflanir hjá kvikfénaði árið 2007.


Ráðstefnur um loftslagsmál

Á visir.is birtist grein í dag um ráðstefnu, sem ég var reyndar búinn að frétta af á öðrum vettvangi. Jörðin sögð kaldari en fyrir þúsund árum

Vísir, 09. mar. 2009 17:00

Jörðin sögð kaldari en fyrir þúsund árum

mynd
Segja vitleysu að Jörðin sé að hlýna.

Óli Tynes skrifar:

Yfir sjötíu vísindamenn sem efast um að Jörðinni stafi ógn af hlýnun af mannavöldum sitja nú ráðstefnu í New York.

Ráðstefnan í New York er sannarlega alþjóðleg. Vaclav Klaus forseti Tékklands setti hana í gær en Tékkland fer nú með forsæti í Evrópusambandinu. Klaus hefur sjálfur sagt að það sé vitleysa að Jörðin sé að hlýna af mannavöldum.

Það er The Heartland Institute sem gengst fyrir ráðstefnunni en sú stofnun telur bölsýnisspár um framtíð jarðarinnar alrangar.

Stofnunin segir að yfir 31 þúsund bandarískir vísindamenn hafi undirritað yfirlýsingu þess efnis að hlýnandi loftslag ógni ekki framtíð Jarðarinnar.

Fjölmiðlafulltrúi The Heartland Institute segir að tilgangurinn með þessari ráðstefnu sé að sýna stjórnmálamönnum og almenningi að umræðunni um hlýnun jarðar sé alls ekki lokið.

Það sé marg sem menn séu ekki sammála um og að alvöru vísindi sýni að Jörðin sé ekki að hlýna.

Hann segir að á seinni hluta tuttugustu aldar hafi jörðin hlýnað örlítið enda verð á leið út úr ísöld. Hún sé hinsvegar miklu svalari núna en hún var fyrir þúsund árum.  

Hér er heimasíða Heartlands og heimasíðu ráðstefnunnar. Um að gera að kynna sér málið, en hægt er að horfa á vídeó og fleira frá ráðstefnunni. 

Það er vissulega hægt að hafa efasemdir um gæði ráðstefnu sem eingöngu er ætluð að fjalla um hlýnun jarðar á einn veg, eins og auglýsing frá þeim gefur til kynna:

NY09Banner

Einnig getur maður sett spurningar við það að The Heartland Institute er stofnunin sem styrkir þessa ráðstefnu. Þetta er sama stofnunin og sögusagnir eru um að haldi uppi áróðri gegn því að óbeinar reykingar séu skaðlegar, hversu skynsamlegt sem það er. Þeir sem hafa styrkt Heartland Institude eru meðal annars tóbaksfyrirtækin vestra og t.d. olíufyrirtækið Exxon (og fleiri fyrirtæki tengd olíuiðnaðinum í bandaríkjunum). Því er það vissulega spurning hversu hlutlaus stofnun þetta er?

Þá getur maður líka sett spurningar við þá vísindamenn sem tala á þessari ráðstefnu, samanber grein sem ég rakst á á netinu:

A roomful of cynics

Það verður samt fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessari ráðstefnu, það verður allavega áhugavert hvort eitthvað nýtt kemur fram, eitthvað sem er óhrekjanlegt varðandi það að hlýnun jarðar (af mannavöldum) sé rugl.

Ráðstefnan sem menn eru síðan að bíða eftir verður í Kaupmannahöfn næsta vetur á vegum Sameinuðu Þjóðanna. Ef menn nenna ekki að bíða eftir því, þá er önnur ráðstefna í mars, einnig í Kaupmannahöfn á vegum International Alliance of Research Universities (IARU sem gæti þýtt á íslensku alþjóðleg samtök rannsóknaháskóla). 


Tíu mótrök gegn kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum

Nokkur rök manna gegn þessari kenningu eru vissulega skiljanleg, en hafa öll verið hrakin eftir því sem ég best veit, ég tek sem dæmi nokkrar vinsælar fullyrðingar:

1: Sveiflur í sólinni valda hitnun jarðar.

Svar: það er rétt að sólin sem hitagjafi hefur gríðarleg áhrif  (enda hitagjafinn fyrir þetta kerfi) og fyrr á öldum tengdist hitaferill jarðar og útgeislun sólarinnar órjúfandi böndum (að mestu leiti). En sú hækkun hitastigs sem hefur orðið síðustu áratugi er ekki í neinu samræmi við útgeislun sólarinnar eins og sést á meðfylgjandi mynd. Uppúr 1975 þá tók hitastig að þróast óháð sveiflum sólarinnar, þ.e. útgeislun sólar lækkaði eða stóð í stað en á meðan hélt hitastig áfram að hækka.

tsi_vs_temp

 

2: Það var heitara á miðöldum en það er í dag.

Svar: Þessi rök eru vinsæl hér á landi og vísað í landnámu og önnur gögn sem benda til heitara loftslags hér á landi í kringum landnámsöld. Það er samt ekkert sem bendir til þess að jörðin sem heild hafi verið heitari á miðöldum en hún er í dag. Vissulega er sumt sem bendir til þess að t.d. í Evrópu (og þar með talið hér á Íslandi) hafi verið heitara en nú í dag, en hnattrænt séð þá hafa menn ekki getað staðfest það. Eftirfarandi mynd sýnir ýmsa hitaferla sem fengnir hafa með ýmsum afleiddum gögnum. Þessir ferlar eru ýmiskonar en sýna þó að núverandi hiti er þegar (árið 2004)orðinn hærri en gögn sem sýna mikinn hita á miðöldum.

2000_Year_Temperature_Comparison

 

3: Það hefur ekki orðið hitastigshækkun síðan 1998.

Svar: Þetta er reyndar bara að hluta rétt, það hefur orðið lítilsháttar hækkun í hita síðan 1998 (ef trendið er skoðað), en það ár var samt  óvenjulega hátt hitastig á jörðinni, tengt veðurfyrirbærinu El Nino. Að miða við það hitastig er í besta falli órökrétt og í versta falli fölsun á gögnum. En jafnvel þótt við miðum við árið 1998, þá sýnir trendið hækkun í hita þessi ár, eins og sést á þessu línuriti hér fyrir neðan:

fawcett_linear 

Ef miðað er við eitthvað annað ár en þetta tímabundna heita ár, þá er augljós hækkun í hitastigi.

4: Þetta er hluti af náttúrulegum sveiflum.

Svar: Engar náttúrulegar sveiflur síðustu áratuga útskýra hitaferilinn á þeim tíma. Ekki sólin, eins og bent hefur verið á hér fyrr. Ekki Milankovitch sveiflan, sem virðist stýra jökul og hitaskeiðum ísalda (en nú ætti að vera kólnun samkvæmt þeirri sveiflu). Engin eldfjöll skýra þessa hækkun, enda gera þau að verkum að það verður kólnun (samanber litlu ísöldina, en þá hafði t.d. eldgosið í lakagígum töluverð áhrif til lækkunar hitastigs). Áhrif eldgosa vara í nokkur ár eða áratugi til lækkunar vegna agna sem verða til þess að sólargeislar ná ekki inn í lofthjúpinn. Skortur á eldgosum á fyrri hluta 20. aldar eru taldar hafa haft áhrif til hækkunar hitastigs á þeim tíma, en síðan þá hafa eldgosin ekki átt að taka þátt í hlýnun loftslags á jörðinni, frekar hefði átt að halla í hina áttina varðandi eldgosin.

volcano_20th_century

Þessir þrír stóru þættir í náttúrulegum sveiflum (sólin, Milankovitch og eldgos) útskýra ekki hækkun hitastigs síðustu áratuga, þessir þrír þættir hefðu frekar átt að sýna lækkun í hitastigi undanfarna áratugi. Þetta þýðir meðal annars að ef þessa þætti nyti ekki við, þá hefði hækkun hitastigs orðið mun meiri, gæti maður áætlað, sem þýðir þá að hækkun hitastigs hefur verið vanmetið ef eitthvað er af völdum gróðurhúsalofttegunda.

5: Vísindamenn eru ekki sammála um að hitastig sé að hækka á jörðinni af mannavöldum og já þeir eru bara að kreista út pening til frekari rannsókna.

Svar: Alltaf eru einhverjir ósammála, það er bara gott mál. En allar stærstu stofnanir heims í loftslagsgeiranum eru þó sammála um að hlýnunin sé af mannavöldum, einnig meirihluti vísindamanna. En að ætla það að vísindamenn séu almennt séð það óheiðarlegir að þeir falsi gögn til að fá meiri pening er virkilega lúalegt og eiginlega að mínu mati frekar miklir sleggjudómar út í heilu starfstéttirnar. Eru þá allir sem eru ósammála kenningunni um hlýnun af mannavöldum einu vísindamennirnir sem eru strangheiðarlegir?

 

6: Þeir sem eru í hópnum IPCC* eru ekki vísindamenn, heldur hinir og þessir sem hafa ekkert vit á loftslagsfræðum.

*Á vegum Sameinuðu þjóðanna starfar vísindanefnd sem fjallar um loftslagsbreytingar. Á ensku heitir nefndin Intergovernmental Panel on Climate Change sem er skammstafað IPCC, en á íslensku er nefndin kölluð milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.  Nefndin hefur það hlutverk að taka saman vísindalegar, tæknilegar, félags- og efnahagslegar upplýsingar um grundvöll þekkingar á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Úttektirnar fjalla um vísindalega þekkingu á loftslagsbreytingum af mannavöldum, um afleiðingar þessara breytinga og um aðlögun og viðbrögð til að sporna við þessum breytingum. (Af heimasíðu Veðurstofu Íslands).

Svar: Það er rétt að margir af þeim sem eru í IPCC eru alls ekki sérfræðingar í loftslagsfræðum, heldur má flokka þá sem bjúrókrata. En þessir bjúrókratar notfæra sér samt þekkingu vísindamanna og þó menntun þeirra sé oft ótengd loftslagsrannsóknum, þá hafa þeir sett sig vel inn í þau málefni, þeir eru jú fulltrúar sinna þjóða í þessum málaflokki. Það má reyndar segja að ef þeir væru ekki margir hverjir bjúrókratar þá hefðu þeir eflaust gengið lengra fram í að draga fram alvarleika málsins. Bjúrókratar frá t.d. Bandaríkjunum urðu til þess að reynt var að tóna yfirlýsingar niður um hnattræna hlýnun af mannavöldum, m.a. vegna hagsmuna þeirra yfirmanna (áhrif frá Bush stjórninni en til eru samsæriskenningar um að Bush hafi ákveðin tengsl við olíufyrirtækið Exxon). Menn buðu málamiðlanir svo hægt væri að skrifa undir sameiginlega yfirlýsingu, þó flestir hefðu viljað kveða sterkara að orði.

En ef menn eru á því að IPCC hafi ekkert vit á þessu, þá er hér listi yfir nokkrar aðrar stofnanir sem menn almennt séð treysta. Þessar stofnanir taka undir sjónarmið um að hnattræna hlýnunin nú sé af mannavöldum.

National Oceanic and Atmospheric Administration
Environmental Protection Agency
NASA's Goddard Institute of Space Studies
American Geophysical Union
American Institute of Physics
National Center for Atmospheric Research
American Meteorological Society
State of the Canadian Cryosphere
The Royal Society of the UK
Canadian Meteorological and Oceanographic Society
Academia Brasiliera de Ciencias (Brasilíu)
Royal Society of Canada
Chinese Academy of Sciences
Academie des Sciences (Frakkland)
Deutsche Akademie der Naturforscher Leopoldina (Þýskaland)
Indian National Science Academy
Accademia dei Lincei (Ítalía)
Science Council of Japan
Russian Academy of Sciences
Royal Society (Bretland)
National Academy of Sciences (Bandaríkin)
Australian Academy of Sciences
Royal Flemish Academy of Belgium for Sciences and the Arts
Caribbean Academy of Sciences
Indonesian Academy of Sciences
Royal Irish Academy
Academy of Sciences Malaysia
Academy Council of the Royal Society of New Zealand
Royal Swedish Academy of Sciences

Svo einhver séu nefnd.

7: Menn hafa nefnt til sögunnar Urban heating (gæti útlagst sem þéttbýlishitaaukning). Þar er því haldið fram að skekkja sé í mælingum vegna staðsetningu mæla innan þéttbýlis (staðbundin áhrif hafi áhrif á mælana og því sýni þeir hærri hita) og að það sem vísindamenn telji að sé hnattræn hækkun hitastigs sé til komið vegna þessarar skekkju.

Svar:   Það er ekki hægt að neita því að mælar innan þéttbýlis sýna sumir hverjir hærra hitastig en í dreifbýli. En þeir vísindamenn sem taka saman hnattræn gögn, eyða mikilli vinnu við að afmá þessi staðbundnu áhrif með því bera gögn frá þeim mælum saman við langtímagögn utan þéttbýlis. Í flestum tilfellum eru áhrifin lítil sem engin og falla innan skekkjumarka. Þess má þó geta að í 42% tilfella þá sýna mælarnir kólnun miðað við þá mæla sem eru utan við þéttbýli. Þeir mælar sem þó sýna hærra hitastig í þéttbýli fylgja sama trendi og mælar utan þéttbýlis, sem dæmi má nefna gögn frá London og nágrenni (brúni og dökkblái innan þéttbýlis, hinir utan þéttbýlis).

jones_london 

Það er því hægt að áætla, í fyrsta lagi að áhrif af Urban heating eru lítil og innan skekkjumarka og í öðru lagi þá sýna þeir mælar sem sýna hærra hitastig, sama trend og aðrir og styðja í raun að hitastig sé að hækka.

8: Breytingarnar eru litlar og ekki mark á þeim takandi þar sem skekkjumörkin eru of mikil. Þá er meðal annars vísað í mynd sem sýnir þessi skekkjumörk (sjá hér fyrir neðan).

glob_jan-dec-error-bar_pg


Svar:   Það skal í fyrsta lagi tekið fram að við erum að ræða um hnattræna hlýnun og það sem virðist vera lítil hækkun í hita yfir árið, getur haft mikil staðbundin áhrif í stuttan tíma (Ath: þetta er meðaltalshækkun yfir allan hnöttinn fyrir hvert ár).  

Það er hægt að hugsa sér þetta þannig, án ábyrgðar, að ef við búum í landi þar sem meðalhiti yfir árið er 20 gráður á selsíus og að hitinn hækki upp í 21 gráðu á selsíus, hvar kemur þessi hitaauking fram? Segjum að það gerist yfir sumartíman í þessu landi, þar sem hitinn er venjulega hvað um 30 gráður í nokkra daga. Það þarf ekki mikinn sérfræðing að sjá það að þessa nokkra daga sem hitinn hækkar upp úr öllu valdi, t.d. upp í 40-50 gráður að það hljóti að hafa neikvæð áhrif á það land.

Varðandi það að ekki sé mark takandi á þessum hitaferli vegna skekkjumarka, þá ætti að nægja að benda á bláu línuna sem dregin er í gegnum línuritið, en hún sýnir meðaltal óháð skekkju (skekkjan er að sjálfsögðu í báðar áttir, getur sýnt hærri hita og lægri hita). Þá skal á það bent að textinn undir þessari mynd er eftirfarandi:

Annual Average Global Surface Temperature Anomalies 1880-2006. Courtesy NOAA (Surface temperature records such as the one shown here have been quality controlled to remove the effects of urbanization at observing stations in and around cities.

Það er áhugavert að lesa þennan texta í samhengi við rök 7 hér ofar.

9: Magn CO2 af mannavöldum er sáralítill hluti af heildarmagni CO2 í lofthjúpnum. Að auki er CO2 það lítill hluti af gróðurhúsalofttegundunum að þau geta ekki haft áhrif, öfugt við t.d. vatnsgufu.

Svar:  Það er rétt að magn CO2 af mannavöldum er lítill hluti af heildarmagni CO2 . Hitt er þó annað að CO2 sem er ekki af mannavöldum er (eða var) í náttúrulegu jafnvægi. Allt aukreitis CO2 sem er af mannavöldum er því að setja hið náttúrulega kerfi úr balans. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvaða ferli stjórna CO2 magni í lofthjúp jarðar. Grænu örvarnar sýna kerfið eins og það var í jafnvægi fyrir iðnbyltinguna, en rauðu örvarnar sýna nýlegar breytingar = kerfi í ójafnvægi, því eykst koldíoxíð í lofthjúpnum hröðum skrefum og hitinn í kjölfarið.

26041103

Það að CO2 sé lítill hluti af gróðurhúsalofttegundum í lofthjúpnum miðað við aðrar gróðurhúsalofttegundir eins og vatnsgufu er líka rétt. Ólíkt utanaðkomandi öflum (eins og CO2) sem hægt er að bæta við lofthjúpinn, þá er vatnsgufa í lofthjúpnum fall af hitastigi. Vatn gufar upp í hlutfalli við hitastig við yfirborð jarðar og úthafa. Ef auka vatnsgufa bætist við lofthjúpinn, þá þéttist hún og fellur niður sem úrkoma á stuttum tíma (1-2 vikum).

Þar sem magn vatnsgufu er beintengt við hitastig  þá hefur það svokallaða jákvæða afturverkun (positive feedback) og er meginástæða þess hvers vegna hitastig er svo viðkvæmt gagnvart breytingum í CO2. Þegar hiti eykst (við útblástur CO2), þá eykst uppgufun vatns og vatnsgufa safnast saman í lofthjúpnum. Sem gróðurhúsalofttegund, þá dregur vatnsgufan í sig hita og hitar loftið meir og eykur því á uppgufun. Vatnsgufa sem gróðurhúsalofttegund eykur því á vandann sem útblástur á CO2 veldur.

 10: Aðrar plánetur og tungl í sólkerfinu eru að hitna, hvaðan kemur CO2 útblásturinn þar? Júpiter, Neptúnus, tunglið Tríton, Plútó og Mars eru öll að hitna, það hlýtur að vera sólin.

 Svar: Þetta tengist reyndar nokkuð lið númer 1, en samkvæmt þessum rökum er það sólin sem er að hita upp jörðina og aðrar plánetur í sólkerfinu. Rannsóknir á jörðinni, eina staðnum sem áreiðanlegar mælingar eru til, sýna að sólin er ekki að valda hlýnun á jörðinni. Útgeislun sólar er að minnka, en jörðin heldur áfram að hitna (þótt síðasta ár hafi verið það kaldasta þennan áratug, þá var það tíunda heitasta ár frá upphafi mælinga). Ekki hefur verið sýnt fram á að aðrar plánetur séu að hlýna af völdum sólar heldur.

Júpiter: Hitabreytingar á Júpiter eru taldar vera vegna breytinga í hitakerfi Júpiters sjálfs. Júpiter býr til  tvöfallt meira af orku en það fær frá sólinni.

Neptúnus: gögnin sem notuð eru til að tengja á milli virkni sólar og hita á Neptúnus eru röng, þ.e. virkni sólar heldur ekki í hendur við hita á neptúnus:

Svart þýðir gögnin sem miðað var við í greininni sem oftast er vísað til, rautt þýðir leiðrétt og uppfærð gögn.  Þegar rétt gögn eru skoðuð þá er ljóst að ekki er mikil fylgni þarna á milli.

Trítón: skilst mér að sé að hitna vegna þess að tunglið er að nálgast suðurskautssumar, sem gerist á nokkur hundrað ára fresti.

Plútó: Á Plútó er um tvær mælingar að ræða, með fjórtán ára millibili, sem mælir þykkt lofthjúpsins og gæti gefið í skyn hlýnun? Árið á plútó er held ég 248 jarðarár. Er ekki bara að koma vor á Plútó Wink Svo má geta þess að Plútó er 30 sinnum fjær sólinni en jörðin, ætti þá ekki að vera búið að kvikna í jörðinni fyrst sólin hefur þessi áhrif á plútó?

Mars: Það er óljóst með Mars þ.e. hvort það er að hlýna eða ekki. Fátt bendir til þess og þá er helst talað um að sandstormar geti haft áhrif til hlýnunar (þ.e. dökkur sandur dreyfir sig yfir ljósara svæði og dregur í sig meiri hita). En þótt ekki sé víst hvort Mars er að hlýna eða ekki, þá stendur eftir að það er nóg til af gögnum um sólvirkni og nóg til af gögnum um loftslag á jörðinni og niðurstaðan er sú að tengsl milli sólar og loftslagsbreytinga á jörðinni lauk á áttunda áratugnum. Auðvitað heldur sólin áfram að hita jörðina, en nú er það CO2 sem sér um að auka hitann á meðan áhrif sólar minnkar.

Rökin eru reyndar mun fleiri þar sem menn segjast hafa sannanir fyrir hinu gagnstæða, en þau eru flest hrekjanleg, enn um sinn.

Niðurstaða: Ég held að það geti enginn efast um að hlýnunin nú sé af mannavöldum, allavega ekki þeir sem skoða þau gögn sem eru til staðar og rök á bakvið þau. Ég er vissulega leikmaður í þessum fræðum, en ég er sannfærður á meðan engin betri rök koma fram sem sýna fram á hið gagnstæða.

Svo er það önnur rökræða, hvort t.d. efnahagur jarðarbúa þoli minnkun á útblástri, hvort Ísland hafi einhver áhrif, hvort þetta hafi góð eða slæm áhrif á Íslandi og annað slíkt. Mörg af þeim rökum eru frekar egósentrísk og snúast um það hvað er gott fyrir þá sjálfa í augnablikinu án þess að tekið sé tillit til stöðu jarðarbúa í heild eftir nokkra áratugi.


Hlýnun jarðar af mannavöldum.

[Endurbirt, en ég ákvað að færa alla umræðu um hlýnun jarðar af mannavöldum af blogginu hoskibui.blog.is og hingað yfir, fleiri greinar verða færðar hingað yfir] 

Fyrir þá sem vita ekki út á hvað hlýnun jarðar gengur, þá sýnist mér þetta vera svona (skematískt séð, eflaust einhverjar misfærslur en hvað um það):

Í stuttu máli snýst málið um það að það er hitagjafi (sólin) sem hitar jörðina (gróðurhúsið). Jörðin endurkastar hluta hitans aftur út í geiminn. Umhverfis jörðina er lofthjúpur og í honum er visst magn af gróðurhúsalofttegundum (koldíóxíð, methan og fleiri lofttegundir) sem hafa svipuð áhrif og gler í gróðurhúsi, þ.e. í einföldustu mynd, gróðurhúsalofttegundirnar sem sagt endurkasta hitann sem jörðin kastar frá sér aftur til jarðarinnar, einhver hiti sleppur þó í gegn (eins og um glugga gróðurhússins). Svona er þetta í einföldustu mynd.

greenhouse-effect

Mælingar á koldíoxíði í lofthjúpnum sýna að koldíoxíð (eitt af gróðurhúsalofttegundunum) eykst hratt í andrúmsloftinu (samfara athöfnum manna), athugið að þrátt fyrir að magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu sé ekki mikið, þá hefur það hlutfallslega hækkað töluvert undanfarna áratugi:

Mauna_Loa_Carbon_Dioxide

Til að halda líkingunni áfram við gróðurhúsið, þá er töluvert mikið af opnum gluggum í þessu gróðurhúsi sem hleypa hitanum út, en við útblástur kolefnis af mannavöldum þá smám saman lokast þeir, því hitnar á jörðinni (í gróðurhúsinu).  

Instrumental_Temperature_Record

Til að gera líkinguna við gróðurhús flóknari, þá er meira sem spilar inn í, t.d. sveiflur í hitagjafanum (sólinni) og inn í þetta einfalda munstur koma svo tímabundin fyrirbæri eins og eldgos og veðurfyrirbæri eins og El Nino og annað slíkt sem opna og loka gluggunum tímabundið.  Þessar sveiflur má sjá sem frávik í hitaferlinum hér fyrir ofan, en ef þær eru teknar frá þá er hitinn samt að hækka á jörðinni, hnattrænt séð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband